Morgunblaðið - 06.03.2006, Page 28
28 MÁNUDAGUR 6. MARS 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Magnús Jónssonfæddist á Akra-
nesi 10. september
1931. Hann lést á
dvalar- og hjúkrun-
arheimilinu Grund í
Reykjavík 27. febr-
úar síðastliðinn.
Móðir hans var Guð-
ríður Magnúsdóttir,
f. 8. september 1909
á Efra-Skarði í
Svínadal, d. 13. des-
ember 2001 á
Hjúkrunarheimilinu
Skógarbæ (Efsta-
bæ). Foreldrar hennar voru Magn-
ús Magnússon bóndi á Efra-Skarði
í Svínadal í Borgarfjarðarsýslu, f.
8. júlí 1862, d. 1. janúar 1920, og
Sigríður Ásbjörnsdóttir húsfreyja,
f. 5. ágúst 1871, d. 25. apríl 1937.
Faðir Magnúsar var Jón Guðjóns-
son verkamaður í Reykjavík, f. 26.
september 1893 í Fjósakoti í Innri-
Akraneshreppi í Borg., d. 30. októ-
ber 1971. Foreldrar hans voru
Guðjón Einarsson sjómaður og
verkamaður í Fossakoti og Fjósa-
koti í Innri-Akraneshreppi, f. 13.
ágúst 1857, d. 19. mars 1933, og
Málfríður Halldórsdóttir (óg.) hús-
13.2. 1939, húsasmiður, maki Sig-
ríður Sigurðardóttir, f. 20.8. 1942,
bréfberi. Börn: Guðríður, m.
Haukur Þór Haraldsson, þau eiga
þrjú börn, Hafdís Ebba, m. Þor-
steinn Halldórsson, þau eiga þrjú
börn, og Díana, í sb. með Ægi Erni
Sigurgeirssyni, þau eiga eitt barn
saman. 4) Ingibjörg, f. 12.5. 1943,
bréfberi, maki Ólafur Sveinsson, f.
1.8. 1942, tæknifræðingur. Börn:
Hanna, m. Ellert K. Schram, þau
eiga þrjú börn saman. Hanna á eitt
barn fyrir. Guðríður, í sambúð
með Ársæli Má Arnarssyni, þau
eiga eitt barn saman. Freydís Sif, í
sb. með Árna Má Rúnarssyni, þau
eiga eitt barn, og Þórdís Jóna. 5)
Jón Guðmar, f. 2.4. 1950, við-
skiptafræðingur, maki: Jóhanna
Erlingsdóttir, f. 13.3. 1961,
fulltrúi. Börn: Svanhvít Ásta og
Guðrún Sunna. Synir Jóns Guð-
mars frá fyrra hjónabandi: Eiríkur
Óskar, kvæntur Sigrúnu K. Jónas-
dóttur, þau eiga tvö börn, og
Magnús. Systkinabörn Magnúsar
eru því 20 talsins.
Magnús var ókvæntur og barn-
laus.
Magnús starfaði alla tíð sem
verkamaður í Reykjavík, hjá
Reykjavíkurborg, hjá Timbur-
verslun Völundar, í byggingar-
vinnu lengstum og hjá Eimskip.
Útför Magnúsar verður gerð frá
Seljakirkju í Breiðholti í dag og
hefst athöfnin klukkan 15.
freyja, f. 18. febrúar
1860, d. 25. desember
1915. Systkini Magn-
úsar eru: 1) Málfríð-
ur, f. 26.2. 1930,
sjúkraliði, maki
Haukur V. Bjarna-
son, f. 23.9. 1928,
húsasmíðameistari.
Börn: Tvíburarnir
Guðrún B., m. Guð-
mundur Kristberg
Helgason, þau eiga
þrjú börn, og Jón G.,
m. Helga Brynleifs-
dóttir, þau eiga eitt
barn saman. Guðríður, fv. m. Ingv-
ar Teitsson, þau skildu, þau eiga
þrjú börn, og Anna Rós. Sonur
Málfríðar af fyrra hjónabandi er
Róbert Jörgensen, m. Erla Lárus-
dóttir, þau eiga fjögur börn. 2) Sig-
ríður, f. 10.3. 1934, sjúkraliði,
maki Sigurður Daníelsson, f.
16.11. 1934, netagerðarmaður.
Börn: Guðríður, m. Einar Ingva-
son, þau eiga fjögur börn, Sigrún,
m. Helgi Grímsson, þau eiga þrjú
börn, Gróa, m. Kristján H. Theo-
dórsson, þau eiga þrjú börn, og
Jón, í sb. með Auði E. Friðriksdótt-
ur, þau eiga eitt barn. 3) Guðjón, f.
Ein af bernskuminningunum er
þegar ég var fjögurra ára og Maggi
bróðir var að koma heim eftir fræki-
legan leik íslenska knattspyrnu-
landsliðsins við Svía í Kalmar og
keppnisferð til Þýskalands í fram-
haldi af því. Þetta var síðsumars ár-
ið 1954.
Ekki var það frækin frammistaða
landsliðsins sem gerði þetta svona
eftirminnilegt fyrir fjögurra ára
guttann heldur það að Maggi var
með í farteskinu handa litla bróður
eitthvað það flottasta þríhjól sem
sést hafði. Og auðvitað var það fal-
lega blátt og hvítt, í Framlitunum.
Nokkrum árum áður, veturinn
1951 til 1952, hafði Maggi verið í
knattspyrnu- og íþróttaskóla í borg-
inni Koblenz. Með honum þar var
Guðmundur Jónsson (Mummi) leik-
maður og síðar einn besti og þekkt-
asti knattspyrnuþjálfari hjá Fram
fyrr og síðar og um tíma voru þar
einnig Dagbjartur Grímsson og
Halldór Lúðvíksson, báðir valin-
kunnir Framarar af þessari kyn-
slóð. Þessi vetur var með þeim eft-
irminnilegri í lífi Magga.
Maggi hafði byrjað knattspyrnu-
iðkun í yngri flokkunum í Fram. Öll
stunduðum við systkinin knatt-
spyrnu og/eða handbolta með Fram.
Þeirra á meðal Gaui, landsliðsmaður
í handbolta og fótbolta, og Ingibjörg
meistaraflokksmanneskja í hand-
bolta. Í fjölskylduna var kominn
einn afreksmaður til viðbótar, mág-
ur minn Haukur Bjarnason, kvænt-
ur elstu systur minni Lillý (Mál-
fríði), landsliðsmaður í knattspyrnu
sem einnig þjálfaði hjá félaginu.
Elstu systur mínar, Lillý og Sissa,
stunduðu handbolta. Einn aukameð-
limur í Fram bættist í fjölskylduna
en það var Sigríður Sigurðardóttir
(Sigga Sig) mágkona mín, landsliðs-
kona í handbolta, Norðurlandmeist-
ari 1964 og fyrsta konan sem var
valin íþróttamaður ársins sama ár
og margfaldur Íslandsmeistari með
Val (hefði helst viljað sleppa þessu
„með Val“!). Aðrir auka-Framarar í
fjölskyldunni eru mágar mínar, ÍA-
maðurinn Sigurður Daníelsson og
KR-ingurinn Ólafur Sveinsson.
Ekki má ég gleyma eiginkonu minni
Keflvíkingnum og ÍBK-konunni Jó-
hönnu Erlingsdóttur. Mörgum
meistaratitlinum átti þessi hópur
hlut í þegar upp var staðið.
Stór-Framarafjölskylda var einn-
ig á Grettisgötu 10 þar sem Ragnar
Lárusson, leiðtogi og formaður í
Fram, og hans fjölskylda bjó.
Sveinn Ragnarsson, fv. félagsmála-
stjóri Reykjavíkurborgar, er eitt
barna hans en þau systkini og börn
þeirra, meðal annarra Raggi og
Bubbi (SOS, íþróttafréttaritari
Morgunblaðsins) hafa öll meira og
minna spilað og orðið meistarar
með Fram, stjórnað og þjálfað hjá
félaginu á ýmsum tímum. Einn
auka-Framari var í þessari fjöl-
skyldu en það var Steinar, kvæntur
Erlu Ragnars, faðir Ragga og
Bubba, sem eru af minni kynslóð,
en hann var KR-ingur.
Reynir G. Karlsson, fv. íþrótta-
fulltrúi ríkisins, meistaraflokks- og
landsliðsmaður í knattspyrnu, einn-
ig stjórnarmaður og þjálfari hjá
Fram, átti heima á Njálsgötunni á
unglingsárum. Hans dætur eru
landskunnar knattspyrnukonur með
Breiðablik, margfaldir meistarar.
Fjöldi fleiri Framara var þarna á
litlu svæði og var talað um Grett-
isgötuklíkuna sem var ósigrandi í 2.
flokki í handbolta á seinni hluta 6.
áratugarins. Í henni voru samheldn-
ir piltar, svo sem Gaui bróðir, Jón
Þorláksson, Ragnar Jóhannsson,
Gunnar Ágústsson, Ólafur Jóseps-
son, Ólafur Ragnarsson og Harald-
ur Daníelsson.
Síðast en ekki síst nefni ég Olla
(Eyjólf Bergþórsson) á Grettisgötu
4, jafnaldra minn, meistaraflokks-
mann í knattspyrnu og stjórnar-
mann sem hefur unnið hvað óeig-
ingjarnast starf fyrir Fram frá
upphafi og lyfti Grettistaki í ung-
lingastarfi félagsins á 8. áratug síð-
ustu aldar með tilheyrandi meist-
aratitlum í yngri flokkunum sem
fylgdu í kjölfarið.
Maggi bróðir spilaði ýmsar stöð-
ur í yngri flokkunum en þegar upp í
meistaraflokk var komið spilaði
hann í marki og sem markmaður
spilaði hann tvo A-landsleiki. Annar
þeirra var einhver fræknasti knatt-
spyrnulandsleikur Íslands frá upp-
hafi, við Svía í Kalmar árið 1954 en
staðan var 2:2 þegar nokkrar mín-
útur voru eftir en lauk með sigri
Svía 3:2. Voru úrslitin ekki síst
þökkuð (eða kennt um frá sjónarhóli
Svía) manninum með stálhnefana
eins og sænsku blöðin kölluðu ís-
lenska markmanninn og stórkost-
legri markvörslu hans en fyrir leik-
inn spáðu þau sigri sinna manna
með allt að tveggja stafa tölu enda
landslið Svía þá meðal þeirra bestu í
heimi. Er ekki laust við að þegar
maður las svo bækurnar um Jack
Barr „Manninn með stálhnefana“
frá Sögusafni heimilanna að stóri
bróðir birtist manni fyrir hugskots-
sjónum.
Auk knattspyrnu var Maggi einn
af þeim fyrstu sem stundaði Atlas-
líkamsræktaræfingakerfið kerfis-
bundið með góðum árangri, lét sig
ekki muna um að gera nokkra tugi
armbeygja með tvo grislinga, mig
og Róbert frænda, á bakinu í einu.
Ekki var minnsti vafi í huga barns-
ins hvor væri flottari stóri bróðir
eða Atlas sjálfur þegar maður sá
myndir af þeim báðum saman. Var
auk þess orðinn heljarmenni að
burðum. Stakur reglumaður var
Maggi alla ævi eins og slíkt líferni
er einhversstaðar orðað.
Fljótlega eftir að Maggi var kom-
inn í landsliðið hætti hann allri
keppnisíþróttaiðkun. Hætti sem
sagt á toppnum tuttuguogfjögurra
ára gamall! Var hann á þessum ár-
um að koma sér upp bókasafni sem
óx stöðugt.
Þetta voru fyrst og fremst bækur
um heimspeki, sálfræði, sagnfræði,
ævisögur og þjóðlegur fróðleikur,
að ógleymdum Laxness og Þórbergi
og öðrum fagurbókmenntum. Las
hann nú af kappi, á eigin forsend-
um, í öllum frístundum en út á
vinnumarkaðinn hafði hann farið
þrettán ára og þótti með afbrigðum
duglegur og ósérhlífinn alla sína
starfsævi.
Árum saman naut litli bróðir þess
að stóri bróðir sá í áratugi allar leik-
sýningar í stóru leikhúsunum, fékk
svona að fljóta með oftar en ekki.
Þá fór hann á alla knattspyrnu-
landsleiki, að auki Framleiki, og
alltaf fékk sá litli að fara með. Á ég
honum það að þakka að vera trúlega
einn fárra sem hef séð alla A-lands-
leiki í knattspyrnu sem spilaðir hafa
verið á Laugardalsvellinum frá upp-
hafi.
Nú voru góð ráð dýr með bóklest-
urinn. Hvernig átti Maggi að kom-
ast yfir að lesa allar bækurnar sem
hann hafði keypt. Hann hafði varla
farið í sumarfrí i gegnum tíðina.
Þegar hann var tæplega fertugur
tók hann sér fyrsta stóra fríið og las
bækur í hálft til eitt ár, vann svo
annað eins til að safna pening, tók
sér aftur frí, þannig var unnið og
verið í fríi á víxl næsta aldarfjórð-
unginn.
Þetta var á því tímabili sem ég
stundaði menntaskólanám. Báðir
vorum við bræður kvöld- og næt-
urdrollarar og lásum við árum sam-
an framundir morgun ef ekki þurfti
að vakna að morgni. Sváfum og lás-
um í sama herbergi í litla húsinu.
Foreldrarnir sváfu í hinu herberg-
inu. Maggi las sínar bækur, ég mín-
ar námsbækur auk annarra bóka
meðal annarra þeirra sem hann
gaukaði að manni með lúmskum
hætti. Margt var spjallað um lífið og
tilveruna og þjóðmálin og fleira
rætt. Aldrei man ég eftir því að
hann truflaði mig við lærdóminn ef
ég vildi það ekki. Þetta er eitt af eft-
irminnilegustu og skemmtilegustu
tímabilum lífs míns. Það á ég
Magga að þakka.
Árið 1964 fór Maggi einn í fjög-
urra mánaða ferðalag um Norður-
lönd og Evrópu.
Ferð sem hann undirbjó og
skipulagði sjálfur og lagði af stað
þegar hann hafði safnað nægum far-
areyri. Spilaði hann ferðalagið þó
fyrst og fremst af fingrum fram og
fór land úr landi og borg úr borg.
Ferðaðist frekar sem ferðamaður
en túristi.
Mér finnst skemmtilegt að rifja
upp hvernig það var þegar Maggi
var að leita sér að vinnu í síðasta
sinn, eins og hann sagði mér frá því.
Byggingarverktaki hafði auglýst í
blöðunum eftir verkamönnum.
Maggi var orðinn rúmlega fimm-
tugur þegar þetta var. Hafði alltaf
haldið sér í formi hvort sem hann
var í fríi eða vinnu. Þegar hann
hringdi í verktakann var sá hinn
huflegasti í byrjun símtals. Spurði
hvar síðasti vinnustaður hefði verið.
Í hafnarvinnu hjá Eimskip var svar-
ið. Hvenær? Fyrir tveimur árum
sagði Maggi sannleikanum sam-
kvæmt! Verktakinn afþakkaði
starfskrafta Magga snarlega og
kvaddi. Maggi var fljótur að átta
sig. Hafði verið búinn að komast að
því hvar vinnusvæðið væri. „Hinn
hélt auðvitað að hér væri gömul
fyllibytta á ferð sem væri að reyna
að koma sér af stað eftir tveggja ára
fyllirí!“ Maggi náði að tilkynna að
hann myndi mæta á svæðið á morg-
un.
Verktakinn gæti þá hætt við að
ráða sig eftir daginn ef honum líkaði
ekki vinnubrögðin. Hjá þessum
verktaka vann Maggi næstu fjögur
til fimm árin.
Heimili hélt Maggi með móður
okkar í aldarfjórðung. Það gerði
henni kleift að búa heima til 85 ára
aldurs en hún lést 92 ára í desem-
ber 2001.
Maggi var einhver heiðarlegasti
og réttsýnasti maður sem ég hef
kynnst. Gjafmildur með afbrigðum.
Maður sjálfur og systkinabörn
fengu ófáan vasapeninginn frá hon-
um.
Fyrir tíu árum veiktist Maggi al-
varlega, fékk blóðtappa í heilann
sem endurtók sig á næstu árum.
Missti hann skammtímaminnið og
gat ekki lengur lesið. Dvaldi hann á
stofnunum eftir það. Fyrst á Arn-
arholti og síðustu þrjú til fjögur árin
á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu
Grund. En það var einmitt Gísli Sig-
urbjörnsson á Grund sem gerði
Magga það mögulegt að fara í
knattspyrnuskólann í Þýskalandi á
sínum tíma og var það fyrst og
fremst Gísla að þakka en Ísland var
fyrsta landið í Vestur-Evrópu sem
tók upp íþróttasamband við Þýska-
land eftir stríð. Gísli var oft far-
arstjóri í keppnisferðum íþrótta-
hópa til útlanda og meðal annars í
keppnisferðum sem Maggi fór.
Hin síðari ár minnkaði líkamlegur
styrkur stöðugt. Fór að bera á löm-
unareinkennum sem ágerðust með
endurteknum heilablóðtöppum.
Fyrir um þremur vikum veiktist
Maggi og haldið var að það væri
einhver umgangspest.
Svo reyndist ekki vera. Fékk
hann lungnabólgu og dró fljótt af
honum. Fékk hann hægt andlát
saddur lífdaganna.
Ég þakka Magga bróður mínum
allt sem hann gerði fyrir mig og
kveð hann með söknuði.
Jón Guðmar.
Móðurbróður minn, Magnús
Jónsson, skipaði alltaf ákveðinn sess
hjá mér. Í bernsku var ég auðvitað
upp með mér af því að eiga frænda
sem hefði verið markvörður Knatt-
spyrnufélagsins Fram og íslenska
landsliðsins í knattspyrnu. Það sem
heillaði mig hins vegar síðar í fari
hans var hversu vel hann var að sér
í sagnfræði og stjórnmálum tutt-
ugustu aldarinnar. Hann fylgdist
ótrúlega vel með þjóðfélagsmálum
og var bókaormur eins og þeir gerð-
ust bestir. Bækur voru líf hans.
Ég man aldrei eftir að hafa nefnt
hann annað en „Magga frænda“.
Hann var rúmlega meðalmaður á
hæð, sterklega byggður, gaman-
samur, hjálpsamur og alger reglu-
maður á vín og tóbak. Hann var
næstelstur sex systkina, kom næst-
ur á eftir móður minni, Málfríði
Jónsdóttur. Þetta var ekkert mjög
flókið; ég drakk í mig með móð-
urmjólkinni hetjusögur af Magga
frænda af fótboltavellinum. For-
eldrar mínir voru raunar báðir til
frásagnar því hann og faðir minn,
Haukur Bjarnason, kynntust sem
ungir drengir í Fram og urðu sam-
ferða upp alla yngri flokka félagsins
og enduðu sem leikmenn meistara-
flokks og síðar í landsliðinu, þótt
þeir næðu ekki að spila landsleik
saman. Boltasögur af öðrum bróður
mömmu, Guðjóni Jónssyni, voru
líka sagðar á heimilinu og viður-
kenni ég það alveg fúslega að hafa
látið sögur af þessum þremur
Frömurum berast áfram til bekkj-
arbræðra minna í barnaskólanum.
Og er nema von að ég hafi sagt
þeim að í mér rynni blátt blóð, þótt
ekki væri ég af kóngaættum.
Mestar sögur fóru af sterkum
greipum Magga sem markvarðar.
Hann var sagður hafa öruggt grip.
Vítateigurinn var hans svæði. Eitt
af aðalsmerkjum hans sem mark-
manns mun einmitt hafa verið að
æða óhikað út í teiginn, stökkva upp
og grípa boltann af öryggi. Ná-
kvæmlega þetta einkennir alla góða
markmenn. Hann spilaði tvo lands-
leiki í knattspyrnu fyrir hönd Ís-
lands, báða árið 1954; við Norðmenn
og Svía. Leikurinn við Svía var
glansleikur af hans hálfu, frammi-
staða hans var rómuð og lengi í
minnum höfð. Á heimili ömmu og
afa við Grettisgötuna hékk tíguleg
mynd uppi á vegg af Magga í knatt-
spyrnuleik í Þýskalandi árið 1953
þar sem hann gnæfði hátt yfir aðra
leikmenn og gómaði boltann. Ég
hafði það sem fastan sið að skoða
þessa mynd þegar ég kom sem gutti
í heimsókn á Grettisgötuna. Á hana
horfðu menn hróðugir og stoltir.
Önnur mynd kemur mér einnig fyr-
ir hugskotssjónir, það er mynd sem
er á heimili foreldra minna í Kópa-
voginum. Hún er af fjórða flokki
Fram sem sigraði í Reykjavíkur-
mótinu árið 1941. Á henni eru bæði
Maggi (á tíunda ári) og pabbi, sem
og Ragnar, bróðir pabba. Þarna eru
líka kunnir kappar eins og tvíbura-
bræðurnir Örn og Haukur Clausen,
sem síðar lögðu heim frjáls-
íþróttanna að fótum sér, en spiluðu
með Fram á þessum árum í yngri
flokkunum. Þetta er einstök mynd;
heilbrigðir, sælir og sigurreifir pilt-
ar í bláa búningnum og skóbúnaði
sem er „örlítið“ öðruvísi en núna
tíðkast.
Þegar árin færðust yfir var það
hins vegar annað sem mér fannst
heillandi í fari Magga frænda. Það
var hin mikla vitneskja sem hann
bjó yfir um sagnfræði og þjóðfélags-
mál. Hann fylgdist einstaklega
grannt með því sem var að gerast
og var heillaður af stjórnmálum
tuttugustu aldarinnar. Hann var
bókaormur, las feiknin öll af ævi-
sögum þekktra stjórnmálaforingja
og annarra merkismanna. Hann
„átti teiginn“ líkt og forðum í mark-
inu á Melavellinum þegar talið barst
að stjórnmálamönnum og verka-
lýðsleiðtogum. Þar var hann á
heimavelli. Hann var fróður, en
hafði ekkert síður gaman af að
fræða og segja frá. Hann naut hvers
andartaks á leiftrandi stundum
samtala um stjórnmálamenn og
verkalýðsleiðtoga, verk þeirra og
stefnur. Hann teygði sig oftar en
ekki eftir bók til að finna máli sínu
stuðning. Hann hafði ákveðnar
skoðanir á mönnum og málefnum,
en vegna fræðimannsins, sem
blundaði í honum, var honum tamt
að velta fyrir sér rökum með og á
móti – og leita skýringa á því hvers
vegna stjórnmálamenn eða verka-
lýðsforingjar hefðu tekið hina eða
þessa ákvörðunina. Ég held að hann
hefði orðið góður sögukennari.
Á námsárum mínum í háskólan-
um gaukaði hann nokkrum sinnum
að mér merkilegum bókum sem
hann varð sér úti um í fornbókabúð-
um. Þetta kunni ég afar vel að meta
og var honum þakklátur fyrir. Ein
þessara bóka var hálfgerð skrudda
og farin að bera aldurinn illa – en
innihaldið var þeim mun fastara fyr-
ir. Þetta var bókin Hagfræði eftir
Charles Gide sem Freysteinn Gunn-
arsson þýddi og gefin var út árið
1934. Ég las bæði bindin af mikilli
áfergju og fannst mikið til koma,
ekki síst fyrir það hvað hagfræðin
er þar útskýrð á einfaldan hátt.
Bókin er enn þá á áberandi stað í
bókahillunni hjá mér – þó að langt
sé um liðið síðan ég gluggaði í hana
síðast.
Maggi kvæntist aldrei og bjó
MAGNÚS
JÓNSSON