Stúdentablaðið - 01.12.1966, Side 7
Ármann Snœvarr, Hóskólarektor:
Hanclrit
á
heimleið
Fimmtudagurinn 17. nóvember 1966 verður ávallt í minnum hafð-
ur sem einn af merkisdögum í sögu vorri, slíkur fagnaðar- og gleði-
dagur sem hann var gervallri íslenzkri þjóð. Seint mun gleymast,
hve innilega menn glöddust yfir dómsúrslitum í handritamálinu.
Vonir, sem þjóðin hefir lengi alið, um endurheimt helztu dýrgripa
sinna breyttust skyndilega í vissu. Megi fögnuðurinn verða aflvaki
mikilla átaka til rannsókna og útgáfu handrita og gleðin fyrirboði
þess, að einskis verði látið ófreistað til að skapa handritunum ytri
umgerð við hæfi og þó framar öðru að skapa þeim mönnum góð
starfsskilyrði, sem helga sig vísindalegri vinnu við handritin.
Þessi miklu tíðindi eru ekki eingöngu gleðiefni, heldur verða
þau einnig tilefni þakklætis og heitstrenginga.
Vér minnumst með virðingu og þökk margra ágætra manna,
danskra og íslenzkra, sem stutt hafa af drengskap og atorku að
lausn þessa mikilvæga máls. Þar hefir notið við vitsmuna, lagni og
góðvildar margra og gagnkvæms skilnings og virðingar bræðra-
þjóða. Málið hefir verið vandasamt og viðkvæmt, og fáar þjóðir í
víðri veröld hefðu brugðizt jafndrengilega við sem Danir nú. Full-
treysti ég því, að nú takist hin vinsamlegasta samvinna milli danskra
og íslenzkra fræðimanna, er f jalla um íslenzk handrit. Af hálfu Há-
skólans verður lagt kapp á góða og vinsamlega samvinnu við er-
lenda fræðimenn, sem áhuga hafa á rannsóknum á íslenzkum hand-
ritum, og reynt verður eftir föngum að greiða fyrir þeim, sem hér
vilja dveljast við slíkar rannsóknir.
Á íslenzkri þjóð hvílir mikil ábyrgð í sambandi við viðtöku
handritanna. í fögnuði handritaheimtar skyldum vér vera vel minn-
ugir þeirrar ábyrgðar og þess, hvílíkar skuldbindingar vér tökumst á
hendur. Hús fyrir Handritastofnun íslands mun rísa á næstunni, og
ættu fræðimenn að hafa betri tök á að sinna handritarannsóknum
hér i heimalandi handritanna en annars staðar. Margt þarf að gera til
að skapa rannsóknaraðstöðu við hæfi, bæði um húsnæði, rannsókn-
artæki, starfslið til rannsókna svo og bókakost ýmiss konar. Yér ber-
um ábyrgð gagnvart oss sjálfum, sögu vorri og menningu, en einnig
gagnvart vísindum umheims. Þegar þjóðin veitir viðtöku handrit-
unum, tekst hún á herðar gífurlegar skuldbindingar — og ég ber
það traust til íslenzkrar þjóðar, að hún muni vel axla þær byrðar.
Á þessum merku tímamótum minnist Háskóli íslands með virð-
ingu og þökk Kaupmannahafnarháskóla og þess mikla starfs, sem
starfsmenn háskólans eða stofnana, sem honum eru tengdar, hafa
unnið að rannsóknum og útgáfu íslenzkra handrita. Rektorar há-
skólanna tveggja hafa skipzt á kveðjum og látið í ljós sérstaka von
um, að tengslin milli háskólanna megi enn eflast og treyst verði
samvinnan milli danskra fræðimanna og íslenzkra á þeim sviðum,
sem varða íslenzk handrit.
Lokaþáttur handritainálsins fór fram á vettvangi danskra dóm-
stóla. Enginn íslendingur gat haft á móti því, að lagalegur grund-
völlur að afhendingu handrita yrði staðreyndur til hlítar. Vér, sem
bezt þekkjum til gerhygli, hlutlægni og lærdóms danskra dómara,
vissum, að á þeim vettvangi myndu málaefnin ein ráða. Hæstiréttur
Danmerkur hefir með dómi sínum í málinu bætt við merkum þætti
í þriggja alda sögu sína. Dómstóllinn hefir kveðið upp dóm, sem
lengi verður í minnum og ávallt mun þykja í tölu markverðustu
dóma þessa virðulega dómstóls.
Megi íslenzkum handritum vel byrja á heimleið sinni, og megi
heill og gift fylgja þeim mörgu vísindamönnum, sem helga munu
líf sitt og starf hinum óþrjótandi rannsóknarverkefnum, er tengd
eru íslenzkum handritum.
7
STÚDENTABLAÐ