Vikan


Vikan - 06.07.1939, Blaðsíða 20

Vikan - 06.07.1939, Blaðsíða 20
20 VIKAN Nr. 27, 1939 Gömul saga og ný. Eftir Guðmund Friðjónsson, skáld. Sú saga er æfagömul og líka glæný, að synir ríkra manna eða efnaðra eru letingjar og eyðslubelgir, leggjast í drykkjuskap o. s. frv. Allir læsir menn, og þeir, sem komizt hafa í kristinna manna tölu, kannast við dæmisöguna um glataða soninn, sem átti efnaðan föður. Það er skjalfest í málsháttabókinni, að betra sé bónda að hljóta húsbruna á fyrsta búskaparári en hvalreka. Þetta spakmæli hnígur eigi að því, að gott sé að hreppa brunabótagjaldið, því að vátryggingar voru þá eigi á takteini. En svo var litið á, meðal spakra lífsreynslumanna, að óvænt höpp mundu draga úr forsjálni manna og aftra sparsemi frá því að nýta efni sín. Ógæfa efnamannasona mundi stafa af því, að þeir þurfa ekki að horfast í augu við örðugleika, eru eigi neyddir til at- hafna. Þeir hugsa á þá leið, að þeim sé lagt upp í hendurnar nægilegt fé til gleði og gæfu, eða allra nauðsynja. Svo hneigjast þeir smám saman til skemmtanalífs og nautna, aðgerðaleysis og dáðleysis. Ég las nýlega í útlendu blaði frásögn af feðgum tveim í Ungverjalandi, og var karlinn efnaður bóndi, sínkur á fé, svip- aður Þorleifi heitnum á Háeyri, og viti- borinn vel. Sonur bónda var latur og hneigðist smám saman til ofdrykkju. Þar að auk varð honum það á, sem Sverrir konungur segir í ræðu um drykkjumenn, að þeir grípi til kvenna. Þessi bóndason lét þó verða trúlofun úr gamninu. En ekki varð Kárlinn léttbrýnn, þegar hann sá tengdadóttur sína. Hún var samvalin syni karls og fullkomin landeyða í háttum og klæðaburði. Bóndinn áminnti son sinn alla tíð og reyndi að snúa honum á rétta leið. En strákurinn vildi eigi hugsa um aftur- hvarf og fór sínu fram. Hann treysti á auð föður síns, vissi að hann átti jörð og bú skuldlaust, og bjóst við inneignum og fésjóðum, þar að auk. Svo deyr bóndi skyndilega og kemur þá upp úr kafinu að strákur fær í arf, auk bús og jarðar, 900,00 krónur. Nú lætur þessi gosi vaða á samskonar súðum sem áður og reka lætur frúin hans á reiðanum slíkt hið sama. Eigi leið á löngu, þar til 900,00 krónurn- ar voru gegnar í súginn, og búið veðsett ásamt jörðinni. Frúin dró sína stássrófu um húsin, og bóndi hennar bar hala sinn því lægra, sem nær dró því að hann flosnaði upp. Þar kemur að lokum, að hann leitar til lögfræðings þess, er verið hafði ráðgjafi föður hans, og spurði ónytjungurinn lög- manninn, hvort hann hefði engin skjöl í fórum sínum, sem sýndu það, að faðir sinn hefði átt meira fé, en uppi var látið. Lög- maður glotti þá og sýndi ræflinum skjal, sem faðir hans hafði látið eftir og var ráð- legging á skjalinu. Hún mælti svo fyrir, sem nú skal greina: Þegar þú, sonur minn, ert búinn að sóa búinu, jörðinni og þínum 900,00 krónum, skaltu ganga út í f jóshlöðuna. Þar hangir reipi og er öðrum enda þess brugðið um bita. Þú skalt hengja þig í þessu reipi og gera þannig enda á þínu auma lífi. Ógæfumanninum brá mjög í brún, svo sem nærri má geta, fór þó heim með þessa fyrirskipun og sýndi konu sinni. Frúin svitnaði af angist og skelfingu, þurrkaði framan úr sér farðalitina og féll í grát. Maðurinn konunnar sinnar gekk út frá frúnni — og til hlöðunnar. Konan skældi, þar til uppsprettur táranna rénuðu. Og þá fór henni að lengja eftir bónda sínum. Hún gengur þá út í f jóshlöðuna og finnur bónda sinn sitjandi þar, flötum beinum. En kringum hann liggja á hlöðugólfinu óteljandi peningar. Hvað er hér um að vera, spyr frúin. Hann kemur naumast upp orði, en getur þó mælt, að lokum, á þessa leið. Þegar ég var búinn að sannfæra mig um það, að ég gæti eigi annað tekið til bragðs, en fylgja ráðum föður míns, þó seint væri, gerði ég snöru og festi um háls mér. En þegar þungi líkama míns kom til sögunnar, losnaði um útbúnað í bitanum, með þeim árangri, að þessir peningar, sem þú getur séð, féllu yfir mig. Þetta eru úrslita ráð föður míns til að bjarga mér, og þau skulu verða bjargráð. Hjónin sópuðu saman fénu og — byrj- uðu nýtt líf. Hann hætti að drekka og gerðist iðju- maður, borgaði skuldir sínar, og konan varð honum samhent. Myndir fylgja frásögn blaðsins og má af þeim marka, að karlinn hefir verið íbygginn og útundir sig. Hjónaleysin eru sýnd í tilhugalífinu — meðan hann var gosi og hún trippatróða — sem svo er kallað á Suðurlandi, en í Norðurlandi eru þess háttar tátur nefnd- ar strákastírtlur. Guðmundur Friðjónsson, skáld, frá Sandi, hefir sent Vikunni þessar stökur, sem hann orti á heimleið til Norðurlands fyrir skömmu: Á Miðf jarðarhálsi. Gefur sýn um láð og lög, lengi kvölds og morgna; þar sem Gretti þjakaði mjög þungur dómur norna. Gengur bíll við gleðisöng greitt í sólarljósi. — Óðum styttist langa löng leið að Blönduósi. Borgin sefur. Umferð á strætum stillzt og hljóðnað hefur, stígarnir auðir, hvergi neinn á ferli. Þreyttir af dagsins miklu önn og erli allir í draumaheimi. — Borgin sefur. Hér voru áður óp og köll og læti, öskrandi bílar, hópar fólks á göngu. Gjörvallur þys er þorrinn fyrir löngu. Þögult er nú og mannlaust Austurstræti. Nótt hefur völdin. Eins og ástrík móðir órólegt barn að hjarta sínu vefur, faðmar hún að sér íslands höfuðborg. Dýrmæt er hvíldin, allir andar góðir yfir þeim haldi vörð, er þreyttur sefur. — Bráðum mun dagur ljóma’ um Lækjartorg. Gils Guðmundsson.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.