Fréttablaðið - 07.10.2009, Blaðsíða 25

Fréttablaðið - 07.10.2009, Blaðsíða 25
MIÐVIKUDAGUR 7. OKTÓBER 2009 3umhverfi sþing 2009 ● fréttablaðið ● Unnsteinn Manuel Stefáns- son og Sigríður Ólafsdóttir, nemendur við Menntaskólann við Hamrahlíð, hittu Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráð- herra í tilefni af Umhverfis- þingi en Unnsteinn og Sigríður munu taka til máls á þinginu. Þau ræddu um endurnýtingu fyrr og nú, samgöngur og betri umhverfisvænni borg. Þegar þú varst að alast upp Svand- ís – hvað var endurnýting í þínum huga og hjá fólki í kringum þig? Og hvernig er umhverfismálum og endurnýtingu hagað á ykkar heimilum í dag – Unnsteinn og Sigríður? Svandís: Endurnýting er mjög nýtilkomin á Íslandi. Ég man eftir að hafa verið úti á landi um tvítugt þar sem þótti eðlilegt að sturta ruslinu út í sjó. Á þeim tíma snerist endurnýting mun frem- ur um nægjusemi og nýtingu, að klippa skálmarnar neðan af bux- unum og breyta þeim í stuttbux- ur eða föndra úr eggjabökkum og þvo gamlar sultukrukkur. Í brjál- æðinu árin 2005, 2006 og 2007 var það svo þannig að ef eitthvað bil- aði henti fólk því bara og keypti nýtt. Tæki og tól síðustu ára eru líka mörg þannig gerð að þau end- ast ekki. Ryksugan sem pabbi og mamma fengu í brúðargjöf árið 1964 var enn þá til árið 2005. Nú endast raftæki í mjög stuttan tíma sem þykir bara eðlilegt. Tækni- nýjungarnar ættu hins vegar að geta leitt til þess að maður þyrfti ekki stöðugt að endurnýja hlut- ina. Sigríður: Á mínu heimili hefur dósasöfnun alltaf verið í gangi og svo höfum við farið með ónýta hluti í Sorpu. Einu sinni var átak og lífrænn úrgangur flokkaður en það entist í ár. Unnsteinn: Heima hjá mér er þetta meira gert í syrpum. Eins og oft þegar verið er að safna peningum fyrir kórferðir og slíkt. En annars hefur endurnýt- ing ekki verið þema hjá okkur. Ég dvaldi einu sinni í útlöndum í heilt sumar og tók þá eftir því að þar var miklu meiri hvatning í gangi fyrir fólk að skila af sér gosum- búðum til dæmis því fólk fékk talsvert fyrir að skila og endur- vinnslan sjálf var aðgengileg. FLESTIR FÉLAGARNIR Á BÍLUM Hvernig sjáið þið fyrir ykkur um- hverfisvænar framtíðarsamgöng- ur í landinu? Sigríður: Eins og staðan er í dag á Íslandi veit maður að það er ekki mikið hægt að gera á Ís- landi til að breyta samgöngu- kerfinu. En hins vegar er strætó- kerfið í borginni alveg skelfilegt, fyrir ungt fólk eins og okkur Unn- stein. Við erum mörg hver komin með bílpróf og erum á einkabílum því kerfið er svo gallað. Ég held að þar skipti ekki höfuðmáli að lækka fargjaldið heldur að bæta leiðirnar og fjölga þeim – það er helst það sem stöðvar mann í að nota strætó. Ég man til dæmis þegar ég var einu sinni á Krít þá var strætó þar sem kom bara einhvern tímann – á klukkutíma fresti – og mér fannst það næst- um betra en kerfið er til dæmis hér heima um helgar. Um helgar þegar ég er að keppa í íþróttum er ég kannski einn og hálfan klukku- tíma á leiðinni á mótið með stræt- isvagni. Flestir vinir mínir keyra í skólann á eigin bíl eða á bíl for- eldra. Unnsteinn: Ég sé alveg fyrir mér að í framtíðinni – hér í mið- bænum og fyrir fólk sem býr mið- svæðis – sé hægt að sleppa því að vera á einkabíl. Mér finnst lestar- kerfi í Reykjavík líka spennandi möguleiki en ég er mjög hrifinn af metróinu erlendis. Við félag- arnir erum ýmist í strætó eða bíl en til dæmis hvað varðar kóræf- ingar og slíkt, sem eru á kvöldin, þá eru allir á bíl. Sigríður: Ég held að ef strætó- kerfið sé gott þá sé fólk ekkert að kvarta yfir verðlaginu á ferðum – það er til dæmis reynslan úti í Danmörku, að Danir kvarta ekk- ert yfir verðinu þar sem þeir eru svo ánægðir með leiðakerfið. Svandís: Unnsteinn var með mikilvæga ábendingu um að geta farið allra sinna ferða fótgang- andi, á hjóli eða í strætó, og þar skiptir skipulagið öllu máli. Til dæmis er Reykjavík mjög dreifð og er skipulögð svolítið eins og amerísk borg. Mikið er um út- hverfi sem eru ekki sjálfbær, heldur svæði þar sem fólk sefur og dvelur í seinni part dags og á kvöldin. Fólk sækir þá nám og vinnur yfirleitt annars staðar. Menning og íþróttir eru líka oft sótt í önnur hverfi. Skipulag hefur mest áhrif á ferðavenjur og ég held að við höfum ekki verið nógu meðvituð um það. Við þyrftum að byggja þéttar og hugsa líka um að hverfin séu sjálfbær. Við þurfum til dæmis að standa vörð um hverfisbúðir – að hægt sé að kaupa bækur og í matinn í hverf- inu, fara í sund og allt sem er mikilvægt út frá því að menning og mannlíf þrífist. Hverfin í er- lendum borgum sem heilla mann mest eru einmitt hverfin þar sem slátrarinn er á einu horninu og skósmiðurinn og bíóið á öðru. Til dæmis ef Vatnsmýrin væri þétt- byggð gæti þrifist þar umhverfis- vænn borgarhluti fyrir framtíðar- kynslóðir og þannig er Vatnsmýr- in mikilvægt umhverfismál fyrir Reykjavík og landið allt. SKIPT UM HLUTVERK Nú skuluð þið skipta um hlutverk. Þið, Unnsteinn og Sigríður, fáið það verkefni að sinna starfi um- hverfisráðherra í eina viku og þú Svandís ert 18 eða 19 ára gömul og getur eytt tómstundum þínum í að vinna að einhverju umhverfis- tengdu málefni. Hvað ætlið þið að taka ykkur fyrir hendur í nýja hlutverkinu? Svandís: Ef ég væri 18 ára myndi ég örugglega reyna að búa til einhvern félagsskap í kring- um umhverfismál. Ég myndi helst vilja sjá ungmennanet um allt land sem í væru frumkvöðl- ar í umhverfismálum. Ungt fólk er fólkið sem tekur við jörðinni sem við hin erum að taka ákvarð- anir um. Unnsteinn: Frjálshyggjan hefur verið mjög áberandi undanfarin ár og nánast verið tabú að vera með eitthvað ríkisrekið. Ég myndi til dæmis vilja stofna Grænmetis- búð ríkisins sem væri hér niðri í bæ sem væri með íslenskri fram- leiðslu og væri með gott verð á grænmeti. Sigríður: Ég er sammála Unn- steini og einnig myndi ég vilja hafa einhver áhrif á strætókerf- ið, því það finnst mér skipta miklu máli. Einnig mætti efla meðvit- und og virðingu fyrir landinu sem við búum í. Svandís: Eins og Sigríður nefn- ir er náttúruverndin mjög mikil- væg. Því þrátt fyrir hrunið er svo margt sem við eigum og er ekki farið – þar á meðal landið okkar, sem er algerlega ómetanlegt. Sigríður: Túristar sem koma hingað vilja helst skoða landið. Svandís: Einmitt og kannan- ir sýna að ferðamenn sem koma hingað séu helst að sækja eftir því að upplifa náttúruna. Því verð- um við að átta okkur á því að við megum ekki ganga á náttúruna á kostnað kynslóðanna sem verða hér eftir fimmtíu eða 100 ár. Við höfum ekki leyfi til þess. Þetta er sjálfbær þróun – að við verð- um alltaf að hugsa í allri ákvarð- anatöku – hvort sem við erum að taka ákvörðun um strætókerf- ið, endurvinnslu eða Þjóðleikhús- ið – þá þarf ég alltaf að hugsa um komandi kynslóðir. Orðið sjálf- bær þróun þýðir að við þurfum að gefa náttúrunni, umhverfinu, samfélaginu og efnahagnum allt- af til baka, jafnmikið og tekið er. ÞURFUM AÐ TALA SAMAN Að lokum. Svandís – hvaða spurn- ingu viltu leggja fyrir Unnstein og Sigríði? Og hvers viljið þið, Sigríður og Unnsteinn, spyrja Svan dísi? Unnsteinn: Hvernig muntu reyna að færa umhverfisráðu- neytið úr hlutverki ráðuneyti sem þrífst á boðum og bönnum í ráðu- neyti sem talar til fólks? Svandís: Þessi spurning er sú sama og ég spurði mig þegar ég varð umhverfisráðherra. Um- hverfismálin eru svo mikilvæg- ur málaflokkur og þarf að vera miklu miðlægari og fela í sér sóknarfæri en ekki snúast um að vera með puttann á lofti. Hvernig á að gera það – jú – til dæmis með því að tala við ykkur. Ég veit að ég finn ekki öll svörin með því að tala við sjálfa mig. Ég lít svo á að ég sé í vinnu hjá ykkur og fram- tíðinni. Líka skiptir miklu máli að efla umhverfissýnina í öðrum ráðuneytum. Sigríður: Nú eftir að umhverf- isþinginu lýkur, hvað tekur þá við – hverju langar þig að breyta? Svandís: Mig langar til þess að umhverfismálin verði ofar í huga Íslendinga. Það sem væri allra best væri að allir tækju höndum saman og segðu: Við ætlum að búa til sjálfbært Ísland árið 2020 og við ætlum að vera fyrst í heimi til að ná því markmiði. Við ættum þá að geta sýnt með stolti, öðrum þjóðum, hvernig við komumst út úr kreppunni – með breyttri for- gangsröðun, heildarsýn og rót- tækri uppstokkun. Nú spyr ég ykkur: Finnst ykkur þetta sem við erum að gera núna, skipta máli, til að vekja ungt fólk til umhugsunar um það sem er í gangi í umhverf- ismálum? Unnsteinn: Já, mér finnst það. En það þyrfti að taka ákveðinn hallærisbrag af þessum mála- flokki, sem virðist loða við hann stundum. Í auglýsingum um um- hverfismál eru þau oft gerð minna alvarleg en þau í raun eru – með því að veifa einhverjum lukkudýr- um og slíku. Alvarleikinn er miklu meiri en okkur er gerð grein fyrir – og tónninn mætti vera sá í aug- lýsingum líka. Þetta er okkar framtíð. Sigríður: Ég held að þetta hafi áhrif, já. Og ef við ætlum að gera umhverfisþing að föstum lið – er það gott og jafnvel fara neðar í bekkina – fara til yngri krakka sem eru virkir í þessu og opnir. Svandís: Ég sé nefnilega fyrir mér að hægt sé að búa til ung- mennaráð umhverfismála sem er þá nánast eins og ráðgjafaráð ungs fólks fyrir umhverfisráð- herra. Það er grundvallaratriði að hafa samráð við ungt fólk um framtíð landsins og jarðarinnar allrar. - jma Stefnt að sjálfbæru Íslandi 2020 Unnsteinn Manuel Stefánsson, Sigríður Ólafsdóttir og Svandís Svavarsdóttir vildu gjarnan sjá samgöngur betri í borginni. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.