Lesbók Morgunblaðsins - 19.05.2007, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 19. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
!
Umhverfissjónarmið, og þar
með talið í samgöngumálum,
hafa löngum haft vinstri stimpil
á sér. Hefðbundið er að hægri
menn eigi erfiðara með að viður-
kenna vandann og því síður að
tengja hann við óhefta bílaeign
og -umferð. En kannski þarf
þetta ekki að vera svona; sumir hægri
markaðshyggjumenn eru teknir að ranka
við sér:
„Eitt aðalumhverfismálið í Reykjavík
eru samgöngur. Allar borgirnar í kring-
um okkur hafa reynt einhvern veginn að
haga málum þannig að það sé ekki óheft
fjölgun bíla í borginni vegna þess að það
hefur mjög vond umhverfisleg áhrif hvað
varðar svifryk, hvað varðar gróðurhúsa-
lofttegundir og þess háttar.“
Hver lýsir vandanum á svona afdrátt-
arlausan og einfaldan hátt? Gísli Mar-
teinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálf-
stæðisflokksins. Öðruvísi mér áður brá en
guð láti gott á vita og batnandi manni er
best að lifa.
Reykjavíkurborg hefur boðað „græn
skref“ í umhverfismálum og þar er m.a.
yfirlýst að líta skuli á hjólreiðar sem sam-
göngumáta (en ekki eingöngu frístunda-
sport). Ekki er þó alltaf talað á þessum
nótum. Margir segja sem svo að ein-
staklingarnir eigi að ráða því hvernig þeir
ferðast og að slíku eigi ekki að handstýra
með reglum og refsingum. Auk þess muni
tæknin leysa þessi mál innan tíðar, fyrst
með skógrækt og tvinnbílum og loks með
vetnisbílum sem hinni endanlegu lausn.
Vissulega hafa orðið tækniframfarir í
framleiðslu á bílum, áli og mörgu öðru og
bílar eru sparneytnari en áður. En magn-
ið eykst jafnan meira en sem sparneyt-
ninni nemur. Sumar tæknilausnir eru
óraunhæfar og auk þess er ekki gefið í
sjálfu sér að tæknin sveigist að umhverf-
isvænum lausnum.
Sá sem bætir bíl í flota landsmanna er
ekki einungis að nýta „sjálfsagðan“ rétt
sinn og frelsi heldur einnig að heimta
þjónustu samfélagsins undir þennan
sama bíl: 4–5 bílastæði (heima, í vinnu og
á þjónustustöðum), samgöngumannvirki
á borð við mislæg gatnamót og göng og
úrlausn á mengun og gróðurhúsaáhrifum.
Val á farartækjum og aðrar ákvarðanir
um notkun náttúru og auðlinda hennar
hafa einnig siðferðilega, heimspekilega
og trúarlega hlið. Almennt hafa óhóf og
eyðsla fengið bágt hjá andlegum hreyf-
ingum allra alda. Þetta viðhorf kom m.a.
fram í síðustu páskapredikun Karls
Sigurbjörnssonar biskups:
„Til að hamla gegn aðsteðjandi um-
hverfisvá þarf samstillt átak hinna
mörgu. En umfram allt þurfum við öll að
horfa í eigin barm og endurmeta lífsstíl
ágengni og sóunar og temja okkur lífsstíl
hófsemi og hógværðar.“
Mörgum dugar hvatning af þessu tagi
en aðrir þurfa að finna áhrif umhverfis-
ákvarðana á eigin skinni, þ.e. fjárhags-
lega. Hagkerfi okkar hefur upp á aðferðir
að bjóða sem duga, þ.e. hagræna hvata í
formi stýringar á sköttum og gjöldum
samgöngutækja og eldsneytis samkvæmt
grunnreglunni að sá skuli borga sem
mengar. Um þetta er verið að móta regl-
ur á vegum „Vettvangs um vistvænt elds-
neyti“ hjá Orkustofnun.
Róttækustu samgöngubreytingar í
þéttbýli eru fólgnar í því að þétta byggð-
ina og auka hjólreiðar og fótgangandi
umferð. Hvorttveggja þarf að klífa þrí-
tugan hamar gróinna og andsnúinna við-
horfa.
Hin háskalega hlýnun í heiminum
snýst sem sé ekki bara um Kárahnjúka,
þ.e. virkjanir og stóriðju, þó að það mál-
efni sé mikilvægt, heldur einnig um dag-
lega hegðun okkar í hversdagsiðju og um-
ferð. Góðu fréttirnar á þessu sviði eru að
einstaklingar og hópar geta lagt fram
sinn frjálsa skerf og haft smám saman
þau áhrif að stjórnmálin komi til liðs.
Maður, líttu
þér nær!
UPPHRÓPUN
Eftir Þorstein Helgason
thelga@khi.is
Eftir Önnu Kristínu Jónsdóttur
anna.kristin.jonsdottir@gmail.com
S
umarið er alveg að koma. Þá gef-
ast vonandi mörg tækifæri til að
leggjast í sólbað með reyfara eða
glansblað og slaka almennilega á
og ef það rignir og er kalt er jú
best að liggja inni og lesa. Mikið
af því sem lesið er á sumrin kemur upp í
hendur manns af tilviljun vítt og breitt um
landið. Skammturinn sem ætlaður var í
sumarbústaðaferðina klárast, eða það
gleymdist að hafa með lesefni og þá er að
skoða hvað er að finna í húsinu. Það er ansi
misjafnt, en í orlofshúsum þar sem margir
koma er þetta oft undarlegur hrærigrautur af
þjóðlegum fróðleik og sagnaþáttum sem
tengjast svæðinu, skáldsögum og gleymdum
tímaritum. Það er fátt sem færir manni betur
heim sanninn um að maður sé í sumarfríi og
geti slakað almennilega á en að lesa svona
þriggja ára gamalt glansblað með uppbyggi-
legu viðtali við smástirni sem er nú er kannski
horfið úr sviðsljósinu. Þó að blaðið sé gamalt
og velkt er eitthvað svo jákvætt og sígilt við
viðtölin, viðmælendur horfa oftast bjartsýnir
fram á veg, stóru tækifærin eru að stinga upp
kollinum eða þá að erfiðleikar eru að baki.
Stundum finnst mér samt vanta framhalds-
sögur í svona blöð. Það getur verið ágætis
gestaþraut að púsla saman blöðum og yrkja í
eyðurnar ef mörg hefti vantar innan í tilvilj-
anakennt safn. Ég man margar sælustundir á
sveitaheimili þar sem ég kom sem barn við að
púsla saman gömlum Vikum að mig minnir.
Ég man ekkert lengur eftir sögunni og er
ekki einu sinni viss um hvort þetta var Vikan
en ég man hvað það var gaman að finna næsta
hefti og geta haldið áfram að lesa. Þó svo að
skáldsögur í formi framhaldssögu séu orðnar
fátíðar í glansblöðunum í dag má auðvitað
samt segja að þau geymi alltaf sögur af sama
fólkinu og við lesendurnir getum þá fylgst
með sögum þeirra milli ára.
Reyfaralestur er fylgifiskur sumars hjá
mörgum hvort sem eru glæpasögur eða ást-
arsögur. Íslenskar glæpasögur hafa jú orðið
vinsælar síðustu misseri. Þær tróna hátt á
metsölulistum og náttborðum landsmanna.
Sumum þykir sem þær njóti jafnvel of mik-
illar athygli, það sé illt ef öll umræða um bæk-
ur og lestur, hvort sem er í fjölmiðlum eða
manna í millum snúist um reyfara. Svart-
sýnismenn og tuðarar velta því líka fyrir sér
hvað það segi um samfélag okkar að við skul-
um ekki henda frá okkur sögum af ránum,
morðum og hrottaverkum sem unnin eru í
Reykjavík, austur á landi eða suður með sjó.
Það að við skulum yfirhöfuð lesa þetta í stað
þess að kasta bókunum burt og segja þetta
gengur ekki upp, svona lagað gerist ekki hér
hjá okkur. Ég las nýlega færeyskan reyfara.
Sögusviðið var Þórshöfn mestan part og ég
verð að játa að það læddist að mér smáefi
þegar morðinginn felldi fjórða manninn á
jafnmörgum dögum. Efinn kippti mér í smá-
stund út úr þeim blekkingarheimi sem ég
hafði gengið inn í stundirnar sem Jógvan
Isaksen skemmti mér með drykkfellda blaða-
manninum Hannisi og raunum hans. Annars
var sagan ágæt og það var skemmtilegt að
lesa sögu sem gerðist að mestu í Færeyjum.
Margt fannst mér kunnuglegt, en hef samt
aldrei komið til Færeyja. Sögusvið glæpa-
sagna skiptir oftast miklu máli, það er hálf-
gert flangs á aðalpersónunum, þær þvælast
um í eltingaleik við vísbendingar og vitni að
ógleymdum morðingjanum og lesendurnir
fylgja með.
En um leið og framboð glæpasagna eykst,
þær eru orðnar viðurkennt lesefni sem enginn
þarf að skammast sín fyrir, þá er eins og ekki
sé jafnhátt risið á ástarsögunum og eða eins
frjálslega um þær spjallað á mannamótum og
í fjölmiðlum. Ástarsögur sem bókmenntateg-
und eru oft taldar frekar ómerkilegar og lest-
ur þeirra talinn bera vitni algerum raunveru-
leikaflótta. Það geti nú enginn samþykkt
sykursæta veröld, þar sem ástin sigrar alltaf,
sama hvaða misskilningur og vandræði koma
upp hjá söguhetjunum. Veröld, þéttskipaða,
hávöxnum, dökkhærðum karlmönnum sem í
fyrstu séu hrjúfir í fasi og virðist hallir undir
tálkvendi en reynist svo gull af manni og falli
helst fyrir fallega eygðum konum, sem búi
yfir kímnigáfu. En er það nokkuð fáránlegra
að elskendur nái saman, en að fjórir menn séu
myrtir á voveiflegan hátt, á hálfri viku í Fær-
eyjum.
Kannski þurfa íslenskar ástarsögur að
eignast höfund sem slær í gegn í útlöndum.
Það er sagt að upphefðin komi að utan, en
hennar gæti líka verið von að vestan. Í fyrra
kynnti Vestfirska forlagið nýja ritröð, Ástar-
sögurnar að vestan, og þær urðu þrjár. Vest-
firska forlagið hefur hingað til helst sinnt
þjóðlegum fróðleik og mannlífi á Vestfjörðum.
Bækur þess einmitt hefðbundinn, svæðis-
bundinn sumarhúsakostur, kannski bætast í
hillurnar í sumar fjólubleikar ástarsögur
sprottnar úr vestfirskum raunveruleika þar
sem blandað er saman blíðu og stríðu en allt
fer vel að lokum.
Ástir og glæpir
Morgunblaðið/Árni Torfason
Sumarlestur „Mikið af því sem lesið er á sumrin kemur upp í hendur manns af tilviljun vítt og breitt um landið. Skammturinn sem ætlaður var í
sumarbústaðaferðina klárast, eða það gleymdist að hafa með lesefni og þá er að skoða hvað er að finna í húsinu.“
FJÖLMIÐLAR » Svartsýnismenn og tuðarar
velta því líka fyrir sér hvað
það segi um samfélag okkar að
við skulum ekki henda frá okk-
ur sögum af ránum, morðum
og hrottaverkum sem unnin
eru í Reykjavík, austur á landi
eða suður með sjó.
Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs-
ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins