Lesbók Morgunblaðsins - 28.10.2006, Page 16
16 LAUGARDAGUR 28. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Eftir Sigríði Þorgeirsdóttur
sigrthor@hi.is
S
íðastliðinn föstudag gekk ég niður
tröppurnar í Aðalbyggingu Há-
skóla Íslands, heim á leið, eftir
vinnuvikuna. Þessi bygging er
táknmynd háskóla á Íslandi, óum-
deild táknræn miðja æðri mennt-
unar og vísinda hér á landi. Þegar hún var
byggð var þetta stærsta bygging landsins og
þótti bera vott um stórhug. Engan gat þá grun-
að hvaða stefnu háskólamenntun átti eftir að
taka á Íslandi. Jafnvel ekki framsýnustu menn,
eins og Ármann Snævarr, sem var rektor há-
skólans í kringum 1960 og hélt eitt sinn eft-
irminnilega ræðu um þróun háskóla. Hann full-
yrti þá að um aldamótin 2000 yrðu nemendur
við skólann orðnir 2000 talsins. Það þótti öllum
vera fjarstæðukennd og glannaleg staðhæfing.
En ofmatið reyndist vanmat, því um árþús-
undamótin voru stúdentar við skólann orðnir
margfalt fleiri, eða á sjöunda þúsund talsins.
Engan gat þá heldur órað fyrir því hversu
margar greinar yrðu kenndar við skólann og að
sérstök grein yrði þar á meðal, kynjafræðin,
sem hefði það verkefni að lýsa upp veruleikann
í ljósi dýpstu aðgreiningar mannlegrar menn-
ingar, skiptingar í karl- og kvenleika.
En víkjum aftur að Aðalbyggingunni, því
sem ég gekk þarna niður stigann á föstudaginn
varð ég vitni að því að verið var að koma fyrir
stórum ljóskösturum inni í byggingunni í þeim
tilgangi að varpa bleiku ljósi út um glugga
hennar. Háskóli Íslands tekur nefnilega þátt í
átaki helguðu árvekni um brjóstakrabbamein
með því að lýsa upp Aðalbygginguna í bleikum
lit átaksins. Við vitum að bleika ljósið stendur
fyrir meira en einungis baráttuna gegn sjúk-
dómi sem leggst á konur. Bleikt er hinn kven-
legi litur og þess vegna táknar bleika ljósið alla
viðleitni til að koma lit kvenleika inn í litróf
veruleikans. Á augnablikum þegar mér líður
vel, eða vil láta mér líða vel, á ég það til að sjá
sjálfa mig fyrir mér gangandi í ljósi og þegar
ég hugsa hlýtt til annarra finnst mér líka gott
að sjá þá fyrir mér baðaða í ljósi. Og þegar ég
sá þessa bleiku ljóskastara hugsaði ég með mér
að ég gengi í bleiku ljósi niður tröppur Að-
albyggingar. Það var góð tilhugsun því venju-
lega finnst mér Aðalbyggingin vera svolítið grá
og þunglamaleg bygging. Ekki bara vegna
þess að hún er elsta bygging HÍ. Þarna hafa
aðsetur, fyrir utan yfirstjórn skólans, tvær
elstu greinar vísinda á Vesturlöndum, guðfræði
og heimspeki. Þær eru kannski mosavöxnustu
greinar vísindanna, en um leið einhverjar þær
lífseigustu, eins og mosinn, og nokkurs konar
alfa og omega vísindanna.
Heimspekin, sem er sú grein sem ég kenni,
er oft kölluð móðir vísindanna. Með heimspek-
inni hófst sú skipulega þekkingarleit og sund-
urgreining viðfangsefna hennar sem lagði
grunninn fyrir frekari þróun vísinda á Vest-
urlöndum. En það eru hálfgerð öfugmæli að
kalla heimspekina móður vísindanna vegna
þess að það vantar eiginlega móðurina í hana.
Upphaf heimspekinnar í Grikklandi hinu forna
er nefnilega brottrekstur móðurinnar og kon-
unnar.
Lítum á upphafsstund heimspekinnar sem
er dauðastund Sókratesar. Sókrates var
dæmdur til dauða í Aþenu fyrir heim-
spekiiðkun sína, en hann gekk um götur borg-
arinnar og ræddi um heimspekileg málefni við
viðmælendur sína. Hann kenndi þeim að efast
um það sem sjálfgefið þykir og að hugsa rök-
rétt. Hann lýsti sjálfum sér sem ljósmóður sem
hjálpaði við að fæða þekkingu og lýsa hana upp
í ljósi sannleika og skynsemi til að athuga hvort
hún væri andvana eða þróttmikil, sönn eða
ósönn. Vegna þess að Sókrates kom fólki til að
efast og hugsa sjálfstætt óttuðust stjórnvöld
borgarinnar hann, því fátt er ofríkum stjórn-
völdum meiri þyrnir í auga, þá sem nú, en
borgarar sem hugsa sjálfir og taka ekki öllu
sem gefnu. Þess vegna var Sókrates dæmdur
til dauða fyrir þær sakir að spilla ungmennum
borgarinnar og virða guði hennar ekki nægi-
lega. Er Sókrates bíður dauða síns í hópi læri-
sveina sinna og viskuvina og heldur ræður um
að heimspeki sé æfing fyrir dauðann og að
maður þurfi ekki að óttast dauðann truflar
kona þessa hetjustund. Það er Xanþippa, eig-
inkona Sókratesar. Xanþippa er örvænting-
arfull og barmar sér yfir missi eiginmanns.
Hún á eftir að standa ein uppi með tvo barn-
unga syni sem hún þarf að sjá um. Einu við-
brögð Sókratesar við henni eru þessi: „Leiðið
þessa konu burt.“ Eftir að hún hefur verið
leidd burt heldur Sókrates áfram að ræða
dauðann, eins og ekkert hafi í skorist. Hann
segir dauðann m.a. vera lausn úr viðjum lík-
ama, tilfinninga og hvata sem séu trufl-
unarvaldar í ríki vitsmunanna. Þess vegna eru
líkur á að þegar maður deyi verði maður hreinn
hugur sem geti hugsað út í eitt án truflunar frá
líkamanum. Konan hefur lengst af í sögu okkar
menningar verið tengd hinu líkamlega, og þess
vegna var brottrekstur Xanþippu jafnframt
táknrænn brottrekstur líkamans úr skilningi
heimspekinnar á manninum. Líkaminn, sem er
náttúrulegur, var talin óæðri og konan þess
vegna dýrslegri en karlinn. Viðleitni heimspek-
ingsins á þess vegna að vera að hefja sig upp
yfir hið líkamlega, að verða hreinn hugur. Aug-
ljóslega leggur þetta viðhorf einnig grunn að
skertri sýn á veru karlmannsins.
Önnur fræg myndlíking heimspekisögunnar
er hin svokallaða hellislíking Platons, frægasta
lærisveins Sókratesar. Platon lýsti veruleika
mannsins sem helli þar sem menn sæju ein-
ungis skuggamyndir hins sanna raunveruleika.
Hlutverk heimspekingsins væri að komast út
úr hellinum og upp í sólarljós hinnar hreinu
visku. Eftir að hafa séð ljósið ætti heimspek-
ingurinn síðan að fara niður til hellisbúanna til
að segja þeim allt um hið sanna eðli hlutanna
sem væri þeim hulið. Það má skilja þessa lík-
ingu sem nokkurs konar stofnskrá vestrænnar
heimspeki á marga vegu. Ein grunnhugmynd
hennar er þó sú að ekki sé allt sem sýnist og
þess vegna sé það hlutverk heimspekinnar að
reyna að komast að hinu sanna. Burtséð frá því
hafa femínískir heimspekingar séð í þessari
myndlíkingu kvenfyrirlitningu af sama meiði
og birtist hjá Sókratesi. Luce Irigaray, fransk-
ur heimspekingur, segir hellinn í raun vera
mynd um móðurlífið sem heimspekingar forn-
aldar reyni að hefja sig upp yfir. Þessi túlkun
er ekki jafngeggjuð og hún hljómar ef við lítum
á aðra fræga senu úr Samdrykkjunni eftir Plat-
on. Þar sitja heimspekingar saman yfir borðum
og tala um að æðsta stig ástarinnar sé vinátta
heimspekinga sem leita viskunnar í samein-
ingu. Það er klykkt út með því að segja að af-
rakstur slíkrar vináttu sé fæðing hugmynda og
að slík fæðing sé miklu merkilegri en fæðing
raunverulegra barna!
En hvað er ég að fara með því að rekja þess-
ar sögur frá fornöld? Mikið hefur breyst síðan
þá. Jú, þarna eru línurnar lagðar. Línurnar að
kvenfyrirlitningu heimspekinnar og tvíhyggju
hins karllega og kvenlega sem hafa lengst af
verið grundvallarstef í allri heimspeki. Hugur
er talinn æðri líkama, menning æðri náttúru,
vitsmunir æðri tilfinningum. Þessi tvíhyggja
sem réttlætir um leið stigskiptingu kynjanna
litar mannskilning heimspekinnar allt fram á
þennan dag. Það nægir þess vegna ekki að líta
fram hjá kvenfyrirlitningu í fullyrðingum
heimspekinga fyrri tíma þegar maður fæst við
heimspeki vegna þess að hún gegnsýrir hug-
myndir heimspekinga um hvað einkennir
manninn. Hún litar viðmiðin fyrir það sem er
glæst við manninn og eru það þeir eiginleikar
sem heimspekingar hafa eignað karlinum og
talið konuna skorta. Heimspeki sem beitir
kynjafræðilegri nálgun baðar heimspekisög-
una í bleiku ljósi, ekki bara til að hefja þá eig-
inleika sem konum hafa verið eignaðir til vegs
og virðingar, heldur líka til að heila eða lækna
með þessu bleika ljósi skertan, einsýnan mann-
skilning heimspekinnar. Þannig leitast fem-
ínísk heimspeki með sínu bleika ljósi við að
sýna manninn í fjölbreytilegri mynd en gert
hefur verið. Eitt af meginviðfangsefnum fem-
ínískrar heimspeki hefur þess vegna verið að
grafast fyrir um samspil sálar og líkama, til-
finninga og vitsmuna, og taka tillit til mismun-
andi reynslu kvenna og karla af líkamanum, oft
í þeim tilgangi að koma þeim gildum að sem
hafa verið eignuð kvenleika, eins og umhyggju,
mannlegum tengslum og næmi fyrir að-
stæðum. Mismunandi staða kynjanna í gegnum
söguna hefur auk þess kennt nauðsyn þess að
greina það vald (og þá kúgun sem það hugs-
anlega leiðir til) sem býr að baki tilteknum
túlkunum á veruleikanum.
Ef við lítum nú á hina móðurgrein vestrænna
vísinda, sem hefur aðsetur í Aðalbyggingu Há-
skóla Íslands, guðfræðina, þá er hún að upplagi
sama karllæga marki brennd og heimspeki.
Það nægir að nefna guðshugmynd kristninnar,
sem er hinn þríeini guð, faðir, sonur og heil-
agur andi. Flestum finnst vera sjálfgefið að guð
sé svona. En hvað ætli mönnum fyndist ef þessi
ævaforna guðsmynd væri guð – móðir – dóttir
– helgur líkami? Afar skrýtið, óverjandi og
ótækt. En er þetta ekki einmitt það sem vantar
inn í þessa guðsmynd, eigi hún að endurspegla
manninn í sinni margbreytilegu mynd? Marg-
kynja og líka marglitur guð virðist endurspegla
raunveruleika mannlegs lífs betur en hin karl-
lægi guð. Það má þess vegna umbreyta göml-
um málshætti til að segja þetta með öðrum orð-
um: „Sem karl er maðurinn ei nema hálfur, að
viðbættri konu meir en hann sjálfur!“
Sú staðreynd að enn sér meiri hluti fólks
ekkert athugavert við karlhverfan skilning
heimspeki, guðfræði og annarra fræðigreina er
staðfesting nauðsynjar kynjafræðinnar. Hún
er bleika ljósið sem þarf að varpa á vísindin og
veruleikann.
Bleika ljósið sem lýsir nú upp Aðalbygg-
inguna og út um hana logar í nokkra daga. Ég
ætla að leyfa mér að setja fram glannalega,
raunsæja fullyrðingu eins og Ármann Snævarr
forðum, og segja að eftir nokkra áratugi lýsi
bleika ljósið ekki bara af og til og á stöku stað
upp musteri vísindanna. En á meðan gráminn
hefur enn yfirhöndina stendur kynjafræðin
vaktina og heldur þessu bleika ljósi logandi.
Þess vegna er rík ástæða til að óska Háskóla
Íslands til hamingju með tíu ára afmæli kynja-
fræðinnar. Og til að óska kynjafræðinni vel-
farnaðar í að kalla fram bleikan (kyn/kinn)roða
í fölt andlit vísindanna!
Bleikur háskóli Bleikt er hin kvenlegi litur og þess vegna táknar bleika ljósið alla viðleitni til að koma lit kvenleika inn í litróf veruleikans.
Í bleiku ljósi
Þessa dagana fagnar námsgreinin kynja-
fræði við Háskóla Íslands tíu ára afmæli sínu.
Af því tilefni er hér fjallað um hlutverk
kynjafræðilegrar nálgunar í vísindum sam-
tímans, einkum með tilliti til þeirrar greinar
sem hefur verið kölluð móðir vísindanna,
heimspekinnar.
Höfundur er prófessor í heimspeki
við Háskóla Íslands.
»En á meðan gráminn hefur
enn yfirhöndina stendur
kynjafræðin vaktina og heldur
þessu bleika ljósi logandi.