Lesbók Morgunblaðsins - 29.03.2008, Side 8
Eftir Rögnu Sigurðardóttur
ragnahoh@gmail.com
M
arcel Duchamp fædd-
ist í Normandí í
Frakklandi fyrir 120
árum, 1887. Bak-
grunnur hans var
smáborgaralegur,
faðir hans opinber
embættismaður og
fjölskyldulíf foreldra og sex barna allt í stakasta
sóma. Umhverfið minnti án efa á bakgrunn bók-
arinnar um Frú Bovary, og kannski ekki síður
umhverfi góðvinanna Bouvards og Pécuchets.
Alla ævi hafði Marcel Duchamp siðferðisleg gildi
franskrar bænda- og borgarastéttar um alda-
mótin 1900 í heiðri – þagmælsku, háttvísi, heið-
arleika, réttvísi og rökhyggju, óbeit á óhófi, heil-
brigða skynsemi og jarðbundinn húmor.
Ekki má gleyma þeirri góðu dyggð að gera
mikið úr litlu, en fáum listamönnum hefur orðið
jafn-mikið úr jafn-fyrirferðarlitlu ævistarfi. Du-
champ rauf hefðina í list sinni, sneri baki við mál-
arahefðinni og leitaði margvíslegra nýrra leiða til
tjáningar. Bent hefur verið á áhrif bæði franskr-
ar bókmenntahefðar og ekki síður franskrar lág-
menningar á Duchamp, en hin síðarnefnda ein-
kennist ekki síst af orðaleikjum sem hann hreifst
af alla tíð og notaði mikið. Hann teiknaði sjálfur
skopmyndir fyrir frönsk blöð, en amerískar
skopmyndir koma við sögu í tilurð Gosbrunnsins.
Duchamp ferðaðist til Ameríku árið 1915, þá
þegar frægur fyrir framúrstefnulegt málverk
sitt Nakin kona gengur niður stiga, en það hafði
vakið mikla athygli á sýningu á evrópskri list í
New York árið 1913. Málverk Duchamp varð að
tákni fyrir evrópsku framúrstefnuna og fólk stóð
í löngum röðum til að sjá það.
Aðdragandi „readymade“
Hugmyndin að Gosbrunninum var ekki orðin til
árið 1915 en hugmyndin að „readymade“ verkum
hafði þegar skotið rótum í list Duchamp. „Ready-
made“ eru aðeins lítill hluti af list hans en ævi-
starf Duchamp er enn mörgum efni í umfangs-
mikil rit. Með „readymade“ er átt við að
listamaðurinn taki hversdaglegan hlut úr sínu
venjulega umhverfi, setji hann fram í listrænu
samhengi og umbreyti honum þannig í list.
Árið 1912 heimsótti Duchamp München og
getum hefur verið leitt að því að rót „ready-
made“ verka hans sé m.a. að finna í funktional-
isma sem átti sér djúpar rætur í Þýskalandi, en
innan stefnunnar kemur fram sú tilhneiging að
taka hið iðnaðarframleidda og fagurfræði þess
fram yfir hið handgerða. Á sama tíma heimsótti
hann flugvélasýningu og hreifst mjög af flug-
vélahreyflum, sem hann sagði vera fullkomin
verk og enginn myndhöggvari gæti gert betur.
Það er nokkru eftir dvölina í München að Duc-
hamp lýsir því yfir að hann sé hættur að mála.
En það var ekki fyrr en 1916 að hann gerði fyrstu
verkin sem hann kallaði “readymade“, þar á
meðal voru snjóskófla sem hann nefndi „In ad-
vance of the broken arm“ og fleiri hlutir. Í þenn-
an hóp verka bætti hann síðan reiðhjólshjóli og
flöskustandi sem eru þekkt verk á ferli hans, þó
hann hafi í upphafi tekið þau til handargagns áð-
ur en hann fann upp á nýyrðinu “readymade“.
Hugmyndina um “fundinn hlut“ sem öðlast
nýtt gildi er einnig að finna í verkum súrreal-
istanna og Dadaistar notuðu mikið tilviljun við
gerð verka sinna, þó er nokkur munur á vinnuað-
ferðum þeirra og Duchamp sem tengdist báðum
stefnum en kenndi sig aldrei við þær. Duchamp
telst upphafsmaður listaverka af þessum toga.
Ákveðin tegund
baðherbergisbúnaðar
Árið 1917 var Duchamp í stjórn félagsskapar
sem nefndi sig The American Society of Indep-
endent Artists. Hér var um að ræða framhald
samtaka á borð við The 1910 Independents Gro-
up og The Armory Show þar sem málverkið af
nöktu konunni á göngu niður stiga hafði vakið
svo mikla athygli. Markmið félagsskaparins var
að skapa vettvang fyrir myndlist utan þeirra
stofnana sem fyrir voru og utan hefðbundinna
gallería.
Að samkomulagi varð að nauðsyn bæri til að
halda árlega sýningu þar sem almenningur fengi
að sjá þverskurð listsköpunar dagsins. Engin
dómnefnd átti að velja verk á sýninguna, engu
átti að hafna og engin verðlaun yrðu veitt. Allir
sem sendu inn verk og sex dollara fyrir kostnaði
áttu að fá að taka þátt í sýningunni sem varð risa-
stór með um 2500 listaverkum og engu var hafn-
að – nema einu.
Það kom á daginn að stjórnin gat ekki staðið
við orð sín og listaverki eftir Richard Mutt frá
Fíladelfíu var eftir langar og heitar umræður og
atkvæðagreiðslu, sem lauk með naumum sigri
andstæðinga verksins, stungið undir stól. Því var
hafnað sem ósiðlegu, lausu við frumleika og á
þeim forsendum að það væri ekki list.
Í kjölfarið sagði Marcel Duchamp sig úr
stjórninni og fordæmdi þessa ritskoðun, sem var
á skjön við markmið sýningarinnar. Hann tók
einnig verk sem hann hafði sent inn undir eigin
nafni af sýningunni.
Sýningin vakti töluverða athygli og fréttir af
hneykslanlega listaverkinu sem enginn hafði séð
en var lýst sem “ákveðinni tegund baðherberg-
isbúnaðar“ birtust í blöðum ásamt fréttum af við-
brögðum Duchamp við ritskoðuninni. Á þessu
augnabliki vissi enginn hver var hinn raunveru-
legi höfundur verksins.
Í upphafi vissi heldur enginn nema stjórn
Sjálfstæðu listamannanna að um veggskál af
karlasalerni var að ræða, engin mynd birtist af
verkinu fyrr en mánuði síðar. Ekki er ljóst hve-
nær það varð almenn vitneskja að Marcel Duc-
hamp var höfundurinn og ekki hjálpar að öll skjöl
og fundargerðir hinna Sjálfstæðu listamanna
eyðilögðust í bruna árið 1930, margt í kringum
sýninguna og verkið sjálft er því á huldu.
Gosbrunnurinn verður til í annað sinn
Duchamp sjálfur sagði í viðtali löngu síðar að
hugmyndin að Gosbrunninum hefði orðið til í
samtali við velgjörðamanninn Arensberg og mál-
arann Joseph Stella og að þeir hefðu farið saman
að kaupa veggskálina, sem var framleidd af J.L.
Mott. Sjálfur hefði hann síðan ákveðið að nefna
tilbúna listamanninn frá Fíladelfíu „Mutt“ eftir
skopmyndunum sem báru heitið Mutt og Jeff og
voru feikivinsælar í Bandaríkjunum á þessum
tíma. Þarna kristallast húmor Duchamps og til-
hneiging til að tengja lágmenningu og hámenn-
ingu sem sjá má í mörgum verka hans og tengist
bakgrunni hans í Frakklandi og orðaleikjum sem
þar voru sjálfsagður hluti af tilverunni.
Gosbrunnurinn hvarf skömmu eftir opnun
sýningarinnar og var sagður stolinn en í raun
fjarlægði Duchamp verkið sjálfur, líklega með
hjálp Mans Ray, en því hafði bara verið stungið
einhvers staðar á bak við. Duchamp kom síðan að
máli við ljósmyndarann Alfred Stieglitz og fékk
hann til að ljósmynda verkið fyrir kápu annars
heftis af listatímaritinu Blindi maðurinn sem
Duchamp gaf út í félagi við aðra. Það er á þeirri
ljósmynd sem listaverkið verður til opinberlega
og um leið öðlast það nýtt líf, því túlkun ljós-
myndarans opnar fyrir nýjar víddir í túlkun þess.
Eina sýning upprunalega verksins var þegar
hægt var að skoða það í vinnustofu Alfred Stieg-
litz í nokkra daga í kringum myndatökuna en eft-
ir líflega umræðu um listaverkið í kjölfar mynd-
birtingarinnar í tímaritinu var eins og jörðin hafi
gleypt það. Sagt er að Arensberg hafi keypt
verkið og sumir segja það hafi brotnað, Duc-
hamp sagðist hafa haldið að Stieglitz hefði óvart
hent því. Það hefur alla vega aldrei komið fram á
sjónarsviðið síðan í upprunalegri mynd.
Það var síðan á sjöunda áratugnum, þegar
mikill áhugi á list Duchamp vaknaði, að það var
endurgert í fleiri en einu eintaki með aðstoð og
samþykki listamannsins eins og fleiri „ready-
made“ eftir hann.
Eitt umdeildasta listaverk tuttugustu aldarinnar kom samtíma sínum í opna skjöldu. Það hneyksl-
aði svo um munaði og sýningin sem það var ætlað hafnaði því. Við erum auðvitað að tala um
veggskálina alræmdu, Gosbrunninn, eftir Richard Mutt, öðru nafni Marcel Duchamp, listaverkið
sem breytti því hvað kallast getur list.
En hvað fékk geðþekkan, rólyndan og kurteisan Frakka til að taka upp á því að ætla sér að sýna
veggskál af karlasalerni á listsýningu í New York árið 1917 og kalla hana list? Hér verður sagt frá
Gosbrunninum, aðdraganda og tilurð, afdrifum og áhrifum allt fram til dagsins í dag.
Gosbrunn-
urinn
8 LAUGARDAGUR 29. MARS 2008 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók