Morgunblaðið - 26.11.2008, Síða 25
25
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 26. NÓVEMBER 2008
Viðbúnar Þegar von er á skoti úr startbyssu er vissast að halda fyrir eyrun - og fá hjálp við verkið ef svo ber undir. Sérstaklega ef von er á háum hvelli.
Árni Sæberg
Einar Kristinn Guðfinnsson | 25. nóv.
Við höfum tekið
markvisst á málum
Þingrof og kosningar núna
– fráleitt
Núna kallar stjórnar-
andstaðan eftir því að
þing verði rofið og efnt til
kosninga sem fyrst á nýju
ári. Þetta er fráleit krafa sem ekki mun
þjóna hagsmunum þjóðarinnar. Öðru nær.
Nú ríður þvert á móti á að við höldum
áfram þeirri markvissu vinnu sem komin
er áleiðis við að róa þjóðarskútunni úr
brimskaflinum og á kyrrari sjó. Sú mark-
vissa vinna sem ríkisstjórnin hefur haft
frumkvæði að og stjórnarandstaðan hefur
í mörgum tilvikum komið að hér á vett-
vangi þingsins, sýnir að við erum á réttri
leið, þó við vitum öll að mikið verkefni er
eftir. Það er einmitt þess vegna sem það
er óskynsamlegt að bæta pólitískri óvissu
ofan á efnahagsleg vandræði.…
Meira: ekg.blog.is
Jón Axel Ólafsson | 25. nóv.
Lélegt upplýsingaflæði
Forsætisráðuneytið setti
upp sérstakan upplýs-
ingavef fyrir erlenda
blaðamenn þegar banka-
kreppan skall á í byrjun
október. Slóðin er http://
www.presspodium.com/
is/ Samkvæmt þessari fréttasíðu lauk
bankakreppunni þann 16. október síð-
astliðinn, eða fyrir rúmum mánuði. Nýj-
asta fréttin á vefsíðunni er nefnilega
dagsett 16. október. En þar er hins vegar
að finna fullt af fínum myndum af for-
sætisráðherra og viðskiptaráðherra,
sem auðvitað bætir upp fréttaleysið.
Á íslenskri vefsíðu forsætisráðuneyt-
isins er slatti af upplýsingum á ensku, en
nær eingöngu formlegar ræður eða er-
indi, stundum ein á viku. Á vefsíðu utan-
ríkisráðuneytisins eru aðeins meiri upp-
lýsingar á ensku, en ekkert sem útlendur
fréttamaður mundi nota til að vera „up
to date“ um þróun mála.
Meira: jax.blog.is
Með banakringlu í nefi
og blóð á tánum
kallar inn til smaladrengsins
krumminn á skjánum:
Sofðu rólegur sveinn,
vel ég vaki yfir ánum.
ÞÓ að þessi ljóðvísa Jóhann-
esar úr Kötlum sé ort við aðrar
aðstæður en ríkja nú hér á landi,
hefur myndrænt táknmál hennar
sótt mjög að mér á undanförnum
vikum: Hrafninn sem hefur drep-
ið lömbin þykist hæfastur til að gæta fjárins. Ég
held að undirvitund mín sé að benda mér á
hversu fráleitt það er að þeir sem bera mesta
ábyrgð á bágri stöðu þjóðarinnar leiði hana út
úr vandanum og endurreisi þjóðfélagið.
Gífurlegar breytingar helltust yfir þjóðina á
undanförnum áratug, breytingar, sem snertu
marga grunnþætti í tilveru okkar. Verðmæta-
mat og siðferðisviðmið gjörbreyttust og auð-
hyggjan virtist alger. Allt var falt
fyrir peninga: Hús nágrannans,
fyrirtæki hans, bestu lóðirnar,
forsetinn, Sinfóníuhljómsveitin,
fjölmiðlarnir, íþróttafélögin.
Krosseignatengsl fyrirtækja og
banka slík að erfitt var að átta sig
á hver bar ábyrgð á hverju ef þá
nokkur. Öllum ráðum mátti beita
til að ná í fjármagn. Bankar sóttu
að sparifé landsmanna til að lána
samverkamönnum sínum, sparifé
frá þegnum annarra þjóða sótt
með ábyrgð íslenskra skattborg-
ara, erlent lánsfé notað til gylli-
boða fyrir landslýð. Allt virtist leyfilegt ef það
gat af sér skjótfenginn gróða.
Lífsstíll sem einkenndist af áður óþekktu
óhófi var innleiddur í samfélag okkar. Stjórn-
endur fyrirtækja skömmtuðu sér ofurlaun og
hlunnindi vegna meintrar ábyrgðar og notuðu
gróðann gjarnan til óhófs: Einkaþotur, erlendir
skemmtikraftar í einkaveislum, glæsihús innan-
lands sem utan. Reyndu síðan að kaupa sér feg-
urri ímynd með því að styrkja menningar- og
hjálparstarfsemi sem var þeim að skapi. Sá sem
eyddi mestu hlaut mesta umfjöllun glansrita.
Réttmæt gagnrýni annarra þjóða afgreidd með
hroka og yfirlæti. Stjórnvöld dönsuðu með og
þáðu far. Á sama tíma jókst hlutfallsleg fátækt í
landinu og stórir hópar fóru á mis við það sem
nefnt var góðæri.
Þeir sem áttu að sjá um rekstur þjóðarbúsins
og tryggja öryggi og jafnræði þegnanna horfðu
aðgerðalausir á. Þeir leyfðu gegndarlausa
skuldasöfnun erlendis og þegar bólan sprakk
vegna ytri skilyrða voru varnirnar engar, engin
úrræði önnur en að skríða á hnjánum með betli-
bauk til þeirra þjóða sem við höfðum áður
skensað. Eftir stendur hnípin þjóð, bundin í
skuldaklafa næstu árin, rúin sjálfsvirðingu.
Framtíð afkomendanna teflt í tvísýnu. Og þeir
sem mesta ábyrgð bera sitja sem fastast.
Framundan er að reisa samfélagið úr þeim
rústum, sem þessir menn hafa skilið eftir sig.
Það þarf að gera upp fortíðina svo við skiljum
betur hvað fór svona hrikalega úrskeiðis. Það
má ekki leita eingöngu að lögbrotum, heldur
þarf ekki síður skoða siðferðisskort, misnotkun
á aðstöðu og óskiljanlegt afskiptaleysi stjórn-
valda. Á sama tíma þarf að hefja uppbyggingu
þjóðfélagsins með það að markmiði að búa af-
komendum okkar betri heim. Það þarf að hefja
til vegs á ný gildi menntunar, öryggis og jafn-
ræðis, gildi heiðarleika, hófsemi og réttsýni.
Hér þarf að vanda til verka, svo mikið er í húfi.
Ég er vart einn um þá skoðun að það sé óásætt-
anlegt að þeir sem komu okkur í þessa stöðu,
ýmist með afskiptum sínum eða afskiptaleysi,
stýri þeirri uppbyggingu. Þeim er einfaldlega
ekki treystandi til þess verks. Við vitum af sárri
reynslu hvert þeir hafa leitt þjóðina á und-
anförnum árum.
Eftir Stefán J. Hreiðarsson » Framundan er að reisa
samfélagið úr þeim rústum,
sem þessir menn hafa skilið
eftir sig.
Stefán J. Hreiðarsson
Höfundur er barnalæknir og margfaldur afi.
Ísland í nútíð og framtíð:
Hvernig þjóðfélag viljum við búa börnum okkar?
Á ÍSLANDI gilda reglur um
bankaleynd hliðstæðar þeim sem
er að finna í helstu nágrannalönd-
um okkar. Fjármál bæði heimila
og fyrirtækja eru viðkvæm og því
nauðsynlegt að algjört traust ríki á
milli fjármálafyrirtækja og við-
skiptavina þeirra. Það tekur ára-
tugi að byggja upp traust og tiltrú
á lagaumgjörð. Það traust og þá
tiltrú höfum við haft á Íslandi. Nú
þegar við stöndum frammi fyrir að
sjá á bak stórum hluta af banka-
kerfi okkar megum við síst við því að sjá á bak
tiltrú á lagaumgjörðina.
Í leiðara Morgunblaðsins 24. nóvember segir:
„Almenningur á skýlausan rétt á að fá að vita
hvað gerðist í aðdraganda bankahrunsins. Þar
verður ekki hægt að bera við neinni banka-
leynd.“ Ég tek að sjálfsögðu undir það að rann-
sókn á aðdraganda bankahrunsins sé nauðsyn.
Nú þegar eru skilanefndir að störfum og í kjöl-
farið er þess að vænta að skiptaráðendur taki til
starfa. Þá hefur dómsmálaráðherra lýst því yfir
að sérstök nefnd sérfræðinga muni rannsaka að-
draganda hrunsins.
Ef það vakna grunsemdir um lögbrot við
rannsókn þessa aðila þá er engin fyrirstaða fyrir
rannsóknaraðila að fá aflétt banka-
leynd til frekari rannsókna, enda er
bankaleynd til að verja hagsmuni
almennings en ekki skálkaskjól fyr-
ir lögbrot. Þar að auki hefur dóms-
málaráðherra boðað sérstök lög
sem eiga að auðvelda starfsmönnum
þessara fyrirtækja að láta rann-
sóknaraðila vita um lögbrot hafi
þeir orðið þeirra áskynja í starfi
sínu.
Þetta er hið eðlilega ferli í öllum
þeim ríkjum sem við berum okkur
saman við. Morgunblaðið segir í
leiðara sínum: „Fjölmiðlar geta að
sjálfsögðu ekki tekið að sér að rannsaka þessi
mál með jafnýtarlegum hætti og yfirvöld munu
gera.“ Þetta er auðvitað rétt en þar með er ekki
öll sagan sögð. Fjölmiðlar geta heldur ekki boð-
ið jafn réttláta málsmeðferð þeirra sem grun-
aðir eru um brot og réttarkerfið á að tryggja.
Þannig er alltaf hætta á að upplýsingar sem
rata á borð ritstjórna séu úr samhengi og gerð-
ar óþarflega tortryggilegar. Hvorki almenn-
ingur né fyrirtæki eiga að þurfa að þola það að
fjallað sé um lögleg viðskipti þeirra fyrir opnum
tjöldum. Og það er erfitt fyrir ritstjórnir að
verjast því að viðkvæmum upplýsingum um ein-
staklinga sé dreift á þær í þeim tilgangi að
koma á þá höggi.
Það er ákaflega mikilvægt að ekki sé gert lítið
úr bankaleynd. Það grefur undan trúverðugleika
fjármálakerfisins til framtíðar. Afnám banka-
leyndar gæti líka haft í för með sér varanlegan
fjármagnsflótta því ef almenningur og fyrirtæki
geta ekki treyst því að jafn sjálfsögð réttindi og
bankaleynd séu virt að lögum þá mun fjármagn
streyma úr landinu um leið og tækifæri gefst.
Dómsmálaráðherra hefur fullvissað okkur um
að bankahrunið verði rannsakað. Öll gögn og
allar færslur eru í þrotabúunum og engin hætta
á að þau spillist. Afnám bankaleyndar breytir
engu fyrir þá rannsókn.
Þrátt fyrir bankahrunið eigum við ekki að
hlaupa til og bylta öllum hefðbundnum rétt-
arreglum. Við eigum að treysta rannsóknarað-
ilum til að sinna vinnu sinni og einbeita okkur
að því að byggja upp nýtt fjármálakerfi sem
hvílir á trausti og hefðbundnu vestrænu réttar-
fari.
Eftir Guðjón Rúnarsson »Hvorki almenningur né fyrir-
tæki eiga að þurfa að þola það
að fjallað sé um lögleg viðskipti
þeirra fyrir opnum tjöldum.
Guðjón Rúnarsson
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka
fjármálafyrirtækja.
Hvers vegna bankaleynd?
BLOG.IS
Hlini Melsteð Jóngeirsson | 25. nóvember
2008
Nei veistu þetta er ekki hægt
Hvernig dettur þessari rík-
isstjórn að auka á þján-
ingar þessa hóps fólks.
Þetta er ekki fyrsta málið
þar sem ríkisstjórnin er að
níðast á þeim sem lifa við
veikindi. Mér var tjáð um
daginn að fólk með rauða úlfa þyrfti nú að
greiða fyrir lífsnauðsynlegar meðferðir inn
á spítölum. Þeir sem hafa rauða úlfa eru í
flestum tilvikum öryrkjar og það að rukka
fyrir þá meðferð sem er fenginn er til
skammar því þetta fólk hefur ekki val um
að hafna henni.
Þetta er óheillaþróun sem þarf að
sporna við sem fyrst.
Meira: hlini.blog.is