Lesbók Morgunblaðsins - 22.04.2006, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 22.04.2006, Blaðsíða 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 22. apríl 2006 | 5 brotakennd sem hún er, fremur en forminu sjálfu.“ Hvernig kemur And Björk of course inn í þetta? Þar er formið mjög laust og fljótandi. „Það var meðvituð ákvörðun af minni hálfu. Ég ákvað einfaldlega að skrifa allt sem mér fannst áhugavert og skemmtilegt í samtölum og eintölum þá stundina og treysta því að þetta kæmi allt heim og sam- an á endanum. Það var ákveðið að ég myndi skila þessu sem eins konar púsli til leikstjór- ans, ósamsettu púsli. Þetta var óskaplega gaman fyrir mig því ég skrifaði allt sem mér datt í hug, urmul af texta eingöngu mér til skemmtunar og smám saman kviknuðu per- sónurnar í gegnum þetta. En maður sleppur samt ekki svona auðveldlega frá þessu vegna þess að samtalið sem höfundurinn skrifar ekki er samtalið við leikhópinn um verkið eftir að æfingar eru hafnar. Spurningar eins og: Hvað áttu við með þessu? Þarf þetta? Okkur finnst vanta meira af þessu. Okkur finnst þessi persóna vera í skugganum. Við áttum okkur ekki á sambandi þessara tveggja persóna. Þarna byrjar ballið og ef maður á annað borð hefur metnað og löngun til að sjá per- sónum sínum farnast vel þá getur maður ekki stoppað þarna og sagt við leikhópinn: Þið sjáið svo bara um þetta og gerið eitt- hvað skemmtilegt úr þessu! Þetta er flókin vinna og á endanum varð þetta erfiðasta leikrit sem ég hafði skrifað.“ Raddir í myrkri Maður gæti ímyndað sér að leikskáld sem jafnframt er myndlistarmaður legði mjög skýr fyrirmæli um myndræna útfærslu verk- anna. En mín tilfinning gagnvart þér sem leikritahöfundi er miklu fremur að þú hugsir nær eingöngu um textann og látir þér nán- ast í léttu rúmi liggja hvernig sýningin muni á endanum líta út. „Ég hef iðulega komið sjálfum mér á óvart með hvað ég get skrifað mikið fyrir svið án þess að sjá nokkurn skapaðan hlut fyrir mér. Í langflestum tilvikum skrifa ég leikritin í fullkomnu myrkri. Ég sé ekki neitt en ég heyri raddirnar. Hins vegar þegar ég skrifa prósa eins og Blíðfinnsbækurnar þá er ég eingöngu að lýsa hlutum sem ég sé. Þetta eru allt lýsingar á myndum sem ég sé fyrir mér ýmist á undan því að ég skrifa textann eða birtast samhliða því sem ég skrifa. Ég hef ekkert fyrir því og myndirnar eru sjálfgefnar. Ég þarf stundum að rýna betur í myndina, stundum verð ég að snúa mér við, eða ég sé hreyfingu í grasinu og veit ekki hvað veldur henni. Ég þarf að at- huga það betur og ég veit ekki neitt fyrr en ég sé að þetta er einhver vera sem heitir Litli sprettur og er að fara að huga að hálf- dauðri kráku. Ég er manna forvitnastur og finnst þetta alltaf jafnspennandi. Þetta er hins vegar algjör andstæða við leikritaskrifin. Þarna mitt á milli liggur svo Vasaleikhúsið sem hefur þá sérstöðu að dekka þetta allt saman.“ Vasaleikhúsið eru eins konar örleikrit sem þú fluttir á Rás 2 á tímabilinu 1991–1992 og nutu mikilla vinsælda. Örleikritin komu út á bók 1992 undir titlinum Engill meðal áhorf- enda. „Vasaleikhúsið er ennþá mín biblía og þar má bókstaflega finna allt sem ég er að fást við ef vel er að gáð. Þarna get ég séð í hnot- skurn allar mínar vinnuaðferðir, allt frá því að skrifa raddir í myrkri og yfir í barokk- legar lýsingar á heilu leikhúsi þar sem öllu er lýst mjög myndrænt. Það er í rauninni mjög sérkennilegt að hafa fengið að kynnast svona mörgum aðferðum sem eru allar rétt- ar fyrir mér en þó svo gerólíkar hver ann- arri. Þetta þýðir hins vegar það að ég legg upp núorðið upp með nýtt verk algerlega áhyggjulaus um framvindu þess; ég veit að það er hægt að finna leiðina að því án þess að leggja hana niður fyrirfram. Ég er t.d. núna að byrja á nýju verki og er ennþá staddur þar sem ég hef ekki hug- mynd um hvernig verk það verður og ég veit ekki heldur hvernig það mun skrifast. Ég hef engar áhyggjur af því vegna þess að reynslan hefur kennt mér að ég þarf hvorki að finna neitt nýtt upp né ákveða neitt fyr- irfram.“ Ertu ekki að lýsa því sem margir ungir og upprennandi höfundar kikna frammifyrir; að þeir þurfi að vita í upphafi hvernig verkið eigi að líta út á endanum? „Jú, þetta er mjög algengur og alvarlegur misskilningur. Þetta gerist ekki svona. Mað- ur byrjar einhvers staðar og vinnur sig áfram og á endanum stendur maður uppi með verkið á allt öðrum stað en til stóð. Og það er spennandi ferðalag. Ég hef reyndar mjög slæma reynslu af því að fá góðar hug- myndir. Góð hugmynd er yfirleitt slæm þeg- ar allt kemur til alls. Gott dæmi er leikrit sem ég skrifaði fyrir samkeppni sem Borg- arleikhúsið efndi til fyrir fjórum árum. Leik- ritið hét frá upphafi Sekt er kennd og var að mörgu leyti ágætis tilraun og vel að því staðið af hálfu leikhússins. Ég gerði mér hins vegar fljótlega grein fyrir því að ég myndi aldrei ná flugi með verk með svo snjallan titil. Hann var alltof góður til að ég gæti skrifað leikrit undir hann. Ég hef ótrú á snjöllum hugmyndum.“ „Stóra breikið“ Er þetta ekki önnur hlið á því að koma sér undan því að skrifa „góðan“ texta; vera gæludýr fagurfræð inganna? „Mín uppgjöf átti sér stað á árunum 1988– 91 þegar ég gafst upp á því að verða ein- hvern tíma „góður“ höfundur sem skrifaði „góðan“ texta líkt og ég hef þegar lýst. Ég tók þess í stað upp samtöl úr kennslubókum, enskukennslubókum, og gerði úr þessu leik- in myndbandsverk; ég hugsaði sem svo að þetta væri skrifað af kunnáttumanni og ætl- að milljónum manna og því líklegt að væri einhver samnefnari í þessu.“ Skemmtileg tenging og kannski er hún ekki hrein tilviljun að í Maríusögum bregður fyrir þeim sama samtalsstíl og ensku- kennslubækur hafa gjarnan og það kallast aftur á við Sköllóttu söngkonuna eftir Io- nesco sem leitaði í sama brunninn. „Mér var reyndar bent á það af Andrési Sigurvinssyni alllöngu eftir að ég gerði þessi myndbandsverk að Ionesco hefði sagt frá því að hann hafði fengið einhvers konar hug- ljómun af því að lesa tungumálakennslubæk- ur. Það gladdi mig mjög að heyra þetta, að annar höfundur hafði farið sömu leið með góðum árangri.“ Myndbandsverkin voru eiginlega byrjunin á þínum leiktextaskrifum. „Já, þetta æxlaðist þannig að Hallgrímur Helgason, rithöfundur og myndlistarmaður, sá þessi verk á sýningu hér heima og benti stjórnendum Rásar tvö á að ég gæti tekið við af honum með stutt innslög í útvarpið en hann hafði þá verið með Útvarp Manhattan við miklar vinsældir og var að hætta. Þetta varð „stóra breikið“ því þarna fékk ég tæki- færi til að skrifa vikulega í heilt ár og fá við- brögð jafnharðan. Þetta var 1991–1992 og strax um sumarið 1992 var fyrsta sviðs- verkið komið upp sem var Í tilefni dagsins sem Pinter-leikhópurinn setti upp undir stjórn Andrésar Sigurvinssonar. Árið eftir var Skilaboðaskjóðan frumsýnd og Mar- íusögur 1995. Eitt kallaði á annað og ég setti mig aldrei beinlínis í stellingar til að verða leikritahöfundur. Það gerðist af sjálfu sér og án þess að ég tæki hlutverkið mjög hátíð- lega.“ Það hefur verið talað um að styrkur þinn liggi í að skrifa samtöl. Ertu sáttur við þá fullyrðingu? „Já, ég reynist alltaf eiga mjög auðvelt með að skrifa samtöl þannig að þau fljóti vel, séu trúverðug og persónurnar kvikni skýrt í gegnum sína tjáningu án þess að ver- ið sé að búa til augljósan stíl eða talsmáta fyrir þær. Ég þakka það ekki síst móður minni sem hefur einstaka frásagnargáfu og kenndi mér öðru fremur að veita fólki at- hygli. Ekki bara talsmátanum en líka fasi, hreyfingum og hljómfalli, m.ö.o. samhenginu öllu. Þannig þjálfast meðvitundin um að ein setning í ákveðnu samhengi geti framkallað fullmótaða persónu.“ Harmleikur að ekkert gerist Í leikskránni að Maríusögum setur þú fram athyglisverða kenningu um leikritun þína ef maður má gerast svo hátíðlegur. Þar segir í eins konar leikþætti: Persóna: Hvers konar leikrit er það sem ekkert gerist í? Höfundur: Harmleikur. Persóna: Eitthvað hlýtur að gerast. Það er út af einhverju sem harmleikurinn verð- ur. Höfundur: Það gerist ekkert. Það er harmleikurinn. Það er aðeins í augum per- sónanna sem ekkert gerist eða réttara sagt það er mismunandi sterk óskhyggja þeirra flestra að ekkert gerist sem geti breytt þeirri stöðu. Og það er þeirra harmleikur. Frá sjónarhorni áhorfandans gerist hins vegar miklu meira. Áhorfandinn, sem er bú- inn að kaupa sig inn á leiksýningu til að sjá eitthvað gerast, hefur svo sterka þörf fyrir að sjá framvindu á sviðinu að hann notar hverja smugu sem myndast í aðgerðaleysi persónanna til að skapa viðburði í eigin höfði, gefa hverri endurtekningu nýja merk- ingu og hverri tilraun persónanna til að halda í horfinu nýtt inntak. Þannig neitar áhorfandinn að hlýða persónunum og sættir sig ekki við kyrrstöðuna, hversu mikið sem persónurnar keppast við að láta ekkert ger- ast.“ Ertu enn á þessari skoðun? „Já, þetta er ágætt. Lýsir kannski betur en langt viðtal því sem ég er að fást við. Ótta okkar allra við að eitthvað breytist. Kannski þess vegna sem við erum svona upptekin af því að setja reglur og dæma. Kyrrstöðunni stendur alltaf ógn af þessum sem eru „svolítið sérstakir“.“ Morgunblaðið/Sverrir And Björk of course... Borgarleikhúsið 2002. Eitt erfiðasta leikritið sem ég hef skrifað. Morgunblaðið/Árni Sæberg Sveinsstykki Verkið (2004)var skrifað fyrir Arnar Jónsson í tilefni af 40 ára leikafmæli hans. Morgunblaðið/Ásdís Sekt er kennd Borgarleikhúsið 2003. Eggert Þorleifsson og Þorvaldur hafa átt farsælt samstarf.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.