Lesbók Morgunblaðsins - 22.04.2006, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 22.04.2006, Blaðsíða 6
6 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 22. apríl 2006 Tilnefningar til þýðingaverðlauna Íslensku þýðingaverðlaunin verða afhent í annað sinn á morgun, Degi bókarinnar 23. apríl. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun afhenda verðlaunin við athöfn á Gljúfrasteini. Bandalag þýðenda og túlka hefur tilnefnt fimm höfunda til verðlaunanna fyrir markverð þýð- ingarverk. Hér er fjallað um þessar bækur. Suður-afrískar bókmenntir á íslensku eru sjaldséðar og því eru þýðingar Rúnars Helga Vignissonar á verk- um Coetzees sérstakt fagn- aðarefni. Barndómur er fyrri bókin af tveimur þar sem þessi óvenjulegi höf- undur bregður upp svip- myndum úr æsku sinni, en þótt um endurminningar sé að ræða er hér lítið um ein- lægni eða hlýju. Hjá Coetzee er heimur bernsk- unnar fjarrænn og kuldalegur. Sálarlíf aðal- persónunnar og samsömunarvandinn eru þungamiðja sögunnar; hinn ungi Coetzee veit að hann er öðruvísi en aðrir og vill varðveita sérstöðu sína, en er um leið síhræddur við að skera sig úr fjöldanum. Á því skeiði sem Barndómur spann- ar er hann 10–13 ára gamall. Vaknandi kynhvöt og blendin afstaða til foreldranna er meðal þess sem mótar drenginn. Saman við þessa persónu- legu togstreitu blandast svo lýsingar á grimmi- legum raunveruleika Suður-Afríku á eftirstríðs- árunum, þegar aðskilnaðarstefnunni vex fiskur um hrygg. Í Barndómi felst styrkur Coetzees, líkt og víða annars staðar, í skörun hins sálræna og þess pólitíska. Að minnsta kosti tvö vandamál virðast hafa blasað við þegar hugað er að því starfi sem Rún- ar Helgi hefur unnið með þýðingu sinni. Hið fyrra er sá skýri og hlutlægi stíll sem er að- alsmerki frumtextans. Boyhood er sérlega að- gengilegt verk, og einfaldleikann er jafnan erf- itt að færa á milli tungumála án þess að detta niður í flatneskju. Þýðandanum tekst oftast að rata rétta leið, íslenski textinn er grípandi þótt stundum hafi mér þótt hann mega ganga enn lengra í látleysisáttina. Hluta af því má eflaust skýra út frá frásagnaraðferðinni. Sagan er sögð í 3. persónu, aðalpersónan er yfirleitt ekki köll- uð annað en „hann“, og fyrir vikið verður text- inn stundum eilítið þyngri á sér á íslenskunni en frummálinu, flækjurnar stundum meiri eins og í þessum dæmum: „Mest af öllu fer þó lyktin af föður hans í hann“ („Most of all he hates the way his father smells“); „… móðir hans tekur honum vara fyrir að eiga nokkuð saman við bræðurna að sælda“ („… his mother warns him to have no contact with them“). Ekki eru þessi atriði þó svo mörg eða veigamikil að þau stingi í augu. Síðara vandamálið sem hlýtur að fylgja því að þýða Boyhood er sú sjálfsvísunarvídd sem í textanum er fólgin – sjálft tungumálið er við- fangsefni í vissum köflum verksins. Sagan ger- ist vitanlega í landi þar sem tvö tungumál eru töluð, enska og afrikaans. Persónur bókarinnar tala annað þessara mála eða bæði, og samspilið á milli málanna tveggja kemur talsvert við sögu. Enn fremur er það háttur hins innhverfa drengs sem er í aðalhlutverki að finna til skyn- sambands við tungumálið – hann hefur tilfinn- ingalega sýn á orðin og ljær þeim persónuleika eftir hljómi þeirra. Fyrir honum er sérhver stafur gæddur tilteknum áhrifum. Svona ná- kvæm skoðun er auðvitað illþýðanleg, og í stöku tilviki hefur þýðandinn þurft að sigla fram hjá henni: Hvernig tengjast gat-orðin, þessi þungu og dimmu kokhljóð, kynlífi með sínum seiðandi hljóðum?“ („What have the gat-words, so heavy and guttural and black, to do with sex, with its softly inviting s and its mysterious final x?“)_ Þýðing Rúnars Helga Vignissonar á Barn- dómi er jöfn og vönduð, og gædd sterku heild- arsamræmi. Í eftirmála er svo hið sögulega samhengi verksins skýrt í stuttu máli, m.a. með tilvísun til tölvupósta frá Coetzee sjálfum. Að því leyti má jafnvel segja að þessi íslenska gerð sögunnar fari fram úr flestum útgáfum á frum- málinu. Rúnar Helgi Vignisson J.M. Coetzee: Barndómur. Bjartur, 2005. Rúnar Helgi Vignisson þýddi. Eftir Hjalta Snæ Ægisson hsae@hi.is Sterkt heildarsamræmi Í ljóðinu „Dagur fyrirboða“ eftir Stanley Kunitz segir svo, í þýðingu Hallbergs Hallmundssonar: „Bein mín eru heimafólk í hreysi / sem hímir við lágan eld / og bíður eftir óvissu merki þess / að áfram skuli haldið göngunni löngu.“ Og í ljóði sem nefn- ist „Báturinn langi“ má lesa hugleiðingu manns um að fljóta á báti burt frá landi, ástvinum og ýmsum byrðum, „eins og hann vissi ekki / að hann elskaði jörð- ina svo heitt / að hann vildi helst una þar að eilífu“. Eftir höfund þessara lína liggur mikill vitn- isburður um ást hans á jörðinni og nánasta um- hverfi og fólki, og hann á langa göngu að baki, því hann er fæddur árið 1905 og er enn á lífi að því er ég best veit og verður því 101 árs í sumar. Ekki eru nema sex ár síðan hann birti úrval ljóða frá ferli sínum og segir þar í formála: „Ég þreytist aldrei á fuglasöng og himninum og veðrinu.“ Sama ár varð hann lárviðarskáld Bandaríkjanna (2000–2001). Hann öðlaðist ekki viðurkenningu fyrr en eftir fimmtugt en raunar vilja ýmsir meina að bestu ljóð hans séu ort eftir sjötugt. Það er fagnaðarefni að nú skuli út komið úr- val ljóða eftir þetta frábæra bandaríska ljóð- skáld. Hallberg Hallmundsson þýðir og gefur út þetta kver sem nefnist Báturinn langi og fleiri ljóð. Hallberg hefur lengi fengist við þýð- ingar úr íslensku á ensku, en hefur einnig birt frumortan skáldskap og á síðustu 15 árum eða svo hefur hann birt allmörg rit með íslenskum þýðingum sínum á ljóðum ýmissa góðra skálda. Þetta grasrótarstarf hefur hann unnið hávaða- lítið og á eigin spýtur. Sé einhver hættumerki að sjá í íslenskri ljóðagerð, er það helst í fæð þýðinga á síðustu árum, þar á meðal þýðinga á nýlegri ljóðlist úr tungumálum nær og fjær. Slíkt efni er kannski ekki söluvænlegt til skemmri tíma, en gleðilegt er að til séu þeir sem láta markaðslögmálin ekki stöðva sig í viðleitni til að snúa erlendri nútímaljóðlist á íslensku og koma þýðingunum á framfæri. Hallberg þýðir hér 18 ljóð eftir Kunitz og flest eru þau frá síðari hluta ævinnar, þegar hann getur litið um öxl og horft yfir nokkur ævi- skeið og sagt: „Ég hef farið um margar ævir, / sumar þeirra mínar eigin, / og ég er ekki sá sem ég var, / þó að eitthvert lögmál verundarinnar / vari og ég reyni eftir megni / að hvika ekki frá því.“ Svo segir í kunnu ljóði, „The Layers“, eða „Lögin“. Í ljóðunum er leitað til ýmissa skeiða eða „laga“ lífsins; þannig ræða móðir og faðir skáldsins saman í hugskoti þess, þótt faðirinn hafi fyrirfarið sér áður en skáldið fæddist. Og kverinu lýkur með ljóðinu „Snertu mig“ frá 1995, ljóði sem oft hefur verið dásamað og rétti- lega. Þar yrkir Kunitz til konu sinnar og fjöru- tíu ára þeirra saman. Hann undrast lífsmagnið sem oft fer dult en knýr okkur þó áfram – en það berst ekki síst til okkar við snertingu. Snertingar Hallberg Hallmundsson Stanley Kunitz: Báturinn langi. Brú, 2005. Hallberg Hallmundsson þýddi. Eftir Ástráð Eysteinsson astra@hi.is Kertin brenna niður er seið- andi skáldsaga. Hún dregur lesandann inn í heim hinnar horfnu Mið-Evrópu í gegn- um minningar gamals hers- höfðingja. Þessi horfni heimur sem um leið spannar lífshlaup hershöfðingjans líður hjá í lýsingu sem er í senn angurvær og full eft- irsjár í tvennum skilningi: Eftirsjár eftir horfnum heimi og iðrunar yfir því sem ekki verður breytt. Minningar hershöfðingj- ans eru engar venjulegar minningar. Í meira en fjörutíu ár hefur hann beðið þeirrar stundar sem bókin segir frá – heimsóknar gamals vinar síns sem hafði yfirgef- ið hann. Brottför vinarins hafði verið óvænt og skyndileg en átti þó, þegar öllu var á botninn hvolft, sínar augljósu ástæður. Þeim kynnumst við í bókinni í samtali mannanna tveggja sem þó er varla neitt samtal, heldur fyrst og fremst ein- ræður hershöfðingjans. Þriðja aðalpersóna sög- unnar er fjarstödd, löngu látin eiginkona hers- höfðingjans, en leikur þó lykilhlutverk í sambandi mannanna tveggja. Þýðing Hjalta Kristgeirssonar fangar vel hugblæ sem stöðugt kitlar lesandann með óræðum tilvísunum, hálfsögðum hugsunum og hnitmiðuðum mannlýsingum. Frásögn bók- arinnar er annarsvegar lýsing á umhverfi og uppvexti hershöfðingjans og vinar hans, hins- vegar einræður hershöfðingjans. Þær leiða smátt og smátt í ljós hinn ógnvænlega sannleika sem hefur í rauninni stjórnað lífi beggja frá því að leiðir skildi. Texti almennu frásagnarinnar er þó betur heppnaður en einræður hershöfðingj- ans. Hin stífa formfesta sem greinilega kemur fram máli hans verður ofurlítið óeðlileg á ís- lenskunni, en hún kann að vera það á öðrum tungumálum líka. Hershöfðinginn er opinn, hreinskiptinn karl- maður sem fetar braut herþjónustu og her- mennsku vegna þess að það er honum nátt- úrlegt. Vinurinn aftur á móti er dulur, fíngerður og listrænn maður sem hefur gengið í herskóla og sinnt herþjónustu framan af ævi vegna þess að honum var þröngvað til þess. Hershöfðing- inn lifir á yngri árum hinu dæmigerða lífi auð- mannssonarins, vinurinn þolir fátækt sem krefst þess að hafna stöðugt þeim lífsstíl sem honum stendur þó til boða vegna náinnar vin- áttu þeirra tveggja. Þegar upp er staðið hafa vinirnir tveir, þrátt fyrir að eyða næstum öllum stundum saman, lif- að í ólíkum heimum. Allt þetta hefur hershöfð- inginn haft drjúgan tíma til að hugleiða og öðl- ast vissan skilning á. Öll sagan er mjög nákvæmlega tímasett og árin 40 eru um leið fyrstu 40 ár síðustu aldar. Bókin er skrifuð á ná- kvæmlega sama tíma og hin þekkta sjálfs- ævisaga Stefans Zweig, Veröld sem var, og hún sprettur úr svipuðum jarðvegi: Ógnarinnar gagnvart ragnarökum heimsstyrjaldarinnar síðari og eftirsjárinnar eftir þeim heimi sem heimsstyrjöldin fyrri lagði í rúst. Hjalti Kristgeirsson Eftir Jón Ólafsson jonolafs@bifrost.is Blik af horfnum heimi Sándor Márai: Kertin brenna niður. Mál og menning, 2005. Hjalti Kristgeirsson þýddi. Ætli chileska skáldið Pablo Neruda sé ekki best kynnta erlenda skáldið á íslenskum bókamarkaði undanfarinn áratug, ég man alla vega ekki eftir öðru erlendu ljóð- skáldi með þrjár bækur hjá þremur forlögum í með- förum þriggja þýðenda. Þessi skyndilegi fram- gangur Pablo gamla væri nánast óskiljanlegur nema af því að hin atorkusama Guðrún H. Tulinius kemur að tveimur þessara bóka: hún sá um orð- rétta neðanmálsþýðingu í tví- tyngdri útgáfu á Tuttugu ljóð um ást og einn örvæntingarsöng sem Karl Guðmundsson þýddi á bundið mál í megintexta og nú er hún ein síns liðs í tvítyngdri útgáfu á ljóðaflokk- inum Hæðir Machu Picchu sem tilnefnd er til Íslensku þýðingarverðlaunanna í ár. Bókin er glæsileg í öllum frágangi, fallega hönnuð af Snæfríði Þorsteins, með myndum eftir tvo myndlistarmenn, Rebekku Rán Sam- per og Antonio Hervás Amezcua, pappírinn fal- legur og það loftar vel um ljóðin. Það hefur aldrei skipt meira máli en nú að bók sé fallegur gripur og hér er farið alla leið, bókinni fylgir meira að segja DVD-diskur með kvikmynd um ferðalag þýðandans til inkaborgarinnar fornu, Machu Picchu, sömu leið og Pablo Neruda fór árið 1943, liðlega fertugur að aldri. Og svo er formáli skrifaður af sjálfri Isabel Allende. Þótt Hæðir Machu Picchu hafi áður verið gefið út sér á bók er flokkurinn í raun hluti af stærra verki, hann er annar kafli stórvirkisins Allsherjarsöngur (Canto General) sem Pablo Neruda orti að stórum hluta á fjórtán mánaða tímabili, frá ársbyrjun 1949, í felum og á stöð- ugum flótta undan ofsóknum yfirvalda sem í stjórnmálaumróti þess tíma ætluðu að ákæra hann fyrir drottinsvik. Hann vann í fyrsta sinn á ævinni sex til átta tíma á dag við að yrkja og kom köflunum jafnóðum í hendur vina sinna til afritunar og til að frumritið bjargaðist ef illa færi. Neruda hafði þess vegna enga yfirsýn yfir það hve tröllaukin bókin var að vöxtum fyrr en nokkrum dögum áður en hann flúði frá Chile. Hæðir Machu Picchu er ort nokkrum árum áð- ur en þetta var og ljóðaflokkurinn, eða sú upp- lifun sem liggur honum til grundvallar, er kannski einn hornsteinn þessa mikla verks sem hann hófst handa við upp úr 1940, þá sem ljóða- bálk um Chile, en lauk við sem allsherjarsöng heillar álfu: verkið fjallar um landslag, náttúru, gróður, sögu, mannlíf og hversdagsleika Róm- önsku Ameríku, og um stórmenni og smámenni úr fortíð og samtíma. Um allt þetta yrkir skáld- ið persónulega og hikar ekki við að gera sjálfan sig og ævi sína að hluta af heildarmyndinni. Þannig sýnir Hæðir Machu Picchu yfirgefna steinborg inkanna sem uppsprettu andlegrar uppljómunar sem setur hina nýju Ameríkusýn Neruda í samhengi við fyrri verk hans, sem höfðu þróast að myrku, kröftugu ljóðmáli og nístandi bölsýni. Í þeirri deiglu mótaðist Neruda sem skáld en hristi síðan af sér þá inn- hverfu lífssýn sem hann hafði spunnið utan um sig af miklu listfengi og opnaði þess í stað faðm- inn fyrir voninni, sem í hans tilfelli tók á sig mynd kommúnismans, og heiminum, sem hann tók að lofsyngja, yrkja upp á nýtt. Þetta ferli endurspeglast í Hæðum Machu Picchu, ferða- lagið upp í fjöllin til hinnar yfirgefnu borgar er um leið ferðalag skáldsins frá sjálfhverfri ein- angrun nútímalegs dauðalífs: í Machu Picchu, mannlausri borg hinna dauðu, sér hann sigur andans yfir efninu eða mannsins yfir dauð- anum, stóra dauðanum sem smækkar hann ekki. Það er alltaf sérkennileg reynsla að lesa tví- tyngdar útgáfur ef maður þykist skilja bæði mál frumtexta og þýðingar. Hér mætir þungur dáleiðandi hvinurinn í lýrísku mælskuflæði Neruda mjóróma, skrykkjóttari rödd þýðing- arinnar sem leyfir sér ekki að láta merkinguna sökkva í löðrandi flaum hljómsins: öllu er haldið til skila, allt þarf að leysa og textarnir tveir syngja ómstríðan tvísöng í tvennum skilningi tungumáls og nálgunar, lýsa hvor annan upp. Hæðir Machu Picchu er ekki einfalt kvæði og alls ekki auðvelt að þýða það. Hafi Guðrún H. Tulinius þökk fyrir að færa okkur kvæðið á ís- lensku í þessum glæsilega búningi. Tvísöngur um steinborg Guðrún H. Tulinius Pablo Neruda: Hæðir Machu Picchu. Prox- ima, 2005. Guðrún H. Tulinius þýddi. Eftir Jón Hall Stefánsson jon_hallur- @yahoo.com Þegar við sem lesendur og áhorfendur í vestrænum samfélögum leggjum okkur aftur í sófann og heyrum fréttir af stríðshrjáðu landi vantar eflaust oftar en ekki uppá raunveruleikateng- ingu við það líf og þá menningu sem um ræðir. Okkar eigin mennska á það jafnvel til að hverfa vegna fjarlægðar og þátttöku- leysis. Skáldskapurinn er mögulegur miðill til nálægðar líkt og Flugdreka- hlauparinn eftir Khaled Hos- seini sýnir. Amir, söguhetja skáldsögunnar, rekur upp- vöxt sinn og lífssögu sem þráð í pólitískri harmsögu hinnar afgönsku þjóðar yfir meira en þrjátíu ár af valdníðslu og stjórnarfarslegri kúgun. Amir elst upp í Wazir Akbar Khan í norð- urhluta Kabúl í Afganistan. Hann segir per- sónulega sögu sína frá fæðingu 1963 þegar enn ríkti friður í Afganistan, fyrir tíma stjórnarbyltinga, á borð við innrás Sovét- manna í apríl 1978, sem markaði upphaf harmleiks hinnar afgönsku þjóðar, og allt til valdníðslu talíbana. Saga Amirs fjallar um sammannlega þætti, um það að vera mann- eskja í ójöfnum og grimmum heimi þar sem illskan er raunverulegt afl og mikilvægi ástar og fyrirgefningar verður að aðalatriði. Amir og Hassan eru vinir frá fæðingu, allt þar til hræðilegur atburður í lífi þeirra beggja sundrar þeim. Sögu þeirra er þó ekki lokið og Amir flæmist ásamt baba – föður sínum frá Afganistan til Bandaríkjanna og hefur þar líf innflytjandans. Fortíðin er þó ávallt ljóslif- andi í huga Amirs og í seinni hluta sögunnar fer hann aftur á heimaslóðir að hitta fyrir upphaf sögu sinnar og sannleika örlaganna – en ekki borgar sig að ljóstra of miklu upp um framvinduna. Frásögnin er blátt áfram og einlæg, sem gefur lesanda merki um að vakna úr sínu vestræna roti. Höfundur notar persónulega reynslu í bland við skáldskap sem og sögu- legar skýringar þar sem persneskan verður leiðarminni inn í hulinn afganskan heim. Anna María Hilmarsdóttir þýðir Flug- drekahlauparann úr ensku, sem er frum- málið, yfir á mjög skýra og flæðandi íslensku. Hér mætti því tala um tvöfalda þýðingu þar sem höfundur jafnt sem þýðandi lýsa upp ástand menningarheims út frá sammann- legum tilfinningum, þar sem þörf er á skiln- ingi og bakhshesh – fyrirgefningu. Þessi ep- íska stórsaga er víðfeðm en frásagnarformið þó nokkuð formúlukennt og melódramatískt á köflum. Þrátt fyrir slíkar tiktúrur eru skrifin sláandi mikilvæg og efniviðurinn sterkur þráður sem birtir lifandi sýn inn í þann menn- ingarheim sem fréttir fjölmiðlanna geta ekki veitt okkur nema að litlu leyti. Þörf á fyrirgefn- ingu – bakhshesh Khaled Hosseini: Flugdrekahlauparinn. JPV- útgáfa, 2005. Anna María Hilmarsdóttir þýddi. Eftir Soffíu Bjarnadóttur matarsodi- @hotmail.com Anna María Hilmarsdóttir

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.