Lesbók Morgunblaðsins - 28.10.2006, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 28. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
lenskur neytandi eða íslenskt bókasafn þarf að
panta stök eintök af sértækari bókum þá er
engra annarra kosta völ en að panta bókina
beint. Ekki nema með því að yfirgefa eyjuna,
annars er einfaldlega ekki hægt að kaupa
pólsku útgáfuna af Við hverju má búast þegar
maður á von á sér, eða notaða útgáfu sjaldséðr-
ar nýsjálenskrar skáldsögu, öðruvísi en að
panta bækurnar sjálfir af Netinu. Það má
vissulega panta bók að utan í gegnum samlán
bókasafna, það kostar bara oft mun meira en að
einfaldlega kaupa hana.
Að kaupa notaðar bækur er ekki bara eitt-
hvað sem maður verður að gera ef bókin sem
mann langar í er ekki lengur gefin út – það er
líka góður valkostur í stað þess að kaupa nýja.
Bók sem kostar 20 dollara ný á Amazon kann
að kosta þrjá dollara notuð eða um 210 kr. En
Íslendingar eru svo gott sem útilokaðir frá
þessum markaði vegna samsetningar hás send-
ingarkostnaðar og annarra gjalda. Þegar búið
er að greiða 630 kr. sendingarkostnað, 116 kr.
virðisaukaskatt og 450 kr. þjónustugjald er 210
kr. bókin komin upp í 1.406 kr. auk að sjálf-
sögðu ferðarinnar á pósthúsið. Það er lítil hjálp
í ShopUSA – þar kostar hún 1.441 kr. Það er
því aðeins litlu dýrara að kaupa bókina nýja í
gegnum Bóksölu stúdenta. Eða láta senda hana
til vinar í Bandaríkjunum fyrir um 450 kr. þar
sem hún mun bíða þar til þú átt þar næst leið
um.
Er það þess virði að rukka
virðisaukaskatt af erlendum bókum?
Fljótlegasta leiðin til gera Íslendingum kleift
að kaupa fleiri erlendar bækur væri að breyta
virðisaukaskattskerfinu. Nú tel ég ekkert sið-
ferðilega rangt við að innheimta söluskatt af er-
lendum innkaupum og hver einstakur kostn-
aðarliður hefur sína einstöku réttlætingu. En
þegar þeir eru allir sameinaðir hafa þeir eyði-
leggjandi áhrif á hvern þann sem vill panta
staka bók. Við greiðum mjög háan sending-
arkostnað, síðan verðum við að greiða virð-
isaukaskatt ekki aðeins af kaupverðinu heldur
líka af háa sendingarkostnaðinum, erum svo
krafin um umsýslugjald fyrir skattheimtuna
sem er oft hærra en skatturinn sjálfur, og að
lokum þurfum við yfirleitt líka að gera okkur
ferð á pósthúsið. Líkt og skýrt kom fram í ný-
legum Víkverjadálki í Morgunblaðinu (12.
ágúst 2006) skilja fæstir þetta ferli þar til þeir
upplifa það sjálfir. Þannig að annar mínus í
kerfinu er sú óþægilega uppgötvun þeirra sem
panta í gegnum Netið í fyrsta skipti og ekki átt-
uðu sig á að þeir yrðu krafnir um 450 kr. þjón-
ustugjald.
Það er sorglegt að við skulum þröngva þessu
kerfi upp á okkur sjálf þrátt fyrir þá staðreynd
að það skapi ríkinu ekki miklar tekjur. Ná-
kvæmar tölur skortir en það er engu að síður
ágætis ágiskun að af þeim 24.000 innfluttu bók-
um sem fóru í gegnum Íslandspóst árið 2005
hafi virðisaukaskatturinn numið 24 milljónum
kr. (reiknað á grundvelli þess að skattur með-
albókapakkans sé 990 kr.) og þjónustugjöldin
8,4 milljónum kr. (miðað við fyrra gjald sem var
350 kr. fyrir pakkann). Vinnan við umsýslu og
innheimtu bókagjaldanna krefst vinnu rúmlega
tveggja fullra starfskrafta hjá Tollmiðlun auk
ákveðins hlutfalls af tíma bréfbera og póst-
húsastarfsfólks; það má því giska á að vinnu-
kostnaðurinn vegna þessa nemi 10 milljónum
kr. Þetta þýðir að tekjur ríkisins vegna er-
lendra bókapantana árið 2005 numu 22 millj-
ónum kr. Af þessum 22 milljónum kr. má síðan
draga frá þann tíma sem Íslendingar eyða í að
fást við kerfið (bíða heima eftir póstinum og í
ferðir á pósthúsið), að forðast kerfið (með því
að kaupa bækur á ferðum erlendis) og viðbót-
arkostnaðinn við að láta tvær heilbrigðar
manneskjur sem gætu betur sinnt öðrum störf-
um eyða tíma sínum í að innheimta virð-
isaukaskatt.
Við þetta má síðan bæta kostnaði vegna mis-
taka í kerfinu og skrifræðislega fáránleikans
sem kerfið óumflýjanlega getur af sér. Íslands-
póstur þarf að flokka þúsundir pakka, mjög
hratt, í pakka sem rukka á virðisaukaskatt af
og þá sem ekki á að greiða af, og þeim verða
auðvitað á mistök.
Ég átti eitt sinn í baráttu við Tollmiðlun til að
frelsa úr haldi bandarísku skattaeyðublöðin
mín (ókeypis skýringarbæklingurinn er frekar
þykkur og pakkinn leit út fyrir að koma frá op-
inberri stofnun, þeir töldu þetta því vera bók
sem ég hefði pantað og sendu mér staðlað bréf
þar sem þess var óskað að ég framvísaði reikn-
ingi). Öðru sinni lenti ég í stappi við að fá af-
henta nokkra notaða geisladiska sem ég hafði
lánað bandarískum kollega sem hún síðan
sendi mér til baka í fyrirtækjaumslagi. Toll-
miðlun lét þá ekki af hendi fyrr en ég hafði
fengið þennan sama kollega til að senda þeim
fax þess efnis að ég hefði ekkert greitt fyrir
diskana. Ég tek enn að mér ritstýringu og
rannsóknarvinnu fyrir sama fyrirtæki og verð
sífellt að vera að minna kollega mína þar á að
senda allar bækur sem mér eru ætlaðar í hand-
skrifuðum umslögum, svo Tollmiðlun stöðvi
sendingarnar ekki fyrir mistök.
Í enn öðru tilfelli var mér send óvænt gjöf frá
gömlum vini: bók frá Amazon. Gjafir sem kosta
minna en 7.000 kr. eru undanþegnar virð-
isaukaskatti. Bókin kostaði 1.015 kr. og var
réttilega merkt sem gjöf. En gjafamerkingin
fór framhjá Íslandspósti, sem sendi út reikning
vegna 492 kr. virðisaukaskatts og þjónustu-
gjalds og sendi pakkann heim til mín. Ég hefði
líklega áttað mig á mistökunum, en var ekki
heima þegar pakkinn kom. Aldraður nágranni
minn hélt að hún væri að gera mér greiða,
kvittaði fyrir pakkann, greiddi gjöldin og bað
mig síðan um að endurgreiða sér. Ég gerði það,
en hef ekki enn haft tíma til að láta Íslandspóst
endurgreiða mér. Ég vil taka það skýrt fram að
ég kenni ekki starfsfólki Íslandspósts um þessi
mistök. Ég hef séð starfsemi Íslandspósts með
eigin augum og efast ekki um að þeir gera sitt
besta. Ég kenni hins vegar um kerfinu sem
gerir þessi mistök óumflýjanleg og íþyngir
neytendum með kostnaði sínum.
Ég er sammála því að ríkið þarf að afla
tekna, en að innheimta virðisaukaskatt á inn-
fluttum bókum sýnist mér vera ein versta leiðin
til slíkrar tekjuöflunar. Með henni eyðir kerfið
öllum okkar tíma og skapar ekki miklar tekjur.
Þetta gefur Íslandi líka það orðspor að þar sé
óþjált að stunda nokkurs konar þekkingar-
iðnað.
Undanskiljum bókasöfn virðisaukaskatti
Ég var hneykslaður þegar ég frétti að almenn-
ings- og háskólabókasöfn þurfa að greiða virð-
isaukaskatt af bókunum sem þau panta. Ætt-
um við ekki að undanskilja öll bókasöfn
virðisaukaskatti og þjónustugjöldum á inn-
fluttum bókum (og kannski íslenskum líka)? Af
hverju látum við bókasöfn, sem fá rekstrarfé
sitt að mestu frá ríkinu, endurgreiða ríkinu
skatta af bókakaupum sínum, og jafnvel enn
hærri upphæðir fyrir pappírsvinnuna sem í
þessu felst? Viljum við ekki örva gáfnafar fólks
– í stað þess að hvetja það til að horfa meira á
sjónvarpið? Hvaða hugsanlega ástæðu höfum
við fyrir því að hindra bókasafn Landbún-
aðarháskólans á Hvanneyri frá því að kaupa
14% fleiri bækur um fjárbúskap og grasrækt
og nota þar með umsýslukostnaðinn af greiðslu
þessara skatta til einhvers þarfara?
Komum fleiri bókum í almenna umferð
Íslendingar kaupa ekki bara erlendar bækur,
þeir fá þær líka lánaðar á bókasafninu. Guðni
Elíasson fékk nýlega birta eftir sig ögrandi
grein í Lesbók Morgunblaðsins (1. júlí 2006)
þar sem hann harmar hve litlu fjármagni Há-
skóli Íslands eyði til bókakaupa, á meðan Jón
Ólafsson (Lesbók, 18. ágúst 2006) hefur hvatt
til betra eftirlits með því hvaða bækur eru
valdar. Að auka fjármagn til bókakaupa væri
frábært, en mig langar að benda á að íslensk
bókasöfn gætu nýtt betur þær bækur sem þeg-
ar eru til á eyjunni með tvennum hætti: með því
að hvetja til frekari bókagjafa og með því að
skrá fleiri bækur.
Fjöldi fólks á Íslandi á erlendar bækur sem
það les ekki lengur og sem myndu nýtast betur
í bókasafnskerfinu. Sé ársskýrsla Lands-
bókasafnsins skoðuð sést að Íslendingar gefa
bókasöfnum erlendar bækur – en alltof fáar að
mínu mati. Nýleg tilfærsla á 6.000 bókum frá
Goethe-stofnuninni yfir í almannahendur setti
gott fordæmi (þótt ég hafi aldrei skilið hvers
vegna safnið var gefið Bókasafni Hafnarfjarðar
í stað Landsbókasafninu). Íslensk bókasöfn
hafa líka þegið nokkrar stórar bókagjafir að ut-
an, m.a. tvær gjafir frá Bretlandi og Bandaríkj-
unum upp á nokkur þúsund bækur hvor um
málefni tengd stærðfræði og mannfræði frá
prófessorum á eftirlaunum. Og þótt bókagjöf-
um geti stundum fylgt töluverð aukavinna sem
og aukið virði er ég sannfærður um að landið
ætti – og getur – hvatt til fleiri slíkra gjafa.
Það þarf líka að klára að skrásetja allar bæk-
ur sem til eru á bókasöfnum okkar. Samskrá
bókasafna landsins í Gegni, eitt tölvuvætt land-
lægt kerfi, hefur verið stórt skref fram á við
fyrir íslenska lesendur. En það þarf engu að
síður að klára að skrá í Gegni allar bækur sem
á söfnunum leynast. Mörg bókasöfn eiga stóran
haug óskráðra bóka, þar með talið Lands-
bókasafnið og Bókasafnið á Bifröst. Bókasafn
Hafnarfjarðar tilkynnti nýlega á vefsíðu sinni
að þar hefðu verið skráðir mánaðarlega um 100
titlar úr Goethe-safninu; með þessum hraða
mun það taka meira en fimm ár að skrá allt
safnið.
Að skrásetja bækurnar, þó dýrt sé, er sér-
lega mikilvægt af því að við búum á eyju. Hver
nýr titill sem kemur inn í kerfið er titill sem
aldrei aftur þarf að leita að utan landsteinanna
– hvorki til kaups né samláns bókasafna. Það er
kaldhæðnislegt að bækurnar sem yfirleitt eru
aftast í skráningarröðinni eru þær sem nú þeg-
ar er ekki að finna í Gegni. Að skrá bók inn í
kerfið í fyrsta skipti tekur lengri tíma og aðeins
bókasafnsfræðingar sem hafa lokið sérstöku
námi og hlotið skráningarleyfi mega færa inn
upplýsingar um nýjar bækur í Gegni. Ekki allir
bókasafnsstarfsmenn hafa skráningarleyfi
(fyrir nánari upplýsingar um þetta og tengd
málefni sjá www. alefli.is, vefsvæði Gegnisnot-
enda) og mörg bókasöfn hafa afar takmarkaðar
fjárveitingar og veita fyrir vikið forgang skrán-
ingu þess efnis sem þegar er að finna í kerfinu.
Bókasafn Dagsbrúnar í Reykjavíkurakademí-
unni geymir til að mynda stóran haug bóka sem
ekki er þegar að finna í Gegni og bíða þess að
verða skráðar – einhvern tímann. Þetta er
virkileg synd því að það eru nákvæmlega bæk-
urnar sem ekki eru í Gegni sem auka verðmæti
bókasafna landsins í heild.
Að lokum, þótt það sé e.t.v. nokkuð langsótt
leið til að koma fleiri bókum í umferð, er að
birta lista yfir innihald bókasafna í einkaeigu.
Þetta er ekki jafn vanþakklátt starf og kann að
hljóma og það er þess virði að hvetja til þess á
eyju eins og Íslandi þar sem alþjóðleg sam-
safnalán eru dýr. Gerð slíkra lista er líka orðin
miklu auðveldari með tilkomu tækja á vefnum
til að búa til skrár og til leitarmöguleika fyrir
einkaskrár (eins og á hinu skemmtilega vin-
sæla www.librarything.com, þar sem þegar er
að finna fjóra einstaklinga á Íslandi). Hér er
þegar að finna nokkra slíka lista (einn um
ítalskar bækur er að finna á slóðinni http://
www.hi.is/~maurizio/risorse.htm). Þeir sem
hafa áhuga á bókaviðskiptum geta síðan bæst í
hóp nokkurra annarra Íslendinga á slóðinni
www.bookmooch.com.
Hvetjum til netsölu á notuðum
bókum á Íslandi
Netbyltingin í sölu notaðra bóka hefur breytt
bandarískri og evrópski bóksölu, en
hefur ekki enn alveg náð ströndum Íslands.
Eina leiðin til að finna notaðar bækur er að
leita í hillum Kolaportsins, Góða hirðinum eða í
einni öfárra fornbókaverslana (þær eru að-
allega í miðbæ Reykjavíkur og Akureyrar). Ari
og Bragi sem reka fína fornbókaverslun á horni
Klapparstígs og Hverfisgötu voru til skamms
tíma með dýrustu og verðmætustu bækurnar
sem þeir höfðu til sölu á skrá hjá abebooks-
.com, en hafa nú fjarlægt listann vegna slæ-
legra viðbragða. Ég spái því þó að fljótlega taki
einhver það skref að setja venjulegar notaðar
íslenskar bækur – Sjálfstætt fólk og aðrar slík-
ar, námsbækur og erlendar bækur – í netsölu.
Tæknin er fyrir hendi og kostnaðurinn við að
hefja slíkan rekstur er lítill.
Þótt sala á notuðum bókum sé ekki góð leið
til að auðgast, þá tel ég að a.m.k. einn ein-
staklingur á Íslandi gæti haft lifibrauð sitt af
því að selja fólki bækur á Netinu. Það eina sem
þarf að breytast er að bæði þeir sem selja bæk-
urnar og þeir sem kaupa þær þurfa að venjast
því að gera kaup sín í gegnum tölvu.
Góði hirðirinn fær 20 kassa af bókum frá
vinnslustöðvum Sorpu dag hvern. Ég velti því
fyrir mér hvort þeir gætu ekki selt einhverjum
þær fyrir hærra verð en 100 kr., sem er núvirði
þeirra, ef þeir settu þær á Netið. Fólki á lands-
byggðinni yrði líka akkur að netsölu, það þyrfti
þá ekki lengur að gera sér ferð til Reykjavíkur
til að kaupa notaða bók ódýrt. Hvort sem mað-
ur býr á Kópaskeri eða í Kópavogi þá má panta
og kaupa bók á Netinu á nokkrum sekúndum,
sem síðan birtist í póstkassanum nokkrum dög-
um síðar.
Kæfum ekki þekkingariðnaðinn
í fæðingu
Því heyrist oft fleygt að við séum (eða ættum að
vera) að búa til þekkingarsamfélag á Íslandi.
En með því að gera Íslendingum erfitt fyrir
með að kaupa bækur að utan tökum við þá
áhættu að kæfa iðnað sem þrífst á fróðleik. Við
neitum sjálfum okkur um það sem við þörfn-
umst til að vera samkeppnishæf og við látum
námsmenn okkar búa við fróðleiksskort.
Ég tel að við öll hér skiljum afleiðingar þess
að búa á afskekktri eyju í Norður-Atlantshafi.
Við kunnum að meta þá mörgu kosti sem Ís-
land hefur upp á að bjóða. Við vitum líka að
fjarlægðin getur verið ókostur, til dæmis hvað
háan sendingarkostnað varðar. Sem samfélag
ættum við ekki að vera að vinna saman að því
að bæta fyrir fjarlægðina í stað þess að auka á
áhrif hennar? Ættum við ekki að opna hliðin og
hleypa bókunum inn?
Bóksala á Netinu Netbyltingin í sölu notaðra bóka hefur breytt bandarískri og evrópskri bók-
sölu en hefur ekki enn alveg náð ströndum Íslands.
»Ég var hneykslaður þegar
ég frétti að almennings- og
háskólabókasöfn þurfa að
greiða virðisaukaskatt af bók-
unum sem þau panta.
Höfundur er alþjóðafulltrúi og aðjúnkt
við Háskólann á Bifröst.