Morgunblaðið - 25.06.2006, Síða 11
einkavörumerki (House Brand), sem þýddi að
kostnaðinum var náð niður um nokkur pró-
sentustig, sem er ekkert smáræði í viðskiptum
sem þessum.“
Fékk staðfestingu
– Svo verður breyting á, þegar sérstök lög
um vörumerkingar á vörum frá Bandaríkj-
unum taka gildi í Evrópu, ekki satt?
„Jú, rétt. Það var um áramótin 1998–1999
að sérmerkja þurfti eftir evrópskum staðli all-
ar vörur sem fluttar voru inn frá Bandaríkj-
unum. Við byrjuðum á því að heimsækja
nokkrar heildsölur heima á Íslandi, til að
kanna hvort þeir væru tilbúnir til að vera með
okkur í þessum vörumerkingum, en und-
irtektir voru neikvæðar, því þetta var bæði
kostnaðarsamt og tímafrekt. Eftir fundahöld á
milli mín, Jóns Ásgeirs og Jóhannesar, var
ákveðið að ég færi í það að flytja alla starfsem-
ina frá Norfolk, vörumóttöku og vöruhleðslu í
gámana, hingað til Miami. Ég myndi leigja
vöruhús og kaupa allan nauðsynlegan búnað,
tæki og tól, til að taka á móti vörunum, merkja
þær, endurpakka og senda áfram til Íslands.
Þetta var fjárfesting fyrir mig upp á um hálfa
milljón dollara. Ég kvaðst ekki vera tilbúinn
til þess að ráðast í svona fjárfestingu, nema ég
fengi staðfestingu frá þeim um að þeir keyptu
vörur frá mér fyrir að lágmarki þrjár milljónir
dollara á ári, sem voru þau innkaup sem ég
þurfti á að halda, til þess að standa undir fjár-
festingunni, miðað við það að álagningin frá
mér væri á bilinu 6–8%. Þá staðfestingu fékk
ég frá þeim feðgum og réðst við svo búið í fjár-
festinguna. Okkur samdist um það, að ef inn-
kaup þeirra frá Nordica væru innan við þessi
lágmarksviðskipti, þá myndu þeir greiða mér
mismuninn.
Til þess að gera langa sögu stutta, get ég
upplýst að þeir stóðu aldrei við þennan samn-
ing. Það kom strax á daginn á árinu 1999 og
aftur á árinu 2000 að þeir stóðu ekki við sinn
hluta samningsins og innkaup þeirra frá mér
voru mun minni en um hafði verið samið.
Strax þá var ég kominn í fjárhagslega erf-
iðleika.
Það verður að halda öllu til haga og auðvitað
einnig því sem vel er gert. Þeir greiddu mér, á
árinu 2001, 80 þúsund dollara, vegna vanefnda
á samningum á árunum 1999 og 2000. Það er
rétt að það komi fram. Það hjálpaði mér, en
dugði engan veginn til, því ég var kominn með
tap upp á fleiri hundruð þúsund dollara.
Þegar grannt er skoðað, þá er myndin ekki
sú, sem þeir Bónusfeðgar hafa alltaf viljað
vera láta, þ.e. að þeir tveir eigi allan heiðurinn
af því að matvöruverð á Íslandi lækkaði, með
tilkomu Bónusverslananna. Það lækkaði, það
er ekki spurning, en það hafði ekki lítil áhrif
hvernig hagstæð innkaup þeirra í gegnum
Simons Agitur í Danmörku og í gegnum Nor-
dica, fyrirtæki mitt hér í Bandaríkjunum,
gerðu þetta mögulegt, að ekki sé nú minnst á
margt það frábæra starfsfólk sem Bónus hafði
á að skipa heima á Íslandi, sem vann hörðum
höndum myrkranna á milli. Um þetta hafa
feðgarnir alla tíð þagað þunnu hljóði og baðað
sig einir í ljómanum og látið eins og þeir tveir
væru bjargvættir þjóðarinnar.
Auðvitað sjáum við það nú, sem við ekki
sáum þá, að þeir voru að nota okkur, bæði
Nordica og Simons Agitur í Danmörku, ekki
síst til þess að ógna heildsölum heima á Ís-
landi og ná niður innkaupsverðinu frá þeim.
Það er staðreynd, enda staðfestir Jón Ásgeir
það í yfirheyrslunum hjá Ríkislögreglustjóra.
Baugur fékk sérstaklega góð kjör frá heild-
sölum á Íslandi, því þeir höfðu okkur og gátu
alltaf vísað til okkar og okkar innkaupagetu, ef
þeir voru ekki ánægðir með verðið sem þeim
stóð til boða hjá íslensku heildsölunum.“
Óhagstæð gengisþróun
– Hafði gengisþróun á þessum tíma einhver
áhrif á það, að innkaupin frá Baugi voru ekki
jafnmikil og um hafði verið samið, því doll-
arinn hækkaði jú upp úr öllu valdi, ekki satt?
„Það er rétt, gengisþróunin var mjög óhag-
stæð árið 2000 og ég tel engan vafa leika á að
hún hafði áhrif á það, að stórlega dró úr inn-
kaupunum. En það er ekki nema hluti af skýr-
ingunni. Ég reiknaði út álagninguna hjá Baugi
og gerði verðkönnun í verslunum Baugs á Ís-
landi. Ég tók verðið eins og það var frá Nor-
dica með 6–8% álagningu og reiknaði svo út
hver álagningin var hjá Baugsverslunum á
þær vörur sem þeir keyptu frá mér og satt
best að segja, þá var útkoman ótrúleg, því
álagningin var svo há og fjarri öllu sem þeir
höfðu gefið til kynna. Um þetta á ég öll gögn,
þar sem fram kemur að álagningin hjá þeim
var á bilinu 42%, þar sem hún var lægst, þ.e. í
Bónusverslununum og upp í 87% í Nýkaup.
Meðalálagning á vörum frá mér í Baugs versl-
unum var 70%, þannig að það er ekki beinlínis
hægt að segja að þeir hafi ekki verið að hagn-
ast á þessum viðskiptum. Þetta var nú svona,
ÍSLENSKU ÞJÓÐINNI
Morgunblaðið/Agnes Bragadóttir
SAMHENT FJÖLSKYLDA Jóhanna, eiginkona Jóns Geralds, synir þeirra, Tómas og Símon, og Jón
Gerald Sullenberger á góðri stundu í Coral Gables á Miami í Flórída.
Morgunblaðið/RAX
sigrað að stórum hluta, þannig að sakfelling eða sýkna skiptir ekki öllu máli.“
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25. JÚNÍ 2006 11
Jón Gerald Sullenberger er ekki fædd-ur með silfurskeið í munni. Jón Ger-ald fæddist í Reykjavík 24. júní 1964
á Jónsmessunni. Frumbernska hans og
uppvaxtarár voru ekki með hefðbundnum
hætti – það er síst of djúpt í árinni tekið að
segja, að hann hafi verið rændur æskunni.
Fyrstu æviárin bjó hann með foreldrum
sínum í Washington, en foreldrar hans,
Guðlaug Gunnarsdóttir og Gerald E. Sul-
lenberger, kynntust í Reykjavík, þegar
faðir hans starfaði sem hermaður við
sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi. Á fjórða
ári kom hann heim til Íslands með móður
sinni og var þá komið fyrir í fóstri vestur í
bæ. Þegar fósturforeldrar hans fluttu til
Danmerkur var honum komið fyrir á öðru
fósturheimili í Blesugróf, þar sem honum
leið ekki vel og skömmu síðar á öðru fóst-
urheimili í Mosfellsbæ. Þá var hann sex
ára gamall. Þar óx hann upp við mikið
harðræði og 12 ára gamall strauk hann
þaðan. Hjólaði til Reykjavíkur og bjó eftir
það með móður sinni, sem hann kynntist
þá fyrst. Jón Gerald kynntist föður sínum
ekki fyrr en eftir að hann flutti til Banda-
ríkjanna, en þá leitaði hann Gerald E. Sul-
lenberger uppi og komst m.a. að því að
hann á yngri bandarískan hálfbróður. Jón
Gerald á einnig eldri hálfsystur, Bryndísi –
þau eru sammæðra.
Það má kannski leita skýringa í bernsku
Jóns Geralds og uppvexti, á ástæðum þess,
að hann tók þá ákvörðun fyrir fjórum ár-
um að segja Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og
Baugsveldinu stríð á hendur. Hann segir
að sér hafi fundist Jón Ásgeir hafa gert til-
raun til þess að vega að rótum alls þess
sem honum er dýrmætast og helgast. Þetta
hafi verið hans viðbrögð þegar Jóhanna
kona hans sagði honum frá því að Jón Ás-
geir hafi áreitt sig.
Þegar ég hitti Jón Gerald í faðmi fjöl-
skyldunnar, í Coral Gables á Flórída, fæ ég
nýjan skilning á því hvers vegna hann
sagði Baugsveldinu stríð á hendur. Jón
Gerald er kvæntur Jóhönnu Guðmunds-
dóttur og eiga þau synina Tómas, að verða
17 ára og Símon, nýorðinn 15 ára. Fyrir á
Jón Gerald son, Róbert Gerald, 22 ára, sem
býr heima á Íslandi.
Fjölskyldan er Jóni Gerald allt, það fer
ekki á milli mála. Það þarf ekki að verja
löngum tíma með fjórmenningunum, til
þess að sjá að fjölskyldan, samvera, sam-
staða, hlýja, virðing og væntumþykja eru í
heiðri höfð í þessu litla íslenska samfélagi
suður á Flórída. Íslenskt er það, þrátt fyrir
20 ára búsetu í Bandaríkjunum og tilhneig-
ingu strákanna, einkum Símonar, til þess
að grípa fyrst til enskunnar. Ræturnar eru
rammíslenskar og þannig á það að vera,
segir Jóhanna stolt.
Jón Gerald hefur búið sér og sínum lífið
sem hann sjálfur fór á mis við í uppvext-
inum, og við því skyldi enginn reyna að
hrófla, því sá sem það reynir, finnur fyrir
Jón Gerald í vígahug. Það hafa Baugsmenn
mátt reyna undanfarin ár.
Jón Gerald lærði matreiðslu heima á Ís-
landi fyrir margt löngu. Að því loknu lá
leiðin til Sviss, þar sem hann bætti við sig í
faginu og nam hótelrekstur. Því næst lá
leiðin til Flórída, í Florida International
University, þar sem hann lauk námi í Ho-
spitality Management (hótel- og rekstr-
arfræði). Hann og Jóhanna kynntust í
London árið 1986, ástin blómstraði og
skömmu síðar, eða vorið 1987, kom hún að
heimsækja hann í Flórída og þau hafa ver-
ið saman síðan.
Jóhanna er fædd og uppalin á Seltjarn-
arnesi og þar er mér sagt að hún hafi
ávallt þótt ein allra fallegasta stúlkan, sem
allir strákar renndu hýru auga til. Það eru
áreiðanlega engar ýkjur, því Jóhanna er
stórglæsileg og frá henni stafar bæði innri
ró og hlýju. Hennar helsta stolt eru aug-
ljóslega drengirnir, Tómas og Símon. Tóm-
as, sá eldri, er staðráðinn í að verða læknir
og Símon hefur tekið stefnuna á flugmann-
inn. Er reyndar búinn með sextán flugtíma
nú þegar, 15 ára síðan 25. apríl sl.! En
gests augað stöðvar ekki síður við það
hversu miklir félagar og vinir þau hjónin
eru. Segja reyndar bæði, að undanfarin
fjögur ár hafi gert þau enn nánari og að
samband þeirra hafi bara herst og orðið
traustara í eldi þeirra átaka sem þau hafa
gengið í gegnum.
Unga parið byrjaði búskap sinn í lítilli
leiguíbúð á Miami, Jóhanna vann við förð-
un, en hún hafði lært förðun og fékk fljót-
lega vinnu við iðn sína og Jón Gerald hjól-
aði í skólann á gömlu lánsreiðhjóli og lagði
sig hart fram við námið, sem hann lauk
1991. „Við áttum náttúrlega ekki neitt.
Höfðum um 500 dollara á mánuði úr að
spila, og af því fóru 270 dollarar í húsa-
leiguna,“ rifjar Jón Gerald, lygnir aftur
augunum og brosir við minninguna. Jó-
hanna bætir við: „Það er alveg rétt, við
áttum lítið, en við áttum hvort annað og
þetta voru yndislegir tímar.“
Hjónin segjast nú horfa fram á veginn
og ætla ekki að dvelja við undanfarin fjög-
ur ár. Jóhanna segir: „Við setjum það á
oddinn núna, að halda áfram að hugsa vel
hvort um annað – halda áfram að láta okk-
ur líða vel. Við höfum allt sem við þurfum
og höfum margt til að þakka fyrir. Það er
með ólíkindum hversu mikinn stuðning við
höfum fengið undanfarin fjögur ár, stuðn-
ing frá fjölskyldu, vinum og kunningjum,
en einnig stuðning frá bláókunnugu fólki.“
Jón Gerald tekur undir með konu sinni og
segir: „Þegar þetta var allt að byrja fyrir
fjórum árum, þá fékk ég símtöl frá ólíkleg-
asta fólki, sem ég þekkti ekki neitt. Fólk
hringdi í mig úr öllum landshornum til
þess að sýna mér stuðning og hvetja mig
áfram: útgerðarmaður af Vestfjörðum,
bóndi austan úr sveitum, og svo framvegis.
Ég undraðist auðvitað þennan mikla stuðn-
ing og skildi ekkert í því hvernig fólk hafði
grafið upp símanúmer mitt, en ég er öllu
þessu fólki afar þakklátur og ég þakka líka
fyrir það hvað við höfum kynnst frábæru
fólki þessi fjögur ár, fólki sem verða vinir
okkar svo lengi sem við lifum.“
Engin silfurskeið