Morgunblaðið - 25.06.2006, Blaðsíða 60
MORGUNBLAÐIÐ, KRINGLUNNI 1, 103 REYKJAVÍK, SÍMI 569 1100, SÍMBRÉF 569 1181, PÓSTHÓLF 3040,
ÁSKRIFT-AFGREIÐSLA 569 1122, NETFANG: RITSTJ@MBL.IS, AKUREYRI: KAUPVANGSSTRÆTI 1 SUNNUDAGUR 25. JÚNÍ 2006 VERÐ Í LAUSASÖLU 350 KR. MEÐ VSK.
endurskoðun
reikningsskil
skattar / ráðgjöf
www.ey.is
SIR David Attenborough var í gær gerður að
heiðursdoktor við Háskóla Íslands, en Kristín
Ingólfsdóttir, rektor skólans, tilkynnti þetta
við útskriftarathöfn í Laugardalshöll. Sir
Attenborough er einkum kunnur fyrir sjón-
varpsþætti og bækur um náttúrulíf en þar
fjallar hann um vistfræði dýra og plantna og
þróun lífs. Hefur hann hlotið margar við-
urkenningar fyrir störf sín og meðal annars
verið aðlaður af Elísabetu II. Bretadrottn-
ingu. Sir Attenborough var ekki viðstaddur
athöfnina í gær, en ávarpaði gesti Laug-
ardalshallar frá eyjunni Galapagos. Rektor
sagði í ávarpi sínu að áhrif Attenboroughs
mætti rekja til tveggja meginþátta. „Annars
vegar er hinn einstaki persónuleiki og geta til
að færa flókin vísindi í búning sem alla
heillar. Hins vegar eru sjálf vísindin, sem
vinna hans byggir á, traust og áreiðanleg,“
sagði rektor. Viðfangsefni Attenboroughs
kölluðust með einstökum hætti á við mikilvæg
viðfangsefni HÍ í dag.
Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Sir David Attenborough hefur verið gerður
að heiðursdoktor við Háskóla Íslands.
Attenborough
heiðursdoktor
LEIKIN kvikmynd um skipbrot flutn-
ingaskipsins Suðurlands á hafsvæðinu milli Ís-
lands og Noregs á jólanótt 1986 er í bígerð í
Hollywood. Aðalframleiðandi myndarinnar er
Stefán Karl Stefánsson leikari sem um árabil
hefur haft brennandi áhuga á slysinu og eft-
irmálum þess. Hann vonast til að myndin verði
frumsýnd eftir hálft þriðja ár.
Búið er að skrifa undir framleiðslusamning
við fyrirtæki sem framleiddi m.a. myndir á
borð við Catch Me If You Can með Tom Hanks
og I, Robot með Will Smith. Hyde Park Int-
ernational mun sjá um sölu og dreifingu mynd-
arinnar á heimsvísu.
Tvær til þrjár stórstjörnur
Stefán Karl segir að samstarf við eitt af
stóru kvikmyndaverunum í Hollywood sé að
komast í framkvæmd en málið sé enn á við-
ræðustigi. Handritið liggur fyrir en það skrifar
Peter Federanko sem Stefán Karl segir mikils
metinn „ghost writer“ í Hollywood. „Ghost wri-
ter“ er maður sem skrifar handrit án þess að
nafns hans sé getið. Leikstjóri hefur ekki verið
ráðinn en Stefán Karl segir ýmsa hafa sýnt
verkefninu áhuga, m.a. Frank Marshall sem er
giftur Kathleen Kennedy, aðalframleiðanda
kvikmynda Stevens Spielbergs. Hann leik-
stýrði m.a. kvikmyndunum Alive, Arachno-
phopia og Congo. „Marshall hefur sýnt verk-
efninu áhuga og það hefur verið okkur mikil
hvatning.“
Fleiri nafnkunnir menn munu koma að verk-
efninu en Stefán Karl segir stefnt að því að
ráða tvær til þrjár stórstjörnur í aðal-
hlutverkin. „Það er krafa sölu- og dreifingarað-
ilans að við séum með tvo til þrjá A-listaleikara
en það er alltof snemmt að nefna nöfn í því
samhengi,“ segir Stefán Karl.
Eitt af hliðarverkefnum kvikmyndarinnar
eru áform um að finna flak Suðurlandsins og
kafa niður að því með myndavélar. Undirbún-
ingur er þegar hafinn og hefur Stefán Karl
þegar rætt við sömu aðila og köfuðu niður að
Titanic og Bismarck og rannsökuðu höfnina í
Pearl Harbour. | 20
Leikin mynd um skipbrot Suðurlandsins
Stefán Karl Stefánsson
Á góðviðrisdögum eins og hafa verið á höfuðborgarsvæðinu und-
anfarna daga er nauðsynlegt fyrir bæði mannfólkið og dýrin að viðra
sig, líkt og þessi stelpa gerði með smáhundinn sinn. Miðað við veð-
urspár er líklegt að hann fari að rigna á suðvesturhorninu næstu
daga og þá gæti verið gott að vera í stígvélum eins og unga hjólreiða-
konan, sem að sjálfsögðu gleymdi ekki hjálminum.
Morgunblaðið/Eyþór
Úti að hjóla með hundinn
KONA á sextugsaldri slasaðist þeg-
ar skemmtibátur strandaði skammt
frá Snarfarahöfn í Grafarvogsmynni
í fyrrinótt. Fimm voru um borð í
bátnum og sluppu allir ómeiddir
nema konan. Lögregla og björgun-
arsveitir höfuðborgarsvæðisins
fengu neyðarkall rétt eftir miðnætti,
aðfaranótt laugardagsins.
Að sögn lögreglu gekk björgunin
vel, en á þriðja tug lögreglu- og
björgunarsveitarmanna á björgun-
arskipi og björgunarbátum tók þátt í
aðgerðinni. Þegar farþegum
skemmtibátsins hafði verið komið í
land var báturinn losaður af sandrif-
inu og honum komið fyrir í höfn.
Lögreglan tekur fram að enginn
grunur sé um ölvun þess er stýrði
bátnum.
Að sögn vakthafandi læknis á
slysadeild LSH hlaut konan bak-
meiðsl en er þó ekki alvarlega slösuð.
Slasaðist
í strandi
LYFLÆKNINGADEILD á Landspítalanum –
háskólasjúkrahúsi hefur verið sett í einangrun
eftir að þar kom upp veirusýking. Tólf sjúkling-
ar liggja á deildinni og hafa nokkrir þeirra
fengið iðrakveisu auk þess að grunur leikur á að
einn eða tveir starfsmenn deildarinnar hafi
fengið veiruna, að því er RÚV greindi frá.
Smitsjúkdómalæknir á LSH vildi í samtali
við Morgunblaðið lítið tjá sig um málið. Hann
sagði að einkenni kveisunnar stæðu yfir í einn
til tvo sólarhringa. Veiran, sem er mjög harð-
ger, smitast aðallega við snertingu. Læknirinn
sagði að verið væri að vinna bug á vandanum og
virtist veirusýkingin nú í rénun.
Veirusýking á
Landspítalanum
TÓMAS Zoëga, fyrrverandi yfirlæknir á geð-
sviði Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH)
ætlar ekki að taka við yfirlæknisstöðu við
sjúkrahúsið að nýju og hefur ákveðið að höfða
skaðabótamál á hendur LSH. Seint á föstudags-
kvöld varð ljóst að ekki tækist að leysa ágrein-
ingsmál hans og spítalans í kjölfar hæstarétt-
ardóms sem féll í máli Tómasar gegn LSH.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu fyrr í
mánuðinum að brottvikning Tómasar úr stöðu
yfirlæknis hefði verið ólögmæt. Var hann færð-
ur úr stöðunni þar sem hann féllst ekki á að
ganga að samkomulagi við LSH um að hætta
rekstri sjálfstæðrar læknastofu, en árið 2001
var sú stefna samþykkt á LSH að yfirmenn
sjúkrahússins væru í fullu starfi á stofnuninni
nema aðstæður spítalans gæfu tilefni til annars.
Í tilkynningu sem LSH sendi frá sér vegna
málsins í fyrrinótt segir að undanfarna daga
hafi verið reynt að fá niðurstöðu í mál Tómasar.
Í þeim viðræðum hafi „spítalinn teygt sig eins
og honum var framast unnt til farsællar nið-
urstöður sem báðir aðilar gætu sætt sig við“.
Ekki hafi verið hvikað frá stefnu sjúkrahússins
frá árinu 2001 en „spítalinn hins vegar veitt
þeim læknum, sem hafa stundað stofurekstur
samhliða stjórnunarstarfi á LSH, tækifæri til
þess að laga sig að breyttum aðstæðum. Í tilfelli
Tómasar Zoëga hefur það verið ítarlega reynt,
án árangurs“.
Stjórnendur neita að fara að lögum
Tómas segir að í tilboði spítalans til sín hafi
falist rýrnun á störfum og starfsskyldum yfir-
lækna sem gangi bæði gegn lögum og sé alger-
lega óviðunandi. Vísar hann þar til þess að spít-
alinn fór fram á að tæki Tómas að nýju við starfi
yfirlæknis, yrði létt af honum tilteknum stjórn-
unarskyldum og starf hans skipulagt í samráði
við sviðsstjóra lækninga geðsviðs spítalans og
framkvæmdastjóra lækninga. „Það sem eftir
situr í þessu er að við sitjum uppi með stjórn-
endur sem neita að fara að lögum og neita að
hlýða dómi hæstaréttar,“ segir Tómas.
Tómas segir að í framhaldinu muni hann fara
í mál við spítalann og krefjast skaða- og miska-
bóta. Kröfur hans verði kynntar heilbrigðis-
málaráðherra og LSH á næstunni, en þær muni
hlaupa á tugum milljóna. „Það er mjög alvarlegt
líka að stjórnendur skuli vera að stefna stofn-
uninni í skuldbindingar og greiða peninga sem
væri miklu nær að nota í sjúkrahúsreksturinn,“
segir hann. „Þvermóðska og stífni stjórnenda
LSH er mikið vandamál í stjórnun spítalans og
kemur fram í ýmsum málum,“ segir Tómas.
„Mér finnst líka að ráðherra geti ekki lokað sig
inni í helgum steini. Ráðherra ber pólitíska
ábyrgð á stjórnendum. Mitt mál er kannski
bara toppurinn á ísjakanum á því sem er að
gerjast innan spítalans,“ bætir hann við.
Tómas Zoëga tekur ekki aftur við yfirlæknisstöðu á geðsviði LSH
Fer í skaðabótamál
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur
elva@mbl.is
♦♦♦