Lesbók Morgunblaðsins - 02.09.2006, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 2. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
!
Morguninn eftir að ég gisti í
fyrsta sinn í nýrri íbúð í miðbæ
Reykjavíkur lýstu fyrirsagnir
dagblaða því yfir að tugþús-
undir hefðu misst heimili sín í
Líbanon. Hálfum öðrum mánuði
fyrr hafði ég kvatt vini eftir vet-
ursetu í Amsterdam. Þeirra á
meðal var líbanskur bekkjarfélagi minn.
Ég var að flytja í nýja íbúð og ljúka við
lokaritgerðina mína, hann var að gera sér
stutta ferð heim til Beirút en stefndi svo
á að snúa aftur til Amsterdam til að hefja
doktorsnám í kvikmyndafræði.
Þegar ég frétti fyrst af sprengjuárás-
unum á Beirút gripu þær mig á annan
hátt en þær stríðsfréttir sem ég hef áður
lesið. Ég þykist vera upplýstur ofbeldis-
andstæðingur, gekk í Amnesty Int-
ernational og mæti á hernaðarmótmæli,
hef reynt að fylgjast með gangi heims-
mála og bölvað og grátið yfir ástandi
heimsins. En aldrei fyrr hafði ég upplifað
að eiga vin sem býr í sjálfri hringiðunni.
Hugur minn leitaði strax til hans og með
hverri frétt sem birtist, eftir því sem
eyðileggingin jókst og heilu hverfin og
þorpin voru jöfnuð við jörðu, varð mér æ
oftar hugsað til vinar míns; hvernig
heimsmyndin hlyti að hafa breyst og
hvernig það væri að fylgjast með landinu
sínu hverfa.
Síðan frétti ég af því að hann hafði sett
í gang bloggsíðu þar sem hann skrifaði
reglulega um upplifanir sínar og fram-
gang stríðsins. Ég settist niður og las
hverja færsluna á fætur annarri og fékk
svör við ýmsum vangaveltum. Hann býr
á frekar öruggum stað og fjölskylda hans
var heil á húfi. Frá fyrstu hendi lýsir
hann því hvernig er að búa við stríðsátök:
„Það er ekki stöðugt óttaástand heldur
undirliggjandi stress, spenna sem nær
ekki að umbreytast í ótta. Maður reynir
að lifa sínu daglega lífi, jafnvel þótt lífinu
hafi verið seinkað um óráðinn tíma – eins
og við segjum, allir dagar eru eins og
sunnudagar.“
Eftir því sem lengra er lesið verður
vonleysið og kaldhæðnin sterkari. Hann
skrifar um uppbyggingu síðustu ára sem
hefur verið sprengd í burtu. Þegar búið
er að ferja alla erlenda ríkisborgara burt
er enginn eftir sem ekki má drepa – að-
eins arabar. Hann hefur enga trú á Sam-
einuðu þjóðunum. Hann hefur enga trú á
mannréttindum. Arabar eru ekki mann-
eskjur í augum heimsins. Hann skrifar
um hliðar sem heyrast ekki í fréttum
Vesturlanda og veltir upp efasemd-
arhugmyndum um notkun hugtaka á
borð við hryðjuverk, lýðræði og mann-
réttindi.
Ég hef aldrei fyrr dvalið erlendis nógu
lengi til að kynnast fólki líkt og í vetur og
ég er þakklátur að hafa getað teygt vit-
und mína til fleiri landa. Vissulega er fá-
ránlegt að til þess þurfi að koma – ég þarf
ekki að þekkja neinn persónulega til að
finna til með þeim eða hafa skoðun á mál-
efnum annarra heimshorna. Á tímum
heimsþorpsins og veraldarvefjarins get-
ur sjónrænt áreiti hins vegar valdið því
að við sljóvgumst frammi fyrir frétta-
myndum af stríði og ofbeldi. Þá getur
hjálpað að upplifa persónulega tengingu
við atburðinn. Ég mun alltaf reyna að
hugsa aftur til þess þegar ég las fyrstu
fréttirnar af eyðileggingunni í Beirút og
muna eftir þeirri tilfinningu að þekkja
einhvern sem býr þar í blokk, óviss um
afdrif hans og fjölda annarra. Ég vil ekki
gleyma því. Ég vil læra af þessari reynslu
og halda tilfinningasambandi við um-
heiminn eftir bestu getu.
Á meðan ég sit í nýju íbúðinni og rita
þennan pistil er hann enn að skrifa um
ástandið í heimalandinu og hefur birt
fjölda ljósmynda auk greina úr öðrum
fjölmiðlum á síðunni sinni. Ég fylgist
áfram með úr fjarska og reyni að halda
umræðunni um Líbanon lifandi með því
að birta vefslóð félaga míns hér: the-
worldismyidea.blogspot.com.
Höfundur er kvikmyndafræðingur.
Bloggað
í Líbanon
Eftir Gunnar Theodór Eggertsson
gunnaregg@gmail.com Eins og allir þeir sem fletta blöðum ogtímaritum vita verða frásagnir afsorgum og sigrum frægs fólks þarsífellt fyrirferðarmeiri. Í þeim efn-
um þurfa atvik ekki að teljast stórtíðindi til að
rata í heimsfréttirnar og þar af leiðandi virðist
hægt að skrifa endalaust um þennan mála-
flokk. Í Bandaríkjunum eru nú gefin út að
minnsta kosti tólf tímarit á landsvísu sem fjalla
um frægt fólk. Mörg þessara blaða hafa verið
sett á fót nýlega í ljósi þess að sala á svoköll-
uðum „celebrity magazines“ hefur aukist mik-
ið á undanförnum misserum á meðan sala á
öðrum tegundum tímarita hefur almennt dal-
að. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs minnkaði
lausasala á tímaritum í Bandaríkjunum um 4%
á heildina litið miðað við sama tímabil í fyrra,
en sala á tímaritum sem fjalla um frægt fólk
jókst hins vegar talsvert. Til dæmis jókst sala
á US magazine, einu vinsælasta blaði þessarar
tegundar, um 7,2% á tímabilinu og hafði áður
aukist um 12,7% á seinni hluta síðasta árs.
Þegar litið er til þess að bæði framboð af og
eftirspurn eftir fréttum af frægu fólki hefur
aukist og fer enn vaxandi er ekki svo auðvelt
að segja til um hvort kemur á undan, eggið eða
hænan, en líklega er um að ræða einhvers kon-
ar samspil beggja. Síðan má velta fyrir sér
hinni hliðinni á peningnum, það er að segja
stöðu þeirra sem prýða síður blaða af þessu
tagi. Í tilveru þeirra felst nefnilega ákveðin
mótsögn því fæstir viðurkenna að hafa sóst
sérstaklega eftir frægðinni og halda því gjarn-
an fram að hún sé fylgifiskur starfsins sem
þeir verði hreinlega að þola. Einstaka flippað
frægðarmenni viðurkennir þó að því finnist
frægðin ekki svo slæm, eiginlega bara frábær,
og að þeir sem haldi öðru fram séu hræsnarar.
Fólkið sem er síðan frægt fyrir að vera frægt
viðurkennir fúslega að frægðin sé stórkostleg
og staðfestir það viðhorf sitt gjarnan með æv-
intýralegum metnaði þegar kemur að því að
viðhalda henni.
Sálfræðingurinn Orville Gilbert Brim gaf
nýverið út bókina The Fame Motive þar sem
hann tekur saman og skoðar rannsóknir fé-
lags- og mannfræðinga sem snúa að löngun og
eftirsókn fólks eftir frægð. Í umfjöllun dag-
blaðsins New York Times um bók Brim er
bent á að frægð hafi hingað til verið vanrækt á
sviði sálfræðinnar líklega vegna þess að hún
hafi þótt of grunnt fyrirbæri og of menning-
arbundin. Þó liggi fyrir rannsóknir sem sýna
að ákveðinn hópur fólks þráir frægð umfram
allt annað – þar með talið ríkidæmi og völd –
og að sú þrá tengist þörf fyrir samþykki um-
heimsins og von um framlengingu á tilveru
sinni eftir dauðann.
Í bók sinni bendir Brim á að ásókn fólks í
frægð sé ekki bundin við menningu Vest-
urlanda og vitnar í mannfræðinga sem hafa
rannsakað þessi efni bæði í Asíu og Afríku.
Samkvæmt könnun sem vísað er í dreymir
30% fullorðinna í Kína og í Þýskalandi um að
öðlast frægð og rúmlega 40% þessa fólks trúir
því að það eigi eftir að upplifa þessar 15 mín-
útur af frægð sem Andy Warhol gaf fyrirheit
um að allir myndu einhvern tímann öðlast.
Rannsóknir meðal fullorðinna Bandaríkja-
manna leiða í ljós svipaðar niðurstöður en
meðal bandarískra unglinga er hlutfallið síðan
talsvert hærra. Þrátt fyrir þetta segjast ein-
ungis 1–2% fólks þrá frægðina framar öllu
öðru því sem lífið hefur upp á að bjóða.
Brim dregur þá ályktun að margir telji
frægð vera leið til að gæða líf sitt merkingu og
að verða sér úti um framlengingu á tilveru
sinni eftir dauðann. Þannig sé þrá og eftirsókn
eftir frægð eðlilegt viðbragð í heimi þar sem
trúin á Guð er löngu hætt að vera sjálfsögð.
Hann bendir jafnframt á að líkurnar á því að
öðlast raunverulega frægð séu almennt frekar
litlar og því þjáist sá hópur fólks sem leitast
eftir frægðinni umfram allt annað, yfirleitt af
töluvert mikilli streitu. Í því samhengi vísar
hann í kannanir sem sýna að þeir sem leitast
sífellt eftir samþykki annarra, og þá frekar
ókunnugra heldur en fjölskyldu sinnar og vina,
þjáist mun frekar af streitu en þeir sem hafa
mestan áhuga á að vera sáttir við sjálfa sig og
sína nánustu. Þeir sem búi yfir mikilli frægð-
arþörf losni hins vegar ekki svo glatt við þá til-
hneigingu og þannig sé hún nánast eins og inn-
byggð í sumt fólk rétt eins og hvert annað
karaktereinkenni.
Og þetta karaktereinkenni hefur líklega
sjaldan fallið í eins frjóan jarðveg og einmitt
nú. Þeir sem búa yfir því og ná takmarki sínu
hafa að minnsta kosti aldrei fengið eins mikla
og yfirgengilega athygli. Og hvort sem verður
munað eftir öllum þessum ástarþríhyrningum,
átröskunum, apabitum, börnum sem heita
furðulegum nöfnum, brjóstastækkunum, nef-
aðgerðum, fitusogi, varastækkunum, umferð-
aróhöppum, kynlífsmyndböndum, gjafa-
kaupum, megrunarkúrum eftir barnsburð,
meðferðum við ofþreytu og verkjalyfjafíkn,
tískusigrum og tískuslysum, að blessuðu fólk-
inu gengnu, þá skemmti það allavega heims-
byggðinni í 15 mínútur, minnst.
Holdgerving frægðarinnar „Samkvæmt könnun sem vísað er í dreymir 30% fullorðinna í Kína
og í Þýskalandi um að öðlast frægð og rúmlega 40% þessa fólks trúa því að það eigi eftir að
upplifa þessar 15 mínútur af frægð sem Andy Warhol gaf fyrirheit um að allir myndu ein-
hverntímann öðlast.“ Myndin er af frægu verki Andys Warhol af Marilyn Monroe.
Frægðin umfram allt
FJÖLMIÐLAR
Eftir Birnu Önnu Björnsdóttur
bab@mbl.is
’Brim dregur þá ályktun aðmargir telji frægð vera leið til
að gæða líf sitt merkingu og að
verða sér úti um framlengingu
á tilveru sinni eftir dauðann.‘
I Fljótt, öruggt og þægilegt!Gætu þessi orð ekki verið í nánast hvaða
auglýsingu dagsins í dag? Er einhvers staðar
auglýst að eitthvað taki langan tíma, að þú
getir ekki verið viss um árangurinn, og að ef
til vill munirðu hafa mikinn ama af?
Einhvers staðar í glórulausri veröldinni hef-
ur sú hugmynd orðið til, að best sé að gera allt
á sem skemmstan hátt. Þú þarft ekki að eyða
mörgum tímum í að elda
mat, því nú fæst matur sem
hægt er að reiða fram á jafnvel fjórum mín-
útum eftir að hann er kominn í hús. Þú þarft
ekki að hafa áhyggjur þótt uppvaskið úldni í
vaskinum, því þú notar einfaldlega upp-
þvottalög með bakteríubana. Þú þarft heldur
ekki að kvíða því að skipta um dekk, því nú er
í boði að rúlla bílnum inn á verkstæði; þar
sækir einhver vetrardekkin þín uppí hillu og
svissar þeim undir, og setur sumardekkin upp
í sömu hillu í staðinn. Áhyggjulaust líf, ekki
satt?
Það er eitthvað skrýtið á seyði. Hvað liggur
svona reiðinnar býsn á? Og hvers vegna vilj-
um við losna við hvert minnsta ómak, sem
gæti – ef betur er að gáð, veitt okkur góða
reynslu, og jafnvel gleði, ef við nenntum að
gefa okkur að því? „Nútíminn, nútíminn, þetta
er krafa hans,“ heyrir maður sagt, og finnst
sjálfsagt að taka þátt í leiknum.
II Breytingar á menningu okkar og lífs-háttum eru hraðar. Við getum svo margt
með aðstoð tækninnar sem við sjálf fundum
upp. Við viljum reyna allt, prófa allt, hafa vit á
svo mörgu, fara svo víða, og síðast en ekki síst,
hafa það svo gott. Öll okkar hegðunarmynstur
virðast taka mið af þessu. Við eigum allt til
alls, og viljum innbyrða sem mest af þessa
heims gæðum á eins auðveldan máta og hugs-
ast getur. Það situr enginn lengur við kúnst-
stopp, þegar hægt er að kaupa ullarleista fyrir
lítinn pening. Og vel á minnst – maður þarf
víst ekki einu sinni lengur að eiga það á hættu
að láta pirrast af hosum sem stinga; það er
víst hægt að fá sokka sem eru alveg jafn hlýir
og jafnvel enn betri úr einhverjum míkrófíber,
og fara að auki betur í skónum.
III Við komum heim úr vinnunni, kveikjumá sjónvarpinu, til að ná örugglega öllu því
helsta sem gerst hefur þann daginn, heima og
heiman. Og eins gott að það séu engar lang-
lokur, enginn tími til að dvelja við óþarfa.
Maður þarf að vera viðræðuhæfur um sem
flest. Grín eða spenna er svo eins og deyfilyf
til að maður geti látið sjatna í sér af upplýs-
ingaátinu.
IV Menningin hefur breyst, við erumbreytt og við breytum. Úti í heimi er
spurt að því hver hafi drepið dagblöðin. Er
ekki eðlilegt að spurt sé á tímum þegar fólk
þykist ekki hafa tíma til neins? Lesbókin læt-
ur að minnsta kosti spurninguna ekki þjóta
hjá, án þess að bregðast við. Fimm sérfræð-
ingar í fjölmiðlaheiminum velta henni fyrir sér
hér í dag, eins og hún birtist lesendum The
Economist á dögunum.
V Það mætti allt eins spyrja hvaða hver hafidrepið tímann, eða öllu heldur ást mann-
eskjunnar á honum. Það virkar nefnilega mót-
sagnakennt allt þetta tal um tímasparnað og
að því meiri tími sem sparast af einu verki gefi
meiri tíma í annað. Það er nefnilega líka
ákveðin nautn og talsverð lífsgæði að hafa
nægan tíma til hvers þess verks sem maður
tekur sér fyrir hendur.
VI Það er auðvelt að kenna tækninni umallt sem miður fer, og allar verstu afleið-
ingar breyttra lífshátta. Vissulega er margt til
þæginda í nútímanum, og framfarir bæta lífs-
kjör. En lífsgæði verða seint metin í lífskjör-
unum einum saman. „Tíminn er dýrmætur“ og
„tíminn kostar peninga“ eru klisjur sem við
heyrum oft. En sennilega farnaðist okkur bet-
ur við margt í lífinu ef við litum svo á að tími
væri til að verja og njóta, en ekki til að eyða
og drepa.
Neðanmáls
Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs-
ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins