Lesbók Morgunblaðsins - 28.07.2007, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 28.07.2007, Blaðsíða 9
þýðir mjög gott sagði hún glöð og ég velti fyrir mér: hvað ætlir hinir fái?) og svo segir hún mér að smella á reit og þá barasta koma myndirnar mínar upp í hreyfimyndaútgáfu. Fyrst borgin og Zilla og svo hluti borgarinnar hruninn og Zilla horfin (gleymdi að teikna hana á nýjum stað). Sjálfsagt engin straum- hvörf fyrir japanska teiknimyndagerð en þónokkur atburður í mínu lífi. Á leiðinni upp, enn skælbrosandi, skoð- aði ég fyrrnefnda sögu-fleka með dýra- glímunni sem upphafspunkti. Svo þrátt fyrir að vinstrimenn vilji rekja manga til áhrifa Disney á Tezuka þá vill Tezuka sjálfur rekja ræturnar aft- ur til myndlýstu handritanna. Stelpur og strákar Í lestinni til baka sat eldri maður við hliðina á mér, niðursokkinn í manga. Samkvæmt Chigusa Ogino eru konur þó komnar í meirihluta manga- lesenda, og nú er svo komið að hin hefðbundna tvískipting í shojo og sho- nen (stelpu og stráka) virðist ætla að riðlast og höfundar sem skrifa shonen- manga eru farnir að höfða meira til kvenna í teikningum sínum og hafa karlhetjurnar meira í anda shojo- drengjanna. Höfuðmunurinn á þessum tveimur gerðum manga felst bæði í stíl og sögu, en shojo-stíllinn er allur mun fegraðari og einkenni hans eru að augu persónanna, sem eru yfirleitt í stærra lagi í meginstraums-manga, eru enn stærri en annars. Shonen eru hins- vegar meiri hasar-sögur, stundum all- ofbeldisfullar, stundum fyndnar og krúttlegar. Það voru þó aðallega karlar sem ég sá lesa manga svona á götum úti og í lestunum. Ég var orðin mjög flink í að teygja úr hálsinum og kíkja ofaní lestrarefni fólks; Japönunum þótti þetta, sýndist mér, ekkert skrýtnara en annað sem illa siðaðir út- lendingar gætu tekið uppá. Einhvers staðar hafði ég lesið að lesendur manga væru svo hraðlæsir að þeir tækju sér minna en sekúndu á hverja opnu. Þetta fannst mér allhæpið, en varð svo vitni að slíkum lestri ungs manns sem stóð gleiðfættur í neð- anjarðarlestinni og hreinlega hrað- fletti sig á örfáum mínútum í gegnum hnausþykkt manga-tímarit (aðeins minna en símaskráin), algerlega nið- ursokkinn. Stelpurnar sem ég spurði um þetta hlógu. Það hefur verið stráka-manga sögðu þær með nokk- urri fyrirlitningu í röddinni, þar er ekkert nema hasar öfugt við stelpu- mangað, þar sem sagan skiptir máli. Manga-útrásin Þær konur sem ég talaði við voru mis- mikið inní manga. Ein sagðist hafa les- ið mikið þegar hún var yngri, önnur, á sama aldri, les enn manga. Eldri kona, prófessor við háskóla og sérfræðingur í Edo-tímabilinu, hafði aldrei lesið manga. Chigusa Ogino benti á að veg- ur manga innan Japan hefur vaxið mjög mikið, sérstaklega með tilkomu vinsældanna erlendis: nú vilja öll sendiráðin hafa upplýsingar um manga inná heimasíðunum sínum sagði hún hlæjandi. Starf hennar sem umboðsmaður manga á erlendri grundu er þó ekki komið til vegna áhuga innanlands, japanskar útgáfur þurfa ekki á fleiri lesendum að halda en þær hafa heima. (Né hafa Japanir áhuga á innfluttum sögum, Súperman- sagan sem var gefin út í tengslum við kvikmyndina seldist í 3.000 eintökum!) Áhuginn kom að utan og Chigusa lýsti því fjálglega hvernig allt í einu fóru að streyma símskeyti á erlendum málum sem enginn vissi hvað átti að gera við. Útgefendur söfnuðu þessum pappírum saman og fóru með til Tuttle-Mori- umboðsskrifstofunnar sem tók að sér að sjá um söluna. Það voru semsagt aðdáendur og lesendur sem urðu til þess að manga er nú gefið út í þýð- ingum víða um heim. Og stór hluti þessara aðdáenda er konur sem eru nú orðnar virkur lesendahópur mynda- sagna á ný. Væntanlega verður það til þess að fleiri konur fara einnig að búa til myndasögur, en kvenhöfundar eru mun algengari í Japan en á Vest- urlöndum. Vinland Saga Það er ljóst að manga hefur ekki alltaf þótt fínt. Þó hefur það verið mjög sýni- legur hluti af japanskri menningu síð- an á sjötta áratugnum. Allar sjoppur eru fullar af manga, aðallega tímarit- unum (sem eru hnausþykkir doðr- antar), og á öllum stærri lestarpöllum eru sjoppur sem líka selja manga. Í bókabúðum er allt uppundir helmingur rýmisins lagður undir manga. (Í einni slíkri fann ég nýja manga-seríu sem nefnist Vinland Saga (manga-titlar eru oft á ensku), Guðríður, Snorri og vík- ingarnir í mangastíl! Æði.) Það eru til sérstök manga-kaffihús, en þau eru yf- irleitt einnig netkaffi. Gamla tækja- markaðar-hverfið, Akihabara, er í dag orðið að helsta mekka manga (og anime) pílagríma, þó aðallega þeirra sem aðhyllast erótík (eða bara klám), en meirihluti þeirra manga-búða og kaffihúsa sem ég rambaði inní sér- hæfðu sig í slíku (og innkoma mín olli miklum vandræðagangi). Í Akihabara er að finna nýja Anime-miðstöð, en hún á að vera upplýsingamiðstöð fyrir anime og manga. Enn sem komið er var þarna bara búð, full af skemmti- legu dóti vissulega, en ekki sérlega upplýsingavæn að öðru leyti. Það sama mátti reyndar segja um sérstakt Te- zuka-safn á aðallestarstöðinni í Kýótó, en það reyndist samanstanda af búð og bíói. Hinsvegar hefur nú verið opnað alþjóðlegt manga-safn (eða bara myndasögusafn) í Kýótó, í tengslum við háskólann og manga-deildina, og eru vinir mínir Kazuma Yoshimura og Tomoyuki Omote aðalsprauturnar á bakvið það. Þar er nú væntanlega að finna eintak af bók Hugleiks Dags- sonar, Avoid Us. Sódóma-Tókýó Chigusa Ogino hafði heilmikinn áhuga á Íslandi. Það var íslensk kvik- myndahátíð hérna og ég og maðurinn minn gátum bara séð eina mynd. En hún var alveg þess virði sagði hún glöð. Þetta reyndist vera Sódóma Reykja- vík. Ég skal skila kveðju til leikstjór- ans sagði ég, hann býr í sömu götu og ég. Þetta fannst Chigusa bæði merki- legt og fyndið, enda næstum óhugs- andi að slíkt gerist í því millj- ónasamfélagi sem Japan er. Ég er búin að segja öllum vinum mínum frá þessu sagði hún mér í tölvupósti. Því hefur verið haldið fram að þessi mikli fólks- fjöldi sé ein ástæðan fyrir vinsældum manga í Japan. Í samfélagi þar sem lít- ið er um pláss er myndasagan kjörin til að skapa sér einskonar einkarými. Þú situr niðursokkin ofan í bókina þína og gleymir um stund öllum hinum lík- ömunum sem deila með þér lestinni, strætó, veitingastaðnum, vinnustaðn- um, heimilinu. Auðvitað má segja það sama um venjulegar bækur en sterkt myndmál myndasögunnar býður uppá dýpri innlifun. Handritið brennur Edo-sérfræðingurinn, Masana Ka- mimura, gerði allt sem hún gat til að aðstoða mig við að feta mig eftir manga-leiðinni. Hún benti mér á sýn- ingu á einu frægasta myndahandriti Japans í Ginza-hverfinu, en þar keppa merkjabúðir við gallerí um pláss. Idemitzu-safnið er við hliðina á risa- stórri verslunarmiðstöð og þar beið fólk samviskusamlega og þolinmótt í löngum röðum eftir því að skoða hand- ritið. Allir tóku sinn tíma, með stækk- unarglerjum og gleraugum, og það var greinilegt að þetta var merk- isatburður. Handritið nefnist Ban Dainagon og segir sögu uppreisnar- tilraunar samnefnds manns. Upp- reisnin hefst með því að mikilvægt hlið keisarahallarinnar er brennt og tekur sú sena yfir næstum heila skrollu. Í sérherbergi var búið að stækka upp valda hluta skrollunnar sem sýndi við- brögð fólksins við brunanum. Þar blasti við ótrúleg fjölbreytni í stell- ingum, svipbrigðum og bara andlit- unum yfirleitt sem fyrir mig virkuðu eins og þau gætu fullkomlega átt heima í nútíma manga. Flestöll stráin stinga mig… Masana, sem var vinkona mömmu, bauð mér út að borða á japönskum stað, hefðbundna japanska haust- máltíð sem samanstóð af fjölda lítilla rétta. Forrétturinn var tunglsljós- hlaup og skjaldbökulit sósa, með þessu fylgdi hrár makríll og liljublóm sem kanína, gúrka sem stautur og lax sem lauf. Þessum rétti fylgdi saga. Hlaupið er tákn mánans og þetta með kan- ínuna, laxinn og stautinn er saga um kanínu sem ætlaði að fanga mánann með tilteknu strái. Hér birtist shinto- hefðin, þjóðtrú Japana, en þar þýðir lítið að bara hóa í guðina, það verður að veifa í þá ákveðinni tegund af strái og fanga þá þannig. Stráið er einhvers- konar hveitistrá og úr þessu hveiti eru búnar til núðlur, en réttinum fylgdi ein mjó hörð núðla, sem hafði verið dýft í fræ svo hún minnti á þetta strá. Við komumst að raun um að þannig væri þessi forréttur dæmi um manga – saga í myndum og táknum. Og svo hélt þetta söguþema áfram í gegnum alla máltíðina, síðari réttir voru ýmist bornir fram með stráinu fræga ofaná eða á disk með munstri þessara stráa. Bambi og Búdda En ég var auðvitað afskaplega dugleg við að leita uppi manga-tengingar, það má segja að ég hafi sett upp manga- gleraugun og því sá ég manga í hverju horni. Í lestunum sátu persónur úr manga (reyndar sá ég líka víða persón- ur úr bókum Haruki Murakami) og borgarlandslagið með öllum sínum „sæber“-skýjakljúfum í bland við shintó og búddaskrín og hof minnti mig jafnt á bakgrunn framtíðar- sem samtímasagna. Auglýsingar og til- kynningaplaköt voru í manga-stíl og svo auðvitað tískan, fötin og hárið. Jafnvel sögulegar minjar voru skoð- aðar með manga-gleraugunum. Í Nara (fyrstu höfuðborg Japan) skoðaði ég risastóran bronsbúdda sem var upp- haflega smíðaður á áttundu öld og er einmitt lýst í fimmta bindi af epískri sögu Tezuka, Fönixinn, en sú saga fjallar að hluta um sögu Japans. Karma fjallar um búddisma, list, stjórnmál og endurholdgun og þar er fjallað um það verkefni keisarans að láta gera stærstu búddastyttu í ríkinu. Tilgangurinn er ekki trúarlegur held- ur pólitískur, hinum risastóra Búdda er ætlað að sameina ríkið, trúin verður yfirvarp pólitískra átaka. Í leiðinni fær lesandinn krasskúrs í endurholdgun búddismans, sem Tezuka færir í myndrænt form á sérlega fallegan og áhrifamikinn hátt, enda beinist gagn- rýni Tezuka í þessari sögu ekki gegn Búdda sem slíkum, heldur notkun póli- tískra afla á trúarbrögðum í eigin þágu. Og allt þetta rann í gegnum hug- ann þar sem ég stóð fyrir framan þessa íðilfallegu risastóru styttu, um- kringda fagurlega útskornum vernd- arvættum í reykelsismettuðu hofinu, sem stendur í miðju risastórs garðs sem er fullur af dádýrum. Einkar við- eigandi, því Bambi með sín stóru augu er einmitt ein af fyrirmyndum Tezuka í því sem síðar varð að almennum stíl manga. Manga-karma Og ég er ekki ein um að heimsækja Japan með þessum gleraugum. Æ fleiri leggja leið sína til Japans eftir að hafa lesið manga. Þökk sé manga er Japan ekki lengur eins framandi og áð- ur og manga hefur einnig verið mik- ilvægur miðill fyrir menningu og siði Japana. Chigusa fagnar þessu mjög og þuldi upp fyrir mig tölur um útbreiðslu manga á Vesturlöndum (á eftir ensku er mest þýtt úr japönsku í Svíþjóð, til dæmis). Manga, en orðið þýðir í raun bara myndasaga, þó á Vesturlöndum sé það notað eingöngu yfir myndasög- ur í japönskum stíl, er nú ekki lengur bundið við Japan. Bandaríkjamenn eru farnir að framleiða eigið manga og ungt fólk í Evrópu er einnig farið að teikna í manga-stíl. Þetta fannst Chi- gusu afskaplega viðeigandi, því manga-stíllinn sækir jú höfuðeinkenni sitt, stóru augun, til Vesturlanda, nán- ar tiltekið Disney. Og nú hafa þau áhrif farið heilan hring, því nýjar mynda- sögur Disney, Galdrastelpurnar, eru greinilega undir áhrifum frá manga- stílnum. Þegar ég spurði Chigusa um þetta brosti hún til mín og sagði: svo þú trúir líka á manga-karma? Höfundur er bókmenntafræðingur Háhýsi Akihabara hverfið í Tókýó. Fönixkarma Búddastyttan í bók Tezuka. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. JÚLÍ 2007 9

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.