Lesbók Morgunblaðsins - 19.05.2007, Blaðsíða 3
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. MAÍ 2007 3
Eftir Ólaf Kjartan Sigurðarson
olisigurdarson@mac.com
Á
tónleikum meistara Placido
Domingo um árið heyrðist til
konu einnar í hléi kvarta yfir því
að hún teldi sig hafa keypt kött-
inn í sekknum. „Hvar eru hin-
ir?“ spurði blessuð konan. Hafði
hún auðvitað átt von á því að sjá tenórana þrjá,
enda þekkti hún fyrirbærið tenór vart nema
þrír færu saman. Slíkur hefur verið máttur
þessarar snjöllu markaðshugmyndar.
Það var því ekki laust við að mér dytti í hug
hanaslagur þegar ég sá að Bryn Terfel mundi
hefja upp raust sína nánast ofan í aukalagið hjá
Dmitri Hvorostovsky í næstu viku. En kannski
ekki óviðeigandi því nöfn þessara miklu söngv-
ara hafa vissulega verið nátengd síðan þeir
stigu jafnfætis fram á sjónarsviðið árið 1989.
Það var óneitanlega ár baritónanna í Cardiff-
keppninni í Wales það árið. Í aðdraganda
keppninnar var nafn heimamannsins Bryn Ter-
fel á allra vörum og þótti lítið geta staðið í vegi
fyrir sigri hans. Haft er eftir Bryn sjálfum að
meðbyrinn hafi verið svo mikill að jafnvel hann
var farinn að gera ráð fyrir eigin sigri. Sjálfur
segir hann frá því að hafa staðið baksviðs þegar
Hvorostovsky hóf að syngja Ombra mai, hina
frægu aríu Händels. Strax í upphafi aríunnar
hafi hann gert sér grein fyrir því að á sviðinu
væri sigurvegarinn, á því léki enginn vafi. Enda
fór það svo að Bryn Terfel hlaut verðlaun fyrir
ljóðatúlkun í keppninni en Dmitri Hvoro-
stovsky aðalverðlaunin.
Það var öllum ljóst að hér voru tvær stór-
stjörnur fæddar. Í kjölfar keppninnar rigndi að
sjálfsögðu tilboðum yfir kappana. Tónleikahald-
arar og stjórnendur óperuhúsa um heim allan
kepptust um að bóka þá mörg ár fram í tímann.
Og ekki létu útgefendur á sér standa.
Philips útgáfufyrirtækið gerði glæsilegan
samning við Hvorostovsky en Deutsche
Grammphon hreppti Terfel. Listi hljóðritana
með þessum köppum er orðinn gríðarlega lang-
ur og glæsilegur. Það er þó athyglisverður
munur á því efni sem þeir hafa einbeitt sér að,
og þar kemur einnig fram sá grundvallarmunur
sem er á þessum ágætu söngvurum.
Dmitri Hvorostovsky er gæddur einni glæsi-
legustu Verdi-baritónrödd seinni ára. Á sviði
kemur glöggt í ljós að hann er ekki raddstór
maður, en raddfegurðin er ómótstæðileg og það
vald sem hann hefur á því erfiða raddsviði sem
Verdi-baritóninn útheimtir er stórkostlegt.
Hljóðritun hans á aríum eftir Verdi og Tsjaj-
kovskí er slík gersemi að unun er á að hlýða. En
styrkur hans liggur ekki síður í túlkun rúss-
neskrar söngtónlistar. Ekki þarf nema að
benda á „Russian Romances“ því til staðfest-
ingar. Einnig er flutningur hans á trúartónlist
ásamt kammerkór Pétursborgar afar áhrifa-
mikill. Og auðvitað hefur söngvari sem hann
slegið á léttari strengi og heillað tónleikagesti
með alls kyns slögurum eins og vera ber.
Rödd Bryn Terfel er afar ólík og um margt
erfitt að lýsa henni. Hann hefur verið nefndur
„Golden Waterfall of a Voice“, mér dettur í hug
Gullbarkafoss, og er það ekki fjarri lagi. Kunn-
ugir segja að þegar Terfel kom til náms í Lond-
on við Guildhall-skólann hafi hann verið hálf-
gerður sveitalubbi sem kunni lítið, en röddin
hafi þegar verið stórkostleg. Enda er hann alinn
upp við ekki ósvipaðar aðstæður og íslenskir
söngvarar. Söngmenning Walesbúa er ekki
ósvipuð okkar og sést það best á þeim glæsilegu
karlakórum sem löndin bæði státa af. Bryn hef-
ur sjálfur talað um hversu mikið var sungið í
kringum hann og það hafi eðlilega mótað hans
söng, en röddin er sannarlega náðargjöf.
Það litríka safn hljóðritana sem þegar liggur
eftir Terfel vitnar einmitt um þá fjölhæfni sem
hann býr yfir. Meðferð hans á texta hefur alltaf
verið hans aðalsmerki og kemur það ekki síst
fram í hljóðritunum hans á enskum sönglögum
ásamt Malcolm Martineu á diskinum The Vaga-
bond. Og flutningur þeirra félaga á ljóðum
Schubert er engu síðri. Hann hefur einnig
hljóðritað óperuaríur, söngleikjatónlist sem og
hinar ýmsu dægurflugur.
Bryn er raddstór maður, en rödd hans er
einnig gædd þeim galdri að það er eins og hún
umlyki mann. En sá galdur er einnig sprottinn
úr hæfni hans til að hrífa áhorfendur með texta-
meðferð sinni og sviðsframkomu.
Það er erfitt fyrir mig að skrifa um þessa
heiðursmenn án þess að ég virðist sem táningur
að skrifa aðdáendabréf. Það er ekki hægt að
bera þessa tvo söngvara saman og komast að
því hvor er betri, baritón er jú ekki það sama og
baritón.
Það gleður mig að íslenskir tónleikagestir
skuli fá að njóta þessara miklu söngvara með
jafn glæsilegum meðleikurum. Ivari Ilja þekki
ég ekki af eigin raun, en þó veit ég að hér er
mikill listamaður á ferðinni. Malcolm Martineu
er af mörgum talinn einn fremsti meðleikari
heims í dag og verður að leggja hans hlut til
jafns við hlut Terfel á hljóðritunum þeirra. Ég
var svo lánsamur að sækja hóptíma sem Mart-
ineu stýrði við Royal Academy of Music er ég
var þar við nám, og þeir tímar munu seint
gleymast.
Ég verð því miður fjarri góðu gamni þegar
þessi sjarmatröll leggja landið undir sig, en
mun sinna finnskri nútímaóperu í Þýskalandi
sem og Rigoletto í Englandi á meðan. Fyrir
hönd íslenskra baritóna óska ég tónleikagestum
til hamingju með þessa heimsókn. Njótið vel.
Morgunblaðið/Sverrir
Bryn Terfel „Kunnugir segja að þegar Terfel kom til náms í London við Guildhall skólann hafi hann verið hálfgerður sveitalubbi sem kunni lítið, en röddin hafi þegar verið stórkostleg.“
Hanaslagur við Hagatorg?
Höfundur er baritónsöngvari.
Tveir af fremstu baritónsöngvurum heims,
Bryn Terfel og Dmitri Hvorostovsky, munu
halda sína tónleikana hvor á Listahátíð í
Reykjavík um helgina. Þeir komu fram á
sjónarsviðið í Cardiff-keppninni í Wales árið
1989 og hafa löngum verið bornir saman. Hér
leggur einn af fremstu baritónsöngvurum Ís-
lands mat á þessa meistara.
Dimitri Hvorostovsky Hann er gæddur einni glæsilegustu Verdi-baritónrödd seinni ára.