Lesbók Morgunblaðsins - 24.02.2007, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 24.02.2007, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. FEBRÚAR 2007 11 Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur annaei@mbl.is Hún þykir lofa nokkuð góðu,frumraun Lauren Fox á skáldskaparsviðinu, þótt bókin sé langt í frá fullkomin og raunar örlít- ið klaufaleg á köflum. Fox þykir þó engu að síður takast einkar vel upp í bókinni Still Life with Husband við að draga fram skemmtilega mynd af hinum fáránlega pastellita heimi söguhetju sinnar Emily – konu sem líkir hjónabandi sínu við það að lesa sömu skáldsöguna aftur og aftur.    Það getur verið erfitt fyrir höf-unda sem fá mikið hrós fyrir sína fyrstu bók að fylgja lofinu eftir með þeirri næstu. Susan Fletcher virðist þó ekki falla í þessa gryfju, en nýjasta bók hennar, Oystercatc- hers, þykir ekki síður lofa góðu en sú fyrsta, Eve Green, sem Fletcher hlaut Whitbread-verðlaunin fyrir. Í Oystercatchers fjallar höfundurinn um missi, iðrun og þá flóknu og mótsagnakenndu tilfinningu sem ástin er, í gegnum sögupersónu sína Moiru Stone, sem tekst að vera heillandi en þó um leið fráhrindandi karakter.    Hún er af öðrum toga, söguhetjaSofka Zinovieff í bókinni Red Princess: A Revolutionary Life, þótt dramatíkin sé ekki minni, enda um alvöru- prinsessu að ræða. Þar rekur Zinovieff í fyrstu persónu ævi ömmu sinnar, hvítrússneskrar hefðarkonu sem lifði fjörlegu ást- arlífi, og flótta hennar frá rússnesku byltingunni. Zinovieff tekst að draga fram lif- andi mynd af gömlu konunni og ferð hennar, líkt og svo margra annarra flóttamanna þess tíma, fram og til baka um Evrópu.    Hljóðdiskar Normu E. Sam-úelsdóttur Ballynahínch eru líka eins konar ævisaga, en höfund- urinn, sem gefur diskana út sjálf- ur, lýsir þeim sem leit að einni og óskiptri sjálfs- mynd þrátt fyrir margþættan upp- runa sinn. Þessi skáldkona, sem er bæði af írsk- um og skoskum uppruna, á auk þess rætur að rekja til Hnífsdals við Ísafjarð- ardjúp og fjallar hún m.a. um þetta ætterni sitt á diskunum.    Evrópumál hafa verið ofarlega ábaugi í umræðu um framtíð Íslands undanfarnar vikur og ár. Meðal þeirra sem hafa skoðun í þeim efnum er Eiríkur Berg- mann Einarsson, dósent í stjórn- málafræði, en framlag hans til þessara mála má finna í bókinni Negotiating Eu- rope, Founda- tions, Dynamics, Challanges sem Háskólinn í Lundi í Svíþjóð gefur út um þessar mundir. Í kafla sínum, „Deep Inside the European Project“, fjallar Ei- ríkur um stöðu Íslands í Evrópu- samvinnunni og er það niðurstaða hans að í gegnum EES-samninginn og Schengen sé Ísland nú þegar komið á kaf í Evrópusamrunann. Ritstjórar bókarinnar eru þau Anamaria Dutceac Segesten og Andreas Önnerfors, sem bæði eru fræðimenn við Evrópufræðasetur Háskólans í Lundi. BÆKUR Sofka Zinovieff Eiríkur Bergmann Einarsson Norma E. Samúelsdóttir Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is Helgi Hálfdanarson gaf út ritið Mad-daman með kýrhausinn árið 1964 en íþví setur hann fram nýjar skoðanirum form, efnisskipan og upprunalega gerð elsta bókmenntaverks Íslendinga, Völuspár. Útgáfa bókarinnar vakti ekki mikla athygli, að minnsta kosti ekki meðal fræðimanna sem huns- uðu verkið. Nú, rúmum fjórum áratugum seinna, hefur Vésteinn Ólason, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, skrifað grein í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar um bók Helga. Kveikjan að greininni er reyndar bréf sem Helgi sendi stofnuninni síðastliðið haust ásamt eintaki af Maddömunni með kýr- hausinn, sem var endurútgefin árið 2002. Í bréf- inu fór Helgi fram á að stofnunin léti sér eftir álit sitt á efni bókarinnar: „Er þá spurt, hvort til- gátur þær um hið forna skáldverk Völuspá, sem þar er fram fylgt, megi að líkindum teljast til bóta.“ Í grein sinni segist Vésteinn hafa lesið bók Helga þegar hún kom fyrst út en hann segir að þeir fræðimenn sem voru ungir á sjöunda ára- tugnum hafi ekki tekið hugmyndir Helga alvar- lega. Ástæðan sé sú að aðferð Helga var ekki í tísku. Um það leyti sem Maddaman með kýr- hausinn kom fyrst út naut stefna Jóns Helgason- ar, prófessors í íslensku, hylli hjá flestum há- skólamönnum en hún gekk út á að breyta helst engu í varðveittum fornum bókmenntatextum „nema því sem var málfræðilega ótækt og auð- velt sýndist að færa til betri vegar“. Aðferð Helga er hins vegar líkari þeirri sem tíðkaðist á 19. öld og nefndist „höhere Textkritik“ eða „æðri textarýni“. Vésteinn lýsir henni svo: „Þeir sem ástunduðu hana beittu rökum og lærdómi til að finna upprunalegri gerð fornra kvæða en þá sem birtist í handritum, einkum með því að greina yngri vísur eða vísuorð frá upphaflegum eða leið- rétta sum vísuorðin.“ Bók Helga hefur með öðrum orðum þótt gam- aldags þegar hún kom fyrst fyrir sjónir manna á sjöunda áratugnum. Vésteinn segir að end- ursköpun Helga á Völuspá sé þó að mörgu leyti glæsileg, og hann sé sjálfum sér samkvæmur í vinnubrögðum. Þessi skýring á áhugaleysinu sem bók Helga mætti er sennileg. Þetta er alltaf að gerast. Fræðimenn verja sína aðferðafræði. Ein leiðin til þess er að hunsa framlag þeirra sem beita ann- arri aðferð. Þetta hefur stundum verið kallað þöggun. En auðvitað er líka hægt að kenna áhugaleysi um. Rannsóknir byggðar á gömlum aðferðum vekja einfaldlega ekki áhuga. Það er engu að síður heldur hart að Helgi skuli hafa þurft að bíða í meira en 40 ár eftir því að fá viðbrögð við bók sinni frá þeim sem helst hefðu átt að bregðast við. Og þá ekki fyrr en hann kallaði eftir þeim með formlegu bréfi til op- inberrar stofnunar í íslenskum fræðum! Vésteinn segir að helsti galli þeirrar aðferðar sem Helgi beitir sé sú að niðurstöðurnar eða hin endurgerðu kvæði séu jafnmörg túlkendunum. Hann bætir við að kannski geri það ekkert til að svo sé. Sumir fræðimenn virðast reyndar ekki láta að- ferðafræði Helga trufla sig. Eysteinn Þorvalds- son, prófessor emeritus við Kennaraháskóla Ís- lands, skrifaði grein í Lesbók á fjörutíu ára útgáfuafmæli bókarinnar og sagði hana athygl- isverðasta rit sem birst hefði um Völuspá. Í greininni sagði Eysteinn meðal annars: „Með rannsókn sinni hefur Helgi Hálfdanarson unnið verk sem allir aðrir hafa talið óvinnandi, – að gera grein fyrir líklegri upprunalegri gerð Völu- spár. Helgi miklast ekki af verki sínu sem hann hefur óneitanlega unnið af kunnáttu, innsæi og hugkvæmni og einstakri þekkingu á skáldskap- armálum.“ Vésteinn er ekki sammála Eysteini. Hann greinir á við Helga um túlkun á ýmsum þáttum kvæðisins eins og hann rekur í greininni. Hann telur að Sigurður Nordal og Ursula Dronke hafi lagt mest fram til skilnings á Völuspá á síðustu öld. Því verður samt ekki á móti mælt að bækur eins og Maddaman með Kýrhausinn eru fágætar hér á landi. Margt skrýtið í kýrhausnum » Það er engu að síður heldur hart að Helgi skuli hafa þurft að bíða í meira en 40 ár eftir því að fá viðbrögð við bók sinni frá þeim sem helst hefðu átt að bregðast við. ERINDI Eftir Hjálmar S. Brynjólfsson hsb@mbl.is S íðari hluti tuttugustu aldar reyndist Kínverjum ekki auðugur af nýjum og gagnrýnum eða skapandi bók- menntum. Sjálfsagt er um að kenna þeirri sömu deyfð og færðist yfir önnur ráðstjórnarríki, eftir að kommúnistar náðu völdum. Skapandi og gagn- rýnin hugsun í bókmenntum var til að mynda ekki hátt skrifuð í gömlu Sovétlýðveldunum, og er það ekki heldur í Kína – þótt teikn breytinga séu á lofti nú á dögum. Hins vegar eiga kommúnistaveldin stóru, Sov- étríkin og Kína, það sameiginlegt að áður en stöðn- unin færðist yfir bókmenntirnar ríkti tími nýsköp- unar og samfélagslegrar gagnrýni. Rússneskir rithöfundar eins og Gorkíj og Búlgakoff hleyptu nýju lífi í stöðnuð listform sinnar samtíðar, þótt sú umbylting hafi verið drepin skömmu eftir fæðingu. Flestum eru rússnesku rithöfundarnir vel kunn- ir, Pasternak og Solzenitsyn er hægt að taka sem dæmi auk hinna sem fyrr voru nefndir. En merki- lega hljótt hefur farið um kínverskan skáldjöfur sem hefur sambærilega stöðu í Kína nútímans og Gorkíj hafði í Sovétríkjunum. Þann mann sagði Oe Kenzaburo, Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum árið 1994, vera „mesta rithöfund í Asíu á 20. öld- inni“ og verk hans hafa verið nefnd í hópi 100 bestu skáldverka allra tíma. Hann er rithöfund- urinn Lu Xun sem fæddur var 1881 og lést árið 1936. Mikilvægara að hrista upp í sálinni en að lækna líkamann „Lu Xun“ er reyndar skáldanafn, en réttu nafni hét hann Zhou Shuren, þar áður Zhou Zhangshu. Hann fæddist inn í vel menntaða fjölskyldu sem þó var ekki sérstaklega auðug. Þegar hann var ung- lingur dó faðir hans, og eftir það einsetti Lu Xun sér að gerast læknir. Hann valdi að læra vestræn læknisvísindi og flutti til Japan í þeim tilgangi. Frá þeim áætlunum sneri hann og ákvað þess í stað að gerast rithöfundur. Sagan segir að það sem olli þessum straum- hvörfum hafi verið þegar hann þurfti að horfa á myndir af aftöku Japana á kínverskum manni sem talinn var vera njósnari. Lu Xun var mjög brugðið við að sjá hóp landa sinna standa aðgerða- og and- lausa hjá og fylgjast með aftökunni. Í formálanum að fyrsta smásagnasafni sínu sagði hann síðar meir að hann hefði gerst rithöfundur, því honum fyndist mikilvægara að hrista upp í sál kínversku þjóðarinnar en að lækna líkama hennar. Í kjölfarið settist hann aftur að þar árið 1909. Lu Xun var sporgöngumaður sem rithöfundur. Í fyrsta lagi ritaði hann frásagnir sínar með öðrum hætti en hafði tíðkast. Kínversk skáld eða rithöf- undar fram til hans tíma höfðu notast við klassíska kínversku í verkum sínum. Þess háttar ritverk gátu aðeins menntamenn lesið. Lu Xun skrifaði hins vegar texta sína – og varð fyrstur til þess – á kínversku sem er nær þeirri tungu sem alþýðu- menn töluðu, en þessi stíll hefur eftir það verið nefndur baihua. Í öðru lagi var Lu Xun brautryðjandi með því að taka þátt í að innleiða vestræn bókmenntaform í kínverskan skáldaheim. Smásöguformið var hans sérgrein, og helstu verk hans eru á því sviði. Helstu ritverk og þýðingar á íslensku Alls liggja þrjú smásagnasöfn eftir Lu Xun og eru tvö fyrstu söfnin hans frægustu verk. Fyrsta safn- ið hét Herkvaðning og kom út árið 1923. Það næsta kom út tveimur árum síðar en titil þess mætti þýða sem Hik. Það síðasta kom út árið 1935 og bar titilinn Endursagnir á gömlum sögum. Reyndar má deila um það að hversu miklu leyti síðasta verkið er hans höfundarverk, þar sem hann fæst þar við að endursegja gamlar kínverskar þjóðsögur frá sínu sjónarhorni. Fyrir utan þessi þrjú smásagnasöfn lét Lu Xun reyndar eftir sig verk á öllum sviðum bókmennt- anna, fyrir utan það að hann skrifaði aldrei skáld- sögu. Hann gaf út pólitísk tímarit, ljóðabókina Ill- gresi og lét til sín taka á sviði bókmenntagagnrýni með rannsóknum sínum á klassískum, kínverskum bókmenntum. Einnig skrifaði hann endurminn- ingar í formi stuttra ritgerða og þýddi nokkur rit úr rússnesku; af þeim eru þýðingarnar á verkum eftir Gogol frægastar. Tónninn í verkum Lu Xuns er írónískur, bitur og þurr, jafnvel háðskur. Í frægustu verkum hans, t.d. smásögum eins og „Dagbók vitfirrings“ og „Sannri sögu Ah Q“ (úr Herkvaðningu) eða „Ný- ársfórninni“ og „Sápu“ (úr Hiki), má sjá glögg dæmi þessa. Í þessum verkum birtist gjarnan raunsæisleg afhjúpun á hræsni, skinhelgi eða grimmd frá sjónarhorni sögumanns. Í smásög- unum er gjarnan sögumaður sem segir frá í fyrstu persónu. Í sögum Lu Xuns er sjaldan óvæntur endir, en meira lagt upp úr persónulýsingum. Aðstæðurnar eru því sem næst hversdagslegar og það er ekki mikið um yfirnáttúruleg fyrirbæri í sögunum. Þvert á móti veltur allt í sögunum á persónunum og hvernig þær afhjúpast og birtast í því sem þær segja eða gera. Þau atvik sem persónurnar lenda í verða lesendum síðan hugvekjur. Þannig er af- hjúpunin í verkum hans fyrst og fremst fólgin í að draga fram mannlegan breyskleika: skinhelgi, fá- visku, hégómleika eða grimmd. Ósjaldan er um- hverfið þáttur í þessum breyskleika, og deilir Lu Xun í smásögunum á lénsaldarsamfélagið og hug- myndir Konfúsíanisma. Verk Lu Xuns eru ekki ófáanleg á íslensku. Fimm af smásögum hans eru til í íslenskri þýðingu (undir höfundarnafninu Lu Hsün). Halldór Stef- ánsson, smásagnahöfundur og þýðandi, sneri sög- um hans og Mál og menning gaf út bókina árið 1957. Áhugasamir geta því rennt við á uppáhalds- bókasafninu sínu, nú eða fundið eintak af skrudd- unni í fornbókabúðum landsins. Orðstír, hveim er sér góðan getur … Þótt Lu Xun hafi aldrei verið meðlimur í kínverska Kommúnistaflokknum þótti hann róttækur í hugs- un og vinstrisinnaður. Skrif hans höfðu áhrif á landa hans og eru margir sagðir hafa gengið í flokkinn vegna rita hans og skoðana. Svo fór og að sjálfur Mao Zedong kallaði hann herforingja menningarbyltingarinnar sem færðist yfir Kína nútímans. Þótt Kommúnistaflokkurinn hafi gengið í gegnum endurskoðun eftir daga Zedongs hefur hvergi brugðið skugga á orðstír Xuns. Lu Xun var alla sína ævi heilsuveill. Hann lést af völdum berkla, en sjálfsagt hefur það ekki hjálpað til í baráttunni að hann var mikill reykingamaður og yfirleitt með vindil í hönd. Þegar dagar hans voru taldir var reist safn til minningar um hann í Sjanghæ, sem stendur enn þann dag í dag. Mesti rithöfundur Asíu á 20. öld? Lu Xun hefur verið kallaður mesti rithöfundur Asíu á 20. öld. Hann var kínverskur og hefur svipaða stöðu í heimalandi sínu nú og Gorkíj hafði í Sovétríkjunum. Lu Xun Halldór Stefánsson þýddi smásögur eftir Xun árið 1957. TENGLAR ............................................................... http://www.coldbacon.com/luxun.html http://mbl.is/mm/gagnasafn/ grein.html?grein_id=666336

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.