Lesbók Morgunblaðsins - 14.10.2006, Qupperneq 10
Eftir Stefán Mána
stefan.mani@simnet.is
Sumarið 1996 réð ég mig til starfa hjáBylgjunni í Ólafsvík þar sem ég hafðiumsjón með pökkun og útskipun áfrosnum fiskflökum. Veturinn á undan
starfaði ég hjá rækjuvinnslu í húsnæði hrað-
frystihússins sem fór á hausinn nokkrum árum
áður. Þegar frystihúsið fór á hausinn missti ég
vinnuna og var á atvinnuleysisbótum þar til ég
réð mig í járnabindingar og steypuvinnu niðri á
höfn. Þegar nýi hafnarbakkinn var kominn í
gagnið fór ég í nýju rækjuvinnsluna þar sem
biðu mín tólf tíma vaktir við að þíða blokkir af
frosinni rækju í rökkri, bleytu, gufu og hávaða.
Eftir að ég yfirgaf rækjuna fyrir frosnu fisk-
flökin í Bylgjunni fór rækjuvinnslan á hausinn,
eins og ég hafði séð fyrir. Svona gekk lífið …
Ég hafði fengist við skriftir í nokkur ár þegar
þarna er komið sögu. Um tuttugu og fjögurra
ára aldurinn fékk ég þá flugu í höfuðið að skrifa
barnabók. Það var saga um hvítan, heim-
ilislausan kött sem þvælist um tilbúinn bæ. Sög-
una sendi ég á Vöku-Helgafell og þar benti mér
ágætur maður á að senda hana í einhverja sam-
keppni á vegum útgáfunnar. Þetta þótti mér hin
versta höfnun og varð móðgaður. Enginn er
eins stórhuga og sjálfumglaður og sá sem ekki
áttar sig á reglunum í þeim leik sem hann tekur
þátt í. Ég setti barnabókina til hliðar og spennti
bogann hærra. Næstu tvö árin skrifaði ég
skáldsögur, hvert þrekvirkið á fætur öðru – að
eigin mati. Það voru tilfinningahlaðnir barokk-
turnar sem stóðu á brauðfótum byrjandans og
hrundu jafnóðum og ég hlóð ofan á þá. Þessi
stórvirki sendi ég á útgefendur syðra sem
sendu til baka kurteis höfnunarbréf. Einu raun-
verulegu viðbrögðin komu frá Þorsteini Thor-
arensen í Fjölva. Hann sendi mér nokkrar
skemmtilegar línur sem mér þótti vænt um og
geymi enn. En draumurinn um útgefið meist-
araverk varð smám saman að engu, brauðfætur
byrjandans urðu að deigi og fyrir tuttugasta og
sjötta afmælisdaginn minn, þriðja júní 1996,
gafst ég endanlega upp: tölvan fór á haugana,
ég réð mig í Bylgjuna og horfði tómeygur fram
á veginn. Ekkert beið mín nema stimpilklukka,
hárnet og frosinn fiskur …
Það var síðan einn daginn, ætli það hafi ekki
verið á sunnudegi, að ég gekk einsamall út fyrir
bæinn og fæ sögu í höfuðið. Það gerðist bara
þannig. Ég rölti í austur eftir móum sunnan við
þjóðveginn, fyrir ofan mig á hægri hönd var fell
sem heitir Lambafell og framundan var mynni
Fossárdals. Þegar ég var kominn fram hjá
Lambafellinu blasti Fossárdalurinn við og þá
varð mér ósjálfrátt litið upp eftir honum þar
sem hann teygði sig hálfa leið til Snæfellsjökuls.
Þá horfði ég beint á hið dökka og tignarlega
Tindfell sem reis eins og grófgerður píramídi
uppi á fjallgarðinum. Þá kviknaði sagan eins og
ljós inni í höfðinu á mér. Sagan sem átti eftir að
heita Dyrnar á Svörtufjöllum. Ég sá þetta allt
saman fyrir mér á örskotsstund: Það er fólk
innan í fjallinu, fólk sem hefur lokað sig þar inni
af því að sólin er dáin og jörðin svífur stjórnlaus
á ógnarhraða inn í niðdimman útgeiminn …
Teningunum er kastað …
Sagan lét mig ekki í friði en af því að tölvan var
komin á haugana handskrifaði ég söguna á laus
blöð sem smám saman fylltu vasana. Og af því
að ég vann við að pakka og skipa út frosnum
fiskflökum í tólf og stundum sextán tíma á dag
sex daga vikunnar varð endanleg útgáfa sög-
unnar mun styttri en ég hafði ætlað í upphafi.
Ég hafði hvorki þrek né tíma til að skrifa skáld-
sögu í fullri lengd upp úr þessari hugljómun. En
sagan óx og dafnaði og þó að orðin sem hún var
smíðuð úr hafi ekki verið mörg fyllti sagan huga
minn eins og sólskin fyllir veröldina á fallegum
degi. Ég var hugfanginn, ég hugsaði ekki um
annað og hegðaði mér eflaust eins og ástfanginn
unglingur. Í vinnunni var einbeitingin ekki upp
á marga frosna fiska og áhuginn á þessari and-
lausu og illa launuðu verkamannavinnu dalaði,
visnaði og dó í skugganum af sögunni sem átti
hug minn allan og stýrði honum hvert sem
henni sýndist. En hvað átti ég að gera við þessa
sögu? Það hvarflaði í raun aldrei að mér að
senda handrit að Dyrunum á Svörtufjöllum til
útgefenda. Ég þóttist vita að þeir myndu ekki
líta við svona olnbogabarni og tilhugsunin um
að sitja og bíða eftir höfnunarbréfunum var
ekki spennandi. Ég vissi að annaðhvort myndi
ég gefa þessa bók út sjálfur eða að hún kæmi
aldrei út. Auðvitað langaði mig til þess að bókin
liti dagsins ljós en fyrst og fremst leit ég á hugs-
anlega útgáfu sem farmiða burt úr Ólafsvík,
ástæðu eða afsökun fyrir að yfirgefa æsku-
stöðvarnar og hefja nýtt líf. Átthagafjötar og
óttinn við hið óþekkta læstu klónum í mig en á
endanum stökk ég í stað þess að hrökkva; ég
sagði upp vinnunni, hlóð fátæklegum eigum
mínum í gamla Lödu og keyrði til Reykjavíkur í
þrumustormi með hnút í maganum, ljóstýru í
höfðinu og vélritað handrit að Dyrunum á
Svörtufjöllum í brúnu umslagi í farþegasæt-
inu …
Hið ljúfa líf …
Fyrstu vikurnar á malbikinu bjó ég heima hjá
Halli Ingólfssyni tónlistarmanni og fjölskyldu
hans en Halli hafði ég kynnst gegnum sameig-
inlega kunningja. Hallur hjálpaði mér að slá
sögunni inn á gamlan Makka svo ég ætti hana á
tölvutæku formi. Kápuna gerðum við í samein-
ingu; ég vissi hvernig hún átti að vera og Hallur
galdraði hana fram á tölvuskjáinn. Jóhann Þór-
ir Jónsson heitinn hjá Skákprenti í Dugguvogi
tók mér vel þegar ég leitaði til hans með prent-
un bókarinnar. Við gerðum heiðursmanna-
samkomulag sem báðir stóðu við; ég borgaði
fyrirfram uppsett verð og Jóhann Þórir sá um
umbrot og prentaði rúmlega 300 eintök af bók-
inni sem var síðan bundin inn hjá Flatey í Þver-
holti. Þessi ágætu fyrirtæki eru ekki til í dag.
Þegar bókin var tilbúin hafði ég flutt mig um set
og leigði lítið kjallarherbergi við Brávallagötu.
Ég sótti allt upplagið á Lödunni og fyllti her-
bergið af brúnum pappakössum barmafullum af
ilmandi prentverki sem yljaði mér um hjarta-
ræturnar en vakti um leið hjá mér ótta og van-
metakennd: Hvað átti ég að gera við allar þess-
ar bækur? Borgarbókasafnið keypti fimm
eintök, ef ég man rétt, um það bil tuttugu eintök
fóru í valdar bókabúðir, vinir og ættingjar
keyptu ófá eintök en bróðurparturinn var seld-
ur á börum borgarinnar og oftar en ekki var
ágóði kvöldsins drukkinn við barborðið áður en
nýr dagur reis. Á Vitabar skálaði ég við sjálfan
mig í huganum og splæsti síðan á mig steik: Það
var útgáfupartíið. Bíóbarinn við Klapparstíg
reyndist mér happadrjúgur þegar kom að bók-
sölu, sem og Kaffi List við sömu götu. Upplagið
seldist allt á endanum og í dag er bókin nánast
ófáanleg. Þessar vikur sem þetta fábrotna æv-
intýri stóð yfir voru í mínum barnslega huga
ígildi tónleikaferðar rokkhljómsveitar. Ég sveif
um á bleiku skýi sem var svo stórt og þykkt að
það var útilokað að það myndi nokkurn tíma
gufa upp og verða að engu. Síðan gufaði það
upp og varð næstum að engu …
1997
Eftir jól eru eftirstríðsár höfundarins. Allt í
einu er draumurinn á enda og raunveruleikinn
blasir við: Enginn kaupir bækur, fjölmiðlar hafa
ekki lengur áhuga á bókum, enginn á pening og
öllum er sama um höfunda og höfundarnir eru
ekki lengur frægir, umtalaðir, frábærir. Ég var
enn í herberginu á Brávallagötunni, en bóka-
kassarnir voru tómir, veskið var tómt og haus-
inn var tómur eins og tunna eftir drykkju, gleði
og glaum síðustu vikna …
Hvað nú? Ég hélt áfram að skrifa en ekkert
gekk; allt sem ég hamraði á ritvélina næstu
mánuði og ár var andvana fætt en síðborið af-
sprengi þessara myrku miðalda ævi minnar er
skáldsagan Myrkravél sem Mál og menning gaf
út haustið 1999. En við erum enn stödd í kjall-
araherbergi í Vesturbænum; ég sendi handrit
eftir handrit á útgefendur og fékk kurteis höfn-
unarbréf til baka. Áður en ég varð gjaldþrota
réð ég mig í vinnu á bókbandsdeildinni hjá
Steindórsprenti/Gutenberg. Það fyrirtæki er
ekki til lengur. Ekki frekar en Bíóbarinn og
Kaffi List. Fyrir tuttugasta og sjöunda afmæl-
isdaginn minn hafði ég gefist endanlega upp á
skrifunum: ritvélin fór inn í skáp, ég fór á vaktir
í prentsmiðjunni og vann meira eða minna allan
sólarhringinn og horfði tómeygur fram á veg-
inn. Ekkert beið mín nema stimpilklukka,
prentsverta og pappír …
Aftur til Flateyjar
En ég gat þó alltaf hugsað fáeina mánuði aftur í
tímann og bakkað eina ferðina enn á Lödunni
upp að rennihurðinni á bókbandsstofunni Flat-
ey þar sem brúnum pappakössum var hand-
langað innan úr rökkrinu og í skottið á bílnum.
Tíu eða tólf pappakassar barmafullir af fyrstu
skáldsögunni minni fylltu bílinn frá aftursæti að
hlera. Tvö eða þrjú hundruð kíló af draumi sem
hafði ræst …
Mér fannst eins og ég hefði sigrað eitthvað en
ég vissi bara ekki hvað. Ekki fyrr en núna …
Mig dreymir alltaf
sama drauminn …
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Stefán Máni „Á Vitabar skálaði ég við sjálfan mig í huganum og splæsti síðan á mig steik: Það
var útgáfupartíið,“ segir Stefán Máni um útgáfu fyrstu bókar sinnar, Dyrnar á Svörtufjöllum.
Á þessum orðum byrjar fyrsta skáldsaga
Stefáns Mána, Dyrnar á Svörtufjöllum, sem
hann sendi frá sér haustið 1996. Það var bók
sem fór með veggjum í darraðardansinum
fyrir þau jól en gerbreytti þó lífi eins manns.
Hún batt enda á innihaldslaust líf ungs verka-
manns og markar um leið upphaf ferils hans
sem rithöfundar. Það má með sanni segja að
bókin hafi skapað höfund sinn, alveg eins og
hann hafði skapað hana. Í haust eiga Dyrnar
á Svörtufjöllum tíu ára útgáfuafmæli. Af því
tilefni rifjar höfundurinn upp meðgöngu og
fæðingu sögunnar, sem spratt óvænt upp úr
hrjóstrugum jarðvegi uppgjafar og örvænt-
ingar.
Höfundur er rithöfundur
10 LAUGARDAGUR 14. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
þó að vissulega ríki hér sovésk viðhorf í um-
hverfismálum.
Á sama tíma og íslenskt viðskiptalíf hefur
náð ævintýralegum hæðum og íslenskir at-
hafnamenn eru að sölsa undir sig fyrirtæki og
eignir út um allan heim, er sem íslenskir
stjórnmálamenn séu á valdi gerska ævintýr-
isins. Niðurgreidd, ríkisstyrkt stóriðja er
lausnarorðið eins og sést best á því að á sínum
tíma var ætlunin sú að stofna sérstakt fyr-
irtæki um virkjunina á Austurlandi. Þetta fyr-
irtæki átti að fá þær einar tryggingar sem lágu
í framkvæmdinni sjálfri. Svo komust menn að
því að með því móti yrði orkan of dýr og fallið
var frá slíkum ákvörðunum. Og stóriðjuflokk-
arnir ætla ekki að láta staðar numið við Kára-
hnjúkavirkjun. Nú á að stækka álverin í
Straumsvík og Grundartanga, reisa nýtt álver í
Helguvík, enn annað á Húsavík. Einnig eru
hafnar viðræður um að flytja norska magn-
esíumkísilmálmframleiðslu frá Ålvik í Harða-
landi til Íslands og koma henni fyrir á Grund-
artanga, en orkuverðið í Noregi er fjórum
sinnum hærra en hér á landi.16
Eru hugsjónir íslenskra stjórnmálamanna í
sama verðflokki og raforkuverðið eða hvílir
kannski leynd yfir þeim líka?
Tugþúsundir Íslendinga hafa gerst fráhverf-
ir stóriðjuhugsun á síðasta áratug og sá hópur
stækkar aðeins. Sumir merkja ekki augnablik-
ið þegar efinn vaknar, í öðrum tilvikum er sem
hulu sé svipt frá augum í einu vetfangi. Ein-
hverjir umturnast í göngu uppi á miðhálendi í
grænum dal við það eitt að sjá nástráin bærast
í blænum. Aðrir finna hvernig ástin á landinu
kemur sér fyrir í ennisblöðunum við það að sjá
móruga jökulá byltast milli bakka eða við það
að horfa á hreindýrskálfa hlaupa yfir mosa-
breiðurnar. Svo eru það þeir sem finna ein-
hverja undarlega lykt í loftinu sem þeir koma
ekki fyrir sig.
Ég man líka eftir augnablikinu þegar efinn
kom sér fyrir í huga mínum. Mín vitrun var þó
ekki andartak hinnar skáldlegu stundar. Hvað
á Ísland sameiginlegt með Brasilíu, Indlandi,
Jamaíku, Venesúela, Víetnam, Mið-Aust-
urlöndum, Suður-Afríku, Tadsjikistan og Aust-
ur-Rússlandi? Það var frammi fyrir samskonar
lista og þessum sem fyrstu spurningar mínar
um virkjanastefnu stjórnvalda vöknuðu. Síðan
þá hef ég lesið mikið um efnið og séð marga
lista. Listarnir eru allir eins þó að löndin á þeim
séu aldrei nákvæmlega hin sömu. Stóriðjulist-
inn er skilningsapparat. Hann stingur í augun
og minnir helst á framandgervingu í ljóði,
óvænta mynd eða hugmynd sem gerir það að
verkum að lesandinn stoppar og íhugar það
sem hann les. Stóriðjulistinn á að valda okkur
áhyggjum. Hann sýnir þá valkosti sem margar
af fátækustu þjóðum heims standa frammi fyr-
ir, en það eru sömu valkostir og íslenskir
stjórnmálamenn berjast fyrir að gera að okkar.
Það er kominn tími til að risinn í íslenskum
stjórnmálum vakni af steinrunnum nátttrölls-
svefni sínum. Án Sjálfstæðisflokksins verður
ekki hægt að snúa þróuninni við og af þeim
sökum ber hann mesta ábyrgð á þeim náttúru-
og efnahagsspjöllum sem íslenskar stór-
iðjuframkvæmdir munu hafa í för með sér um
ókomna framtíð.
1„Umhverfið og áróðurstækin: Stendur Sjálfstæð-
isflokknum ógn af umhverfisvernd?“. Lesbók Morgunblaðsins,
15. júlí 2006.
2 Illugi Gunnarsson: „Náttúruvernd og orkuverð“. Fréttablað-
ið, 9. júlí 2006.
3 Illugi Gunnarsson: „Hægri grænt – náttúruvernd og nátt-
úrunýting“. Lesbók Morgunblaðsins, 29. júlí 2006.
4 Kolbrún Halldórsdóttir: „Markaðslögmálin gagnast ekki
baráttunni fyrir náttúruvernd“. Lesbók Morgunblaðsins, 19.
ágúst 2006.
5 Roger Bate: „Can Iceland Be a Bridge over the Atlantic?“.
American Enterprise Institute, 15. desember, 2005. Sjá:
http://www.aei.org/publications/pubID.23584,filter.all/
pub_detail.asp
6 Illugi Gunnarsson ræðir þessar hugmyndir víða, m.a. í svar-
grein sinni „Hægri grænt – náttúruvernd og náttúrunýting“ í
Lesbók Morgunblaðsins, 29. júlí 2006. Sigríður Ásthildur set-
ur fram umhverfismálahugmyndir sínar í pistlinum „Njótum
og nýtum“, sem birtist í Blaðinu, 27. september 2006.
7 Skoðanakannanir Capacent Gallup fyrir Náttúruvernd-
arsamtök Íslands sýna að 2⁄3 hlutar Íslendinga hafa áhyggjur
af loftslagsbreytingum og að um 80% telja að stjórnvöld geri
lítið til að draga úr útstreymi mengandi efna.
8 Margir hafa verið ósáttir við þær fullyrðingar, t.d. Teitur
Björn Einarsson í pistlinum „Vinstri hroki“ sem finna má á
deiglan.com (5.9.2006); sjá einnig „Staksteina“ Morg-
unblaðsins, 4. september 2006.
9 Það er þó kannski engin furða þótt vinstri grænir hlaupi upp
til handa og fóta og segi ekki gerlegt að vera umhverfisvernd-
arsinni og aðhyllast sjónarmiði hægri stefnu í ljósi þess hvaða
umhverfiskandídötum Sjálfstæðisflokkurinn teflir fram.
10 Jón Steinsson: „Hægrimenn og gróðurhúsaáhrif“
(2.8.2006). Sjá: http://www.deiglan.com/10109.html
11 Í Ameríku eru þess konar vísindi kölluð „tobacco science“
eða tóbaksvísindi eftir að upp komst að tóbaksframleiðendur
beinlínis borguðu vísindamönnum fyrir falsaðar niðurstöður.
12 Sjá David Adam: „Royal Society tells Exxon: stop funding
climate change denial“. The Guardian, 20. september, 2006.
13 Sjá „Rusal íhugar að reisa álver hér“ á fréttavef Rík-
isútvarpsins, www.ruv.is (27.09.2006).
14 Ann Danaiya Usher: Dams as Aid: A Political Anatomy of
Nordic development thinking. London: Routledge, 1997.
15 Nýlega voru Impregilo og fleiri fyrirtæki sektuð um háar
fjárhæðir fyrir mútur í tengslum við stíflugerð í Afríkuríkinu
Lesótó.
16 Sjá „Tímabært að endurskoða orkuverðlagningu“
(19.09.2006), www.ruv.is. Í annarri frétt á www.ruv.is
(12.10. 2006) segir að starfsemi stóriðjufyrirtækisins Elkem
verði flutt til Íslands. Í þeirri frétt er því haldið fram að raf-
orkuverð sé „nú um tvöfalt hærra í Noregi en á Íslandi.“
Höfundur er bókmenntafræðingur.