Lesbók Morgunblaðsins - 22.04.2006, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 22.04.2006, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 22. apríl 2006 E dward Bond er fæddur 1934 í verka- mannastétt í Holloway í Austur-London. Hann var í hópi þeirra þúsunda barna sem flutt voru frá London í byrjun stríðsins en lenti þó í loftárásunum á London og má rekja andúðina í verkum hans á ofbeldi og skelf- ingum stríðs til þeirra ára í lífi hans. Hann hvarf frá skóla- námi 15 ára gamall og vann í verksmiðjum og á skrifstofum og gegndi síðan herþjónustu um tveggja ára skeið. Árið 1958 var Edward Bond boðið að taka þátt í fyrsta hópi rithöfunda sem Royal Court leikhúsið í London setti saman eftir að hann hafði sent leikhúsinu tvö ljóðræn leikrit, The Fiery Tree og Kaxon in Atreus’ Place. Hvorugt þessara verka hefur verið flutt eða gefið út. Fyrsta leikrit Edwards Bond, The Popés Wedding, var frumflutt af Royal Court leikhús- inu 1962. Aðeins var um eina sýningu að ræða, engin leik- mynd eða önnur umgjörð, aðeins leikararnir. Þetta er nat- úralískt verk sem gerist í nútímanum í Essex. Næsta leikrit Bonds, Saved (Hjálp LR 1968) var frumsýnt 1965 og festi hann í sessi sem leikskáld og verkið varð eitt hið þekktasta í breskri leiklistarsögu. Saved kryfur líf nokkurra ungmenna úr verkalýðsstétt sem eru að kikna undan oki hins grimm- úðlega hagkerfis, þau hafa glatað mennsku sinni og lifa og hrærast í hugsunarlausu ofbeldi. Þekktasta atriði verksins er þegar ungmennin grýta ungbarn í barnavagni til dauðs án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Með þessu verki tók Bond sér stöðu sem róttækur sam- félagsgagnrýnandi, staða sem hann hefur ekki hvikað frá all- an sinn feril og hugmyndir hans um orsakir ofbeldis í sam- félaginu byggjast á pólitískri og listrænni sýn hans á misréttinu og arðráninu sem viðgengst undir verndarvæng fagurgala um lýðræði og jöfn tækifæri fyrir alla þegna þjóð- félagsins. „Ofbeldið er fólgið í hinum lýðræðislegu þáttum samfélags- ins vegna þess að við búum ekki í róttæku lýðræði. Vestrænt lýðræði er í rauninni ekkert annað en þægileg útfærsla á neysluhyggju. Tilgangur ofbeldis í leikritum mínum er að sýna hvernig það felur sig í hinum hversdagslegu félagslegu þáttum samfélagsins. Það er kurteislega ályktað að lýðræði haldi ofbeldi í skefjum. En ofbeldi sprettur ekki úr genunum, það sprettur af hugmyndum. Genin gera ofbeldið mögulegt en hugmyndir taka ákvarðanir.“ Ritskoðunin lögð niður Sýningar á Saved voru bannaðar af hinni konunglegu rit- skoðun. Frá því um miðja átjándu öldina hafði breskt leikhús verið háð konunglegri ritskoðun þó leikhúsin hefðu löngum getað smeygt sér undan henni með því að efna til einkasýninga á bönnuðum verkum. Ekki kom til greina að leyfa sýningar á Hjálp nema Bond felldi út nokkur atriði í verkinu og sér- staklega barnsmorðið. Bond þverneitaði að fella út svo mikið sem eina setningu og sagði að þetta væri lykilatriði verksins, að fella það burt myndi eyðileggja leikritið. Til að komast hjá banninu stofnaði Royal Court leikhúsið tímabundinn einka- klúbb, The English Stage Society, og sýndi Hjálp undir merkjum hans. Ritskoðunin höfðaði mál og dómstóllinn fann English Stage Society sekt um að brjóta reglur um ritskoðun, refsing var skilorðsbundin en dómarinn hótaði alvarlegum af- leiðingum ef leikhúsið reyndi að leika á ritskoðunina aftur. Saved vakti þó víðar andúð en hjá ritskoðuninni og gríð- arlegar deilur fylgdu í kjölfar frumsýningarinnar. Áhorfendur ýmist grétu eða öskruðu, grýttu leikarana og sendu jákvæð- um gagnrýnendum hótunarbréf. Óhætt er að segja að verkið hafi haft tilætluð áhrif. Tveimur árum síðar sviðsetti Royal Court nýtt leikrit eftir Bond, Early Morning. Þar birtist Victoria drottning í lesbísku sambandi við Florence Nightingale, prinsarnir tveir eru sí- amstvíburar, Disraeli og Albert drottningarmaður skipu- leggja valdarán og loks endar allt konunglega slektið í mann- ætuhimnaríki eftir að hafa hrapað til dauðs fram af klettum. „Hennar hátign leyfir þetta ekki“, sagði ritskoðunin en Royal Court leikhúsið frumsýndi verkið engu að síður og innan árs var breska þingið búið að afnema ritskoðunina. Bond fylgdi þessu eftir með Narrow Road to the Deep North, ádeilu á bresku heimsvaldastefnuna, í kjölfarið fylgdu tveir einþáttungar, Black Mass og Passion (Stúdentaleikhúsið 1983) en stærsta verk hans frá þessum árum var viðamikil endurgerð á Lé konungi eftir Shakespeare sem Bond nefndi einfaldlega Lér. „Listin er nákvæm skoðun veruleikans og ég hef einungis áhuga á því að setja á svið atburði sem ég veit að gerast í samfélagi okkar. Ég hef ekki áhuga á ímynduðum heimi. Ég hef áhuga á veruleikanum.“ Edward Bond skrifaði á þessum árum umtalsvert fyrir kvikmyndir og vann með fremstu kvikmyndaleikstjórum sam- tíðar sinnar. Þeirra á meðal eru handrit eftir sögu Nabokovs Laughter in the Dark (1968) í leikstjórn Tony Richardson, handrit að Walkabout (1971) í leikstjórn Nicolas Roeg, samtöl í handritin að Blow-up (1966) í leikstjórn Michelangelo Anton- ioni og Nicholas og Alexandra (1971) í leikstjórn Franklin J. Schaffner. The Sea (1973), markaði nokkur skil á ferli Bonds. Þetta er gamanleikur í natúralískum stíl, tímasettur í byrjun 20. aldar og Bond kveðst hafa áttað sig á því að með þessu verki hafi lokið ákveðnum kafla í höfundarverki hans, sem hófst með Popés Wedding og lauk með Lé, þar sem hann hafði krufið til mergjar spurningar um samfélagið, sögu þess, stéttaskipt- ingu, átök og ofbeldi. Í kjölfarið fylgdu tvö áhrifamikil verk um stöðu listamannsins í samfélaginu, Bingo (1973) þar sem Shakespeare birtist sem aldraður og harðlyndur landeigandi, og The Fool, þar sem 19. aldar ljóðskáldið John Clare er hrakinn inn í ólæknandi geðveiki af yfirlætislegum og ofbeld- isfullum andstæðingum úr efri stétt. Bingo hlaut Obie verð- launin árið 1976 sem besta Off Broadway leikritið það árið. Bond skrifaði næst tvö leikrit sem hann kallaði „Svör“ við „Spurningum“ fyrri leikrita sinna. The Woman (1978) er viða- mikið verk þar sem Bond leitar svara við spurningum um eðli goðsagna og beinir augum að hlutskipti kvenna í Tróju stríð- inu. The Bundle var endurgerð á Narrow Road en tíðindum sætti einnig að Bond leikstýrði sjálfur í fyrsta sinn og vakti sýning hans á The Woman á Olivier sviði breska þjóðleik- hússins mikla athygli en þar nýtti hann stærð sviðsins á ann- an hátt en gert hafði verið fram að því. Frá þessum árum eru einnig tvö styttri leikrit, Stone, sem Bond skrifaði fyrir Gay Sveatshop, leikhóp samkynhneigðra, og A-A-America um kynþáttaofbeldi í Banda- ríkjunum. Árið 1976 vann Bond ásamt tónskáldinu Hans Werner Henze að óperunni We come to the River sem frumflutt var í Konunglegu óp- erunni Covent Garden. Summer (1981) er minningaleikrit og Derek (1982) fjallar um arðrán hinna ríkjandi stétta. Restoration (1981) fjallar um sekt yfirstéttarinnar á 17. öld. Fram að þessu hafði samstarf Bonds við helstu leikhús í Bretlandi verið snurðulaust. Þjóðleikhúsið, Konunglega Shakespeare leik- húsið og The Royal Court sýndu verk hans og hann hafði leikstýrt sjálfur með góðum ár- angri við Þjóðleikhúsið. Þessi tengsl rofnuðu skyndilega hvert af öðru um miðjan 9. áratug- inn er leikhústjóri Þjóðleikhússins neitaði Bond um að leikstýra frumflutningi á The Human Cannon, viðamiklu verki um spænska borgarastríðið, óánægju Bonds með end- urflutning The Royal Court á Saved og The Popés Wedding (1984), og skelfilega mis- heppnaða frumsýningu Royal Shakespeare Company á þríleiknum The War Plays (1985). Allt varð þetta til þess að síðan hafa stóru leikhúsin í Bretlandi nánast sniðgengið Edw- ard Bond og eitt af hans stærstu verkum Jac- kets (1989) er svo til óþekkt enn í Bretlandi. Á sama tíma, eða frá miðjum 8. áratugnum, hafði áhugi fyrir verkum Edwards Bond farið hraðvaxandi á meginlandi Evrópu, í Frakk- landi og Þýskalandi, en Theatre national de la Colline í París hefur flutt og/eða frumflutt hans helstu verk á seinni árum, þ.á m. The War Plays 1995 þar sem fjallað er um afleið- ingar kjarnorkustríðs, In the Company of Men (1992) þar sem heimur viðskiptanna er krufinn, Coffee (1995) sem gerist í hugarheimi persónanna en einnig að hluta í Babi Yar þar sem nazistar frömdu fjöldamorð og Crime of the 21st Century (2000) sem er svartsýn framtíðarsýn í Mat- rix líku umhverfi. „Verk mín eru í rauninni ekki sérlega ofbeldisfull. Það eiga sér stað ofbeldisfullir atburðir í þeim, og þegar þeir gerast reyni ég að lýsa þeim af eins mikilli hreinskilni og heiðarleika og mér er unnt. En ég hef ekki áhuga á ofbeldi ofbeldisins vegna. Ofbeldi er aldrei lausn í verkum mínum, ekki frekar en ofbeldi er aldrei endanleg lausn í mannlegum samskiptum. Ofbeldi er hinsvegar vandamál sem verður að fást við.“ Leikrit fyrir ungt fólk Bond sagði þó engan veginn skilið við breskt leikhús og hefur átt frjótt samstarf við leikhópinn Big Brum sem sérhæfir sig í sýningum fyrir skólabörn. Meðal leikþátta sem Bond hefur skrifað fyrir hópinn eru At the Inland Sea (1995), þar sem ungmenni horfast í augu við afleiðingar helfararinnar, Eleven Vests (1997) um valdníðslu í skólum og stofnunum hersins og Have I none (2000) önnur framtíðarsýn. The Children (2000) var flutt af skólaleikhópi í Cambrigde. Bond hefur einnig skrifað talsvert fyrir sjónvarp og útvarp, sjónvarpsleikritið Olliés Prison var frumflutt af BBC (1993) og síðar sviðsett af Berliner Ensamble leikhúsinu og Americ- an Repertory Theatre í Boston. Tuesday (BBC 1993) og út- varpsleikritin Chair (BBC 2000) og Existence (BBC 2002). BBC hefur einnig flutt útvarpsgerðir af The Sea og Bingo. Öll helstu verk Edwards Bond hafa verið gefin út í sjö bindum undir titlinum Collected Plays af Eyre Methuen út- gáfunni en auk leikritanna hefur verið gefið út safn ljóða Bonds (Collected Poems 1987) og ritgerðir hans um leikritun og leikhús (The Hidden Plot 1999) en fáir núlifandi leik- húsmenn hafa verið jafnötulir að skrifa um og halda fram hugmyndum sínum um hlutverk og tilgang leiklistar í nútíma- samfélagi. Hann hefur fylgt eftir útgáfum af leikritum sínum með löngum og ítarlegum formálum um tilurð og tilgang þeirra. Edward Bond er hvernig sem á það er litið einn áhrifa- mesti leikhúsmaður breskur sem nú er uppi. Leikrit hans valda ennþá miklum umræðum og jafnvel deilum, margir halda því fram að hann sé eitt merkasta leikritaskáld 20. ald- arinnar og einungis persónuleg staðfesta hans, að ekki sé sagt þvermóðska, hafi komið í veg fyrir að hann nyti þeirra vinsælda sem hann hafi þó átt fyllilega skilið. Bresk leikhús hafa að miklu leyti sniðgengið hann í rúm 20 ár, með nokkrum undantekningum þó, t.a.m. tók The Shef- field Playhouse Lé til sýninga nýverið og vakti sýningin mikla athygli og heil kynslóð breskra leikhúsunnenda vaknaði upp við að á meðal þeirra er eitt af stærstu leikskáldum samtím- ans. Áhrif Edwards Bond á yngri kynslóðir leikhúsfólks í Bret- landi og víðar eru greinileg. Margir af höfundum 10. áratug- arins hafa nefnt hann sem áhrifavald og má greinilega sjá bein tengsl milli verka Bonds frá 7. áratugnum og þekktustu verka höfunda eins og Sarah Kane og Mark Ravenhill svo einhverjir séu nefndir. „Maður verður að ganga alla leið í leikritun. Grikkirnir gengu mjög, mjög langt í harmleikjum sínum. Þeim var sagt að best væri að fæðast ekki, en ef þeir yrðu fyrir því óláni, væri næstbest að deyja ungur. Og þeir hrópuðu allir „Húrra!“ og gengu fagnandi inn í borgina sína. Af hverju? Af því að þeir höfðu horfst í augu við aðstæður á ystu nöf, ekki í Ausch- witz heldur í leikhúsinu.“ Neysluhyggja en ekki lýðræði Breska leikskáldið Edward Bond er af mörgum talinn einn merkasti leikhúsmaður breskur á síðari hluta 20. aldar. Hann verður gestur Félags leikskálda og handritshöfunda, Hafn- arfjarðarleikhússins og breska sendiráðsins á fyrirlestri og sýnikennslu (Masterclass) í Hafnarfjarðarleikhúsinu laug- ardaginn 29. apríl kl. 10–16. Þar mun Bond fjalla um leikritun sína og leikstýra leikurum í völdum atriðum úr verkum sínum til að skýra hugmyndirnar sem að baki liggja. Fyrirlesturinn og sýnikennslan fer fram á ensku en leikið verður á íslensku. Eftir Hávar Sigurjónsson Edward Bond Ofbeldi er vandamál sem verður að fást við. Farðu ekki úr leikhúsinu ánægður ekki sáttur Hefur þér verið skemmt? Hlátur sem er ekki líka hugmynd er grimmur Varstu snortinn? Samúð sem er ekki líka athöfn spillir Við gerð leikritsins notaði höfundurinn skæri guðs Hver gerði mynstrið? Leikararnir æfðu af vandvirkni felldu þeir þig í sitt mót? Blindaði ljósamaðurinn þig? Klæddi hönnuðurinn hégóma þinn? Þú getur ekki lifað á plastávöxtunum okkar Farðu úr leikhúsinu hungraður í breytingar Edward Bond Þegar þú ferð úr leikhúsinu Höfundur er formaður Félags leikskálda og handritshöfunda.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.