Ljósberinn - 01.04.1960, Blaðsíða 6

Ljósberinn - 01.04.1960, Blaðsíða 6
GULLTOPPUR ☆ Gulltoppur var kanarífugl. Helena fékk hann á afmælisdaginn sinn, þegar hún var átta ára, frá pabba sínum. Pabbi hennar var stýrimaður á skipi, sem var í millilandasigl- ingum. Hún hafði fengið marga fallega hluti frá pabba sínum, en enginn jafnaðist á við Gulltopp. Það glampaði á hann í ótrúlega mörgum litum, og hann kvakaði og hoppaði um í búrinu sínu. Hún þreyttist aldrei á að horfa á hann og dást að honum. Besta vinkona Helenu hét María, og hún var ekki síður hrifin af fuglinum. Hún klapp- aði saman lófunum og söng: Gulltoppur hoppar og skoppar, Gulltoppur aldrei stoppar--------! Á hverjum degi kom María til að horfa á Gulltopp, en dag nokkurn kom hún ekki. Þegar Helena fór daginn eftir til að gæta, hvað væri að, fékk hún að vita, að María væri alvarlega veik. Enginn fékk að fara inn til hennar nema mamma hennar og stúlka, sem hjúkraði henni. Helena varð leið í skapi, og henni fannst eins og Gulltoppur yrði leiður líka. María var send á sjúkrahús, og það liðu margar og langar vikur áður en hún kom heim aftur. Og jafnvel þá kom hún ekki hlaupandi til þess að sjá Gulltopp. María gat ekki hlaupið lengur. Hún gat ekki einu sinni gengið. Hún varð að sitja kyrr í hjólastól og varð að láta aka sér. María var orðin lömuð í fótunum. Helena átti bágt með að trúa þessu. Átti María aldrei eftir að ganga framar, og hoppa og leika sér? Var nokkur meining í þessu? Mamma hennar reyndi að hugga hana og skýrði út fyrir henni, að það væri margt fólk bæði ungir og gamlir, sem yrðu að sætta sig við slíkt hlutskipti. Hvers vegna Guð hafði það þannig, vissi hún ekki, en hún var viss um, að Helena gæti ekki gert neitt betra en að gleðja Maríu, svo að hún gæti, — í það minnsta um stundarsakir, — gleymt þessum slæma sjúkdómi, sem þjáði hana. Þetta tók huga Helenu fanginn. Á hverjum morgni hugsaði hún: Hvernig get ég glatt Maríu í dag? Morg- un nokkurn datt henni allt í einu í hug: Kanarífuglinn! Helenu hitnaði og kólnaði á víxl við um- hugsunina. Ætti hún að gefa Gulltopp.--? Að lokum varð hún að tala um þetta við mömmu sína. Mamma var ekki í neinum vafa. Þótti Helenu í raun og veru mjög vænt um Gulltopp? Hafði hún ekki vanrækt hann undanfarið? Og þarna sat Gulltoppur og kvakaði án þess að nokkur hlustaði á hann. Ef María fengi hann, mundi hann eignast góð- an vin og áheyranda. Helena gæti líka hlaup- ið til og séð hann eins oft og hún vildi. Mamma sagði líka meira. Nokkuð, sem var dálítið háfleygt fyrir Helenu, en mömmu fannst hún geta hugsað um það. Hún sagði, að María og Gulltoppur hefðu það svipað að vissu leyti. Hvorugt þeirra gat hreyft sig frjálst, en þau urðu að halda sig við ,,búrið“ og reyna að gleðjast þrátt fyrir það. Það voru margvíslegar hugsanir, sem bærðust í huga Helenar, þegar hún gekk af stað með Gulltopp. Hún var full af eftirvænt- ingu, alvöru, þakklæti, sorg og gleði, allt í senn. En þegar hún var komin alla leið, var það gleðin, sem hafði náð yfirtökunum. Þeg- ar hún sá, hve María ljómaði af gleði, hvarf öll sjálfsmeðaumkun. María gat að vísu ekki hoppað af gleði, en hún fékk tár í augun af gleði. Síðan rétti hún út veiku hendurnar sínar og hrópaði: Gulltoppur kemur og gleður mig, Gulltoppur, — mér þykir vænt um þig. — Hver veit, nema María eigi eftir að ríma margar fallegar vísur í framtiðinni, sagði móðir Helenu, þegar hún kom heim og sagði frá móttökunum, sem Gulltoppur hafði fengið hjá Maríu. L J ÓSBER'INN 38

x

Ljósberinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósberinn
https://timarit.is/publication/362

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.