Lesbók Morgunblaðsins - 01.09.2007, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 01.09.2007, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 1. SEPTEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Rögnu Sigurðardóttur ragnahoh@gmail.com I ngólfur Örn Arnarsson myndlist- armaður hefur haft uppi á teikn- ingum eftir Jónas E. Svafár og setur upp sýningu á þeim í Hoffmanns- galleríi Reykjavíkurakademíunnar. Benedikt Hjartarson bókmennta- fræðingur ritar inngang að sýningunni og kynnir skáldið og listamanninn Jónas. Ég hitti myndlistarmanninn og bókmenntafræðinginn yfir kaffibolla í Norræna húsinu, á borðinu hjá okkur liggja bækur Jónasar, ma. frumútgáfan af fyrstu bókinni. „Ég hef í gegnum tíðina sett upp sýningar,“ byrjar Ingólfur, „þá oft á listamönnum sem eru síður þekktir, og ég hef lengi haft áhuga á teikningunum hans Jónasar. Það fór ekki mik- ið fyrir Jónasi og mér finnst vert að hans framlags sé minnst. Í kringum andlát hans ár- ið 2004 kom upp í huga minn spurningin: Hvar ætli myndirnar séu? Ljóðin eru varðveitt en hvað um myndirnar? Mér var bent á Sólveigu Einarsdóttur, systur skáldsins og hún reynd- ist eiga eina eða tvær litlar möppur með teikn- ingum eftir hann, nógu margar heillegar teikningar til að standa undir sýningu. Um þetta leyti spurði Kristinn Harðarson mynd- listarmaður, sem sér um Hoffmannsgallerí í Reykjavíkurakademíunni, mig hvort ég væri ekki til í að sjá um sýningu á teikningum. Þá small þetta auðvitað saman og kjörið að sýna teikningar Jónasar Svafárs.“ „Kristinn Harðarson spurði mig hvort ég vildi skrifa stuttan texta sem inngang að sýn- ingunni og hugsanlega halda fyrirlestur þegar líður á sýningartímann,“ segir Benedikt Hjartarson bókmenntafræðingur. „Mér finnst frábært framtak að sýna þessar teikningar. Við þekkjum Jónas betur sem ljóðskáld. Þeg- ar skrifaðir voru ritdómar um bækurnar þá var í mesta lagi vikið að því að ljóðunum fylgdu myndskreytingar og þær voru af- greiddar með því að ritdómarar hefðu ekki vit á myndlist. Þá verður ofan á það viðhorf að þetta séu fyrst og fremst myndskreytingar, en þetta er annað og meira. Hér er augljóslega samband milli myndar og ljóða sem er mik- ilvægt. Þegar útgáfan á bókunum er skoðuð sést að hann skilgreinir verkin sem ljóð og myndir og myndljóð.“ Frumkvöðull á sínum tíma „Ef við lítum á fyrstu tvær bækurnar hans sjáum við að það eru undirtitlar í þeim báðum. Ný ljóð og myndir og Ljóð og myndir,“ segir Ingólfur. „Það vakti síðan áhuga minn að það er óvenjulegt að sjá bók frá árinu 1952 í þessu samhengi, þar sem höfundurinn hannar hana út í gegn, þar sem leturvalið, myndir og ljóð verða eitt. Einnig notkun hans á litum. Í fyrstu bókinni notar hann td. rautt letur með svörtum myndum. Jafnvel blandast ljóð og mynd saman á einni síðu, ákveðin gagnvirkni á sér stað. Svo er viss endurtekning í ljóðunum sem einnig gætir í myndunum. Í annarri bók er lokasíðan unnin með silfurlit og svörtum. Þetta nálgast það sem síðar er kallað bókverk og myndlistarmenn hafa verið að gera síðustu áratugi. Það eru fá dæmi um þetta sem ég man eftir á þessum tíma. Ég man þó eftir bók- um eftir Nínu Tryggvadóttur, td. Fljúgandi fiskisögu, sem er myndabók, og svo eru auð- vitað bækurnar hans Kjarvals.“ Benedikt heldur áfram með sérstöðu Jón- asar á þessum tíma. „Sjötti áratugurinn er mjög mikilvægur hérna heima,“ segir hann. „Þá er í fyrsta sinn farið að vinna markvissar með fagurfræði þeirra framúrstefnuhópa sem komu fram í upphafi aldarinnar eins og súrre- alismann og fleira. Það koma út þýðingar á ljóðum úr dadaismanum og súrrealismanum, en þess má geta að Jónas þýddi líka sjálfur ljóð og birti í bókum sínum, eftir Walt Whit- man td. Jónas er að jafnaði flokkaður með at- ómskáldunum svokölluðu, en um leið er hann á einhvern hátt sér á báti og það er kannski ekki heppilegt að skoða hann í því ljósi því þá lendir hann frekar á jaðrinum. Hann er að mörgu leyti ólíkur þeim og er að vinna með aðra hluti, aðrar hefðir. Það er algengt að talað sé um Jónas E. Svafár sem súrrealista en ég myndi segja út frá myndunum og jafnvel ljóðunum, að allt eins mætti tala um einhvers konar konstrúktívisma. En það er mikilvægt varð- andi Jónas hversu erfitt er að staðsetja hann.“ „Það er kannski einmitt það sem gerir hann svo áhugaverðan,“ svarar Ingólfur. „Það má líka skoða verkin hans í samhengi við myndlist sjötta áratugarins en þá voru umbrotatímar. Abstraktlistin var að ryðja sér til rúms og at- ómljóðlistin og viss togstreita átti sér stað milli hefða, í myndlist sérstaklega milli fígúra- sjónar, landslagshefðar og abstraksjónar. Ég skynja þetta svolítið í teikningunum, þessa innrás nútímans. Hann vitnar líka í pólitískt ástand þessa tíma, þetta er ekki náttúruróm- antík. Svo sé ég tengingu við íslenska útskurð- arhefð, alþýðulistarhefð – og allt þetta finnst mér blandast svolítið saman. Sólveig systir Jónasar segir hann hafa fylgst vel með sýn- ingum og listum, að hann hafi haldið mikið upp á Svavar Guðnason, svo dæmi sé nefnt. Hún segist líka muna eftir honum sem síteiknandi í bernsku, myndlistin hefur augljóslega verið ríkur þáttur.“ „Við þurfum einmitt að skoða hann í sam- hengi íslenskrar listasögu,“ segir Benedikt og blaðar í einni bókanna. „Það má sjá tengingar eins og við það sem Finnur Jónsson var að gera á þriðja áratugnum, þessi leikur með verkin á mörkum abstraksjónar og þess fí- gúratíva. Auðvitað er það á annan hátt, en það er kannski hluti af þessum konstrúktívísku einkennum á verkum hans. Ég veit ekki hvað hann hafði beina þekkingu á konstrúktívism- anum sem slíkum en ég er að tala um hann í víðri merkingu, það er oft tilhneiging til að tengja konstrúktívismann við Rússland ein- göngu en einnig má hugsa um td. Bauhaus. Svo má tala um konstrúktívísk einkenni á ljóð- unum ekki síður en súrrealísk og þá á ég við það hvernig hann vinnur með tungumálið, hina myndrænu þætti. Þessi notkun á bók- staflegri merkingu orða í óvæntu samhengi, endurlífgun á myndrænum víddum tungu- málsins sem við getum að einhverju leyti litið á sem arf súrrealismans en líka sem end- urbyggingu á ákveðnum grundvallarþáttum skáldskaparins.“ „Þetta tengist líka konkret ljóðagerð,“ held- ur Ingólfur áfram, „og það er bygging í þessu sem gæti jafnvel minnt á krossgátur.“ „Það er gaman að sjá hvernig hann vinnur,“ segir Benedikt, „hvernig hann breytir ljóð- unum með tímanum eins og endurútgáfa þeirra í bókinni Klettabelti fjallkonunnar sýn- ir. Hann breytir ljóðunum, en líka samhenginu á milli þeirra, í síðari útgáfunni. Og í síðari út- gáfu kallar hann þetta myndljóð. Eina bókin hans sem er ekki myndskreytt er síðan með rithönd hans. Þar færist sjónræna áherslan yfir á rithöndina.“ Áhrif Jónasar í samtímanum „Jónas var á jaðrinum en hann var líka þekkt- ur höfundur á sínum tíma,“ segir Benedikt. „Hann er sér á báti en ljóð hans voru og eru lesin. Þegar fengist er við bókmenntasögu þessa tíma er alltaf minnst á hann, en ljóð hans hafa þó ákveðna sérstöðu. Hans verk höfðu þýðingu td. fyrir fyndnu kynslóðina í ís- lenskri bókmenntasögu, sér í lagi orðaleikir hans. Og fyrir stuttu gaf Nyhil út bók sem heitir Handsprengja í morgunsárið, hér er varla hægt að tala um annað en beina vísun.“ Ingólfur efast aftur á móti um að yngri myndlistarmenn þekki verk Jónasar. „Ég rakst fyrst á ljóðin hans í bæklingi sem SÚM gaf út og ég held að mín kynslóð þekki til hans og þyki starf hans áhugavert.“ „Hann er þarna á sjötta áratugnum,“ bætir Benedikt við, „í þessari vinnu sinni með ljóðin og tengslin við myndirnar, fyrr á ferðinni með ákveðna hluti. Ef við hugsum um bókverkin sem komu seinna, á áttunda áratugnum, hjá SÚM, er þetta kannski ekki ósvipað. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að umræðan á sjötta áratugnum var annað hvort innan myndlistarinnar eða innan bókmenntanna, það var gríðarleg áhersla á sjálfstæði og sér- stöðu hvorrar listgreinar fyrir sig. Ab- straktlistin var ráðandi viðmið og atómljóðið, áherslan á ljóðið sem slíkt og hugmyndir um hreina ljóðlist.“ „Samruni listgreina er miklu viðteknari núna,“ segir Ingólfur og Benedikt heldur áfram: „Í samhengi sjötta áratugarins held ég að þessi verk hljóti að hafa virkað sem einhvers konar bastarðar.“ „Já,“ svarar Ingólfur, „En í dag vekja þau forvitni hjá ungu fólki sem er að leita að fyr- irmyndum. Það er kannski svipað og hjá td. ungum raftónlistarmönnum sem horfa til brautryðjendaverka Magnúsar Blöndal.“ Sýningin í Hoffmannsgalleríi Ingólfur víkur nú nánar að sýningunni sem til stendur. „Það er áhugavert að sjá frumteikn- ingarnar sjálfar. Flestar myndirnar á sýning- unni þekkir maður úr bókunum. En þær eru ekki allar nákvæmlega eins, ég veit td. ekki hvað myndi teljast frumritið og hvað ekki, því Jónas var alltaf að endurbæta. Þannig að teikningarnar á sýningunni eru sumar eins og þær sem eru í bókunum en aðrar með örlitlum breytingum. Ég hef valið línuteikningar úr seinni bókum hans, sem gerðar eru með feit- um blýanti, hægum dráttum, það er líkt og hann fylli út í línuna. Tímaþáttur teikninganna er mjög hægur, varfærnislegur líkt og rit- höndin. Hæg, íhugul einbeiting. Það gefur manni tvímælalaust meira að sjá upprunalegu teikningarnar heldur en að sjá prentunina. Á þessari sýningu verða ljóðin ekki til sýnis, það verður bara lögð áhersla á myndirnar. Kannski aðeins til að rétta hlut þeirra í gegn- um tíðina. Réttast væri auðvitað að horfa á þessar myndir í samhengi, ljóð og mynd sam- an, það er rökréttast. En mér finnst teikning- arnar fyllilega ganga upp sem sjálfstæðar myndir. Að sjá blýantsdrættina bætir ein- hverju við. Það verður til einhver aukagaldur.“ Ingólfur segir frá auknum áhuga á teikn- ingum innan samtímalistarinnar. „Það er áberandi fyrirbrigði. Á síðustu árum hefur td. komið út á alþjóðavettvangi fjölda listaverka- bóka með teikningum, margt af því viðamiklar útgáfur hjá stórum forlögum. Það er áhugi á teikningu, áhugi á þessu beina sambandi hug- ar og handar. Í framhaldi af möguleikum tölvutækninnar hafa menn aftur hug á að sjá hið beina, milliliðalausa handbragð. Áherslan er á beinskeytta, persónulega tjáningu.“ Lokaorð Ingólfs eiga vel við æviverk Jón- asar, en sýningin verður opnuð næsta fimmtu- dag, 6. september klukkan 16, í Hoffmanns- galleríi Reykjavíkurakademíunnar og eru allir velkomnir. Myndlist Jónasar E. Svafárs Jónas E. Svafár kom eftirminnilega fram á sjónarsviðið sem skáld þegar hann gaf út ljóðabókina Það blæðir úr morgunsárinu árið 1952. Nú meira en fimmtíu árum síðar berg- mála ljóð hans enn í útgáfum yngri skálda og áhrif hans innan íslenskrar ljóðlistar eru óumdeild. En Jónasi var fleira til lista lagt og ljóðum hans fylgdu ávallt teikningar sem hann sjálfur gaf vægi á við ljóðin. Morgunblaðið/Sverrir Ingólfur og Benedikt „Jónas var á jaðrinum en hann var líka þekktur höfundur á sínum tíma. Hann er sér á báti en ljóð hans voru og eru lesin.“ Mynd eftir Jónas „Það má líka skoða verkin hans í samhengi við myndlist sjötta áratug- arins en þá voru umbrotatímar.“ Höfundur er myndlistargagnrýnandi við Morgunblaðið.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.