Iðnneminn - 01.09.1967, Side 34

Iðnneminn - 01.09.1967, Side 34
SMÁMUNUM (!) „REDDAД Kunningi minn og þjáningabróðir (við erum báðir iðnnem- ar) hitti mig á förnum vegi um daginn og eftir að við höfðum rabbað um daginn og veginn og alla helztu viðburði, eins og til dæmis Kýpurskýrslu Stefáns Jónssonar fréttamanns o.fl. barst tal okkar að okkur sjálfum og þá auðvitað fyrst og fremst að náminu. — Hvernig gengur þér í húsasmíðinni? spurði ég. — Oh, mér gengur sæmilega, svo langt sem það nær. — Hvað áttu mikið eftir? — Látum okkur sjá, ég á víst ekki eftir nema fjóra mán- uði. Mér fannst ég yrði að samgleðjast honum og sagði: — Mikið helvíti átt þú gott maður, bráðum búinn, já og reykir meira að segja Camel, það hvíla ekki skuldirnar á þér, en ég greyið er á kafi í skuldum og er þó bara búinn með tvö ár. — Ég hef verkamannakaup. — Heyrðu, svo langt sem það nær, sagðirðu áðan, hvað meintirðu með því? — Jú, sjáðu til, ég hef lært vel það, sem ég hef unnið við, en þó hugsa ég, að ég falli á prófinu. — Hvað er að heyra þetta maður, því heldurðu það? — Það get ég sagt þér. Frá því ég byrjaði að læra og þang- að til núna hef ég að mestu unnið við mótauppslátt, og er því eins og byrjandi á öðrum sviðum. í öll þessi ár hef ég ekki komið á verkstæði til að vinna, hvernig heldurðu svo að fari fyrir mér á prófinu, það má kallast kraftaverk, ef ég skríð í gegn. — Ja, mér þykir þú segja tíðindin, og hvernig stendur á þessu? — Það stendur þannig á því að karlinn (meistarinn) hef- ur tekið öll húsin í akkorði, og strax, við fyrsta hús var ég lát- inn í mótauppslátt, og fljótlega varð ég svo æfður að slá upp mótum, að það hefði skert gróða karlsins allverulega, ef hann hefði látið mig í annað verk. Svona er það með hina lærling- ana, hann hefur látið þá vinna allan námstímann við það verk, sem þeir hafa náð mestri æfingu í. — Þetta þykir mér vera kænn náungi, sagði ég. — Uss, blessaður vertu, þetta er ekki meira en þeir gera allflestir. — Nei, er það, er ástandið svona slæmt? — Já, því miður, og víða verra. Við lærlingarnir gegnum sama hlutverki fyrir meistarana og mergurinn fyrir manninn. — En hvernig var það, gaztu ekki gert röfl útaf því? — Jú, það held ég, ég röflaði. — Og hvað þá? — Það var eins og karlinn hefði étið óðs manns skít, hann brjálaðist. — Hvað sagði hann? — Það var nú minnst sem hann sagði, en allt, sem hann gerði, það var meira, hann óð um eins og berserkur með ham- ar í annarri hendinni og fírtommu nagla í hinni, berjandi og sparkandi í allt, sem fyrir varð, hvílík djöfuls læti maður, það hefðirðu átt að sjá, og svo öskraði hann: „Þú — þú, sem ég tók fyrir mestu náð og leyfði að læra hjá mér, þú vogar þér að bera mér á brýn að ég svíkist um að kenna þér, ja — meira að segja dróttar því að mér að ég hafi þig eingöngu til að græða á þér, aldrei hefur mér verið gerð önnur eins svívirða", og svo pípaði hann um nöðrur, sem menn ala við brjóst sér, eða eitthvað svoleiðis, þú skilur. — Já, ég skil það. Nú og hvað meir, hvernig endaði svo orustan? — Hún endaði með því að ég brjálaðist líka, og hótaði Iðn- fræðsluráði og þá fór nú að syngja í mótornum maður, svo stökk karlinn burtu, en sagði um leið að hann skyldi athuga málið. — Gerði hann það þá? — Hann kom til mín daginn eftir og bauð mér verka- mannakaup. — Og hvernig brást þú við? — Ja, mér var skapi næst að neita, en þegar ég hugsaði um stíflaða pípu, sólalausa skó og fiskinn á Laugavegi 28 þá stóðst ég ekki freistinguna, og síðan hef ég haft verkamannakaup. — Og unnið við mótauppslátt? spyr ég. — Já, bara mótauppslátt, og hvert sinn, sem ég hef mögl- að þá hefur hann hótað að svipta mig kaupinu. Ég sýndi hon- um fram á að það væri ekki síður leitt fyrir hann en mig ef ég félli á prófinu. Hann sagði: „Blessaður vertu ekki að hafa áhyggjur af því, ég get nú „reddað" svoleiðis smámunum", og það er mín einasta von. — Já, við skulum vona að honum takist að „redda" svoleiðis smámunum, sagði ég og síðan skildum við. En mér varð hugsað til þess á eftir, hvað á íslenzka þjóðin marga „fagmenn", sem notaðir voru til að græða á þeim, með- an þeir áttu að læra fagið, en var svo „reddað" um „smámuni" eins og sveinsbréf, og hvað hefur þjóðin efni á að láta þá verða marga enn, en eitt er víst, svona verður þetta þangað til verk- námsskólar koma. (Úr gömlum Iðnnema). 34 I Ð N N E M I N N

x

Iðnneminn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Iðnneminn
https://timarit.is/publication/361

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.