Lesbók Morgunblaðsins - 28.10.2006, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 28.10.2006, Blaðsíða 12
12 LAUGARDAGUR 28. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Birtu Björnsdóttur birta@mbl.is Bræðurnir Ethan og Joel Coenætla að gera þriðju myndina með leikaranum George Clooney í aðalhlutverki. Myndin sem er í bí- gerð nefnist Burn After Reading og fjallar um starfsmann leyniþjónust- unnar CIA sem týnir diski sem inni- heldur handrit að bók sem hann er að skrifa. Þríeykið vann áður saman að myndunum O Brother Where Art Thou? (2000) og Intolerable Cruelty (2003). Þeir Coen- bræður hafa jafn- an sama háttinn á við verkaskipt- ingu við myndir sínar. Handritið skrifa þeir saman, Joel leikstýrir og Ethan framleiðir. Þeir fengu Óskarsverðlaun fyrir besta frumsamda handritið árið 1996 fyrir kvikmyndina Fargo. Tökur á Burn After Reading eiga að hefjast í ágúst eða september á næsta ári, eða um leið og Clooney hefur lokið við leikstjórn á nýjustu mynd sinni, Leatherheads. Myndin fjallar um knattspyrnu á þriðja áratug síðustu aldar og fer Clooney jafnframt með aðalhlutverk myndarinnar ásamt Renee Zellwe- ger.    Af annarri þekktri bræðratvennuí Hollywood, Farrelly- bræðrum. Þeir hafa nú tekið að sér að endurgera sjón- varpsþætti fyrir Bandaríkjamark- að, byggða á breskum gam- anþáttum sem nefnast Ím With Stupid. Þeir aðilar sem standa að flutn- ingnum yfir Atl- antshafið eru þeir sömu og stóðu að endurgerð gamanþáttanna The Of- fice vestanhafs. Í bresku útgáfunni fer Mark Ben- ton með hlutverk heimilislauss manns sem fær inni á sambýli fyrir fatlaða, en þættirnir fjalla að mestu leyti um fólk sem er fatlað að ein- hverju leyti.    Þann 2. nóvember næstkomandieru 100 ár síðan danski kvik- myndaleikstjórinn Alfred Lind opn- aði fyrsta kvikmyndahúsið á Íslandi, Reykjavík Biog- raftheater. Þetta var sögulegur dagur í íslenskri kvik- myndasögu, og síðan þá hefur verið mikil sam- vinna milli kvik- myndagerð- armanna landanna tveggja. Haldið verður upp á 100 ára af- mælið á Norðurbryggjunni 2., 9. og 16. nóvember næstkomandi með sýningu bæði nýrra og eldri kvik- mynda. Meðal þeirra íslensku mynda sem sýndar verða eru Blóð- bönd eftir Árna Ólaf Ásgeirsson og Englar alheimsins Friðriks Þórs Friðrikssonar. Einnig verður fyrirlestur um dansk-íslenska kvikmyndasögu 1906-2006. Stiklað verður á stóru með sýningu brota úr kvikmyndum frá tímabilinu. M.a. verður sýnt brot úr þöglu myndinni Höddu Pöddu (1924), íslensku kvikmyndinni 79 af stöðinni, sem Erik Balling gerði ár- ið 1962, og úr nýrri myndum eftir m.a. Simon Staho og Dag Kára, Lars von Trier og Friðrik Þór Frið- riksson. Auk þess fara fram umræður um hina alþjóðlegu kvikmyndagerð. Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast á vefsíðunni bryggen.dk. KVIKMYNDIR George Clooney Friðrik Þór Friðriksson Bobby Farrelly Eftir Björn Norðfjörð bn@hi.is Þegar Martin Scorsese var við nám í kvik-myndagerð við New York University ásjöunda áratugnum gleypti hann í sigkvikmyndir ítalska nýraunsæisins, breska nýbíósins og frönsku nýbylgjunnar. Það var þó bandarísk kvikmynd sem hafði mest áhrif á hann: Shadows (1959) í leikstjórn Johns Cas- savetes. Þessi fyrsta mynd Cassavetes hefur al- gera sérstöðu í bandarískri kvikmyndagerð. Hún var tekin á 16mm filmu í New York og í brenni- depli var daglegt líf þriggja svartra systkina. Segja má að með þessari mynd hefji raunsæið innreið sína vestra og Cassavetes hefur verið per- sónugervingur þess allar götur síðan. Hann lék vissulega í hefðbundnu sjónvarpsefni og Holly- wood-myndum, t.d. The Killers (1964), The Dirty Dozen (1967) og Rosemary’s Baby (1968), en fyrst og fremst til að afla tekna til fjármögnunar eigin kvikmynda sem Hollywood hafði hvorki áhuga á að framleiða né dreifa. Scorsese sýndi honum fyrstu mynd sína Who’s that Knocking at My Door (1967) sem var sömu- leiðis raunsæisverk tekið í svarthvítu í New York þar sem þá óþekktur Harvey Keitel fór með aðal- hlutverkið. Cassavetes var hrifinn og réð Scor- sese sem hljóðmann við sína nýjustu mynd Min- nie and Moskowitz (1971). Samstarfið stóð þó ekki lengi þar sem í miðjum upptökum bauð B- mynda-mógúllinn Roger Corman Scorsese að leikstýra Boxcar Bertha (1972). Hann greip tæki- færið fegins hendi og bræddi saman ástarsögu og blóðuga ræningjamynd að hætti Hollywood – þótt krydduð væri. Goðið Cassavetes var lítt hrifið: „Marty, þú hefur eytt heilu ári af ævi þinni í al- gjört drasl [e. Marty, you’ve spent a year of your life making a piece of shit].“ Það er Scorsese sjálfur sem rifjar þetta upp – ekki af biturð held- ur þakklæti. Hann þakkar Cassavetes það að hafa ekki gengið til liðs við Hollywood og snúið sér þess í stað að persónulegri kvikmyndagerð. Áttundi áratugurinn stóð upp úr á ferli þeirra beggja. Aftur og aftur tókst Cassavetes að kalla fram þann undraverða leik sem markar Faces (1968) og á ekki sinn líka á sjöunda áratugnum. Þematísk úrvinnsla þeirrar myndar á skipbroti hjónabandsins birtist með nýjum hætti í ein- stökum samleik Peters Falks og Genu Rowlands í A Woman Under the Influence (1974). Ben Gazzara var engu síðri í The Killing of a Chinese Bookie (1976), mynd sem þótti misheppnuð á sín- um tíma en er í dag lykilverk í bandarískri kvik- myndasögu. Síðasta myndin sem Cassavetes leik- stýrði á áratugnum, Opening Night (1977), var engu upplitsdjarfari en nú bættist við sem þema sjálf leiktúlkunin en í myndinni lék Rowlands leikkonu í tilfinningakreppu. Á áttunda áratugn- um birtist dekkri mynd af bandarísku samfélagi á hvíta tjaldinu en við eigum að venjast en það er í þessum þremur myndum sem glíman við hvers- dagslífið er hvað þungbærust. Scorsese fylgdi ráðum Cassavetes og réðst í gerð Mean Streets (1973), framleiddi og skrifaði handrit jafnframt því sem hann leikstýrði. Um sjálfstæða framleiðslu var að ræða líkt og síðar meir var tilfellið með New York, New York (1977) og Raging Bull (1980). En þar með lýkur samanburðinum við Cassavetes þar sem allar þessar myndir fóru í almenna dreifingu á vegum Hollywood-samsteypnanna auk þess sem Alice Doesn’t Live Here Anymore (1974) og Taxi Dri- ver (1976) voru framleiddar af samsteypunum. Það fer þó ekki á milli mála að þetta eru myndir sem byggjast á persónulegri sýn leikstjórans og lúta ekki lögmálum Hollywood – ólíkt Boxcar Bertha. Undarlegt nokk hefur Scorsese fikrað sig nær og nær Hollywood samfara því að frelsi leik- stjóra þar hefur minnkað – ekki síst við gerð rán- dýrra mynda á borð við Gangs of New York (2002), The Aviator (2004) og nú The Departed (2006). En nú er Scorsese líka búinn að fá nóg og segist ætla að endurheimta listrænt frelsi sitt með gerð ódýrra mynda utan Hollywood – en það hafði Cassavetes reyndar ráðlagt honum fyrir margt löngu. Cassavetes og Scorsese SJÓNARHORN » Scorsese greip tækifærið fegins hendi og bræddi saman ást- arsögu og blóðuga ræningjamynd að hætti Hollywood – þótt krydduð væri. Goðið Cassavetes var lítt hrifið: „Marty, þú hefur eytt heilu ári af ævi þinni í algjört drasl.“ Eftir Sæbjörn Valdimarsson saebjorn@heimsnet.is Á ður en sjónvarp, fjöldaframleidd amerísk afþreying og breyttur tíð- arandi gekk nánast frá frumsýn- ingum á evrópskum myndum á al- mennum bíósýningum áttu nokkrir franskir leikstjórar virkan aðdáendahóp á Íslandi. Mér kæmi ekki á óvart að Claude Chabrol hafi verið fremstur í þeim flokki, sem taldi m.a. Philippe de Broca, Jean-Luc God- ard, Louis Malle, Bertrand Tavernier og ekki síst François Truffaut. Sem naut ásamt Chabrol slíkr- ar virðingar og vinsælda að flestar ef ekki allar þeirra myndir rötuðu inn í bíóin á löngu tímabili. Truffaut féll frá aðeins liðlega fimmtugur árið 1984, en Chabrol er enn að, hálfáttræður að aldri. Maður saknar krimmameistarans, en nýjasta stórvirki leikstjórans og handritsöfundarins, La Demoiselle d’honneur eða Brúðarmærin, hefur farið víða í sumar, bæði á hátíðum og á almennum sýningum, og hlotið óspart lof. Aðal Chabrols er að ná til breiðs hóps áhorfenda, hann er djarfur listamaður sem veltir gjarnan upp nýjum hliðum á gamalkunnu efni, þar sem glæpir og refsing eru efst á blaði. Þessi myrki sögumaður frumsýndi nýjasta verkið sitt, L’Ivresse de Pouvoir, á Berl- ínarhátíðinni í vetur. Einn af höfundum „frönsku nýbylgjunnar“ Á ofanverðum sjötta áratugnum starfaði Chabrol sem gagnrýnandi við kvikmyndatímaritið Cahiers du Cinéma, ásamt nokkrum öðrum ungum mönn- um sem vidu breyta og bæta ástandið í kvik- myndagerð. Lognmolla hafði ríkt í Frakklandi um skeið og Chabrol og félagar hans á Cahiers gerðu meira en að tala um hlutina. Áður en áratugurinn var úti höfðu Chabrol, Truffaut, Godard, Eric Rohmer og Jacques Rivette hleypt ferskum vind- um í listgreinina; franska nýbylgjan – Nouvelle Vague – var orðin að veruleika. Það má segja að Chabrol hafi verið upphafsmaðurinn með Le Beau Serge (’58) og Les Cousins (’59), þær höfðu báðar verið sýndar þegar Truffaut setti kvikmynda- heiminn á annan endann með Les Quatre cents co- ups á Cannes vorið 1959. Le Beau Serge er íhugul þroskasaga um her- mann sem snýr aftur til gamla heimabæjarins þar sem fátt hefur breyst til batnaðar, en Les Cousins gerist í höfuðborginni og er kaldhæðnisleg lýsing á lífi sveitapilts sem heldur þangað til náms og sest að hjá frændfólki sínu. Frændurnir er talin ein af grundvallarmyndum nýbylgjunnar og eru þessar myndir báðar fjarri glæpamyndunum sem áttu eftir að verða vörumerki Chabrols. Chabrol finnur morðtólin Eftir vænlega byrjun kom bakslag sem náði yfir fjölda mynda og undir lok þess var fátt að gerast sem minnti á frumherja nýbylgjunnar. Meðal mynda sem Chabrol gerði á þessu tímabili voru nokkrar hasargrínmyndir með Roger Hanin í hlut- verki Tígursins. Þótt þær risu ekki hátt í sam- anburði við það sem síðar kom nutu þær mikilla vinsælda, jafnvel hér heima (þar sem þær voru allajafna sýndar í Hafnarbíói). Jafn skyndilega og meðpalmennskan hófst lauk henni með Les Bitches (’68), kvikindislegri glæpa- sögu sem gerist í fáguðu en spilltu umhverfi auð- manna í Saint-Tropez. Sjarmörinn Jean-Louis Trintignant fer með aðalhlutverkið og Stéphane Audran, þokkadísin með sitt rauðgullna hár, leikur eina af titilpersónunum. Hún var orðin eiginkona leikstjórans og setti mark sitt á öll hans bestu verk næsta áratuginn. La Femme Infedelé (’69) markar tímamót í gerð glæpamynda. Hér fullkomnar Chabrol fyrri til- raunir með formið, myndin er með sterkri undir- öldu kynlífs, lyga, svika, afbrýði og annarra mann- legra bresta meðal frönsku millistéttarinnar. Persónurnar hrokafullar, heillandi og spilltar í senn, víla ekki fyrir sér að myrða ef einhver stend- ur fyrir markmiðum þeirra. Þrátt fyrir hrollvekj- andi og siðblint innihald eru bestu verk Chabrols undarlega þokkafull í aðra röndina. Hann er smekkmaður, siðfágaður heimsborgari með blóð- rautt hugmyndaflug, takmarkalaust þegar kemur að löstum mannskepnunnar. Hann er stílhreinn leikstjóri með næmt auga fyrir smáatriðum sem stórum og leikaravalið endurspeglar þessa eig- inleika. Audran er ekki aðeins tíguleg og góð leik- kona, ef svo ber undir streymir frá henni háski, sannkallaður kvendjöfull sem einskis svífst. Hún er í góðum félagsskap þegar hún leikur á móti Trintignant, Jean Yanne í klassíkinni Le Boucher (’70), og Jean-Pierre Cassell í forræðisdeilunni La Rupture (’70). Hún er engill við hliðina á Michel Vouquet í Juste avant la nuit, en hann kemur við sögu í mörgum Chabrol-myndum. Blóðbrúðkaupið – Les Noces rouges (’73) er hvað eftirminnilegust þeirra allra og nú finnur Audran jafningja sinn í hinum magnaða Michel Piccoli. Þau eru fullkomlega eitt í fordæðuhætt- inum í hrikalegri mynd um framhjáhald, svik og manndráp og lík sem eru leyst upp í rauðgraut. Ósvikin klassík sem verður ekki borin saman við önnur verk. Annar uppskerubrestur góðra mynda stendur fram til Violette Nozière (’73), Audran er þá aftur komin til sögunnar en myndin er minnisstæðust fyrir frammistöðu hinnar ungu Isabelle Huppert sem kornungrar, lauslátrar stúlku og höfuðverkjar broddborgaranna foreldra sinna. Kannski á næstu kvikmyndahátíð? Síðan hefur Chabrol verið að leita fyrir sér, m.a. notað enskumæalandi leikara með misjöfnum ár- angri. Af og til dettur hann niður á sitt gamla form og uppsker naprar, háðskar og spennandi glæpa- myndir á borð við Masques (’87) með Philippe Noi- ret. Undantekning frá krimmaþemanu er dramað Une affaire de femmes (’88), eitt af áhrifamestu verkum Chabrols og segir af dapurlegum örlögum Marie Latour (Huppert), síðustu konunnar sem var tekin af lífi í Frakklandi, dæmd fyrir fóstureyð- ingar á tímum hersetu Þjóðverja í síðari heims- styrjöld. Fyrrnefnd Brúðarmærin er sögð bera vott um að enn brenni eldar með roskna kvikmyndaskáld- inu. Mikið væri ánægjulegt ef þessa allt að því van- metna og hér heima fyrrum vinsæla en nú hálf- gleymda listamanns yrði minnst á næstu kvikmyndahátíð. Chabrol er enn á siglingu Franski krimmaleikstjórinn var lengi fastagest- ur í íslenskum bíóum. Nú er öldin önnur. Einn af þessum leikstjórum er Claude Chabrol sem var einn af upphafsmönnum frönsku nýbylgjunnar en er enn að og frumsýndi sína nýjustu mynd á kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á árinu. Á kvikmyndahátíð Mikið væri ánægjulegt ef þessa allt að því vanmetna og hér heima fyrrum vinsæla en nú hálfgleymda listamanns yrði minnst á næstu kvikmyndahátíð. Brialy og Lafont í Le Beau Serge

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.