Lesbók Morgunblaðsins - 22.04.2006, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 22.04.2006, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 22. apríl 2006 Það gisti óður minn eyðiskóg er ófætt vor bjó í kvistum … unz óskakraftur minn endurrís úr ösku ljóðs míns og hjarta … G ott skáld getur orðið rödd þjóð- ar, rödd gleði og sorgar, sam- viskubits og vonar, rödd hins fagra og góða „sem er eitt og hið sama“ eins og Snorri komst að orði er hann tók við bók- menntaverðlaunum Norðurlandaráðs 1981. Ekkert íslenskt skáld hóf feril sinn jafn- glæsilega og hann með upphafsljóðinu Í Úlf- dölum í fyrstu ljóðabókinni Kvæðum á lýðveldisárinu 1944 er hann mælti þá þegar röddu þjóðar sinnar og rakti með nátt- úrutáknum líf og tilveru hennar að hinu ný- fengna lýðveldi „og sólin gistir / mig aftur“. Hann hafði beðið lengi. Það er næsta óvenjulegt að ljóðskáld birti sína fyrstu ljóða- bók 38 ára gamalt. En þegar hún kom var Snorri orðinn fullþroska skáld, og meira en svo. Þótt ekki hafi allir skilið það þá, sýnir bók- in þvílíkt afburða vald á ljóðformi, að hvergi verður að fundið, ekki í einni einustu hend- ingu. Snorri var listmálari, lærði að mála á lér- eft í Noregi og skrifaði skáldsögu um listmál- ara á norsku, Höit flyver ravnen 1934, en málaði síðan ljóðmyndir af meiri hind en aðrir menn, svo að notað sé orðfæri hans sjálfs. Hann átti sitt draumaland er hann lýsir af ein- stakri innlifun: Flughamrabratt og rökkurdimmurautt rís það úr breiðum öldum laufgrænna hæða, löðri hvítra blóma og lágum móagárum. Þú ferð stillt og hljótt þinn gróna veg um djúpsins myldnu dul að dyrum læstra heima og sökkvir bæn í fjallsins hljómahyl: Heilögu vættir, takið mig í sátt. (Það kallar þrá) – erindi sem álóðir ráðamenn mættu fara með daglega til að reyna að skilja! Í þessu felst að náttúruljóð Snorra eru nær alltaf annað og meira. Í þeim býr táknrænn máttur og sú kennd, sem sumir kalla náttúrumystík, að lífið sé ein heild, að maðurinn sé hluti náttúrunnar um leið og náttúran er hluti hans, – og að að- skilnaður felur í sér lífsfirringu, villigötur hé- gómlegrar eignagræðgi. Þótt Snorri væri ekki mjög pólitískur í þröngum skilningi þess orðs, fann hann til sárra vonbrigða í næstu bók, Á Gnitaheiði 1952, og átti herstöðvasamningurinn þar drýgstan þátt. Um það bera vitni ljóð eins og Þar skal dagurinn rísa, Í garðinum, Var þá kallað, Til Kristins og Naust náins, en þó eink- um ljóðið Marz 1949, er seinna fékk heitið Land þjóð og tunga. Þar birtist hjá honum „þrenning sönn og ein“ sem má ef til vill í raun kalla einkunnarorð Snorra Hjartarsonar. Í þeim kemur fram sá skilningur, að við, Íslend- ingar, séum afkomendur þessarar þrenningar og samofnir henni í öllum skilningi. Við erum mótuð af landinu, vegferð þjóðarinnar í nátt- úru þess, og tungunnar er geymir huga okkar, minningar, vonir og vonbrigði. Snorra er þessi þrenning heilög: Þú átt mig, ég er aðeins til í þér. Örlagastundin nálgast grimm og köld; hiki ég þá og bregðist bý ég mér bann þitt og útlegð fram á hinzta kvöld. Ísland, í lyftum heitum höndum ver ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld. (Land þjóð og tunga) Nafnbreytingin er til þess fallin að gefa ljóð- inu víðari skírskotun en til atburðanna í mars 1949, og enn í dag er hvatningin jafngild. Hver sá sem ann lífsgildum hlýtur að kvíða afleið- ingum af þeirri trylltu lífsþægindafrekju and- artaksins sem virðist móta viðhorf mikils hluta þjóðarinnar um þessar mundir. Hið litskrúðuga myndmál með glitrandi lita- orðum, sem einkennir fyrstu bók Snorra og gat stundum fengið á sig blæ mælskuþunga í lengri ljóðunum, vék síðan hægt og bítandi fyrir beinskeyttara orðfæri, og allar götur síð- an stefndi hann að æ einfaldara ljóðmáli á ytra borði, en um leið dýpri og víðfeðmari hugsun. Það er galdur sem er á fárra valdi, og mætti kannski líkja við lygnan, tæran og djúpan hyl, svo djúpan að tæpast sést til botns. Ljósið snýr baki við litum fjallsins, líf dagsins seytlar milli steina, hverfur mjúklátt til myrkurs og þagnar í mold djúpt undir hrjúfu grjóti. (Í náttstað) Síðari bækurnar tvær, Lauf og stjörnur 1966 og Hauströkkrið yfir mér 1979, mega að þessu leyti heita samstæðar, þótt Snorri gangi enn lengra til einfaldleika í þeirri síðari, og mér finnst að þar rísi ljóðlist hans hæst. Allt stefnir með einhverjum hætti í átt til kyrrðar, þagnar, sáttar. Nú eru aðeins 39 litarorð í allri bókinni, hvítur, grænn, rauður, grár, blár. Einkennandi eru lýsandi orð eins og kyrr, hægur, þýður, lygn, rór. Beinar myndir eru ráðandi og myndhverfingar, líkingar horfnar, orðaval hnitmiðað, vísunum fækkar, yrk- isefnin verða nákvæmari og innhverfari, en skilja jafnframt meira eftir handa lesanda að ráða í. Eins og heiti bókarinnar bendir til, er haustið fyrirferðarmikið yrkisefni, líkt og maður sé að kveðja. Síðasta ljóð bókarinnar er skýrt dæmi um þetta: Lauffallið ristir rauðar rúnir í þokuna hljóð orð leita hvíldar angist og ást leita einskis og alls hjá þér móðir eiíf og söm hvert lauf hvert ljóð (Lauffall) Í þessu æviverki er undarleg og aðdáun- arverð og einhvern veginn örugg vissa skálds sem hefur fundið sátt og innri frið og gengur því fullur trúnaðartrausts þá vegferð sem hon- um er búin: Langt af fjöllum hríslast lækirnir og laða þig margir til fylgdar. En vegurinn er einn, vegurinn velur þig, hvert spor þitt er stigið. Og frá upphafi allra vega fór enginn þá leið nema þú. (Langt af fjöllum) Þannig rætast þessi orð: Hver vegur að heiman er vegur heim. (Ferð) Vegur heim Snorri Hjartarson 100 ára 22. apríl 2006 Höfundur er prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum og rithöfundur. Eftir Njörð P. Njarðvík npn@vortex.is Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Snorri Hjartarson „Í þessu æviverki er undarleg og aðdáunarverð og einhvern veginn örugg vissa skálds sem hefur fundið sátt og innri frið og geng- ur því fullur trúnaðartrausts þá vegferð sem hon- um er búin.“ F. 22.4.1906 á Hvanneyri. Flensborg- arskóli og MR, listnám í Kaupmanna- höfn 1930 og Ósló 1931–32. Bókavörður við Bæjarbókasafnið í Reykjavík 1939– 43 og yfirbókavörður 1943–66. Ljóðabækur: Kvæði (1944); Á Gnitaheiði (1952); Lauf og stjörnur (1966); Haust- rökkrið yfir mér (1979); lét eftir sig 26 ljóð sem birtust í Kvæðasafni 1992. Snorri hlaut bókmenntaverðlaun Norð- urlandaráðs 1981. Heiðursdoktor við heimspekideild HÍ 1986. Hann lést í Reykjavík 27.12.1986. Snorri Hjartarson

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.