Lesbók Morgunblaðsins - 28.07.2007, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 28.07.2007, Blaðsíða 11
Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is N eil Strauss lýsir saurlifnaði rokkhljómsveitarinnar Mötley Crue ítarlega í metsölubók sinni Dirt sem kom út árið 2001. Þar dregur hann ekkert undan, grefur upp allan skít- inn – dópneysluna, kynsvallið og firringuna alla – og afhjúpar fyrir vikið ótrúlegan og óskiljanlegan heim sem má vissulega segja að sé ótrúlegri en nokkur skáldskapur. Það er einmitt það sem einkennir skrif Strauss, þ.e. hann segir sögur af raunverulegu fólki sem eru ótrúlegri en skáldskapur. Og Strauss hefur komið víða við í skrifum sínum. Hann komst í innsta hring klámmyndaiðnaðarins í Banda- ríkjunum þegar hann vann að ævisögu klám- myndaleikkonunnar Jennu Jameson How to Make Love Like a Porn Star. Strauss aðstoð- aði sömuleiðis söngvarann Marilyn Manson við að skrifa sjálfsævisögu sína, The Long Hard Road Out of Hell. Þá er gaman að minnast þess að Strauss kom sem blaðamaður á Airwa- ves hátíðina í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Þar kynntist hann hinni goðsagnakenndu ís- lensku kántríhljómsveit The Funerals og fékk í kjölfarið að fylgja henni í ævintýralegt tón- leikaferðalag um landið. Fyrir tveimur árum sendi Neil Strauss frá sér bókina The Game; Penetrating the secret society of pickup artists sem verður að teljast með merkilegri ritum sem gefin hafa verið út á undanförnum árum en bókin varð sú söluhæsta í Bandaríkjunum og einhver sú umtalaðasta. Þar gerir hann leynilegt samfélag „pickup art- ista“ (karlar sem sérhæfa sig í ýmsum aðferð- um til að tæla konur) að viðfangsefni sínu en hann varði tveimur árum í að kynna sér þenn- an forvitnilega heim. Í bókinni lýsir hann því hvernig hann fékk inngöngu inn í „leikinn“ og hvernig hann smám saman vann sig upp þar til hann var orðinn einn allra virtasti flagari í heiminum. Í upphafi sögunnar útskýrir höfundur fyrir lesendanum hvernig hann hefur ávallt verið óöruggur þegar kemur að samskiptum kynjanna og þegar hann kynnist samfélagi PUA (pickup artists) á netinu verður hann því fljótt heillaður. Þar eygir hann von um að verða kvennaljóminn sem hann innst inni þráði alltaf að vera. Strauss sækir nokkur námskeið hjá helstu meisturum PUA samfélagsins og lærir þar ýmsar aðferðir við að nálgast konur og heilla þær. Samkvæmt meisturunum er það að tæla konu eins og leikur og til að vinna leik- inn þarf að spila hann rétt. Einn af hans helstu kennurum kallar sig Mystery. Hann tekur Strauss undir sinn arm og umbreytir honum í flagarann Style – vel klæddan, snyrtilegan töffara með hökutopp. Strauss, eða öllu heldur Style, sekkur stöðugt dýpra inn í „leikinn“ og verður smám saman heltekinn af honum. Í „leiknum“ eru notaðar margs konar að- ferðir og Style reynir að kynnast sem flestum þeirra. Einn af hæfileikum Mystery eru töfra- brögð sem hann nýtir óspart í „leiknum“ til að fanga athygli kvenna og heilla þær. Hann beit- ir jafnframt formúlu sem byggist á fjórum þrepum; finna, mæta, heilla og ljúka. Þá styðst hann við svokallaða „þriggjasekúndna-reglu“ sem kveður á um að nálgast konu innan þriggja sekúndna eftir að augnsamband hefur náðst. Önnur brögð sem hann beitir er til dæmis að þykjast ónæmur fyrir fegurð kon- unnar sem hann er hrifinn af og rjúka ekki of fljótt í að reyna við hana. Style hlýtur einnig þjálfun hjá PUA meist- aranum og dáleiðandanum Ross Jeffries sem persóna Tom Cruise í kvikmyndinni Magnolia er talin sækja í. Hans tækni byggist að megn- inu til á dáleiðslu og raddbeitingu en hann stærir sig af því að geta tælt konu fljótar en nokkur annar. Style er metnaðargjarn og klífur met- orðastigann í PUA samfélaginu með hraði. Skyndilega er hann orðinn einn virtasti flag- arinn í samfélaginu og er jafnvel farinn skyggja á sína eigin lærifeður. Hann ferðast með Mystery víða um heiminn til að kenna bældum og einmana körlum listina að tæla en sjálfur er hann orðinn fær um að tæla nánast hvaða konu sem er, hvar og hvenær sem er. Því meiri sem áskorunin er – t.d. ef konan er gift og eiginmaðurinn er á svæðinu – þeim mun áhugaverðari verður „leikurinn“. Barir og klúbbar verða eins og mismunandi borð í tölvuleikjum og konur nokkuð sem þarf að sigra. Á sama tíma og Strauss lýsir hinu stór- merkilega PUA samfélagi þá segir hann sögu um það hvernig hann breyttist úr því að vera fremur lúðalegur og óöruggur karlmaður, eins og hann segir sjálfur, í það að verða þessi mikli meistari í listinni að tæla konur sem er þekktur um heim allan fyrir glæsta sigra í „leiknum“. Þegar hann finnur svo ástina upp- götvar hann endanlega hversu innantómur „leikurinn“ er. Þannig að það mætti jafnvel segja að saga Strauss sé nokkurs konar þroskasaga. Bókin er að sjálfsögðu stútfull af karlrembu en Strauss er þrátt fyrir allt að gera grín að henni og að sjálfum sér í leiðinni. Þarna er einnig að finna margar skemmtilegar vangaveltur um kynhlutverkin og samskipti kynjanna. Eins og áður sagði er The Game af- ar merkileg lesning um ótrúlegan raunveru- leika og vafalaust ein af forvitnilegri bókum sem gefnar hafa verið út á undanförnum árum. Heimsins besti flagari Blaðamaðurinn og rithöfundurinn Neil Strauss býr yfir þeim hæfileika að geta fundið sér leið inn í lokuð, leynileg og framandi samfélög eða hópa, unnið sér inn fullkomið traust innan þeirra með því að verða bókstaflega einn af hópnum, síðan skrifað um reynslu sína svo úr verða merkilegustu greinar og bækur. Neil Strauss „Skyndilega er hann orðinn einn virtasti flagarinn í samfélaginu og er jafnvel farinn skyggja á sína eigin lærifeður.“ MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. JÚLÍ 2007 11 Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur annaei@mbl.is Ísland getur nú orðið státað afauðmönnum sem gefa mörgum erlendum kollegum sínum ekkert eftir hvað efnahag varðar. Flesta milljónamær- ingana er þó engu að síður að finna í Bandaríkj- unum, þar sem rúmlega níu milljónir heimila falla í þann flokk og eins og Robert Frank, blaðamað- ur fyrir Wall Street Journal, nefnir í nýrri bók sinni Richistan þá hefur „helmingur heildarauðlegðar Bandaríkjanna myndast á sl. tíu ár- um.“ Í bókinni fer Frank í eins kon- ar könnunarleiðangur um heim hinna ofurríku þar sem árlegur heilsulindareikningur getur numið um 6,5 milljón króna, úrverð nemur 36 milljónum króna og sumarhúsin hafa kynskipta tennisvelli. Rich- istan er launfyndin á margan hátt, þó bókin sé engu að síður einnig al- varleg félagsfræðileg stúdía á bandarískum þjóðfélagshópi hinna nýríku.    Peningar eru heldur ekki vanda-mál fyrir táningsstúlkurnar Gamrah, Lamees, Michelle og Sa- deem sem Rajaa Alsanea segir frá í bók sinni Girls of the Riyadh. Stúlkurnar til- heyra efnastétt Sádi-Arabíu og eyða tíma sínum í að senda sms- skilaboð, í merkjatísku og spjall um stráka og þó Girls of the Riyadh kunni að virðast yfirborðskennd í fyrstu bein- ir Alsanea engu að síður athyglinni að áleitnum spurningum er snúa að sjálfsvirðingu, umburðarlyndi og til- finningalegum þroska – því þrátt fyrir það trúarlega og menning- arlega bil sem kann að vera milli þessara stúlkna og jafnaldra þeirra á Vesturlöndum endurspeglar líf þeirra, langanir og þrár engu að síð- ur líf táningsstúlkna um allan heim.    Heimspekikenning sem bölvunliggur yfir og enginn lifandi maður hefur lesið skýtur upp koll- inum í forn- bókaverslun og söguhetja nýj- ustu bókar Scar- lett Thomas, The End of Mr Y, þeytist við það inni aðra vídd þar sem hún getur ferðast um bæði tíma og rúm með því að nota huga annarra. Í þessari bók sinni nær Thomas að tvinna skemmtilega saman gleðina sem fylgir lestri sí- gildra bókmennta og áhuga sínum á að kanna þá sagnaheima sem spinna má út frá nýjum vísindakenningum sem og þróun í tölvuleikjagerð. Bók- in hefur víða hlotið mikið lof og á, að mati gagnrýnanda Daily Telegraph, það allt fyllilega skilið – The End of Mr Y eigi eftir að eignast hjörð áhangenda sem njóti þess að flýja inn í ímyndaða heima Thomas.    Ferðalög á framandi slóðir komalíka við sögu í bókaflokki John Twelve Hawk, Fourth Realm Tri- logy, en fyrsta bókin í þessum flokki The Traveler vakti mikla athygli 2005. Nýja bókin The Dark River hefst með hrottalegri árás á ferða- mannavæna samfélagið New Harm- ony – stað sem er fullur af ást og gjörsamlega farsímalaus. Í fram- haldi hefst heimshornaflakk þar sem lesandinn er er dreginn milli jafn ólíkra staða og London, Rómar og Afríku og endirinn er að hætti Twelve Hawk hafður æsispennandi. BÆKUR Robert Frank Scarlett Thomas Rajaa Alsanea Eftir Heiðu Jóhannsdóttur heida@mbl.is Ívor kom út rit hjá bandaríska háskóla-forlaginu University of Nebraska Presssem markar nokkur tímamót í kynninguog miðlun íslenskrar bókmenntasögu út á við. Verkið nefnist A History of Icelandic Lite- rature og er í ritstjórn Daisy Neijmann. Um er að ræða rúmlega 700 blaðsíðna verk á ensku sem gerir íslenskri bókmenntasögu skil frá landnámi til samtímans. Höfundar kaflanna í bókinni eru flestir íslenskir fræðimenn sem búa yfir sérþekkingu á sínu sviði, auk þess sem rit- stjórinn, Daisy Neijmann, lektor í íslenskum bókmenntum við University College London, skrifar kafla um íslensk-kanadískar bókmenntir. Umfjöllun ritsins er skipt bæði eftir tímabil- um og sviðum. Þannig gera Vésteinn Ólason og Sverrir Tómasson íslenskum miðaldabók- menntum skil, Margrét Eggertsdóttir fjallar um íslenskar bókmenntir frá siðaskiptum til upplýsingaaldar, Þórir Óskarsson tekur fyrir tímabilið frá rómantík til raunsæis, Guðni El- ísson skrifar kafla um tímabilið 1874 til 1918 sem einkenndist af þróun raunsæis og síðróm- antíkur og Jón Yngvi Jóhannsson fjallar um bókmenntir millistríðsáranna. Fjallað er um ís- lenskar bókmenntir frá því upp úr seinna stríði til árþúsundamóta í tveimur hlutum, annars vegar með áherslu á prósaskáldskap og hins vegar ljóðlist. Ástráður Eysteinsson fjallar um prósaskáldskap frá 1940 til 1980, en um tímabil- ið eftir 1980 skrifar Ástráður ásamt Úlfhildi Dagsdóttur. Þá skrifar Eysteinn Þorvaldsson kafla um íslenska ljóðlist frá árinu 1940. Auk þess er að finna í verkinu kafla sem taka sér- staklega fyrir svið sem ef til vill hafa notið minni athygli í hefðbundnu stigveldi bók- menntasögunnar, en þessir kaflar ganga á ýms- an hátt þvert á tímabilaskiptingu verksins og kallast á við fyrri kafla. Hér er auk kafla Daisy Neijmann um Vesturfarabókmenntir um að ræða kafla Árna Ibsen og Hávars Sigurjóns- sonar um íslenska leikritun frá 1790-1975 ann- ars vegar og eftir 1975 hins vegar, kafla Helgu Kress um bókmenntir íslenskra kvenna og um- fjöllun Silju Aðalsteinsdóttur um íslenskar barnabókmenntir frá átjándu öld til samtímans. Í formála sínum að verkinu bendir Daisy Neijmann á hversu brýn þörf hefur verið fyrir nýtt yfirlitsrit um íslenskar bókmenntir sem nýst gæti þeim sem ekki lesa íslensku. Ef frá er skilin bókmenntasaga Stefáns Einarssonar, A History of Icelandic Literature, sem kom út hjá Johns Hopkins Press árið 1957, og er illfáanleg og að mörgu leyti úrelt, hafa þeir sem kenna, fást við og hafa áhuga á íslenskum bók- menntum í enskumælandi samhengi þurft að styðjast við þær fáu greinar og bækur sem skrifaðar hafa verið eða þýddar á ensku eða önnur tungumál um afmörkuð svið íslenskrar bókmenntasögu. Einkum á þetta við um seinni- tímabókmenntir því annar veruleiki blasir við þegar tekist er á við miðaldabókmenntirnar, en ríkulegar rannsóknir hafa átt sér stað á því sviði bæði í íslenskum og erlendum fræðiútgáf- um. Það sem síðan vekur óneitanlega athygli er að A History of Icelandic Literature kemur út hjá University of Nebraska Press á svipuðum tíma og Mál og menning gaf út síðustu tvö bindin í fimm binda bókmenntasögu sinni. Hreyfing virðist því allnokkur í bókmennta- sögulegum rannsóknum hér á landi, og er þar kannski verið að fylla í áberandi eyður. Þó ber að hafa í huga að bókmenntasöguskrif, líkt og önnur söguskrif, markast ávallt af ákveðnu sjónarhorni og því er bandaríska útgáfan áhugaverð þar sem hún hlýtur óneitanlega að vera skrifuð með annan viðtökuhóp í huga en íslenska bókmenntasagan. Og þar skapast ein- mitt áhugaverður samanburðarflötur milli bók- menntasöguritanna tveggja. Hvað gerist þegar bókmenntasaga er skrifuð „út á við“, þegar staðbundin og að ýmsu leyti einöngruð bók- menntasaga er flutt yfir í alþjóðlegt „rými“ hins enska málheims? Daisy Neijmann víkur að þessum hugleiðingum í ofangreindum formála er hún bendir á að sem smáþjóð hafi Íslend- ingar ávallt horft bæði inn og út á við, sótt hug- myndastrauma að utan, en um leið leitast við að verja tungumál og menningu fyrir utanaðkom- andi áhrifum, og verið mikið í mun að sanna gildi sitt. Þetta samspil hafi getið af sér ferska strauma sem hafi skilað sér inn í jafnt fræði sem bókmenntir á undanförnum árum, og í því samhengi hafi þessi nýja bókmenntasaga verið skrifuð. ERINDI »Hvað gerist þegar bókmennta- saga er skrifuð „út á við“, þeg- ar staðbundin og að ýmsu leyti einöngruð bókmenntasaga er flutt yfir í alþjóðlegt „rými“ hins enska málheims? Bókmenntasagan á hreyfingu

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.