Skinfaxi - 01.02.1985, Side 5
Guðjón Ingimundarson
Sjötugur
Pálmi Gíslason
Þann 12. janúar s.l. varð Guð-
jón Ingimundarson sjötugur.
Þeir sem fylgst hafa með starfi
ungmennafélaganna undanfarna
áratugi þekkja Guðjón, síungan
og léttan í spori.
Guðjón er fæddur á Svanshóli
í Strandasýslu, stundaði nám í
Héraðsskólanum Reykholti, tók
íþróttakennarapróf 1937 og síðar
smíðakennarapróf í Handíða-
skólanum. Guðjón kenndi í Hér-
aðsskólanum Laugarvatni 1937
—41, flutti til Sauðárkróks 1941
og var þar búsettur síðan. Fyrst
starfaði Guðjón sem kennari en
frá 1958, þegar Sundlaug Sauðár-
króks tók til starfa, hefur Guðjón
verið forstöðumaður hennar og
rekið með miklum myndarbrag.
Kynni mín af Guðjóni hófust
að ráði 1969 þegar ég var vara-
maður í stjórn UMFÍ og sat alla
stjórnarfundi. Þetta tímabil stóð í
4 ár. 1979 þegar ég varð formaður
UMFÍ lagði ég ríka áherslu á að
Guðjón sæti áfram í stjórn, en
hann var þá farinn að hafa orð á
að draga sig í hlé. Þá eins og oftast
brást Guðjón vel við og sat í
stjórn sem varaformaður til 1983.
Guðjón var okkar elstur að árum
en alltaf fannst mér hann yngstur
í hugsun, fljótur að átta sig á mál-
um, tillögugóður, heiðarlegur og
réttsýnn.
Ungmennafélagshreyfingin hef-
ur ekki eignast marga hans jafn-
oka. Hvaða verk sem hann tók sér
fyrir hendur, lítið eða stórt, var
leyst með ljúfum huga og alúð.
Hann er virtur og dáður meðal
okkar sem vorum svo lánsöm að
starfa með honum og aldrei hef
ég heyrt nokkurn mann mæla
hnjóðsyrði um Guðjón.
Guðjón var 18 ár í stjórn
UMFÍ, enn lengur vann hann þó
fyrir sitt héraðssamband Ung-
mennasamband Skagafjarðar, en
þar var hann formaður í um 30 ár.
Hann þjálfaði sundlið UMSS og
unnu Skagfirðingar marga sigra
og stóra undir hans forystu.
Landsmót UMFI var haldið á
Sauðárkróki 1971. Það þurfti
áræði og bjartsýni til að halda
slíkt mót þar. En skemmst er frá
að segja að það er eitt eftirminni-
legasta landsmótið, aðstaða öll
og skipulagning var þeim Skag-
firðingum, undir forystu Guð-
jóns sem þá var formaður, til
mikils sóma.
En það fór ekki hjá því að svo
félagssinnaður maður og Guðjón
er veldist til margra trúnaðar-
starfa. Hann var bæjarfulltrúi á
Sauðárkróki í 24 ár, þar af 4 sem
forseti bæjarstjórnar, og formað-
ur íþróttanefndar bæjarins í 32
ár. Auk þess sat Guðjón um tíma
í Sambandsstjórn ÍSI og stjórn
Sundsambands íslands.
Guðjón hefur verið mikill
gæfumaður í sínu einkalífi, á
góða konu, Ingibjörgu Kristjáns-
dóttur, og eiga þau 7 börn, sem
bera þess vitni að hafa fengið gott
veganesti. Það er gott að sækja
þau hjón heim.
Að síðustu færi ég vini mínum
Guðjóni bestu hamingju og
heillaóskir á þessum tímamótum
og flyt honum þakkir Ung-
mennahreyfingarinnar fyrir mikil
og giftudrjúg störf. Ég á ekki
betri ósk til handa æskulýð þessa
lands, sem Guðjón hefur veitt svo
mikið, en að fleiri slikir menn
komi fram í dagsljósið, sannir
hugsjónarmenn sem eru tilbúnir
að leggja á sig ómælda vinnu til
að láta hugsjónir rætast.
Pálmi Gíslason
SKINFAXI
5