Vikan


Vikan - 17.08.1939, Blaðsíða 9

Vikan - 17.08.1939, Blaðsíða 9
Nr. 33, 1939 « VIK AN 9 FLUGAN. Smásaga eftir Katherine Mansfield. að er. notalegt og skemmtilegt hérna hjá þér, sagði Woodifield og horfði píreygður upp úr stóra, græna leðurstóln- um við skrifborð vinar síns og húsbónda, eins og ungbarn, sem horfir upp úr vöggu sinni. Samtahnu var lokið og kominn tími til að fara. En hann kærði sig ekki um að fara. Síðan hann hafði hætt störfum, síð- an hann fékk . . . slagið, höfðu konan hans og dætur haldið honum heima alla daga vikunnar, nema þriðjudaga. Á þriðjudög- um var hann klæddur í betri fötin, þveginn og strokinn, og leyft að fara inn í borg- ina. En hvað hann var að gera þangað, gátu konan hans og dætur ekki ímyndað sér. Það var ekki til annars en ama og leiðinda fyrir vini hans og kunningja . . . Nú, það gat vel verið. En við höldum nú einu sinni dauðahaldi í okkar síðustu ánægju, eins og tréð heldur dauðahaldi í síðustu blöðin. Og þarna sat þá Woodifield gamli, reykti vindil og starði næstum gráð- ugum -augum á húsbónda sinn, þar sem hann sat makindalega í skrifstofustólnum, feitur og blómlegur, fimm árum eldri en hann, og enn í fullu f jöri. Það var ánægju- legt að sjá hann þannig. — Já, það er svei mér notalegt hérna hjá þér, sagði hann aftur með löngunar- og aðdáunarhreim í skjálfandi röddinni. — Já, það er viðkunnanlegt, sagði hús- bóndinn og skar upp úr „Fjármálatíðind- um“ með pappírshnífnum. Hann var hreyk- inn af skrifstofunni sinni, og honum þótti gaman að heyra aðra dást að henni, eink- um þó Woodifield gamla. Það fyllti hann djúpri og innilegri ánægju að sitja þarna, í þessu umhverfi, fyrir augum þessa hrör- lega gamalmennis með stóra hálsklútinn. — Ég er nýbúinn að láta endurbæta hana, sagði hann til skýringar, eins og svo oft áður undanfarnar vikur. — Nýtt vegg- fóður, hann benti á ljósrautt veggfóðrið með stórum, hvítum hringum. — Ný hús- gögn, hann kinkaði kolli í áttina til stóra bókaskápsins og borðsins með útskornu fótunum. — Rafmagnsupphitun! Hann benti hreykinn á fimm gagnsæja, sívala vindinga, sem glóðu mildu, rauðu skini í hvelfdri koparpönnu. En hann dró ekki athygli Woodifields gaml'a að Ijósmyndinni, sem stóð á skrif- borðinu. Hún var af alvörugefnum ung- lingi í einkennisbúningi, með draugalegum trjám og stormþrungnum skýjum ljós- myndatjaldsins að baki. Það var ekki nýtt. Það hafði staðið þarna í sex ár. — Það var eitthvað, sem ég ætlaði að segja, sagði Woodifield gamli. Svipurinn var hugsandi. — Hvað var það nú? Ég mundi það, þegar ég fór að heiman í morg- un. Hendur hans fóru að skjálfa, og dílar komu í ljós fyrir ofan skeggið. Karlanginn er genginn í barndóm, hugs- aði húsbóndinn, og skyndilega gripinn óvæntri góðvild, bandaði hann með hend- inni til gamla mannsins og sagði kankvís- lega: — Bíddu bara við. Ég á hérna svo- lítið tár á glasi til að styrkja þig á, áður en þú ferð út í kuldann. Það er indælis dropi. Hreinasti barnadrykkur. Hann tók lykil, sem hékk við úrfestina, opnaði skáphurð- ina undir skrifborðinu og dró fram svarta, vambmikla flösku. — Þetta er lyfið, sagði hann. — Og maðurinn, sem ég fékk það hjá, sagði mér í trúnaði, að það kæmi úr kjallara Windsorhallarinnar. Neðri skolturinn á Woodifield gamla féll máttlaus niður, þegar hann sá flösk- una. Hann hefði ekki getað orðið meira undrandi, þó að húsbóndinn hefði dregið fram rauðan kött. — Það er whisky, eða hvað ? sagði hann og rýndi sljóum augunum í flöskuna. Húsbóndinn sneri flöskunni og sýndi honum flöskumiðann. Það var whisky. — Trúirðu því, sagði hann og horfði með aðdáunaraugum á húsbóndann, — þær vilja ekki lofa mér að snerta það heima. Það leit út fyrir, að hann ætlaði að fara að gráta. — Það berum við nú betur skynbragð á en kvenfólkið, sagði húsbóndinn og sótti tvö ölglös, sem stóðu á borðinu með vatns- könnunni og hellti drjúgri lögg í bæði glös- in. — Súptu það í einum teyg. Það er styrkjandi, og settu ekkert vatn út í það. Það er vanhelgun, að blanda vatnssulli í slíkan dánudrykk. — Ah! Hann tæmdi sitt glas, dró upp vasaklútinn, þurrkaði yfir- skeggið og deplaði augunum til Woodifield gamla. Gamli maðurinn svolgraði úr sínu glasi, þagði andartak og sagði svo: — Það krassar! Það velgdi honum, streymdi upp í heil- ann, gamlan og kaldan — nú mundi hann það. — Nú man ég það, sagði hann og reis með erfiðismunum upp úr stólnum. — Ég hélt kannske, að þig langaði til að vita það. Telpurnar fóru til Belgíu í vikunni sem leið, til þess að líta eftir leiðinu hans Reggies litla, og þá rákust þær á leiði sonar þíns. Það var rétt hjá. Woodifield gamli þagnaði, en húsbónd- inn svaraði ekki. Aðeins örlítill titringur á augnalokunum sýndi, að hann hafði heyrt, hvað sagt var. — Telpurnar voru ánægðar yfir því, hvað leiðunum var vel við haldið, sagði gamli maðurinn. — Það er vel hugsað um þau. Það gæti ekki verið betra, þó að þau væru heima. Hefirðu komið þangað? — Nei, nei! Það voru ýmsar ástæður fyrir því. — Það eru mílnalangar breiður af þeim, sagði Woodifield gamli skjálfraddaður, — og öll snotur garður. Það vaxa blóm á hverju leiði. Breiðir, fallegir gangstígar á milli. Það var auðheyrt á röddinni, hve breiðu, fallegu gangstígarnir voru honum hugstæðir. Það varð aftur þögn. Allt í einu lifnaði yfir gamla manninum. — Veiztu, hvað telpurnar urðu að borga fyrir glasið af ávaxtamaukinu á gistihús- inu? Tíu franka! Ég kalla það okur. Og það var lítið glas, sagði Gertrude, ekki stærra en tveggjakrónu peningur. Hún var ekki búin að fá sér meira en eina matskeið, þegar þeir komu og kröfðu hana um tíu franka. Gertrude tók með sér glasið, þeim til áminningar. Það var alveg rétt af henni. Þetta er að gera sér tilfinningar okkar að féþúfu. Þeir halda, að af því að við séum í þessum erindum, séum við reiðubúin til að borga hvað sem er. Svona er það. Hann sneri sér í áttina til dyranna. — Alveg rétt, alveg rétt! sagði hús- bóndinn, en hvað það var, sem var alveg rétt, hafði hann ekki hugmynd um. Hann stóð upp frá skrifborðinu, opnaði dyrnar fyrir gamla manninum, og hjálpaði honum út. Woodifield var farinn. Lengi stóð húsbóndinn hreyfingarlaus og starði út í bláinn, á meðan gráhærði skrifstofusendillinn var sífellt að reka hausinn inn um lúgugatið og horfði á hann eftirvæntingarfullur, eins og hundur, sem á von á að verða tekinn út í gönguför. — Ég vil ekki heyra neinn eða sjá í hálf- tíma, Macey, sagði húsbóndinn. — Skil- urðu það? Ekki neinn. — Já, herra. Hann lokaði hurðinni, gekk þungum, föstum skrefum yfir ljóst gólfteppið, sett- ist þunglamalega í fjaðrastólinn, hallaði sér fram á skrifborðið og huldi andlitið í höndum sér. Hann langaði til, hann ætlaði, hann hafði búið sig undir að gráta . . . . Honum hafði brugðið ákaflega, þegar Woodifield gamli hafði minnzt á gröf drengsins. Það var eins og jörðin hefði opnazt, og hann hefði séð drenginn hggja þar, og dætur Woodifield starandi á hann. Það var undarlegt. Þó að sex ár væru liðin, hugsaði húsbóndinn aldrei um drenginn öðruvísi en liggjandi, óbreyttan, í hreinum einkennisbúningnum, sofandi svefninum eilífa. — Sonur minn! stundi hann. En það komu engin tár. Áður fyrr, fyrstu mán- uðina og jafnvel fyrstu árin eftir dauða drengsins, hafði hann aðeins þurft að segja þessi orð, til þess að verða svo yfirkominn af sorg, að ekkert nema grátur gat læknað hann. Tíminn hafði þar engin áhrif, hafði hann þá sagt öllum. Aðrir gætu ef til vill gleymt með tímanum, en hann aldrei. Hvernig gat það orðið? Drengurinn hans var einkabarn. Alltaf, frá því hann fædd- Framh. á bls. 21.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.