Morgunblaðið - 13.02.2008, Side 8
8 MIÐVIKUDAGUR 13. FEBRÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
HÁSKÓLAR landsins kynna laug-
ardaginn 16. febrúar námsframboð
sitt fyrir næsta skólaár. Kynningin
fer fram á tveimur stöðum í borg-
inni. Háskóli Íslands og Kenn-
araháskóli Íslands verða á Há-
skólatorgi Háskólans og í Ráðhúsi
Reykjavíkur verða Háskólinn á Ak-
ureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskól-
inn á Hólum, Háskólinn í Reykja-
vík, Landbúnaðarháskóli Íslands og
Listaháskóli Íslands. Í Norræna
húsinu verður á sama tíma boðið
upp á kynningu á framhaldsnámi í
Danmörku.
Nemendur háskólanna, kennarar
og námsráðgjafar, taka á móti gest-
um, miðla af reynslu sinni og veita
allar upplýsingar um námsleiðir í
boði. Einnig verður kynnt margs-
konar þjónustustarfsemi við nem-
endur. Búast má við því að yfir þrjú
þúsund gestir sæki námskynningu
háskólanna þennan dag því fjöl-
margir óski eftir því að fá þá per-
sónulegu ráðgjöf sem þarna býðst.
Margir gestanna eru að taka ein-
hverja stærstu ákvörðun ævinnar,
segir í tilkynningu. Möguleikarnir
eru margir og máli skiptir að vanda
valið. Gott tækifæri gefst til þess á
þessum sameiginlega kynning-
ardegi þar sem kynntar verða yfir
fimm hundruð námsleiðir.
Allir háskólar landsins kynna
námsframboð næsta skólaárs
Árvakur/Þorkell
Yfir 500 námsleiðir Margir mögu-
leikar eru í boði í háskólunum.
BÆJARRÁÐ Álftaness
samþykkti á síðasta fundi
sínum að beina þeim til-
mælum til samgöngu-
nefndar Alþingis að mæla
með að í lögum um sam-
gönguáætlun verði fé til lag-
færinga og breytinga þjóð-
vega sem liggja að miðsvæði
Álftaness í samræmi við til-
lögur sveitarfélagsins sem
kynntar hafa verið Vega-
gerðinni.
Tillögurnar miða að því að
Norðurnesvegur og Suð-
urnesvegur verði lagaðir að kröfum sem gerðar eru um vegi við miðbæ.
Áhersla verði lögð á umferðaröryggi og frágang sem uppfyllir kröfur um um-
hverfismál, að því er fram kemur á heimasíðu bæjarins.
Vegir á Álftanesi lagaðir að
kröfum um vegi við miðbæ
Árvakur/Kristinn
ORKUSPARNAÐUR með aukinni tækni er þema nátt-
úru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2008.
Verðlaunin, sem eru jafnvirði rúmlega 4,5 milljón króna
eru ein af fjórum sem Norðurlandaráð veitir á hverju ári,
önnur eru bókmenntaverðlaunin, kvikmyndaverðlaun og
tónlistarverðlaun.
Umhverfisverðlaunin eru veitt fyrir norræna fram-
leiðslu, uppfinningu eða þjónustu sem stuðlar að orku-
sparnaði. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi.
Allir geta sent tilnefningu til verðlaunanna. Frestur til þess rennur út 25.
apríl næstkomandi.
Norræn umhverfisverðlaun
RÖÐ erinda um ástina hefst á morgun, fimmtudag, í
Bókasafni Kópavogs, Hamraborg 6. Nokkrir þekktir
einstaklingar tala um ástina hver frá sínu sjónarhorni.
Erindin verða flutt á fimmtudögum kl. 17.15 og eru
u.þ.b. klukkustund með fyrirspurnum og umræðum.
Sólveig Anna Bóasdóttir hefur leikinn 14. febrúar, á
degi heilags Valentínusar, og talar um ýmsar myndir
ástarinnar. 21. febrúar talar Guðfinna Eydal um ást-
ina í samböndum, 28. febrúar fræðir Þorgrímur Þrá-
insson um hvernig á að gera makann hamingjusaman,
6. mars birtir Katrín Jónsdóttir svipmyndir úr ást-
arsögu samkynhneigðra og 13. mars lýkur Óttar Guð-
mundsson röðinni og talar um ástina og dauðann. Er-
indin verða flutt í Kórnum, sal á 1. hæð Bókasafnsins í
Hamraborg 6a. Aðgangur er ókeypis.
Röð erinda um ástina
Ást Í einu erindanna
verður brugðið upp
svipmyndum úr ástar-
sögu samkynhneigðra.
DANIEL Sävborg flytur opinn fyr-
irlestur í fyrirlestrarsal Þjóðminja-
safnsins fimmtudaginn 14. febrúar,
kl. 16.15 á vegum Stofnunar Árna
Magnússonar í íslenskum fræð-
um. Fyrirlesturinn fjallar um til-
finningar í Íslendingasögum og
verður fluttur á sænsku.
Daniel Sävborg (f. 1965) lauk
doktorsprófi árið 1997 og ber dokt-
orsritgerð hans heitið Sorg och
elegi I Eddans hjältediktning. Hann
gegnir um þessar mundir rann-
sóknarstöðu Sigurðar Nordals við
Stofnun Árna Magnússonar þar
sem hann vinnur að rannsóknum á
Íslendingasögum.
Nánar á: www.arnastofnun.is
Tilfinningar í
Íslendingasögum
FÉLÖGUM og hópum stendur til
boða að taka að sér umsjón með
hreinsun á átta skilgreindum svæð-
um í Hafnarfirði. Hvert svæði skal
hreinsað 10 sinnum á árinu og er
áhersla lögð á hreinsun opinna
svæða, sameignar bæjarbúa. Fyrir
framlag sitt og þátttöku fá hópar
styrk til starfseminnar. Leitast
verður við að velja hópa með fjöl-
breytilega starfsemi til verksins.
Frekari upplýsingar og kort er
að finna á www.hafnarfjordur.is/
umhverfisvaktin. Frestur til að
skila inn umsóknum er til 15. febr-
úar.
Hópar standa
umhverfisvakt
í Hafnarfirði
STUTT
Eftir Rúnar Pálmason
runarp@mbl.is
NÝSTOFNAÐ einkafyrirtæki, Að-
stoð og öryggi, hefur skrifað undir
samning við Sjóvá um að veita við-
skiptavinum tryggingafélagsins að-
stoð við að fylla út tjónaskýrslur,
lendi þeir í umferðaróhappi. Þetta á
þó aðeins við ef ekki hafa orðið slys á
fólki og þjónustan verður einungis í
boði á höfuðborgarsvæðinu, a.m.k. til
að byrja með.
Þjónusta félagsins stendur öðrum
tryggingafélögum til boða en Sjóvá
er fyrsta félagið til að skrifa undir
samstarfssamning. Engu máli skipt-
ir hvort viðskiptavinur Sjóvár varð
valdur að óhappinu eða ekki, þjón-
ustan stendur honum til boða án
endurgjalds.
Fyrrverandi lögreglumenn
Forstöðumaður Aðstoðar og ör-
yggis er Ómar Þ. Pálmason sem hef-
ur verið lögreglumaður í 20 ár, þar af
6½ ár í umferðardeild og 1½ ár í
slysarannsóknardeild. Hann segir að
reynslan sýni að fólki geti brugðið
mjög mikið við að lenda í árekstri,
jafnvel þótt engin meiðsl hafi orðið á
fólki. Sumir séu fljótir að jafna sig og
eigi ekki í nokkrum vanda við að fylla
út tjónaskýrslu á réttan hátt en
skýrslugerðin geti vafist töluvert
fyrir öðrum. „Oft er það sterkari að-
ilinn sem tekur stjórnina á vettvangi
og getur með lagni haft áhrif á þann
sem er ekki eins öruggur með sig,“
segir Ómar. Þannig geti hinn sterk-
ari breytt atvikalýsingu sér í hag
með þeim afleiðingum að hinn aðil-
inn ber skarðan hlut frá borði, í það
minnsta getur allt endað í hávaða-
deilum. Með því að hringja í Aðstoð
og öryggi sé hægt að komast hjá
slíkum vandamálum. „En ég ítreka
það að ef fólk er í einhverjum vafa
um hvort lögregla þurfi að koma á
staðinn, þá á að hringja í 112 og fá
samband við Fjarskiptamiðstöð lög-
reglunnar sem sker úr um hvort þörf
sé á aðstoð lögreglu,“ segir hann.
Til að byrja með verður Aðstoð og
öryggi með tvo bíla á sínum snærum
og í þeim báðum verða reyndir, fyrr-
verandi lögreglumenn. Ómar kveðst
leggja mikla áherslu á að einungis
menntaðir lögreglumenn sinni starf-
inu. Þeir hafi reynslu af því að meta
ástæður slysa, teikna slysavettvang
og tryggja öryggi vegfaranda. Þá
verði þeir algjörlega hlutlausir –
engu skipti hvaða ökumaður sé við-
skiptavinur Sjóvár og hver sé í við-
skiptum við keppinauta.
Spurður hvort Aðstoð og öryggi sé
ekki að fara inn á starfssvið lögreglu,
segir Ómar að það sé ekki meðal lög-
bundinna verkefna lögreglu að sinna
minni háttar umferðaróhöppum. Þá
hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
á síðustu misserum verulega dregið
úr þessari þjónustu og þess í stað
einbeitt sér að alvarlegri málum.
Raunar hafi hugmyndin að því að
stofna fyrirtækið kviknað þegar
hann varð þess var að yfirmenn í lög-
reglunni vildu reyna að fækka út-
köllum vegna minni háttar umferð-
aróhappa. Með því að semja við
Aðstoð og öryggi gefi Sjóvá lögreglu
ákveðið svigrúm til að sinna mikil-
vægari störfum.
Sigurjón Andrésson, markaðs-
stjóri Sjóvár, segir það hag félagsins
og viðskiptavina að tjónaskýrslur
séu sem allra best úr garði gerðar.
Félagið vilji með samningum við Að-
stoð og öryggi bæta þjónustuna og
öryggi viðskiptavina sinna.
Aðstoð og öryggi við
að fylla út tjónaskýrslu
Árvakur/Júlíus
Hjálplegir Aðstoð og öryggi tekur til starfa 15. febrúar nk. Þjónustan er í
boði á höfuðborgarsvæðinu, a.m.k. til að byrja með. Síminn er 578 9090.
Í HNOTSKURN
» Starfsmenn Aðstoðar og ör-yggis skrifa upp tjónaskýrslu
á rafrænt form og taka ljós-
myndir af vettvangi.
» Skýrslan er síðan send tilviðkomandi tryggingafélaga
með rafrænum hætti.
» Tafir vegna þess að annarhvor aðilinn skilar ekki
skýrslu eða skilar henni seint eru
því úr sögunni. Deilur vegna mis-
skilnings við útfyllingu á skýrsl-
unni ættu einnig að minnka.
Eftir Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
VGK-HÖNNUN hefur kynnt starfs-
mönnum sínum samgöngustefnu
fyrirtækisins þar sem starfsmenn
eru hvattir til að velja sér annan
ferðamáta en að aka einir í bíl til og
frá vinnu með það að leiðarljósi að
bæta umhverfi, borgarbrag og
heilsu íbúa höfuðborgarsvæðisins
sem og annars staðar. Markmiðið er
að uppfylla ferðaþörf starfsmanna á
hagkvæman og vistvænan hátt.
Þorsteinn B. Hermannsson, um-
ferðarverkfræðingur og sviðsstjóri
umferðar og skipulags hjá VGK-
Hönnun segir að hugmyndin sé að
bandarískri fyrirmynd. VGK-Hönn-
un sé verkfræðistofa og ráðgjafafyr-
irtæki sem hafi meðal annars unnið
fyrir Reykjavíkurborg að sam-
gönguskipulagi og greiningu á stöðu
og stefnu í samgöngumálum í
Reykjavík. Meðal annars hafi svo-
nefndar mjúkar aðferðir verið skoð-
aðar til að breyta ferðavenjum og
minnka umferðarálag og fyrirtækið
hafi viljað sýna gott fordæmi.
Tæplega 300 manns starfa hjá
fyrirtækinu og þar af um 220 í
Reykjavík, en til að framfylgja
stefnunni hefur verið ákveðið að
gera tilraun með samgöngustyrki til
starfsmanna fyrirtækisins í Reykja-
vík.
Ef starfsmenn, sem nýta sér vist-
vænan ferðamáta, þurfa óvænt að
ferðast í einkaerindum á vinnutíma,
t.d. vegna veikinda barna, endur-
greiðir VGK-Hönnun viðkomandi
leigubílakostnað.
Fyrirtækisbílar sem notaðir eru í
innanbæjarakstri verða á ónegldum
hjólbörðum. Auk þess fá starfsmenn
fræðslu um vistakstur.
Þorsteinn segir að viðbrögð hafi
verið mjög jákvæð og hugmyndin fái
fólk til þess að hugsa. Margir hafi
skoðað sín mál og áberandi sé að
fólk sé farið að samnýta bíla betur
en áður. Þorsteinn bendir á að
kostnaður sé ekki mikill miðað við
það hvað kosti að byggja bílastæði,
en sá kostnaður sé á bilinu frá hálfri
milljón upp í 3,5 milljónir hvert
stæði. Mörg strætókort megi kaupa
fyrir þann pening.
Starfsmennirnir
ferðist ekki einir í bíl
Morgunblaðið/Golli