Tíminn - 02.11.1990, Blaðsíða 9

Tíminn - 02.11.1990, Blaðsíða 9
8 Tíminn Föstudagur2. nóvember 1990 Föstudagur2. nóvember 1990 Tíminn 9 21. Kirkjuþing Þjóðkirkjunnar fjallar um þungvægar siðfræðilegar spurningar í sambandi við brottnám og ígræðslu líffæra: Hvenær er dauður maður látinn? Á Kirkjuþingi Þjóðkirkju íslands í gær var lögð fram tillaga til þingsályktunar um skilgreiningu dauða og brottnám og ígræðslu líffæra. Álitsgerð um þetta efni var unnin á vegum Rannsóknarstofnunar í siðfræði við Háskóla íslands og flutt á Kirkjuþinginu af Birni Björnssyni, pró- fessor í guðfræði við HÍ. Á Kirkjuþingi 1989 voru spurningar um þessi mál til umfjöllunar og var þá sam- þykkt að láta vinna sérfræðilegt álit um ígræðslu líffæra og skilgreiningu dauða. Biskup íslands og Kirkjuráð fór þess á leit við Rannsóknarstofnun í siðfræði að taka verkefnið að sér. Starfshópur Siðfræði- stofnunarinnar, sem í áttu sæti Björn Björnsson guðfræðiprófessor, Mikael M. Karlsson dósent í heimspeki við HÍ, Páll Ásmundsson yfirlæknir á Landspítalanum og Vilhjálmur Árnason lektor í siðfræði við HÍ, ákvað að hafa til hliðsjónar í umfjöllun sinni að á síðasta Alþingi voru lögð fram tvö frumvörp, annað um skilgreiningu dauða og hitt um ígræðslu líffæra. Munu það vera fyrstu lagafrumvörpin sem lögð eru fram á íslandi um þetta efni. Hið tæknilega mögulega getur verið siðferðilega rangt Tillaga Kirkjuþings hljóðar svo: „Kirkju- þing samþykkir þau meginviðhorf sem fram koma í álitsgerð Rannsóknarstofnun- ar í siðfræði, að skilgreining dauða skuli miðast við algjört heiladrep, og að brott- nám og ígræðsla líffæra skuli heimiluð að uppfylltum tilteknum skilyrðum." Það helsta, sem kemur fram í álitsgjörð Siðfræðistofnunarinnar, eru siðferðilegar spurningar sem hafa vaknað vegna þeirra hröðu tæknilegu framfara, sem átt hafa sér stað í læknisfræði undanfarna áratugi. Samfara þeim hafa skapast möguleikar á því að halda með vélum lífi í manneskju, sem áður fyrr hefði taiist látin. Þannig að sú skilgreining að manneskja sé látin, þeg- ar hjartað er stopp og öndun hætt, er orð- in úrelt. Einnig munu spurningar varðandi líf- færaflutninga hafa vaknað hjá kirkjunnar mönnum, því hin fullkomna nútímatækni læknisfræðinnar gerir kleift að flytja lífs- nauðsynleg Iíffæri úr einum manni til ann- ars. Tengist sú spurning dauðaskilgrein- ingu náið, vegna þess að líffæri svo sem hjarta og lungu eru flutt úr nýdánu fólki yfir í aðra sem þurfa á þeim að halda til að halda lífi. Hvenær hefst mannlegt líf og hvenær lýkur því? Þær helstu spurningar, sem risið hafa samfara þessu og sem leitað er svara við í umræddri álitsgerð, eru spurningar eins og „Er alltaf rétt að að gera allt sem hægt er til að halda lífinu í deyjandi manneskju? Er réttlætanlegt að fjarlægja líffæri úr ný- látnum manni og græða þau í aðra mann- eskju? Þessar spurningar snúast um „mörk mannlegrar tilveru og merkingu sumra þeirra grunnhugtaka sem tilvist okkar byggir á". í álitgerðinni segir: „Dauðinn felur alltaf í sér að einhver lífsstarfsemi sé hætt end- anlega og er óafturkræf." En nú þegar lífs- nauðsynleg líffæri hafa stöðvast og verið fengin til starfa að nýju með tækjum, get- ur verið erfitt að skilgreina hvaða lífsstarf- semi er átt við. Það að koma stöðvaðri lík- amsstarfsemi af stað aftur með tækjum hefur bjargað sjúkum og slösuðum úr bráðri lífshættu, en einnig viðhaldið lífi í sjúklingum sem eru í djúpu dái, „þar sem engin sálarstarfsemi, ekkert sálarlíf, á sér stað. Samkvæmt hefðbundnum skilmerkj- um dauða eru slíkir sjúklingar lifandi". Dauðaskilgreiningar Ef öll sálarstarfsemi manneskju er endan- lega hætt, er hún þá ekki látin? En sálar- starfsemi, þó erfitt sé að útskýra það á ein- faldan hátt, felur í sér eftirtalda þætti: hugsun, skynjun, minni, ímyndun, skiln- ing, tilfinningar, geðshræringar, ætlun og hvatir, bæði meðvitaðar og ómeðvitaðar. „Sálarlífið í þessum skilningi byggir á starfsemi heilans. í ljósi þessa má spyrja hvort ekki sé rétt að líta svo á að lykilstarf- semin, sem er undirstaða lífsins, sé starf- semi heilans og að skilgreina dauða manns sem heiladrep, eins og raunar hefur verið gert í mörgum löndum. Með heiladrepi er átt við að heilinn sé orðinn endanlega óstarfhæfur. í langflestum tilvikum hleyp- ur drep í heilann vegna skorts á blóðflæði til hans og veldur það dauða heilafrum- anna.“ Hvenær er heilinn hættur að starfa? „Sérfræðingar skipta heilanum upp í tvo meginhluta: heilahvel og heilastofn. í reynd er hvor hluti um sig flókið kerfi sem er samsett úr mörgum ólíkum hlutum." í samræmi við þessa skiptingu hafur verið greint á milli þrenns konar heiladreps: heilahvelsdreps, heilastofndreps, og algjörs heiladreps, sem felur í sér hin bæði. Heilahvelsdrep: í stuttu máli sér heilahvel um svonefnda „æðri“ starfsemi heilans: meðvitund, hugsun, ályktunarhæfni, ímyndun og minni, málhæfni og sköpunar- gáfu, og samhæfingu skynáreita. „Þegar öll starfsemi heilahvels er endanlega hætt, við heilahvelsdrep, er manneskjan ófær um að hafa merkingarbær samskipti við umhverfi sitt. Persónuleiki hennar er horfinn, hún getur engin mannleg samskipti haft og er óafturkræft meðvitundarlaus." Þrátt fýrir þetta getur manneskja lifað lengi í dái, ef hún fær viðeigandi umönnun. Heilastofnsdrep: „Heilastofninn stjórnar augnhreyfingum, ýmsum ósjálfráðum við- brögðum, jafnvægisskyni, hjartslætti og öndun. Við heilastofnsdrep, það er þegar heilastofninn hættir alfarið og endanlega að starfa, sýnir manneskjan aldrei framar mörg þau viðbrögð sem einkenna lifandi líkama. Hún andar ekki sjálfkrafa, en þótt heilastofninn stjórni hjartslætti að hluta, þá getur hjartað slegið enn.“ Ef öndun er viðhaldið, ásamt annarri nauðsynlegri meðferð, þá getur hjartað slegið áfram í einhvern tíma. Algjört heiladrep Algjört heiladrep felur í sér öll einkenni dreps heilahvels og heilastofns. „Sjálfkrafa öndun er hætt, flest þeirra viðbragða sem einkenna lifandi líkama eru ekki lengur til staðar og sálarlífið er endanlega úr sög- unni“. Því segir jafnframt í álitsgjörðinni: „Ef það er rétt að úrskurða mann látinn þegar öll sálarstarfsemi hans er algjörlega og endanlega hætt, þá er réttmætt að skil- greina dauða sem algjört heiladrep.“ En algjört heiladrep felur ekki í sér að hjartað stöðvist og getur það slegið sjálf- krafa enn um stund sé öndun viðhaldið með hjálp búnaðar. Því verður að horfast í augu við að þó að algjört heiladrep feli í sér að öll sálarstarfsemi sé úr sögunni og manneskjan því skilin við, þá felur það ekki í sér dauða líkamans. „En oftast nær er ekki ástæða til þess að viðhalda lífi í lík- amanum eftir að manneskjan deyr, enda felur það í sér óvirðingu við manneskjuna að halda slíkum líkama á lífi án réttmætrar ástæðu." Dr. Bjöm Bjömsson prófessor flytur álitsgerð Slðfrseðlstofhunar á Kirkjuþingi. Til vinstrí á myndinni ei biskup Islands, herra Ólafur Skúlason. Lögbundin skilgreining á dauöanum í frumvarpi til laga um dauðaskilgrein- ingu, sem flutt var á síðasta Alþingi, segir: „Maður telst vera látinn þegar öll heila- starfsemi hans er hætt og engin ráð eru til að heilinn starfi á ný.“ Eins og af ofan- greindu má sjá er þetta í fullu samræmi við álitsgjörð Siðfræðistofnunarinnar, en þar er þó bent á að gæta beri ýtrustu varúðar í öllum tilvikum þegar dauði manneskju orkar tvímælis. Því verði skilgreining á stöðvun heilastarfseminnar að vera ítarleg. í álitsgjörðinni er einnig bent á að á ís- landi finnist engin löggjöf um skilgrein- ingu og skilmerki dauða, því lengst af hafa þau þótt augljós. „Vegna breyttra aðstæðna hafa margar þjóðir á liðnum árum sett sér lög sem telja mann látinn ef heili hans er hættur að starfa. íslendingar eru síðastir þjóða í Vestur-Evrópu til að undirbúa slíka löggjöf." Því er bent á í álitsgjörðinni að ávinningur af ofangreindri löggjöf, með þeim breytingum sem þeir leggja til, yrði talsverður fyrir okkur, því spurningin um hvenær manncskja er dáin er orðin mun umsvifameiri heldur en áður var. Brottnám líffæra Um þetta efni segir m.a. í álitsgjörðinni: „Flutningur líffæra milli manna hefur ver- ið stundaður með batnandi árangri síðustu 30 ár. Lengi vel var nær eingöngu um að ræða nýru, en á síðustu árum hefur ígræðsla hjartna, lungna, lifra og briskirtla færst mjög í vöxt." „Meginvandamál líffæraflutninga er sú árátta líkamans að hafna ígræddu líffæri eins og hverjum öðrum aðskotahlut. Þessi höfnun er mun kröftugri eftir sem vefir gefanda og þiggjanda eru ólíkari." Því eru systkini, foreldrar og börn best til þess fall- in að vera gefendur ígræðslulíffæris. En langflest ígræðslulíffæri eru úr ný- látnu fólki. „Til þess að finna þiggjendum líffæri með líka vefjagerð hafa verið stofn- uð svæðasamtök á borð við Scandiatrans- plant á Norðurlöndum sem skrá vefjagerð allra sjúklinga sem bíða líffæra. Því fleiri sem eru á skrá þeim mun meiri líkur eru á að finna líffæri hentugan samastað. Nær allir líffæraþegar þarfnast lyfja til að bæla niður höfnun. Þörf slíkra lyfja er mismikil eftir því hve gott vefjasamræmi er við ígræðslu." Líffæri úr lifandi eða látnum gjafa Eins og gefur auga leið eru því takmörk sett hvaða líffæri lifandi gefandi getur látið frá sér. Því er aðeins um að ræða líffæri sem viðkomandi má missa, t.d. annað nýr- að eða hluta úr lifur eða brisi. Kostir ígræðslu úr lifandi er möguleikinn á góðu vefjasamræmi. Tfmamynd: Aml BJama Batnandi meðferð við höfnun og minnk- andi vægi samræmis hefur ýtt undir ígræðslu nýrna úr óskyldum eða fjarskyld- um. Ekki er það þó algengt, og hafa nokk- ur brögð verið að því að fólk í fátækum löndum hafi selt úr sér nýrun og hefur slíkt athæfi verið harðlega fordæmt um nær allan heim. „Langflest ígræðslulíffæri eru sem fyrr sagði í nýlátnu fólki. Hjörtu, lungu og lifr- ar eru ekki einasta öll úr nýlátnum heldur er hjarta gefandans sláandi þegar hafist er handa um úrtöku. Líffæraflutningar hafa því óneitanlega verið einn hvati þess að innleiða algert heiladrep sem meginskil- greiningu dauða, Slík löggjöf leyfir að fjar- lægja líffæri til ígræðslu áður en slökkt er á öndunarvélum, hafi gefandinn verið úr- skurðaður látinn, þótt öndun og hjart- slætti sé viðhaldið vélrænt." Siöferðislegur réttur lifenda og látinna „ígræðslur líffæra eru stundaðar til að bæta heilsu manna, í mörgum tilvikum að bjarga lífi þeirra. Hér er því um að ræða verknað, sem þjónar án nokkurs vafa sið- ferðilega góðum tilgangi." En á þessu máli eru margar hliðar og vakna því ýmsar sið- ferðilegar spurningar. Ein þeirra er sú spurning hvort menn hafi skýlausan rétt til að ráðstafa eigin líkama eftir vild. En „tilefnislaus og háskaleg að- för að eigin líkama stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og er siðferðilega ámælisverð". Mun það velta upp spurningum um t.d. sjálfsvíg. Öðru máli gegnir þó um rétt manns til að heimila að úr líkama hans verði numið brott líffæri í ótvíræðu lækn- ingaskyni, enda sé ekki um háskalega aðför að líkamanum að ræða. Þegar um er að ræða ígræðslu lífsnauð- synlegra líffæra, sem numin eru brott úr manni sem hefur verið úrskurðaður látinn, ættu að gilda sömu siðfræðileg rök og þeg- ar um lifandi mann er að ræða. Þannig að „aðgerðin sé í einhlítu lækningaskyni og engin annarleg sjónarmið séu með í för, t.d. verslun með líffæri, þá þjónar hún tví- mælalaust góðu og göfugu markmiði, þ.e. að bjarga mannslífi. Hafi maður siðferði- legan rétt til að láta nema á brott líffæri úr líkama sínum í lifanda lífi öðrum til heilla, þá hefur hann ekki síður rétt til að svo verði gert að honum látnum," segir m.a. í álitsgjörðinni. Lög um líffæraflutninga Munurinn á lifandi og látnum líffæragjafa er sá að auðvelt er að leita samþykkis lif- andi gjafans, en orkað getur tvímælis þeg- ar um látinn mann er að ræða, nema að hann hafi látið í Ijós ósk um að líffæri hans verði notuð til gjafar eftir dauða hans. Hér er um að ræða sjálfræði og ákvörðunarrétt einstaklingsins, hvað ber að gera ef t.d. til- mæli hins látna um líffæraflutning liggja ekki fyrir. í frumvarpi til laga sem liggur fyrir Al- þingi, um brottnám líffæra og krufningar er, að sjálfsögðu, gerður greinarmunur á lifandi gjafa og látnum. Þar er gert ráð fyr- ir að Iifandi gjafi verði að hafa náð 18 ára aldri. Megintilgangurinn þar mun vera að koma í veg fyrir að óharðnaður unglingur taki, vegna ímyndaðs eða raunverulegs þrýstings, ákvörðun sem honum er í raun þvert um geð eða skilur ekki að fullu. Um látna líffæragjafa er sagt í frumvarp- inu að samþykki hins látna eða nánasta að- standenda þurfi að liggja fyrir. í álitsgjörð- inni kemur fram að jafnvel megi ganga skrefi lengra og t.d. krefjast skriflegs sam- þykkis hins látna í öllum tilfellum, að ef til vill geti fólk gengið með ákveðin „gjafa- kort“ á sér, en þó er bent á að erfitt sé að skipuleggja og viðhalda slíku kerfi. En þó benda þeir á að krafa um samþykki verði að vera skilgreint ítarlegar í þessum lögum og að kynna beri almenningi innhald þeirra. Eftir Guðrúnu Eriu Ólafedóttur . ........................................................... ■

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.