Lesbók Morgunblaðsins - 02.09.2006, Síða 16
16 LAUGARDAGUR 2. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
S
ýningin Mega vott í Hafnarborg
teflir fram fimm listakonum, fjór-
um íslenskum og einni banda-
rískri, sem allar hafa í verkum sín-
um tekið þátt í þeirri umbreytingu
sem orðið hefur á höggmynda-
listinni undanfarið, ekki síst í meðförum lista-
kvenna. Þetta eru þær Anna Eyjólfsdóttir,
Jessica Stockholder, Ragnhildur Stefánsdóttir,
Rúrí og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Verkin á
sýningunni eru reyndar af ýmsum toga en þó
má greina þar nokkuð samstillt átak til að setja
fram skýrar hugmyndir um nýja nálgun sem
vert er að rekja aðdragandann að og mætti jafn-
vel kalla eins konar stefnuyfirlýsingu í listinni.
Samtíningsverk
Það má færa rök að því að mesta umbylting í
myndlist tuttugustu aldar hafi orðið þegar lista-
menn hættu að nota eingöngu hin hefðbundnu
efni – málningu, stein eða steypta málma – og
fóru í staðinn að tína til hitt og þetta dót úr
hversdagslegum veruleika sínum og raða sam-
an í verk. Í þessu fólst ekki aðeins útvíkkun á
möguleikum listarinnar innan þess ramma sem
hún hafði skapað sér heldur sprengdu lista-
mennirnir bókstaflega burt rammann og tóku
sér nær fullkomið frelsi til að endurtúlka og
endurraða veruleikanum eftir sínum eigin fag-
urfræðilegu hugmyndum og tilfinningu. Þar
með opnaðist þeim að sjálfsögðu miklu víðara
svið tjáningar og tilvísana en um leið urðu mörk
listar og hversdagslífs óljósari. Í leit sinni að
óheftari sköpun fórnuðu þeir sérstöðunni sem
hið hefðbundna efni hafði tryggt myndlistinni
um aldir og nokkru af upphafningu sem lista-
verk höfðu notið. Líf og list runnu æ meir sam-
an.
Þessar pælingar má að minnsta kosti rekja
aftur á annan áratug aldarinnar en það er þó
ekki fyrr en á sjötta áratugnum að þær fara að
hafa veruleg áhrif á meginstrauma myndlist-
arinnar og árið 1961 má segja að þessi nálgun í
listinni hafi loks hlotið almenna viðurkenningu
þegar Nútímalistasafnið í New York setti upp
sýninguna „The Art of Assemblage“ árið 1961.
Þar voru meðal annars verk eftir Braque, Jos-
eph Cornell, Dubuffet, Marcel Duchamp,
Picasso, Robert Rauschenberg, Man Ray og
Kurt Schwitters. Í aðfaraorðum skýrði sýning-
arstjórinn William C. Seitz sýninguna sem svo
að þar væru verk sem að hluta eða í heild nýttu
náttúrulegt eða manngert efni, hluti eða brot úr
hlutum sem ekki teldust til hefðbundins efnivið-
ar myndlistarinnar. Sumir af helstu listamönn-
um í New York höfðu þá á undanförnum árum
snúið sér meira eða minna að slíkum samtín-
ingsverkum en það sama var líka upp á ten-
ingnum annars staðar á Vesturlöndum, í Frakk-
landi, á Ítalíu, Bretlandi og víðar. Fyrstu
markvissu tilraunir í þessa átt á Íslandi sáust
ekki löngu síðar, undir lok sjöunda áratugarins,
á útisýningunum í Skólavörðuholti þar sem
Myndhöggvarafélagið í Reykjavík varð til og
svo í sýningum SÚM-hópsins í upphafi áttunda
áratugarins.
Nýr samruni
Á sýningunni í Hafnarborg hafa fjórar vel
þekktar íslenskar listakonur fengið með sér
eina heimsþekkta frá Bandaríkjunum, Jessicu
Stockholder, sem er fædd 1959 og hefur vakið
mikla athygli fyrir innsetningar sínar og sýnt
um allan heim undanfarna tvo áratugi eða svo.
Efnivið sinn sækir Jessica í allar áttir og bland-
ar gjarnan saman fundnum fjöldaframleiddum
hlutum og einingum sem hún smíðar sjálf. Hún
hefur til dæmis notað heimilistæki á borð við ís-
skápa og meira að segja málaða vörugáma, alls
konar rafmagnstæki, ofin teppi og gamlar
ferðatöskur. Þó hafa innsetningar hennar allt
annað yfirbragð en við eigum að venjast þegar
slíkur efniviður er annars vegar. Það er lítið eft-
ir af því hneykslanlega andófi sem einkenndi
fyrstu samtíningsverk dadaistanna á öðrum
áratugnum eða til dæmis landa Jessicu, þeirra
Roberts Rauschenberg og Jaspers Johns, á
þeim sjötta. Það er heldur ekki lengur hægt að
skilgreina list af þessu tagi einfaldlega út frá því
að hún noti ekki hefðbundin efni eins og Seitz
gerði á sýningunni í MoMA í New York 1961,
því á þeim fjörutíu og fimm árum sem síðan eru
liðin má segja að hin nýja nálgun hafi fest sig vel
í sessi og sé jafnvel sjálf orðin hefðbundin. Að
minnsta kosti er í sjálfu sér ekkert hneyksl-
anlegt eða ögrandi lengur við það eitt að sýna
samtíning; baráttan fyrir þessum aðferðum er
að baki og kominn tími til að skoða frekar hvort
þær hafi skilað okkur fram á veg í fagurfræði-
legum skilningi og hvað varðar efnistök og við-
fangsefni verkanna sjálfra. Kannski voru
bresku listamennirnir sem komu fram á níunda
áratugnum – hinir svokölluðu Britart-listamenn
– síðasta kynslóðin sem tókst að vekja athygli
með sjokkaðferðunum. Síðustu tvo áratugina
höfum við séð hvernig listamenn reyna í æ frek-
ara mæli að vinna úr hinum ólíku nálgunum
uppbrotstímans og búa til verk og sýningar sem
draga þann lærdóm allan saman í nýja og heil-
steypta fagurfræði.
Verk Jessicu eru umfram allt litskrúðug og
snúast um form og efnismassa sem hún raðar
saman eftir eigin fagurfræðireglu án þess þó að
hirða um þótt innviðir verksins sjáist. Grindur
og stoðir eru ekki faldar heldur verða hluti af
formrænni framsetningu verksins, ljóskastarar
og snúrur eru inni í verkinu í stað þess að lýsa
það utan frá, og ómerkilegt fundið dót getur
fengið sama vægi í myndbyggingu og hreinmál-
aðir tærir fletir. Heildarframsetning verkanna
er fyrst og fremst björt og opin og full af húmor.
Efnið er stundum þungt og samsetningarnar
flóknar en áhorfandinn finnur umfram allt fyrir
léttleika og sköpunargleði listamannsins. Í
þessum verkum tekst Jessicu að þætta saman
tvær meginnálganir úr samtímalistinni: Annars
vegar er það hugmyndin um að nota fundið efni
og endurnýta hversdagslega fjöldaframleidda
hluti en hins vegar sá strangi formalismi sem
við þekkjum úr afstraktlist og minimalisma.
Jessica hafnar því að hér sé um mótsögn að
ræða og bræðir aðferðirnar óhikað saman. „Ég
sé enga skiptingu milli formalisma og einhvers
annars,“ segir hún sjálf. „Form og formlegt
samhengi skipta máli vegna þess að þau merkja
eitthvað; merking þeirra sprettur af upplifun
okkar sem efnislegar og dauðlegar verur af til-
tekinni stærð í samhengi við veröldina eins og
við hittum hana fyrir eða búum hana til sjálf.“
Úr framvarðasveit íslenskra skúlptúrista
Þessa afstöðu má líka sjá í verkum íslensku
listamannanna á sýningunni sem allir hafa tekið
listformið til róttækrar endurskoðunar og út-
víkkað fagurfræðilega nálgun sína langt út fyrir
hefðbundið efni og framsetningu. Rúrí hefur til
að mynda á ríflega þrjátíu ára ferli sínum sýnt
verk sem spanna gjörningalist, konsept og há-
tækniframsetningu og hefur á undanförnum ár-
um líka notað bæði ljósmyndir og myndbönd til
að víkka út skírskotun verkanna. Eftir hana
liggja bæði áberandi höggmyndir á almennings-
svæðum og gjörningar sem aðeins lifa eftir á
ljósmynd eða í minningunni. Myndbandsverkið
sem hún sýnir í Hafnarborg hefur beinskeytta
sögulega tilvísun og sterkt móralskt inntak því
það er unnið upp úr ferðum hennar til Bosníu-
Hersegóvínu og grannríkja árið 1998. Rúrí
gerði þessu viðfangsefni ítarleg skil í stórri sýn-
ingu á Kjarvalsstöðum árið 1998 en nú sýnir
hún nýtt verk, Elegy, sem byggist á sömu ferð-
um og er með frumsaminni tónlist eftir Hilmar
Örn Hilmarsson.
Íslenskur listheimur er allt öðru vísi vaxinn
en hjá fjölmennari þjóðum og íslensk myndlist
þykir nú sérstaklega framsækin og alþjóðleg.
Skólar og stefnur skipta fólki ekki í fylkingar í
jafnmiklum mæli og gjarnan gerist erlendis og
má kannski þakka – eða kenna um – hve mark-
aðurinn hér er lítill og litlir peningahagsmunir í
húfi. Ef lítil von er til að verk seljist getur lista-
maðurinn jú bara gert það sem honum sýnist og
þarf ekki að beygja sig undir tísku og markaðs-
setningu. Tilraunir í átt að nýrri fagurfræði sem
sætti og samnýti formalisma, jafnvel naum-
hyggju, við samtíningsverk og hugmyndalist
hafa átt mikilli grósku að fagna hér undanfarna
tvo áratugi og þær fjórar íslensku listakonur
sem sýna í Hafnarborg hafa átt þar drjúgan
hlut að máli. Verk Þórdísar Öldu Sigurð-
ardóttur og Önnu Eyjólfsdóttur endurspegla
þannig sömu nálgun og innsetningar Jessicu
Stockholder að því leyti að þær tefla saman ólík-
um efniviði og fundnum hlutum í nýja fag-
urfræðilega samsetningu. Í meðförum þeirra
beggja hefur þetta þau áhrif að færa verkin nær
veruleika áhorfandans – til dæmis þegar Anna
raðaði upp nokkrum tugum drullusokka á stétt-
ina framan við Gerðuberg – en sýna jafnframt
að fagurfræði forma og formbyggingar á ekki
síður við í hversdagsleikanum en í hefðbundnari
framsetningu á borð við málverk eða högg-
mynd. Þessi nálgun snýst ekki um upphafningu
þess ljóta eða ómerkilega, heldur einmitt um
það að fegurðin og merking hinnar formlegu
framsetningar er ekki bundin við upphafna list
heldur á við alls staðar í lífinu og getur sprottið
beint af hversdagsveruleikanum ekki síður en af
háleitum heimspekilegum vangaveltum.
Ragnhildur Stefánsdóttir hefur unnið mikið
út frá mannslíkamanum og má að því leyti segja
að nálgun hennar beri meiri svip af hefðbund-
inni höggmyndalist en verk hinna fjögurra. Þó
er framsetning hennar ekki síður persónuleg og
nýstárleg. Á sýningum sínum hefur hún leyst
mannslíkamann upp á ýmsan hátt, sýnt styttur
sem skornar hafa verið í sneiðar og raðað aftur
saman, eða umbreytt líffærum hans á ýmsa
vegu. Efniviður hennar er stundum hefðbund-
inn – til dæmis gifs – en hún grípur þó til hvers
þess sem þarf til að víkka út verkin og tílvísanir
þeirra í veruleika okkar. Stytturnar í Hafn-
arborg eru gerðar úr plastefnum en jafnframt
þeim hefur Ragnhildur sett upp margslungið
vídeóverk þar sem áhorfendur sjálfir verða hluti
af sýningunni. Sýningin Mega vott dregur í
samhengi verk þessara fimm myndlistarmanna
og er til vitnis um nýjar nálganir í höggmynda-
listinni en ekki síður um það hvernig þeir takast
á við samtímann og feminísk sjónarhorn á við-
fangsefnin. Þau eru kannski greinilegust í efnis-
vali þar sem ýmislegt er tínt til sem áður þótti
vart gjaldgengt sem hráefni í myndlistarverk –
ekki síst ýmiss konar muni sem og minni sem
tengjast „heimi kvenna“ og voru langt fyrir neð-
an virðingu karllistamanna af fyrri kynslóðum.
Það sem mestu varðar er þó nálgunin og fram-
setning efnisins og þar er það sköpunargleðin
sem er í fyrirrúmi og sú sannfæring að fegurð
og merkingu megi draga fram hvar sem er úr
veruleika okkar.
Skúlptúr á nýjum slóðum
Sýningin Mega vott verður opnuð í Hafn-
arborg í dag en hún veltir upp ýmsum nálg-
unum í listinni. Fjórar íslenskar listakonur og
ein bandarísk sýna en þær gera allar tilraun
til að þætta saman tvær meginnálganir úr
samtímalistinni: Annars vegar er það hug-
myndin um að nota fundið efni og endurnýta
hversdagslega fjöldaframleidda hluti en hins
vegar sá strangi formalismi sem við þekkjum
úr afstraktlist og minimalisma.
Eftir Jón Proppé
proppe@gmail.com
Morgunblaðið/Sverrir
Veruleikanum endurraðað Anna Eyjólfsdóttir og Rúrí vinna að uppsetningu sýningarinnar. Listakonurnar fimm eru sannfærðar um að fegurð
og merkingu megi draga fram hvar sem er úr veruleika okkar, segir greinarhöfundur.
Höfundur er listfræðingur og einn af höfundum
að sýningarskrá sýningarinnar Mega vott.
»Sýnendur eru Anna Eyjólfsdóttir,Ragnhildur Stefánsdóttir, Rúrí,
Þórdís Alda Sigurðardóttir og banda-
ríska listakonan Jessica Stockholder.
»Sýningunni lýkur 2. október. Í til-efni sýningarinnar kemur út vegleg
bók með nýjum og eldri verkum allra
listamannanna og greinum eftir Hörpu
Þórsdóttur listfræðing, Jón Proppé og
Sigríði Þorgeirsdóttur listfræðing.
» Í tengslum við sýninguna verðurlíka fluttur gjörningurinn Tileinkun
eftir Rúrí í Almannagjá við Drekking-
arhyl á Þingvöllum, þriðjudaginn 5.
september kl. 18 og er öllum boðið að
koma og fylgjast með.
MEGA VOTT