Lesbók Morgunblaðsins - 29.03.2008, Síða 10
Eftir Hafliða Arngrímsson
fruemilia@simnet.is
A
llar söguhetjurnar eru mjög
gamlar, einkum þær yngstu.“
Þannig lýsir serbneska skáld-
konan Biljana Srbljanovic
fólkinu í leikriti sínu Engi-
sprettur sem Þjóðleikhúsið
frumsýndi síðast liðinn fimmtudag.
Enginn fór varhluta af umróti og hryllingi
Balkanstríðsins. Fjöldi leikhúsfólks, flýði
land, mikilvæg leikhús eyðilögðust, sum
hafa reyndar verið endurreist, ýmsir leik-
hópar tvístruðust og aðrir hófu störf erlend-
is. Sígaunaleikhópurinn Pralipe starfar í
Mülheim í Þýskalandi.
„Áfram, einu sinni enn, frá byrjun,“ er
viðkvæðið á Balkanskaganum, ekki síst í
Serbíu. Og afrakstur nýs upphafs verður ef-
laust einhvern tíma síðar einskis virði, þeg-
ar byrjað verður enn einu sinni aftur frá
grunni. Þetta segir saga síðustu sjöhundruð
ára. Það breytist fátt. Sagan endurtekur
sig.
Milosevic er dauður, Evrópusambandið
stækkar og stækkar, Serbía og hin Balk-
anlöndin hafa tekið upp lýðræðisskipan, eða
svona næstum því. Er þetta ekki allt á góðri
leið? „Ekkert er á réttri leið,“ svarar Bilj-
ana. „Ekkert er gott. Evrópubandalagið
þenst út, en það er og verður áfram hyldýp-
isgjá á milli landa Austur-Evrópu og Vest-
urlanda. Og hvað tekur við ef okkur tekst
að leysa vandann sem þjóðernisofstæki og
upplausn hafa leitt af sér? Kapítalismi ný-
frjálshyggjunnar? Aðild okkar Serba að
Evrópusambandinu verður einhvern tíma í
fjarlægri framtíð. Og hvernig ætli það verði
þá þetta blessaða samband, – eftir tíu ár?“
Hún veit um hvað hún er að tala, Biljana
Srbljanovic. Síðasta áratug hafa leikrit
hennar verið leikin um allan heim og hún er
þekktust núlifandi leikskálda Balkanland-
anna. Það hefur farið miklu minna fyrir hin-
um sem enn lifa og semja leikrit: Slobodan
Snjader, Dusan Kovacevic, Dejan Dukovski,
Ljubomir Simoviæ, Almir Imsireviæ, Filip
Sovagoviæ, Goran Stefanovski, svo nokkur
leikskáld frá Króatíu, Slóveníu, Makedóníu,
Svartfjallalandi, Bosníu-Hersegóvínu og
Serbíu, séu nefnd.
Biljana Srbljanoviã fæddist í Belgrad 15.
október 1970 og stundaði nám í dramatúrg-
íu og leiklistarfræðum við Leiklist-
arakademíuna þar í borg. Fyrsta leikritið,
Belgrad-þríleikurinn, sem jafnframt var
prófverkefni hennar, var frumsýnt í Belgrad
1997. Leikritinu mætti lýsa sem syrpu
skyndimynda úr hversdagslífi ungs fólks
sem flúið hefur heimaland sitt áður en Balk-
anstríðið skall á og reynir að fóta sig í nýju
umhverfi og byggja upp nýtt líf með mis-
jöfnum árangri. Um 300.000 manns yfirgáfu
Belgrad meðan á stríðinu stóð, flest ungt
fólk sem sá ekki fram á að snúa aftur heim.
Leikritið gerist um áramót í Prag, Sidney,
Los Angeles og Belgrad. Síðan hefur skáld-
konan skrifað sex leikrit og jafnframt hefur
hún verið fremst í baráttu fyrir friði og
réttlæti og gegn ofstæki, valdníðslu og
mannhatri. Skáldskapur hennar er gegn-
sýrður af manngæsku og gamansemi um
leið og hún segir frá ólýsanlegri sorg, ótta
og firringu.
Húmor og háð er það sem hún dáir í öll-
um skáldskap, hvort sem hún er lesandi eða
skrifandi. Hún þolir hvorki bækur né leik-
sýningar sem taka sjálfar sig of alvarlega.
„Ég leita mjög eftir sjálfshæðni höfundar,
persóna og boðskaparins sem verið er að
koma á framfæri. Ef til vill speglast þarna
óöryggi mitt í samskiptum við annað fólk
hvort sem það eru leikstjórar, leikarar eða
áhorfendur. Satt að segja þoli ég ekkert án
hæfilegs skammts af gamansemi og sjálfs-
hæðni.“
Næsta leikrit hennar, Fjölskyldusögur.
Belgrad var frumsýnt í Atelje 212-
leikhúsinu í Belgrad vorið 1998 og var valið
besta leikrit leiklistarhátíðarinnar í Novi
Sad og sviðsett um allan heim. Verkið lýsir
af miskunnarleysi hversdagslegu serbnesku
lífi: Söguhetjurnar, tíu til tólf ára gömul
börn á leikvelli, eins konar eyðilandi fjöl-
býlishúsahverfis, leika fullorðið fólk. Leik-
ararnir eru aftur á móti fullorðið fólk sem
leika börn. Leikritið segir frá lífsbaráttu
fjölskyldu í Belgrad í ellefu stuttum atrið-
um, – lýsir lífi sem lagt hefur verið í rúst af
kúgandi eftirlitssjúkum stjórnvöldum. Hinn
hversdagslegi ótti við svik umbreytir fólki í
svikara.
Leikritið Fallið var frumsýnt í Budva í
Svartfjallalandi árið 2000, lýsir á vægð-
arlausan hátt þjóðernishyggju Serba. Yf-
irmamma, eða þjóðarmóðir (eins konar fjall-
kona) fjölgar sér í sífellu. Hún fæðir ekki af
sér nýtt líf heldur dauða. Fyrirmyndir yf-
irfósturpabbans og yfirmömmunnar eru
raunverulegar persónur: Fyrrverandi for-
setahjón landsins, Milesovic og frú.
Súpermarkaður, soap opera var frumflutt
í Vínarborg árið 2001. „Við lifum í sápu-
samfélagi,“ segir skáldið í viðtali. „Ég ætl-
aði að skrifa „Dynasty“-leikrit í anda Den-
ver Clan eða Dallas þar sem sagan er hætt
að vera rökrétt og óskiljanlegir atburðir eru
daglegt brauð, dauðir rísa upp eftir andlits-
lyftingu, Pamelu Ewing dreymdi bara allt
saman! Allt er mögulegt og hugmyndir eru
gernýttar. Í þessum sjónvarpssyrpum um
ríkt fólk á sjöunda og áttunda áratugnum er
fjallað um völd. Það sama á við um löndin
sem bíða eftir inngöngu í Evrópusambandið
... Mann langar nú að komast einhvern tíma
í veisluna.“
Veturinn 2002/03 var hún gestafyrirlesari
í New York. Þá skrifaði hún leikrit sitt God
Save America, sem frumflutt var í Belgrad
2003. Leikritið hét reyndar Ameríka, síðari
hluti og er þá vísað til uppsprettu verksins,
ófullgerðrar sögu Franz Kafka um Karl
Rossmann, Ameríku. Hjá Kafka er sögu-
hetjan ungur Miðevrópumaður sem á sér
ekki viðreisnar von í samfélagi sínu. En
möguleikarnir í Ameríku eru óþrjótandi.
Þar á ameríski draumur hans að rætast.
„Allir eiga sömu tækifærin.“ Og hann reynir
að skapa sér nýtt líf, verða „self-made man“
í anda goðsagnarinnar. En jafnskjótt og
Karl stígur fæti á fyrirheitna landið um-
breytist lífið í samfellda hnignun.
Hinn fertugi Karl, í leikriti Biljönu
Srbljanoviæ, er á toppnum: Há laun, lúx-
usíbúð, konur og dýrir skemmtistaðir. En
þá byrjar hrunið: Hann missir atvinnuna.
Þá er mikilvægt að halda andlitinu og um-
fram allt ímyndinni, þótt það sé vissulega
neyðarlegt þegar kreditkortið virkar ekki á
veitingastað, og niðurlægjandi að fara heim
í lest eða strætisvagni. Maður missir virð-
inguna af því að þurfa að biðja vini sína um
peninga og hafa engin tök á skuldunum. Í
símsvaranum er aðeins rödd gamallar konu
sem spyr um glataðan son sinn. Engin
tengsl lengur, enginn félagsskapur. Hinir
nýta möguleika sína, halda áfram leiknum,
sínum eigin leik. Þeir eru ekki óvinsamlegir
en sýna enga samúð.
Eins og í öllum leikritum Biljönu er God
save America gegnsýrt af ljúfsárri gam-
ansemi, meinfyndni og tilfinningahita og það
sama á við um leikritið Engisprettur sem
var frumsýnt í Júgóslavneska dramatíska
leikhúsinu í Belgrad árið 2005. Leikrit um
lífið í Serbíu, eftir fall kommúnismans og
eftir fall Milosevic. Biljana skoðar samfélag
sitt af mikilli nákvæmni, yddar sögur sínar
og athuganir fyrir leiksviðið. Hún sýnir af-
myndað fólk í brengluðu samfélagslegu
ástandi þar sem ríkir miskunnarlaus sam-
keppni um að lifa af. Allir eru sjálfum sér
næstir, hugsa um sig og elta tálsýnir í leit
að hamingjunni.
„Faðir minn spilaði lottó. Upphaflega átti
leikritið einmitt að heita Lottó,“ segir leik-
skáldið í viðtali. „Í Serbíu er lottó svipað og
risabingó – og er eins konar mótív í leikrit-
inu. Kynslóðirnar skilja ekkert eftir fyrir af-
komendur sína, nema óskina um að eitthvað
falli af himnum ofan, að himinninn opnist og
skyndilega er feitur lottóvinningur í fangi
manns. Að sjálfsögðu gerist það aldrei. Hið
eina sem féll af himnum ofan voru sprengj-
ur. Önnur hver kynslóð í Serbíu hefur geng-
ið í gegn um styrjöld og engum dettur í hug
annað en nýta allt sem hann á fyrir sjálfan
sig. Og lifir hratt. Þess vegna líta fjórtán
ára stúlkur út eins gleðikonur, án kynlífs.
Þótt fólk hafi atvinnu nægja launin engan
veginn til að lifa sómasamlega. Þær ganga
því um með spenntan barm og stút á munni
tilbúnar þegar túrbínukapítalistinn ungi
birtist og tekur einhverja þeirra til sín. Og
drengirnir, hafa margir drepið einhvern,
samt ekki nema fimmtán ára smástrákar
með gömul andlit. Þetta er ekkert sér-
einkenni Serba, þetta er sameiginlegt öllum
fyrrverandi kommúnistaríkjum.“
Borgarastyrjöld í Júgóslavíu fyrrverandi:
Vinsamlegir nágrannar til margra ára urðu
svarnir óvinir, pyntingar og fjöldamorð voru
daglegt brauð, fólk var limlest, nauðgað,
myrt svo þúsundum skipti. Enn hefur fólk
ekki unnið úr þessum óhugnaði. Þjóðern-
ishreinsanir, ofsóknir – sprengjuregn Nató.
Martraðarkennd reynsla þjóðar sem enn í
dag er klofin í tvennt: Fylgismenn Slobod-
ans Milosovic og andstæðinga.
Hvers konar fólk er það sem á alla þessa
stríðsreynslu að baki? Og hvaða afleiðingar
hafði stríðið á hversdagslegt líf fólks? „Í
dag er háð annað stríð í Serbíu,“ segir Bilj-
ana Srbljanovic, „stríð kynslóða.“ Í leikrit-
inu þjáist gamall maður af elliglöpum, börn-
in hans hafa hvorki peninga né löngun til að
annast hann. Sonurinn skilur ringlaðan föð-
ur sinn eftir á áningarstað við þjóðveg –
einhver annar ætti að geta annast hann.
Aldraða fólkið er fátækast, og staða aldr-
aðra í Serbíu er ömurleg, eins og reyndar
víða á Vesturlöndum. Lífeyrissjóðirnir eru
tómir, einhvern veginn varð Milosevic að
fjármagna stríðsreksturinn. „Hann keypti
sprengikúlur og vopn fyrir lífeyri gamla
fólksins til að myrða ungt fólk, til að drepa
börn í Sarajevo. Og sá sem ber mesta
ábyrgð, aðalsökudólgurinn, Slobodan Milos-
evic er dauður – stjórnandinn sem eftirá
þóttist ekkert vita, sakborningur stríðs-
glæpadómstólsins í Haag. Skyndilega dó
hann í hollensku fangelsi úr hjartaslagi. Ég
ætlaði ekki að trúa þessu! Hann var eins-
konar ímynd hins Illa sem aldrei getur dáið.
Mér þótti það gríðarlegt óréttlæti, að hann
skuli hafa látist vegna brostins hjarta – af
sjálfsvorkunn. Hjarta hans hafði nægan
styrk í Vukowa, Sebrenica, Sarajewo, í
sprengjuregninu í Belgrad, Kosovo, þegar
milljónir manna þjáðust – nægilega öflugt
fyrir allt þetta. En hann dó vegna þess að
hjarta hans brast – af sjálfsvorkunn ...“
Sminka á sjónvarpsstöð verður ástfangin
af sjónvarpsstjörnu, fræðimaður og and-
ófsmaður er svikinn af áhrifamiklum vini
sínum, ungur maður skilur föður sinn, sem
þjáist af elliglöpum, eftir á áningarstað við
þjóðveg, gömul kona ætlar að setjast að hjá
dóttur sinni, er kastað á dyr og fellur niður
stiga og brýtur á sér mjöðmina. Þetta eru
atriði sem virðast afar lauslega tengd en á
einhvern hátt ofin saman svo úr verður ein
samhangandi saga. Í Engisprettum er sagt
frá ungu fólki sem er skelfilega hrætt við að
eldast og verða gamalt, hrædd við foreldra
sína sem geta ekki meðhöndlað eigin fortíð.
Engisprettur eru hrífandi friðsöm skor-
dýr – en stundum, og að því er virðist án
sýnilegrar ástæðu, safnast þær saman í ógn-
armikinn flokk og með sameiginlegu átaki
valda þær ólýsanlegum skaða. Á örskömm-
um tíma eru víðfeðmir akrar sviðin jörð.
„Þetta er tákn fyrir mannfólkið sem ég
fjalla um í leikritinu. Sem einstaklingar er
það indælt, en ógn og skelfing þegar það
sameinast og verður að flokki manna.“
Leikritið endar ekki beinlínis vel. Engu
að síður er gamli maðurinn sem börnin
höfðu skilið eftir við þjóðveginn, tekinn inn í
fjölskylduna á ný. Samviskubit, – síðasta
tákn vonar um að enn sé til mannúð.
„Einhverjir hafa sagt að Engisprettur sé
ekki pólitíst leikrit. En það er rangt!“, segir
Biljana. „Í Engisprettum er meiri pólitík en
í nokkru öðru leikriti eftir mig, vegna þess
að þar lýsi ég afleiðingum ómannúðlegrar
pólitíkur á líf venjulegs óbreytts fólks. Og
það er hápólitík!“
„Leikritið,“ segir hún, „er jafnframt saga
af fólki eins og mér. Fólki á fertugsaldri.“
Nýjasta leikrit hennar Barbelo, af hund-
um og börnum var nýlega frumsýnt í Bel-
grad og enn skrifar Biljana um fjöl-
skyldutengsl enda álítur hún serbneska
fjölskylduna vera smækkaða mynd af sam-
félaginu. Hún lætur mörkin á milli lifenda
og dauðra, hunda og manna hverfa og segir
frá einmana fólki sem ber innra með sér
sársaukafulla þrá eftir ást.
Biljana Srbljanoviæ hefur komið miklu í
verk síðustu ár, lifað svo hratt að hún hefur
það á tilfinningunni að geta strax farið á
eftirlaun, sem auðvitað gengur ekki. Hver
annar gæti þá lýst upp tilfinningalegt
ástand serbneska samfélagsins af ein-
hverjum styrk?
„Hvað er eiginlega að þessu fólki?
Þessu hræðilega, gamla fólki?“
Biljana Srbljanovic „Húmor og háð er það sem hún dáir í öllum skáldskap, hvort sem hún er les-
andi eða skrifandi. Hún þolir hvorki bækur né leiksýningar sem taka sjálfar sig of alvarlega.“
Biljana Srbljanovic hefur lýst upp tilfinn-
ingalegt ástand serbneska samfélagsins í
leikverkum sínum. Á fimmtudaginn var
frumsýnt verk hennar, Engisprettur, í Þjóð-
leikhúsinu. Hér er ferill þessa unga leik-
skálds skoðaður en hann hefur ekki síst ein-
kennst af róttækri pólitískri afstöðu til
málefna heimaslóða hennar.
Höfundur er leiklistarfræðingur og leikstjóri.
» Í Engisprettum er sagt frá
ungu fólki sem er skelfilega
hrætt við að eldast og verða
gamalt, hrædd við foreldra
sína sem geta ekki meðhöndlað
eigin fortíð. Engisprettur eru
hrífandi friðsöm skordýr – en
stundum, og að því er virðist
án sýnilegrar ástæðu, safnast
þær saman í ógnarmikinn
flokk og með sameiginlegu
átaki valda þær ólýsanlegum
skaða. Á örskömmum tíma eru
víðfeðmir akrar sviðin jörð.
10 LAUGARDAGUR 29. MARS 2008 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók