Lesbók Morgunblaðsins - 28.07.2007, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 28.07.2007, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 28. JÚLÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Ólaf Guðstein Kristjánsson olafurgudsteinn@googlemail.com Í Þýskalandi ber talsvert á bók- menntum innflytjenda og njóta þær margar hverjar almennrar lýðhylli. Til dæmis voru tveir rithöfundar af erlendum uppruna valdir á svokall- aðan „shortlist“ Deutscher Buchp- reis (Þýsku bókmenntaverðlaunin), sem veitt voru í annað sinn 2. október á síðasta ári á bókamessunni í Frankfurt am Main.Það voru þeir Ilija Trojanow (1965), með bókinni Der Weltensammler og Saša Stanišic með bókinni Wie der Soldat das Grammofon repariert, sem raunar er frumraun hans á skáldsagnasviðinu. Reyndar sló svo Kataharina Hacker (1967) þeim báðum við og vann verðlaunin með bók- inni Die Habnichtse (Hafa ekkert). Sá síðarnefndi af þeim tveim er af mörgum talinn einn ferskasti og áhugverðasti rithöf- undurinn á þýskum bókmenntamarkaði um þessar mundir og hefir verið gengið svo langt að úthrópa Wie der Soldat das Grammofon repariert sem meistaraverk í þýskum fjöl- miðlum. Hér verður leitast eftir að fjalla að- eins um þá bók og höfund hennar. Saša fæddist árið 1978 í bænum Višegrad við ána Drinu í fyrrum Júgóslavíu. Nú til dags tilheyrir þessi bær Bosníu-Hersegóvínu. Faðir hans er Serbi og móðir hans bosnísk. Árið 1992 flúði hann heimabæ sinn ásamt fjöl- skyldu sinni og hélt til Heidelberg í Þýska- landi. Fljótlega eftir að skólaganga hans hófst þar varð þýskukennari hans vís að því að Saša bjó yfir mikilli frásagnargáfu og hvatti hann áfram á skáldsagnasviðinu og eftir það var brautin ákveðin. Saša hafði svo ekki lært þýsku að heitið gæti áður en hann kom til Þýskalands. Ferill hans hófst að ráði árið 2001. Þá tóku ritgerðir og smásögur eftir hann að birtast í tímaritum á borð við Krachkultur og Edit. Á þessum stutta ferli hefir honum hlotnast fjöl- mörg verðlaun og styrkveitingar. Til dæmis hlaut hann Publikumpreis Ingeborg Bachman (almenningsverðlaun) árið 2005 fyrir Wie der Soldat das Grammofon repariert. Hún kom svo út á vegum Luchterhand-forlagsins í München árið 2006. Þess má svo geta að téð bók mun koma út í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar á vegum forlagsins Veraldar næsta haust. Hún kemur að líkindum til með að bera nafnið Hermaður gerir við grammófón. Það er í það minnsta vinnslutitill þýðingarinnar. Einnig er vert að benda á að Saša verður gest- ur á komandi bókmenntahátíð á komandi hausti. Í samhengi þessarar greinar er það nokkuð viðeigandi að Katharina Hacker hafi hlotið Þýsku bókmenntaverðlaunin, þar sem munur innflytjendabókmennta og „innfæddra bók- mennta“ endurspeglast um margt í bókum þeirra tveggja. Die Habnichtse segir frá pari á fertugsaldri í tilvistarkreppu. Þau virðast hafa allt á hreinu; eru í góðum störfum, njóta vel- gengni og þar fram eftir götunum. Þó er það eitt sem þau hafa ekki á hreinu: sig sjálf. Gagnvart sjálfum sér eru þau einhvern veginn ráðþrota. Og samkvæmt dómnefnd Deutscher Buchpreis spyr bókin spurninga eins og hvernig lífi vilt þú lifa og hver eru þín gildi? Þetta eru með öðrum orðum tilvistarvandasp- urningar, sem er þó ekki svarað á „konkret“ hátt. En nánar að Die Habnichtse í annarri grein. Wie der Soldat das Grammofon repariert er af öðru sauðahúsi en flestar þær bækur inn- fæddra sem koma út um þessar mundir. Það verður þó að taka fram að hér er eingöngu verið að horfa til þeirrar kynslóðar sem Saša tilheyrir; höfunda sem fæddir eru kringum 1970 og uppúr. Þegar málið kemur að eldri kynslóðum horfir málið öðru vísi við. Þetta eru höfundar líkt og Judith Hermann (1970) og Tobias Hülswitt (1973) sem, ásamt fleirum, skrifa fyrst og fremst melankólískar sögur lit- aðar af vanda þess að vera til í hinum hvunn- dagslega tíðindalitla vestræna heimi. Wie der Soldat das Grammofon repariert hefir sem sagt þá þætti sem hér voru nefndir í byrjun. Hún er auðvitað á þýsku og er mál- fræðilega rétt skrifuð en samt er líkt og hún hafi einhvers konar framandi hljómfall. Fyrir vikið klingir hún ef til vill ljóðrænni og fram- andlegri en ella; hefir einhvers konar inn- byggða framandgervingu í tungumálinu. Bók- in hefir og frá mörgu að greina og virkar á tíðum fremur sem safn laustengdra frásagna en skáldsaga. Enda sagði Saša sjálfur, í viðtali við Spiegel Online, að skáldsagan væri í raun samansafn sagna sem hann hefði raðað í eina heild eftir að hafa ferðast til æskustöðva sinna og safnað frásögnum og áhrifum fyrir bókina. Gróft á litið fjallar svo bókin um stríðið í fyrr- um Júgóslavíu, sem höfundurinn lifði á eigin skinni, sem og það að flytja til sér framandi lands og þurfa að takast á við framandi að- stæður í landi þar sem allir innflytjendur að austan eru allir nefndir Júgóslavar, líka Ung- verjarnir og Búlgararnir og það þótt Júgó- slavía sé ekki lengur til. Það er og ekkert launungarmál að sagan er að hluta til sjálfs- ævisöguleg. Til að rekja innihald sögunnar nánar þá segir hún frá Aleksandar Krsmanovic (hann segir frá í 1. persónu); æsku hans í Višegrad, stríðinu í fyrrum Júgóslavíu, flótta til Þýska- lands og lífinu þar ásamt heimsókn til fyrrum heimalands síns að einhverjum árum liðnum. Aleksandar er í byrjun hugmyndaríkur og uppfullur af ímyndunarafli og á það til að skrifa sögur af fjölskyldu sinni í skólaritgerð- um. Hann hefir sem sagt gaman af því að segja sögur. Fléttast svo í þetta frásagnir af merkilegu fólki og merkilegum atburðum inn í atburðarásina – atburðir og persónur sem um margt minna á verk kvikmyndagerðarmanns- ins og landa Sašas, Emir Kusturica og oftlega er þar tragíkómík á ferð. Til að mynda er sagt frá veislu sem haldin er vegna inniklósetts, frá kokkáluðum eiginmanni sem ferðast um land- ið þvert og endilangt til að finna nýja móður fyrir son sinn, ótrúlegum fótboltaleik milli stríðandi fylkinga í vopnahléi þar sem völl- urinn er umlukinn jarðsprengjum og svo skrifar aðalpersónan bréf frá Þýskalandi til vinkonu sinnar, Asiju, sem hann kynntist á meðan á árásum stóð. Hann er samt ekki viss hvort hún sé raunverulega til. Þar er komið að öðrum mikilvægum þætti innan sögunnar: ímyndunarafli Aleksandars. Hann er nefni- lega ekki alltaf viss hvenær hann ímyndar sér hlutina og hvenær þeir hafi raunverulega gerst. Segja má því að öðrum þræði fjalli bók- in um hvernig rithöfundur verður til. Hann er enda alla bókin að vinna úr minningum sínum; hvað er satt og hvað ekki og er því einkar óá- reiðanlegur sögumaður líkt og sagt er á máli bókmenntafræðinnar. Til einföldunar má skipta bókinni í fjóra hluta: Aðdragandi stríðs, Þýskaland og bréfa- skriftir, nokkurs konar bók innan bókarinnar þar sem Aleksandar skrifar um þann tíma þegar allt var gott og svo þegar hann heim- sækir æskustöðvar sínar á ný sem fullorðinn maður. Einnig er vert að benda á kaflaheitin, sem bera keim af kaflaheitunum í bók Cerv- antes um riddarann sjónumhrygga, Don Kí- kóta. Það er að segja þau eru flest löng og ít- arleg og lýsa náið hvað í hverjum kafla er að finna og eru þau raunar flest hver af skemmti- legum toga. Til að byrja með leikur allt í lyndi. Kristnir og múslímar lifa saman í sátt og samlyndi og lýsir hinn ungi Aleksandar því sem fyrir augu ber með bernskum augum. Afi Aleksandars, Slavko, spilar stóra rullu í lífi hans. Raunar má segja að Slavko sé lím sögunnar. En frá- sagnir af honum ramma söguna inn; dauði hans og jarðarför í byrjun og heimsókn að leiði hans undir lokin. Slavko er eins konar tákngervingur fyrir Júgóslavíu eins og hún var fyrir stríð (eða átti að vera); sanntrúaður kommúnisti með fulla trú á því kerfi sem Tito setti á laggirnar. Eftir dauða hans hriktir í brotalömunum og stríðið brýst út fljótlega. Þannig er aðdragandi stríðsins og dauði afans sett upp sem hliðstæður. Aðdraganda stríðs- ins er því lýst í ópólitísku ljósi með augum hins unga sögumanns sem segir frá því þegar ekki mátti lengur kalla kennarann félaga Faz- lag og þegar myndirnar af Tito voru teknar niður úr kennslustofunum. Smátt og smátt kvarnast úr því sem áður virtist heilsteypt mynd og hið hræðilega gerist. Stríðinu er svo lýst á sambærilegan hátt með sýn þess sem ekki almennilega skilur hvað hermenn eru að vilja í bæinn og af hverju verið sé að sprengja og skjóta þar. Líku er svo fyrir að fara er til Þýskalands er komið. Aleksandar sendir, eins og áður sagði, bréf til vinkonu sinnar Asiju og fer þessi hluti fram í gegnum þau bréf. Þar lýsir hann lífinu í Þýskalandi; hvað vekur áhuga hans og hvað er frábrugðið því sem hann á að venjast, en jafn- framt taka að brjótast innra með honum efa- semdir um hvort það sem hann geymir í minn- ingunni sé í raun og sanni satt. Í kjölfar þess kemur hlutinn Als alles gut war (Þegar allt var gott). Þar rifjar hann upp lífið í Višegrad fyrir stríð. Višegrad sem stað- ur sakleysis og leiks. Þegar Aleksandar er svo orðinn fullorðinn snýr hann aftur til heima- bæjar síns til að leita uppi fortíð sína. En ekk- ert er eins og það áður var og raunar er landið og bærinn sem hann ólst upp í ekki lengur til. Hann ferðast um og leitar uppi staði og fólk sem hann þekkir frá æsku sinni, og síðast en ekki síst Asiju, en kemst að því að hann er orðinn framandi maður og fátt er líkt því sem það er í minningunni. Undir lok sögunnar er kominn maður sem hefir tekist á hendur upp- gjör við fortíð sína og skapað upp úr henni; rithöfundur er fæddur. Frásagnarmátinn breytist einnig er á líður og verður að segja má fullorðinslegri og passar það við þá þróun á aðalpersónunni sem á sér stað. Er þetta og að sjálfsögðu eitthvað sem heimfæra má upp á Saša sjálfan. Það verður að segjast eins og er að þessi saga er einkar vel heppnuð. Henni tekst að fjalla um stríðið í Júgóslavíu og stríð almennt án predikunartóns en sýnir jafnframt fram á fáránleika þessa alls. Ennfremur eru sög- urnar, sem líta má á sem útúrdúra en eru það í raun ekki, bæði skemmtilegar, áhugverðar og vel skrifaðar. Og hvað þarf maður meira? Alltént er langt síðan undirritaður las áhuga- verðari bók. Minningar á framandi þýsku um æsk- una, stríðið, áhugavert fólk og atburði Saša Stanišic Hann hafði ekki lært þýsku að heitið gæti áður en hann kom til Þýskalands. EKKI þarf að lesa mikið af bókmenntum inn- flytjenda til að verða þess vís að munur er á þeim og bókmenntum innfæddra. Í þær er innbyggð önnur sýn á samfélagið sem við- komandi elst upp í, þær eru skrifaðar á tungumáli nýja landsins en samt er líkt og tungumálið sé á einhvern hátt framandi í orð- færi og áherslum – þau bera oft keim af móð- urmálinu – og síðast en ekki síst er eins og bókmenntir innflytjenda hafi frá meiru að segja. Kann það að litast af því að innflytj- endur hafa að líkindum upplifað meira en margur innfæddur; stríð sem flúið hafa verið sem og erfiðleikana við að takast á við nýjar og framandi aðstæður í nýju landi. » Þegar Aleksandar er svo orðinn fullorðinn snýr hann aftur til heimabæjar síns til að leita uppi fortíð sína. En ekk- ert er eins og það áður var og raunar er landið og bærinn sem hann ólst upp í ekki lengur til. Hann ferðast um og leitar uppi staði og fólk sem hann þekkir frá æsku sinni, og síðast en ekki síst Asiju, en kemst að því að hann er orðinn framandi maður og fátt er líkt því sem það er í minningunni. Um Saša Stanišic og skáldsöguna Wie der Soldat das Grammofon repariert

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.