Lesbók Morgunblaðsins - 21.01.2006, Síða 8
8 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 21. janúar 2006
fór í geðveikt óldskúl lönsj í dag með bigga og danna í
maus og lenu viderö. eiginlega alveg óvart. við danni
erum að vinna næstum hlið við hlið og fórum og þá
voru biggi og lena á veitingahúsinu. gebba ríjúníon.
allavega öll saman … við verðum gömul og hittumst í
sínu hvoru lagi en svo þegar maður hittir þrjá eða
fleiri frá sama tímabili bondar maður á sérstakan hátt.
alveg dásamlegt. nema ég sé bara að hugsa svona því
ég er að fara að halda bekkjapartý um næstu helgi. 4C
MS in the house yoll. hiphopyoudontstop.
Þ
etta er blogg. Blogg er vefsíða sem
inniheldur reglulegar dagsettar
færslur sem venjulega er raðað í
öfuga tímaröð. Orðið er íslenskun
á enska orðinu „blog“ sem er aftur
stytting á „weblog“ (eiginlega vef-
bók). Flestir blogga um daginn og veginn eða
persónulega hagi, sumir eru pólitískir, aðrir
heimspekilega þenkjandi, sumir virðast líta á
bloggið sem eins konar flöskuskeyti sem vonandi
rati til einhvers velviljaðs lesanda en aðrir til-
heyra ákveðnum bloggsamfélögum þar sem
„skrifast er á“, allir eru sér þó meðvitandi um að
bloggið er opið rými, þar
er talað á torgum og undir
hverjum og einum komið
hvort hann bara fylgist með eða tekur til máls. Í
fréttaskýringu í Morgunblaðinu á síðasta ári var
sagt að meira en tíu þúsund Íslendingar blogg-
uðu.
Dæmið hér að ofan er mjög dæmigert blogg
enda eftir sjálfa bloggdrottninguna Betu sem
kenndi sig einu sinni við Rokk og gaf út skáld-
söguna Vaknað í Brussel sem kölluð var blogg-
bókmenntir í fremur niðrandi tón. Málfarið er
talmálslegt og enskuskotið en líka fullt af ein-
kennum sem ekki finnast í íslensku bókmáli svo
sem lágstafanotkun þar sem hástafir eru vana-
lega og styttingar á borð við „gebba“ fyrir
(sennilega) geðbilað og setningar sem eru alfarið
á ensku. Það eru líka til bloggarar sem skrifa
mun bókmálslegri texta. Nefna mætti blogg eftir
rithöfunda á borð við Eirík Örn Norðdahl, Ágúst
Borgþór Sverrisson og Hermann Stefánsson og
blogg stjórnmálamanna eins og Björns Bjarna-
sonar og Össurar Skarphéðinssonar. Og það er
sömuleiðis til blogg sem er enn talmálslegra eða
óformlegra, sem brýtur enn fleiri reglur um
„rétt og gott“ málfar. Hins vegar er erfitt að
finna blogg þar sem það er gert af vanþekkingu
eða klaufaskap, bloggarar leika sér flestir með
málið á mjög meðvitandi og skapandi hátt, þeir
eru uppátækjasamir en ekki óreglusamir í mál-
notkun sinni þótt þeir beygi stundum reglurnar,
þeir eru fæstir ritsóðar eins og stundum er talað
um þegar fólk sendir frá sér texta sem er út-
ataður í málvillum, stafsetningarvillum og inn-
sláttarvillum – það kemur satt að segja talsvert á
óvart hversu erfitt er að finna blogg sem gæti
flokkast undir það að vera vondur texti í þessum
skilningi.
Umfram allt er blogg þó blogg en ekki prent-
aður texti. Miðillinn er málið. Bloggið hefur
skapað textasmiðum algerlega nýtt umhverfi
sem á í sjálfu sér afskaplega fátt skylt við prentið
nema prentstafina og efnið sem þeir eru notaðir
til að miðla. Það er sem sé í sjálfu sér ekkert nýtt
að fólk skrifi og það er heldur ekkert nýtt sem
fólk er að skrifa um á bloggsíðum, það er mjög
skylt því efni sem dagbækur og aðrar sjálfs-
bókmenntir hafa geymt hingað til. Nýjabrum
bloggsins felst í miðlinum sjálfum, vefsíðunni eða
vefbókinni, og áhrifum hans. En þetta virðist
ekki hafa vakið áhuga margra, að minnsta kosti
ekki málfræðinga því að um áhrif bloggsins á ís-
lenskt mál er fátt vitað. Engar skipulagðar rann-
sóknir á bloggi eða bloggmáli hafa verið stund-
aðar hér á landi, það er til að mynda mjög lítið
minnst á bloggmál eða netmál í 1700 blaðsíðna
glænýju þriggja binda verki um íslenska tungu
eftir Guðrúnu Kvaran, Höskuld Þráinsson og
Kristján Árnason en það á að vera lýsing á ís-
lensku máli. Blogg er reyndar mjög ungur miðill,
á upptök sín í tilraunum forritara og vefara árið
1998. Áhrif þessa miðils á málið (og áhrif netsins
yfirleitt) gætu hins vegar orðið mikil.
Prentið var fundið upp um miðja fimmtándu
öld og er því orðið meira en fimm hundruð og
fimmtíu ára gamall miðill. Áhrif prentsins voru
gríðarleg, ekki síst á tungumálin. Þjóðtungurnar
urðu að afmarkaðri heild hvert um sig. Með því
að dreifa fjöldaframleiddum bókum og öðru
prentuðu efni um víða Evrópu breytti prentvélin
staðbundnum mállýskum í samræmd og lokuð
kerfi þjóðtungna. Orðalag og málnotkun varð
samræmdari. Reglur um stafsetningu og alla
framsetningu texta á prentaða síðu mótuðust
smámsaman. Þetta jók meðal annars tilhneig-
ingu til þess að draga úr leik með tungumálið.
Prentið skapaði sérstakt bókmál sem er afar
íhaldssamt vegna þess að ákveðnar stofnanir og
starfsstéttir standa vörð um það svo sem eins og
bóka- og blaðaútgefendur, ritstýrendur og próf-
arkalesarar en ekki síður þeir sem byggja vald
og yfirburði sína á kunnáttu á því að fara með hið
ritaða mál. Það varð því til formlegt ritmál sem í
sumum tilfellum hefur orðið að hálfgerðum fá-
ránleika eins og kansellístíll átjándu aldar og
lögfræðimál okkar tíma eru til vitnis um. Upp-
reisnargirni bókmenntanna síðustu aldir hefur
að nokkrum hluta beinst gegn þessum hömlum
sem prentið setti tungumálinu. En málbreyt-
ingar verða síður í bókmáli en talmáli.
Bloggið (og annað ritmál á netinu) lýtur ekki
lögmálum prentsins. Enginn útgefandi er að
bloggi nema bloggarinn sjálfur, það lýtur engri
utanaðkomandi ritstjórn og það er ekki próf-
arkalesið. Bloggið er opinber texti sem lýtur
engum opinberum reglum. Hvað þýðir þetta?
Hvaða áhrif hefur þetta á þróun íslensks máls?
Svarið er einfalt: Við vitum það ekki. Við höfum
ekki hugmynd um það.
Augljóst er að bloggmál er að stórum hluta
óformlegra og líklega talmálslegra en prentað
mál. Blogg er enda oft eins konar vitundar-
streymi. Blogg bregður líka á leik með málið og
beygir málfarsreglur eftir hentugleika. Það er
hvort eð er ekkert eftirlit. Það er enginn yfir-
lesari sem segir: Vont! Rangt! Ekki til!
Það sem gæti gerst og hefur kannski að ein-
hverju leyti gerst er að hið óformlega bloggmál
(eða netmál) verði hið almenna snið á rituðum
texta. Það má jafnvel ímynda sér að ritmálið fari
aftur á handritastigið þar sem litlar sem engar
samræmdar reglur voru um það hvernig átti að
skrifa. Hvaða áhrif gæti slíkt anarkískt ritmál
haft á samfélagið? Myndi það losa um formfest-
una og hugsanlega þá sterku rökhyggjuhefð sem
prentið hefur mótað?
Eins og áður sagði er bloggið aðeins að verða
átta ára gamalt og í raun fór það ekki í almenna
umferð fyrr en árið 2001. Áhrifatími bloggsins er
því mjög stuttur sem þýðir að bloggarar eru enn
afurð prentsins, þeir eru aldir upp á prenti, þeir
hafa lært að lesa af bókum, þeir hafa lært rétt-
ritun af bókum, sömuleiðis málfræðireglur, og
blogg þeirra tekur mið af því. Það má finna ýmis
dæmi um að bloggarar standi vörð um gildi bók-
legs ritmáls. Í einu bloggsamfélagi sem tengist
menntaskóla í borginni er gerð krafa um að rétt-
ritun sé höfð í heiðri. En þetta eru tímar mikils
hraða, miklu meiri hraða en Gutenberg bauð upp
á í fimm og hálfa öld. Og það eru ekki síst hinir
nýju miðlar sem hafa aukið hraðann. Það verður
því ekki langt að bíða þess að bloggarar verði –
margir hverjir að minnsta kosti – hreinræktuð
afkvæmi þessa nýja miðils. Ónefndur bloggari
ræðir orðið „harðnandi“ í eftirfarandi færslu:
Ok smá pæling hér … hvað er málið með orðið harðn-
andi … prófið að skrifa það og þá sjáið þið hvað þetta
er asnalegt orð þrátt fyrir að það fylgi öruglega öllum
reglum í íslenskri málfræði. Það leynir sér alls ekki að
þetta orð er mistök í íslensku, bæði [ó]þjált fyrir tungu
og einnig hrikalegt að þurfa að skrifa það. Einhverjir
ósammála?
Viðbrögðin láta ekki á sér standa og blogg-
arinn fær þessa fyrirspurn frá lesanda sínum:
Hvernig mundiru vilja að það væri skrifað?
Og bloggarinn svarar:
harnandi?
en þá er þetta hætt að tengjast lýsingarorðinu „harð-
ur“ …
er þetta lýsingarháttur þátíðar eða nútíðar? þá?
Hann fær ekkert svar en annar lesandi vill
prófa:
harðnandi
varð bara að prufa að skrifa það
Leikurinn sem einkennir bloggið er jákvæður,
hann þýðir að málið er lifandi, það er enn verið
að vinna með málið, það er verið að máta það við
nýjan veruleika.
Öll þessi skrif eru líka mjög jákvæð, það hefur
sennilega aldrei verið skrifað meira í allri Ís-
landssögunni en núna, ekki síst unglingar og
annað ungt fólk skrifar miklu meira en nokkru
sinni fyrr. Og það les líklega meira þótt það lesi
kannski ekki mikið af bókum eða dagblöðum.
Hvað þýðir þetta allt saman? Hvaða áhrif á
þetta eftir að hafa á máltilfinningu? Eða sjálfs-
skilning? Heimsmyndina?
Svörin eru aftur þau að við vitum það ekki.
Höfum ekki hugmynd um það!
Þegar talað er um stöðu málsins er það alltaf
staða þess í heimi prentsins sem átt er við og að
einhverju leyti ljósvakans. Prentið er hins vegar
ekki lengur ráðandi miðill, hann er aðeins einn af
nokkrum mjög sterkum miðlum og hann er
þeirra elstur sem þýðir að hann er hættur að
koma okkur á óvart sem slíkur þótt efnið sem
hann miðlar kunni enn – að minnsta kosti við og
við – að koma okkur í opna skjöldu. Við höfum
enn ekki rannsakað hvaða áhrif bloggið eða netið
sem slíkt muni hafa á íslenska tungu, eins og áð-
ur sagði. Nútímamálfræði er auðvitað afurð
prentsins, hún er að mestum hluta byggð á rann-
sóknum á prentuðu máli sem birtar eru á prenti.
Við þurfum að búa til málfræði bloggsins og
Netsins. Annars höldum við inn í nýja öld með
augun í baksýnisspeglinum.
Miðillinn er málið
Bloggið og tungan
Eftir Þröst Helgason
throstur@mbl.is
’Blogg bregður líka á leik með málið og beygir málfarsreglur eftir hentugleika. Það erhvort eð er ekkert eftirlit. Það er enginn yfirlesari sem segir: Vont! Rangt! Ekki til!‘
Staða málsins