Lesbók Morgunblaðsins - 22.04.2006, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 22.04.2006, Blaðsíða 12
12 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 22. apríl 2006 Mick Jagger er víst einn af líkleg-um stjörnum í nýjum sjón- varpsþætti sem ABC hyggst fram- leiða. Mun hann snúast um hóp manna sem eru vinnufélagar í New York og ákveða að ræna einhverjum fræg- um til að eiga fyr- ir salti í grautinn. Þátturinn er á prufustigi, en svo- kallaður „pilot“ verður framleiddur sem sker mun úr um hvort þáttaröð fer í loftið. Upprunalegt heiti þátta- raðarinnar var I Want To Rob Jeff Goldblum en sá mæti leikari var víst ekki til í að taka þátt. Jagger játti hins vegar og mun koma fram í þættinum. Framleiðandi þáttanna er Disney, í gegnum undirfyrirtækið Touchstone Television, og framleið- endur eru þeir Rob Burnett og Jon Beckerman.    Angelina Jolie hefur samþykkt aðleika í þriðju Tomb Raider myndinni sem heitir enn sem komið er einfaldlega Tomb Raider 3. Ian Livingstone, sá er skapaði Löru Croft, sögu- hetjuna í Tomb Raider, staðfestir þetta við dag- blaðið The Daily Mail. Sú skuld- binding felur í sér að Jolie þarf að koma sér í form um leið og hún er búin að fæða barn sitt og Brad Pitts. Parið býr nú í Namib- íu ásamt tveimur ættleiddum börn- um Jolie. Fyrri Tomb Raider mynd- irnar fengu fremur slæma dóma hjá gagnrýnendum en gerðu góða hluti í bíóhúsunum og enn betri á mynd- diskamarkaðinum. Tölvuleikurinn sem kvikmyndirnar eru byggðar á hefur þá hagnast á þeim umsvifum og nýjasta útgáfa hans, Tomb Raid- er: Legend hefur fengið rífandi góða dóma auk þess sem hann er rifinn út úr söluhillum. Jolie er afskaplega tengd framhaldsmyndum um þessar mundir, hún mun koma fram í Ocean’s Thirteen, sem er framhald af Ocean’s Eleven og Ocean’s Twelve auk þess sem hún mun eiga innslag í Sin City 2.    Eftir að hafa laumað hrósyrði aðFrökkum í lokasenu myndar sinnar Hollywood Ending virðist Woody Allen nú hafa móðgað land og þjóð, en Frakkar eru ein- staklega hrifnir af verkum meist- arans. Þannig er mál með vexti að Allen hugðist taka upp næstu mynd sína í París en hefur nú hætt við allt saman, ekki í fyrsta sinn sem hann tekur þannig ákvarðanir. Hann mun hins vegar ekki halda til öryggisins í heimahög- um sínum á Manhattan heldur verð- ur myndin tekin upp í Lundúnum líkt og síðasta mynd, Match Point. Ástæðan er m.a. sú að handritið reyndist of metnaðarfullt, þá með til- liti til fjárráða. Franska kvikmynda- stofnunin er í sárum og gaf út eft- irfarandi yfirlýsingu: „Þetta eru slæmar fréttir fyrir franska kvik- myndaheiminn og þá atvinnumenn sem honum tilheyra en þeir voru orðnir spenntir að fá að vinna með „Monsieur“ Allen“. Eins og segir er Allen í miklu uppáhaldi hjá Frökkum og birtist hann í auglýsingu frá 2003 sem mið- aði að því að fá Bandaríkjamenn til að heimsækja Frakkland á ný en ferðamannastraumurinn hafði dottið niður vegna Íraksdeilunnar. Í aug- lýsingunni segir Allen: „Ég vil ekki þurfa að kalla frönsku kartöflurnar mínar frelsis-kartöflur og ég vil ekki þurfa að frelsis-kyssa konuna mína þegar ég vil slengja á hana frönskum kossi.“ Það var franska ríkisstjórnin, takk fyrir, sem framleiddi téða aug- lýsingu. Erlendar kvikmyndir Mick Jagger Woody Allen Angelina Jolie Skoðanir eru skiptar um Lars von Trier enfáum blandast þó hugur um að sú gríð-arlega athygli og virðing sem dönskkvikmyndagerð nýtur á alþjóðavettvangi nú um mundir helst í hendur við og hefur stuðst við velgengni leikstjórans. Trier er dálítið eins og loftsteinninn í leikriti Dürrenmatts – óvelkominn gestur sem ekki er hægt að líta fram hjá eða leiða hjá sér. Snillingur sem stundum er óþolandi. Hann hefur umbylt danskri kvikmyndagerð á rót- tækari hátt en nokkur þarlend- ur leikstjóri og segja má að einu skandinavísku módelin sem hægt er að bera hann við séu fé- lagarnir Dryer og Bergman. Það sem einkum hefur vakið athygli und- anfarið, eða frá því að hann gerði Dancer in the Dark, er meint andúð hans á Ameríku. Þessi um- ræðuflötur er einkum áberandi í umfjöllun bandarískra kvikmyndagagnrýnenda. Og kemur það ekki á óvart. Enda þótt fyrst hafi soðið upp úr með Dogville var strax í kjölfar fyrri mynd- arinnar, söngleiksins sem skartaði Björk, byrjað að benda á vanhæfni Triers til að fjalla um Bandaríkin sökum þess að hann hefur aldrei komið þangað (að eigin sögn er hann flug- hræddur). Dogville fékk fína dreifingu í Bandaríkjunum en heldur litla aðsókn, enda þótt hún skartaði sjálfri Nicole Kidman í aðalhlutverki. Hvert sem litið var í orðræðu og umræðu gagnrýnenda mátti greina samhljóm um að Trier hefði hér gefið bandaríska draumnum harkalegan kinnhest. Hann væri ósanngjarn, og vissi ekki um hvað hann fjallaði (aftur, sökum þess að hann hefur ekki ferðast um Bandaríkin). Það kemur mér ekki á óvart að Dogville hafi vakið deilur í Bandaríkjunum, þetta er mynd sem framkallar og krefst umræðna og skoðanaskipta. Ég er hins vegar ósammála því að myndin sé á einhvern hátt sérstaklega and-amerísk. Myndin er and-húmanísk á sama hátt og gamla testa- mentið er and-húmanískur texti, en söguþráð- urinn sem slíkur er alltof afstrakt til að hægt sé að kenna hann við ákveðið þjóðland eða sértæka pólitíska gagnrýni. En ef Dogville var misjafnlega tekið í Banda- ríkjunum má segja að framhaldsmyndin, Man- derlay, slái við fyrri afrekum leikstjórans í því að eignast óvini. Reyndar hafa gagnrýnendur líkt og Roger Ebert, sem voru óvinsamlegir í garð fyrri myndarinnar, verið jákvæðir í garð framhaldsins en yfirgnæfandi meirihluti þeirrar menningar- umfjöllunar sem ég hef séð hefur fordæmt mynd- ina, reynt að stinga í hana eins og um menning- arkýli sé að ræða. Jafnvel þeir sem halda því fram að Trier sem slíkur sé mikilvægur, líkt og gagnrýnandi Rolling Stone, vilja meina að honum sé tekið að förlast. Ég veit ekki hvað skal segja. Manderlay er framúrskarandi mynd. Að því gefnu kemur það mér ekki á óvart að hún hljóti slælegar viðtökur í Bandaríkjunum. Ástæðan er sú að hér hefur Trier augljóslega ákveðið að beita fyrir sér sér- tækri pólitískri orðræðu. Í stað hins sammann- lega er hið sér-bandaríska tekið fyrir í myndinni. Trier hegðar sér dálítið eins og safaríveiðimaður þar sem skotmörkin eru undirstöður hinnar svo- kölluðu pólitísku rétthugsunar í Bandaríkjunum. Hann veltir við steinum og varpar fram spurn- ingum, hann sviðsetur hið ósegjanlega til að framkalla viðbrögð. Trier er vissulega prakkari en það sem skiptir máli er að horfa ekki framhjá kaldhæðninni og sjálfsvitundinni sem einkennir myndir hans. Ef, hins vegar, einhver hætta steðjar að honum, og hér vísa ég líka til handritsins sem hann skrifaði af Dear Wendy, þá er hún sú að verða um of hug- fanginn af því að gagnrýna ameríska heimsveldið og þannig leyfa því að gleypa sig, en segja má að akkúrat þessi veikleiki hafi orðið Godard að falli á áttunda áratugnum. Blikur eru þó á lofti sem benda til þess að sú verði ekki raunin. Næsta mynd Triers fjallar jú um Ísland. Manderlay í Bandaríkjunum ’Trier er vissulega prakk-ari en það sem skiptir máli er að horfa ekki framhjá kaldhæðninni og sjálfsvit- undinni sem einkennir myndir hans.‘ Sjónarhorn Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@ wisc.edu B reski heimildarmyndaleikstjórinn Adam Curtis vakti mikla athygli í fyrra með myndinni Power of Nightmares (Máttur martraða) en þar var leitast við að sýna fram á ákveðna hliðstæðu milli þróunar ofstækisafla í vestri og austri á liðnum áratugum, bókstafstrúarmanna í Mið-Austurlöndum og öfgafrjálshyggju í Bandaríkjunum, og lýsa því hvernig óviljandi sam- sláttur þessara hreyfinga hefur leitt til hryðjuverkaótta samtím- ans. Curtis er afkastamikill kvik- myndagerðarmaður og nú fyrir skemmstu rak annað stórvirki eftir hann á fjörur kvikmynda- áhugamanna, Century of the Self (Öld sjálfsins, 2005), en hér er um fjóra stundarlanga sjónvarps- þætti að ræða sem upphaflega voru sýndir á BBC en hefur verið dreift í kvikmyndahús sem kvik- mynd í tveimur hlutum. Hér er um metnaðarfulla heimildarmynd að ræða sem, líkt og Power of Nightmares, hefur ákveðinn boðskap fram að færa. Viðfangsefnið er kenningar Sigmunds Freud en myndin heldur því fram að hugmyndir hans um dulvitundina hafi á liðinni öld reynst áhrifamiklar í þjóðfélagsstýringu og skoð- anamótun, ekki síst á þeim sviðum sem við kenn- um við auglýsingar og almannatengsl. Frumkvöðullinn sem yfirfærði lykilhugmyndir sálgreiningarinnar yfir á viðskiptasviðið er Edw- ard Bernays, amerískur frændi Freud, en sam- kvæmt myndinni átti hann einnig heiðurinn af því að finna upp sjálft hugtakið „almannatengsl“ á þriðja áratugnum. Bernays var öflugur auglýs- ingamaður og eitt helsta afrek hans er víst það að hafa gert reykingar vinsælar hjá kvenfólki. Hann hóf að auglýsa sígarettur með slagorðinu „frels- iskyndlar“ og tengdi þær við kvenréttindahreyf- inguna með þeim afleiðingum að bannhelgin sem lengi hafði hvílt yfir því að konur reyktu var brot- in á bak aftur, og markhópurinn fyrir vöruna tvö- faldaðist. Fyrsti hluti myndarinnar nefnist „Hamingju- vélar“ (e. „Happiness machines“) en þar er vísað til orða sem Herbert Hoover Bandaríkjaforseti lét falla á fundi með auglýsingaforstjórum fljót- lega eftir að hann tók við embætti. Lauslega þýdd hljóðuðu þau svo: „Þið hafið umbreytt fólki í ham- ingjuvélar sem eru á sífelldri hreyfingu og eru lykillinn að efnahagslegum framförum.“ Þetta reyndust vitanlega orð að sönnu. Annar hlutinn nefnist „Skoðanamótun“ og fjallar um hvernig hugmyndum Bernays vegnaði á eftirstríðsárunum. Þetta var tímabil mikillar velmegunar í Bandaríkjunum og áður óþekktar neysluvörur stóðu almenningi nú til boða. En stundum þurfti aðeins að ýta við neytandanum og þá var auglýsingaiðnaðurinn allur af vilja gerður. Eitt af þeim dæmum sem nefnd eru í myndinni tengist markaðssetningu á tilbúnu kökublöndunni hennar Betty Crocker. Húsmæður tóku upp- haflega frekar illa í vöruna og hún seldist illa. Eitthvað var það við kökuþurrefni úr boxi sem ekki féll þeim nægilega vel í geð. Markaðs- mennirnir vissu í fyrstu ekki hvaðan á þá stóð veðrið en svo kom í ljós að konurnar höfðu sam- viskubit yfir því að baka köku sem þær áttu í raun ekkert í. Lausnin var einföld. Uppskriftinni var breytt þannig að bæta þurfti við einu eggi. Síðan er það væntanlega best eftirlátið sálgreinendum að túlka hegðun húsmóðurinnar sem á þennan máta færir eiginmanninum eggið sitt. Þriðji hlutinn nefnist „Það er lögreglumaður inni í hausnum á okkur öllum: Við verðum að eyða honum“ en þar er sjónum beint að egósálgrein- ingarhreyfingu sjöunda og áttunda áratugarins þar sem menn á borð við William Reich gerðu sjálfshjálp að vinsælli markaðsvöru, en Reich hélt því fram, andstætt Freud, að dulvitundin væri hálfgerð fjársjóðskista jákvæðra hughrifa. Síðasti hlutinn, „Átta einstaklingar dreypa á víni“ fjallar um hvernig hugmyndir sálgreiningarinnar eins og þeim er miðlað í gegnum auglýsingaiðnaðinn hafa haft áhrif á stjórnmál undanfarinna áratuga. Myndin er afskaplega vel unnin og enda þótt hún sé löng tekst Curtis ávallt að gera efnið at- hyglisvert, ekki síst með frábærri heimildaöflun þegar að myndefni kemur, og rökfestan sem ein- kennir stílbrögðin er allt að því aðdáunarverð. Curtis er vel á veg kominn með að festa sig í sessi sem einn athyglisverðasti og frumlegasti heimild- armyndagerðarmaður samtímans. Hann tekst á við mikilvægar spurningar og hefur reynst einkar laginn við að spinna saman þá hugmyndaþræði sem mótuðu öld öfganna. Viðskiptavæðing sjálfsins Heimildamyndin Century of the Self heldur því fram að hugmyndir Sigmunds Freuds um dulvit- undina hafi á liðinni öld reynst áhrifamiklar í þjóðfélagsstýringu og skoðanamótun, ekki síst á þeim sviðum sem við kennum við auglýsingar og almannatengsl. Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson @wisc.edu Sigmund Freud Var hann upphafsmaður að auglýsingabrellum nútímans?

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.