Lesbók Morgunblaðsins - 02.09.2006, Page 5
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. SEPTEMBER 2006 5
dálítið hissa og spurðu hvort ég væri at-
vinnumaður. Ég þurfti að útskýra fyrir
þeim að það væri mér mikils virði að prófa
eitthvað nýtt og reyna mig í námi. Maður
getur alltaf lært eitthvað nýtt. Það var líka
atriði að komast út og upplifa eitthvað ann-
að. Ég veit þannig séð ekki alveg hvað ég
er að fara út í … en kannski er ég bara að
rugla af því að þetta er allt að bresta á
núna. En hver veit hvaða tækifæri bjóðast
þarna úti? Og „af hverju ekki“ að fara út?“
Ragnheiður viðurkennir að hún sé pínu
„lítil“ vegna væntanlegs ferðalags.
„Ég er yngst, á tvo eldri bræður og vön
því að allir passi voðalega mikið upp á mig.
En ég veit að þetta verður allt í lagi þegar
fram í sækir. Þegar ég frétti að ég hefði
komist inn þá varð ekki aftur snúið, svo
einfalt er það. Ég verð að viðurkenna að á
tímabili var ég að vona að þetta myndi ekki
ganga upp (hlær dátt).“
Búlgaría
Í haust kemur fjórða sólóplata Ragnheiðar
á jafn mörgum árum út. Hún reið á vaðið
með samnefndri plötu haustið 2003, árið
eftir komu Vetrarljóð út og í fyrra var það
After the Rain, sem inniheldur eingöngu
frumsamin lög Ragnheiðar. Á plötunni nýju
er Ragnheiður hins vegar að rannsaka ís-
lenskan þjóðlagaarf, sem hún segir hafa
verið gæluverkefni til langs tíma.
„Haukur bróðir hefur smitað mig af þjóð-
lagaáhuga,“ segir hún en Haukur spilar
m.a. í klezmersveitinni Schpilkas og einnig í
Narodna Musika þar sem á efnisskránni er
búlgörsk, grísk og tyrknesk tónlist. Ragn-
heiður tiltekur einnig Eivöru Pálsdóttur í
þessu sambandi en þær sungu saman í apríl
síðastliðnum, fluttu þá gömul íslensk dæg-
urlög ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, og
eru nú orðnar ágætar vinkonur.
„Ég var mikið búin að vera í djassinum
en skyndilega fór ég að heillast af þjóðlaga-
tónlist og fór að finnast hún alveg æðisleg.
Það er einhver frumorka í henni, svona
hreinn andi ef ég má orða það þannig. Við
hófumst því handa við að setja saman efnis-
skrá úr íslenskum þjóðlögum. Þetta er dá-
lítið sérstakt; lögin eru mörg hver myrk og
tregafull en um leið alveg ofboðslega fal-
leg.“
Hún og Haukur eru að snurfusa plötuna
um þessar mundir, en svo mun Haukur
fylgja plötunni úr hlaði í fjarveru systur
sinnar, sem verður þá komin út. Ragnheið-
ur segir að það hafi verið dálítið ævintýri
að koma plötunni á rekspöl og hafi þau far-
ið hálfgerða fjallabaksleið að henni.
„Haukur er á kafi í búlgörsku tónlistinni
um þessar mundir,“ útskýrir hún. „Í fyrra-
sumar spiluðum við saman í Noregi og vor-
um þá að flytja íslenska þjóðlagatónlist. Í
flugvélinni á leiðinni heim fengum við þá
hugmynd að taka upp plötu með slíkri tón-
list, í Búlgaríu! Við sannfærðumst um það
að þetta væri algerlega málið.
Sumir spurðu okkur hins vegar, réttilega,
„bíddu … hver er nú tengingin á milli Búlg-
aríu og Íslands?“. Og við komumst reyndar
að því að tónlistarleg tenging er engin, utan
að þetta eru í báðum tilfellum þjóðlaga-
tónlist. Við fórum þangað í síðasta mánuði
og planið var að taka upp strengjakvartett,
slagverk og búlgarska kvennakóra en ég er
mjög heilluð af þessum ágenga hljóm í
kvennakórunum þar.“
Ragnheiður verður hikandi þegar hún er
spurð hvort ætlunin hafi þá verið að bræða
saman þessi tvö tónlistarform.
„Ekki beint,“ svarar hún. „En
samt … eitthvað. Við vorum að leita að ein-
hverjum hljómi. En svo fór þetta ekki betur
en svo að tengiliður okkar þarna í Búlgaríu
var óhæfur. Þó hann hafi allur verið af vilja
gerður til að uppfylla okkar óskir þá virkaði
þetta ekki. Við vildum fá toppfólk í þetta,
atvinnumenn. Þegar út var komið voru
þetta allt saman einhverjir áhugamenn og
hann var búinn að blanda konunni sinni inn
í þetta og ég veit ekki hvað og hvað. Kórinn
var einhver kirkjukór, ekki þessi þjóðlaga-
kór sem við vorum að leita eftir. Algjört
húmbúkk semsagt! Æ ég veit það
ekki … þetta er dálítið fyndið en þetta var
líka frekar leiðinlegt. Mikil vonbrigði en
svona hlutir leiða mann þá einfaldlega eitt-
hvað annað.“
Ragnheiður segir að hún hafi þá munað
eftir dönskum kór, söngkvartett sem hafði
verið með bróður hennar í námi í Dan-
mörku.
„Þessi kvartett hefur verið að syngja
hina og þessa stíla, m.a. búlgarska tónlist.
Við fórum því þangað og útkoman úr því
varð eiginlega betri en ef við hefðum notað
búlgarskan kór. Búlgarski hljómurinn hefði
eftir á að hyggja orðið of harður fyrir plöt-
una en danski kórinn léði búlgörskunni
skandinavískan blæ og það féll einhvern
veginn betur að.“
Ragnheiður spilar sjálf á píanó á plöt-
unni, Haukur spilar á klarinett og svo sér
Hugi Guðmundsson, ungt tónskáld úr
Garðabænum, um raftónlist. Íslenskur
strengjakvartett kemur þá einnig við sögu.
Inn í sviðsljósið
Ég og Ragnheiður furðum okkur bæði á því
að hún hefur ekki verið í sviðsljósinu nema
í um þrjú ár. „Mér finnst þetta vera orðinn
svo langur tími,“ segir hún með undrun í
röddinni.
Ragnheiður sigraði í söngvakeppni Sam-
fés þegar hún var fimmtán ára gömul og
sautján ára var hún var farinn að reka eigin
djasssveit. Hún vakti þó fyrst almenna at-
hygli er hún gekk til liðs við tilraunapopp-
sveitina Ske í desember 2002.
Ragnheiður átti eftir að starfa með Ske
allt fram á árið 2005, en hún tók þátt í gerð
annarrar plötu sveitarinnar, Feelings Are
Great, sem kom út árinu á undan. Það var
Ágústa Eva Erlendsdóttir, betur þekkt sem
Silvía Nótt, sem leysti hana svo af hólmi.
„Það má segja að það hafi orðið ljóst að
tími minn væri búinn í Ske þegar sveitin
var á leiðinni á South by South West hátíð-
ina í Austin,“ segir Ragnheiður og er sposk
á svip. „Ég var þá búin að bóka mig á há-
degistónleika í Norræna húsinu á sama
tíma og hugnaðist það einhvern veginn bet-
ur.
Við þetta rann upp ljós, bæði fyrir mér
og strákunum. Þannig að það varð úr að ég
gengi úr sveitinni og við skildum afar sátt.
Þetta var mjög skemmtilegur tími, gaman
að ferðast og svona með tilheyrandi djammi
og stuði.“
Ragnheiður segist hafa verið fimmtán ára
þegar hún ákvað að helga líf sitt tónlistinni.
„Ég ákvað einfaldlega að ég myndi lifa á
því að vera tónlistarmaður. En stóra
„breikið“ ef svo má kalla varð þegar lagið
„Ást“ varð vinsælt haustið 2003 [af plötunni
Íslensk ástarljóð sem Steinsnar gaf út]. En
ég hafði líka sungið í forkeppni Eurovision
sama ár [lag hins tónelskandi læknis, Páls
Torfa Önundarsonar, „Ferrari“] og ein-
hverjir tóku vísast eftir mér þar.“
Ragnheiður hefur þannig sungið alls kyns
tónlist, og ástæða þess er einföld.
„Þetta er bara það sem ég vil. Ég vil
syngja eins mikið og ég get. Ég syng meira
að segja klassík þegar þannig liggur á mér,
„feika“ mig einhvern veginn í gegnum það.
Það er bara svo mikið til af fallegri tónlist
og mann langar til að hafa sem mest af
henni á valdi sínu.“
Fyrsta plata Ragnheiðar kom út um jólin
2003, plata sem hún gaf út sjálf en innihald-
ið eru uppáhalds djassslagarar Ragnheiðar.
Um undirleik sáu Jón Páll Bjarnason gít-
arleikari, Morten Lundsby kontrabassaleik-
ari og Haukur bróðir hennar sá um altó-
saxafón og bassetthorn.
„Ég vildi endilega gera þetta en hafði
kannski ekkert vald á þessu þannig. Ég var
að syngja þetta í einhverjum barnslegum
fíling.“
Ragnheiður stoppar aðeins og hlær síðan.
„Ég get ekki hlustað á þetta í dag … ég
bara get það ekki.“
En þetta var eitthvað sem varð að gerast
að áliti Ragnheiðar. „Bara það að koma
Jóni Páli á band gerði þetta þess virði. Þeg-
ar ég var yngri var Emilíana Torrini átrún-
aðargoðið mitt og ég ætlaði mér að verða
eins og hún. Emilíana var búin að gefa út
plötu þegar hún var sextán en ég var nú
samt orðin átján (hlær). En ég ætlaði að
koma út plötu sama hvað það kostaði.“
Það sem mér sýnist
Ragnheiður segist hafa verið orðin nokkuð
tætt um þetta leyti.
„Hlutirnir gerðust nokkuð hratt. „Ást“
sló í gegn og verðandi brúðkaupshjón lágu
á línunni og vildu fá mig til að syngja. Ég
var í togstreitu, nýbúin að gefa út djass-
plötu sem enginn virtist taka eftir en fólk
var með þetta lag „Ást“ á heilanum í stað-
inn.“
Það sem bjargaði Ragnheiði á þessum
tíma, og gaf henni tímabæra hvíld, var að
hún fór í skiptinám til Stokkhólms í janúar
2004 og dvaldi þar í þrjá mánuði.
„Maður var pínu blúsaður yfir því að vera
að fara fyrst en núna sé ég að þetta hefði
ekki getað gerst á betri tíma. Þetta var
söngnám og þar fann ég fyrir því að ég
hafði verið að syngja án þess að vera að
velta tækninni mikið fyrir mér. Ég var hálf-
partinn búinn að rústa röddinni og það var
kominn hálfgerður bjúgur á raddböndin. Ég
var einfaldlega búin að keyra mig út haust-
ið á undan, var m.a. að klára stúdentspróf
meðfram þessu öllu.“
Um sumarið 2004 tók Ragnheiður svo
upp plötuna Vetrarljóð sem Steinar Berg
gaf út á merki sínu Steinsnar.
„Þetta var hugmynd frá Steinari. En ég
þrýsti á um að fá að semja inn á plötuna
líka og á þar fjögur lög. Ég er bara svo
frek að það hefði ekki gengið ef ég hefði
ekki fengið að koma með mitt innslag líka.
Það var auðvitað reynt að draga úr manni,
og manni sagt að hlusta á þá eldri og
reyndari. Og það á maður auðvitað að
gera … að einhverju leyti (hlær).“
Tilbúin með
eigin tónlist
Platan gekk mjög vel í landann, seldist í um
fjórtán þúsund eintökum og nafn Ragnheið-
ar var nú komið á hvers manns varir.
„Platan gekk ofsalega vel og ég hef heyrt
frá fólki að það sé með þessa plötu ítrekað
undir geislanum. Sem er auðvitað æðislegt.“
Eftir þetta varð Ragnheiður svo stað-
ráðin í að gefa út plötu eingöngu með frum-
sömdu efni. Hún leit dagsins ljós um síð-
ustu jól, og heitir After the Rain.
„Ég átti fullt af efni sem ég hef verið að
semja síðan ég var fjórtán ára. Á þessum
tímapunkti var ég loksins tilbúin til að
koma því í form. Það voru 12 Tónar sem
gáfu plötuna út eins og þá næstu. Ég er
mjög ánægð með samstarfið við þá, maður
gert nákvæmlega það sem maður vill.“
After the Rain var unnin hratt og vel, en
Ragnheiður var búinn að móta efnið og út-
setja áður en í hljóðver var komið. Þannig
flutti hún það á burtfarartónleikum sínum
úr F.Í.H um vorið.
„Þannig að það tók enga stund að rúlla
þessu inn á band. Annað en með nýju plöt-
una, sem er búin að veltast um í tvö
ár … en þannig er þetta bara stundum.“
Ragnheiður segist nú vera orðin öruggari
með sig en áður og viti hvað það er sem
hún vilji ná fram.
„Stundum er verið að hnýta í mann fyrir
að syngja þetta eða hitt, t.d. inn á þessa
nýju ástarlagaplötu [Íslensk ástarlög, sem
út kom í vor á vegum Senu og Steinsnars].
En aðalatriðið er að standa með sér, og ég
ákvað fyrir margt löngu að gera það sem
mér sýnist.
Ef ég vil syngja einhver ástarlög inn á
plötu þá bara geri ég það, og legg mig fram
um að gera það af heilindum og fag-
mennsku. Sindri Eldon rústaði plötunni í
Grapevine og mér fannst ógeðslega fyndið
að lesa það...“
Ragnheiður er fyrir löngu búin að hugsa
næstu skref, þ.e. þegar þessi fjórða plata er
komin í höfn.
„Ég er búin að kokka upp c.a. tvær plöt-
ur í hausnum ... (hlær) … ég má eiginlega
ekki gera þetta, hausinn er alltaf farinn á
einhvern allt annan stað. En þegar einu
verkefni er lokið er um að gera að vinda
sér í næsta. Eða næstu.“
Nokkur lög
Áður en Flíshljóðverið er kvatt kíki ég með
Ragnheiði inn í stjórnherbergi, en þar er
bróðir hennar að fiffa lögin til með fagtól-
um eða „pro-tools“. Við hlustum saman á
nokkur lög, og skröfum aðeins og skegg-
ræðum.
Ragnheiður er tiltölulega víruð; það er
allt að gerast, utanferðin vofir yfir, platan
að klárast og í mörg horn að líta. En hún
þarf ekkert að hafa of miklar áhyggjur.
Mér heyrist þetta steinliggja.
Ske
Ragnheiður söng um tíma með hljóm-
sveitinni Ske en þau gerðu meðal ann-
ars lagið „Julietta 2“ vinsælt og var það
tilnefnt til Íslensku tónlistarverð-
launanna í flokknum besta lagið.
Upphafið á ferlinum
Ragnheiður sigraði í söngvakeppni
Samfés þegar hún var fimmtán ára
gömul en sautján ára var hún farin að
reka eigin djasssveit.
Söngkona ársins
Ragnheiður hefur hlotið ýmis verð-
laun, hlaut meðal annars vegtylluna
söngkona ársins á Íslensku tónlist-
arverðlaununum árið 2004. Á sömu
verðlaunahátíð var plata hennar Vetr-
arljóð valin plata ársins.
Ragnheiður og Haukur
Systkinin voru að leggja lokahönd á
nýja plötu Ragnheiðar þegar viðtalið
var tekið.