Lesbók Morgunblaðsins - 22.04.2006, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 22.04.2006, Blaðsíða 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 22. apríl 2006 | 7 „Góð blaðaljósmynd dylur ekki erindi sitt. Hún fangar augað undireins og segir okkur söguna svo að hún blasir við okkur áður en við flettum. Hún segir okkur það sem ekki verður fært í orð, lætur okkur sjá hverja sögu eins og hún gengur – áður en hún er seld undir lögmál tungumálsins.“ Guðmundur Andri Thorsson í formála bókarinnar Andlit norð- ursins. Í síðustu Lesbók birtist opnugrein eftir Önnu Björk Ein- arsdóttur nema í bókmenntafræði við Háskóla Íslands þar sem hún veltir fyrir sér notkun ljósmynda og myndatexta í bókinni Fiskisagan flýgur, sem út kom í september 2005, með skírskotun til notkunar ljós- mynda í sagnfræðiritum og afstöðu sagnfræðinga til ljósmynda. Höfundur ljósmyndanna í bókinni er Kristinn Bene- diktsson ljósmyndari og undirritaður er höfundur textans. Greinin er að sumu leyti áhugavert innlegg í þarfa umræðu en hefur þó þann mikla annmarka að gengið er út frá því að Fiskisagan sé fræðirit (samanber undirtitil greinarinnar) og vísar höfundur til þess að hún sé „auglýst sem sagnfræðirit, ekki ljósmyndabók“. Ekki er vísað beint til slíkra auglýsinga og sjálfur kannast ég ekki við þær, og reyndar ekki útgefandinn heldur! Skilgreiningaþras getur verið þreytandi en ég má til með að benda á að ég hef aldrei talað um bókina sem sagnfræðirit, reyndar ekki ljósmyndabók heldur, að minnsta kosti ekki í al- mennum skilningi þessara orða. Ég fullyrði að það sama á við um útgefandann. Fiskisagan er einfaldlega bók um íslenska útgerð og fiskvinnslu á árunum 1976–1979 – bók með sagnfræðilegu ívafi þar sem ljósmyndirnar eru í öndvegi. Þetta var útgangs- punkturinn í upphafi samstarfs okkar höfundanna og að mínu áliti varð útkoman eftir því. Með tilliti til flokkunar íslenskra bóka er Fiskisagan ekki hreinræktuð, frekar en margar bækur, og því hlýtur að vera álitamál í hvaða flokki hún lendir, vilji fólk eða þurfi að flokka hana. En að kryfja hana til mergjar sem sagnfræðirit er í meira lagi hæpið. Í Bókatíðindum 2005 er Fiskisagan skilgreind sem „Fræði og bækur almenns efnis“ en hvorki sem „Listir og ljós- myndir“ né „Saga, ættfræði og héraðslýsingar“. Fyrst nefndi flokkurinn er eins og gefur að skilja mjög breiður og þar er m.a. að finna sagnfræðiverk en þau má einnig sjá í síðast nefnda flokknum. Það sem mestu máli skiptir í þessu sambandi er að Fiskisagan byggist ekki á sagnfræðilegri rannsókn (þótt aðferða- fræðin sé að hluta til sagnfræðileg) og í henni eru ekki kynntar til sögunnar nýjar niðurstöður í þeim fræðum, enda leikurinn ekki til þess gerður. Bókin varpar þó vonandi trúverðugu ljósi á ís- lenskan sjávarútveg á því tímabili sem hún nær til en ég eftirlæt öðrum að skeggræða hvort myndirnar gefi „sanna“ mynd, hvort þær séu íkonar, fortíðardraumar eða eitthvað annað. Reyndar hef ég fengið sterk viðbrögð frá fólki sem starfaði til sjós og í fisk- vinnslu á áttunda áratugnum í þá veru að í myndunum sé þessi vettvangur ljóslifandi kominn. Um áhrif myndanna á þá sem ekki búa yfir slíkri reynslu skal ég ekki dæma en það er alþekkt að reynsla fólks skiptir miklu máli í því hvernig það upplifir myndir. Anna Björk getur þess réttilega að ljósmyndirnar í Fiskisög- unni gegni „hlutverki sjónarvotts“, að þær séu „notaðar til þess að draga upp ákveðna mynd af íslenskum sjávarútvegi, sýna hann en ekki túlka“. Að sömu niðurstöðu komst Ragna Sigurð- ardóttir myndlistargagnrýnandi Morgunblaðsins í umfjöllun sinni um sýningu á ljósmyndum Kristins sem sett var upp á Mið- bakkanum í Reykjavík í fyrrasumar. Sýningin bar sama titil og bókin enda sett upp í þeim tilgangi að kynna væntanlega bók. „Gildi ljósmyndanna er fyrst og fremst af heimildarlegum toga, til minningar um liðinn tíma sem full ástæða er til að varðveita,“ skrifar Ragna. Skömmu áður hafði ég þetta að segja um sýn- inguna í samtali við blaðið Miðborgin: „Heimildagildið er mikið, myndirnar eru vel teknar og voru gagngert gerðar til að upplýsa um störf sjómanna og fiskvinnslufólks.“ Þetta eru blaða- ljósmyndir að upplagi (eins og fram kemur í inngangskafla bók- arinnar) og þær voru teknar til að veita innsýn í atvinnugrein, þótt inni á milli leynist listrænar myndir. Heimildargildi myndanna er Einari Fali Ingólfssyni ljósmynd- ara og bókmenntafræðingi einnig efst í huga í ritdómi sínum um Fiskisöguna í Morgunblaðinu 20. desember síðastliðinn: „Þær eru stórmerkileg heimild um sjómennsku og fiskverkun, og margar þeirra eru gríðarlega góðar. Við skoðun myndanna kem- ur franski ljósmyndarinn Jean Gaumy strax upp í hugann, en hann hefur á liðnum árum tekið mikið af myndum af sjómönnum í svarthvítu og gefið út á bókum. Bestu myndir Kristins eru alls ekki síðri en myndir Gaumys.“ Í annars jákvæðum ritdómi sínum finnur Einar Falur að myndatextaleysinu og á sú gagnrýni vissulega rétt á sér. „Ég sakna þess að vita ekki á hvaða fólk ég er að horfa, hvaða tækjum það beitir, hvað það er að gera“, skrifar Einar Falur. Nú vill svo til að tveimur mánuðum fyrir útkomu Fiskisögunnar keypti ég bók Gaumys, Men at Sea sem er dimm, hrá og frumleg, eins kon- ar óður til sjómanna á síðutogurum undir lok 20. aldar. Í henni er sáralítill texti (fyrst og fremst dagbókarbrot Gaumys úr ljós- myndaleiðöngrum hans) og alls enginn myndatexti! Ákvörðunin um að hafa enga myndatexta í Fiskisögunni var þó ekki tekin upp eftir bók Gaumys, enda um gjörólíkar bækur að ræða. Þegar ég hafði lesið ritdóm Einars Fals sendi ég félaga mín- um, áhugamanni um ljósmyndun, tölvupóst þar sem ég segi að ákvörðunin um að hafa enga myndatexta í Fiskisögunni hafi m.a. byggst á því „að myndirnar fengju að njóta sín og tala sínu máli“. Þetta er ekki ný afstaða, hvorki meðal sagnfræðinga né annarra fræðimanna, þótt myndatextar séu að vísu yfirleitt til staðar. Að Fiskisögunni frátalinni hef ég samið myndatexta við allar myndir í greinum mínum og bókum, m.a. hundruð ljósmynda sem birtust í Sögu Hafnar í Hornafirði sem út kom árin 1997 og 2000. Og al- veg nýlega samdi ég myndatexta við fjölda ljósmynda sem ég safnaði í væntanlegt fræðirit á sviði sjávarútvegs. Í þessum verk- um hef ég lagt áherslu á að myndatextarnir (ásamt myndunum) bættu einhverju við megintextann. Það er því hæpið að draga miklar ályktanir af Fiskisögunni einni saman um afstöðu mína til notkunar ljósmynda, ekki frekar en um afstöðu sagnfræðinga al- mennt. Anna Björk vekur athygli á að textinn í Fiskisögunni vísi „aldrei í myndirnar sem slíkar“ og því virðist „sagnfræðing- urinn … horfa framhjá þeim“. Viðhorf mitt til myndanna sé „óttablandið“ og að þeim sé „sjaldan leyft að tala sínu máli“. Þessu vísa ég á bug enda grandskoðaði ég myndirnar, bæði með Kristni og án hans, og tók afstöðu til þeirra. Þvert á móti veittu ljósmyndirnar mér innsýn í viðfangsefnið ekki síður en texti hans. Tengsl textans og myndanna þar sem segir frá sjóróðrum Kristins og heimsóknum hans í fiskvinnslustöðvar er svo sterk og augljós að lesandi með meðvitund kemst tæplega hjá því að skynja þau. Þar með er ég samt ekki að segja að myndatextar hefðu ekki átt rétt á sér. Í öðrum köflum bókarinnar eru tengslin óljósari og vissulega hefðu vandaðir myndatextar ekki spillt fyrir og jafnvel verið til bóta. En það kom aldrei til umræðu að grafast fyrir um óþekkta einstaklinga, þ.m.t. Sjómanninn og Ingibjörgu S, eða að leggja sérstaka áherslu á túlkun myndanna. Í grein sinni vitnar Anna Björk m.a. til MA-ritgerðar Guð- brands Benediktssonar um ljósmyndir og sagnfræði. Við samn- ingu hennar tók Guðbrandur viðtöl við allnokkra sagnfræðinga, þ.á m. mig. Í ritgerðinni segir m.a. að ekki sé „óalgengt að sagn- fræðingar er vinna að byggðasöguritun skrifi nokkuð út frá ljós- myndum. Arnþór Gunnarsson segir að þessi aðferð hafi gagnast honum vel og að frásögn heimildarmanna verði oft á tíðum mark- vissari og betri þegar þeir hafi ljósmyndir til að styðjast við“. Þetta er dæmi um hvernig ég hef notað ljósmyndir, nánar tiltekið sem glugga að fortíðinni en framhjá því virðist Anna Björk hafa horft þegar hún las ritgerðina.  Heimildir Bókatíðindi 2005, Reykjavík 2005. Einar Falur Ingólfsson, „Merkileg heimild um sjómannslíf“, Morgunblaðið 20. des. 2005, B, bls. 7. Gaumy, Jean, Men at sea, New York 2002. Guðbrandur Benediktsson, Vitnað til fortíðar. Ljósmyndir í sagnfræði sem heimildir til rannsókna og tæki til miðlunar, óprentuð MA-ritgerð í sagnfræði, Háskóli Íslands, 2003. Guðmundur Andri Thorsson, „Að gera langa sögu stutta“, Andlit norðursins, Reykja- vík 2004, bls. 6–7. Ragna Sigurðardóttir, „Sögur frá síðustu öld“, Morgublaðið 20. júlí 2005, bls. 33. „Svarthvítar hetjur hafsins og fiskvinnslufólk“, Miðborgin 1. júlí 2005, bls. 8. Tölvupóstur: Arnþór Gunnarsson til ónefnds viðtakanda, 20. des. 2005. Myndatextaleysi Meira um Fiskisöguna fljúgandi Í síðustu Lesbók birtist grein um bókina Fiskisagan flýgur þar sem einkum var fjallað um samspil mynda og myndatexta í ritinu. Höfundur texta bókarinnar svarar hér aðfinnslunum. Eftir Arnþór Gunnarsson agunnarsson @simnet.is Ljósmynd/Kristinn Benediktsson Stefán Halldórsson kokkur hrærir í potti Þetta er dæmi um mynda- texta sem bætir engu við myndina að því gefnu að lesandinn viti nafn mannsins, en slík myndatextagerð er merkilega algeng í myndskreyttum greinum og bókum. Höfundur er sagnfræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.