Fálkinn


Fálkinn - 05.09.1962, Síða 18

Fálkinn - 05.09.1962, Síða 18
HLÁTURINN LENGIR LlFIÐ ÞEGAR SÍMON DALASKÁLD var unglingur, var hann smali hjá Jóni bónda á Silfrastöðum. Þótti honum lítið til Símonar koma og skildu þeir með litlum kærleik. Það fylgdi Jóni, að hvar sem hann kom, var hann kenndur við bújörð sína. Hann bjó á Skjaldar- stöðum, og þá nefndur Skjöldungur. Síðast bjó hann á Krossastöðum á Þelamörk, og var þá kallaður Krossi eða Krossastaða-Jón. Fleira var það, sem fylgdi honum. Hvar sem hann fór sýndi hann, að hann var hið mesta snyrtimenni og búhöldur. Ölkær þótti Jón. Fór þá snyrtimennska hans stund- um út um þúfur. Hann bjó um skeið á Eyrarlandi við Akureyri. Var hann þá einu sinni sem oftar staddur niður í kaupstað og án efa við vín. Mætir hann þá Símoni á götu og ávarpar hann: — Þarna ertu þá kominn bölvaður Dalaskíturinn. Símoni rann í skap, þótti kveðjan klúr og köld frá gömlum húsbónda. Grípur hann til síns bitrasta vopns og segir samstundis: Klækjum hlaðinn, hrakyrtur, hér er staddur líka svínskur, graður, sífullur, Silfrastaða-Skjöldungur. Jón gekk burtu rjóður í andliti og kærði sig ekki um að eiga frekara sam- tal við Símon. ★ EITT SINN GISTI Símon á Stóru-Ökr- um og kom þá vestan úr Húnavatns- sýslu. Eftir að hafa þegið góðgerðir, fer hann að segja fréttir, og byrjar svona: — Nú er Símon trúlofaður. Hún heitir Guðríður. 18 FALKINN — Er það myndar-kvenmaður, spyr einhver. — Nefndu nú ekki ósköpin, blessunin mín. Þetta er dæmalaus mæðumann- eskja, hefur átt barn með Sigurbirni flæking. Hún er ósköp einföld, rakar á móti vindi, en bezta sál. Ég hitti hana á Blönduósi og gaf henni hnjá- skjól. Daginn eftir flaug það um allan Ósinn, að Símon hefði verið að rjála við Guðríði undir Blöndubrúnni. (Mjög hneykslaður): Svona er an’skotans kjaftæðið. Sjaldan hefur heimskri konu verið lýst öllu betur en hjá Símoni í þessari frásögn. Það þarf vart að taka það fram, að sú kona, sem notar ekki vindinn til léttis, stígur ekki í vitið. ★ Kjarval hafði gengið fram og aftur um Austurstræti nokkra stund. Hann reykti stóran vindil. Þá nam hann staðar við Pósthúsið og tók að horfa upp í loftið. Beindi hann augunum að fánastöng á háu húsi hinum megin götunnar. Skyggði hann hönd fyrir auga, svo sem hann væri að horfa á eitthvað, sem erfitt væri að festa auga á. Þetta var seinnihluta dags og mann- fjöldi mikill í Austurstræti. Menn fóru nú að staldra við nálægt Kjarval og horfa í sömu átt og hann. — Hvað eruð þið að horfa á, sögðu þeir, sem að komu. — Ég veit það eiginlega ekki, svaraði sá, sem spurður var. —■ Hann Kjarval er að horfa á eitthvað. Brátt staðnæmdust fleiri og fleiri, svo að Kjarval hvarf í þyrpinguna og umferðin á gangstéttinni stöðvaðist alveg. Lögregluþjón bar þar að og spurði, hvað um væri að vera. — Það eru allir kringum Kjarval, sagði strákur nokkur, — hann sér víst eitthvað. Kjarval heyrði ávæning af þessu og sagði allhátt: — Ég er að horfa á flaggstöngina og þið eruð að horfa á flaggstöngina. Það getur vel verið, að það setjist þarna fugl, og þá þætti mér gaman að sjá, hvort hann getur tyllt báðum fótum á svona mjóan topp! ★ SÉRA BJARNI JÓNSSON vígslu- biskup er einn af fylgismönnum bind- indishreyfingarinnar hér á landi. Einhverju sinni var hann beðinn um að flytja ræðu á stúkuþingi, sem háð var í Reykjavík. Á þinginu var salur- inn þéttskipaður áheyrendum. Þá sagði séra Bjarni eftirfarandi sögu um reynslu sína og áhrif áfengisins á líf manna. — Ég ætla að segja ykkur sögu frá bernskuárum mínum. Ég var þá ellefu ára gamall og hafði verið austur í Árnessýslu um sumarið. En nú var komið haust og átti ég þá að fara heim. Svo stóð á, að ég var settur í sam- fylgd með fjórum fullorðnum mönnum, sem voru á suðurleið. Við vorum auðvitað ríðandi, því að önnur farartæki voru ekki notuð. Segir nú ekki af ferðum okkar, fyrr en við komum að Helisheiði. Þá tók að hvessa og rigna og var fyrirsjáan- legt uppgangsveður. Og þegar við vorum komnir á miðja heiðina, var komið versta veður. Okkur þótti nú öllum veðrið kalsa- legt og að okkur sótti hrollur. Þá tók einn félaganna upp brennivíns- flösku, saup vel á, rétti félögum sínum síðan flöskuna og sagði: — Þetta ætti að taka úr okkur mesta hrollinn. Og þeir supu allir á. Buðu þeir mér að smakka á og sögðu, að það skaðaði ekki, þótt ég dreypti á mér til hressingar. Ég skalf af kulda og var að verða gegndrepa, en sagði: — Nei, ég smakka ekki á þessu hjá ykkur. Við héldum síðan áfram í þessu ó- hemju veðri, og alltaf voru félagar mínir að dreypa á flöskunni, og alltaf sögðu þeir við mig: — Fáðu þér svolítinn sopa. Þú drepst annars strákur. En ég sagði alltaf: — Nei, það skal ekki dropi af því inn fyrir mínar varir. Meðan séra Bjarni sagði frá þessu, var auðséð á áheyrendum, hvað þeim fannst ofstæki vínmanna takmarkalaust, þar sem þeir ætluðu því nær að neyða drenginn til þess að taka í staupinu. Sumir höfðu lagt hendur í skaut og horfðu með aðdáun á ræðumann, svo sem þeir hugsuðu: — Snemma hefur séra Bjarni verið staðfastur gegn freist- ingunum. Og ræðumaður hélt áfram: — Að lokum komum við að Kolviðar- hóli illa til reika, rennblautir og slæptir, og þótti gott að koma í húsaskjólið. En þar héldu ferðafélagar minir áfram að drekka brennivín og sögðu enn við mig: — Fáðu þér með okkur og hresstu þig- — Ég hef ákveðið að smakka aldrei vín, sagði ég. Og þeir drukku, en ég drakk ekki. Hér þagnaði séra Bjarni andartak, en fólkið beið andaktugt eftir sögulok- unum: Þá mælti hann: — En það var nú svona: Ég stend hér og segi ykkur frá þessu, en þeir, sem drukku eru allir dánir. ★

x

Fálkinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.