Heima er bezt - 01.06.1957, Síða 19
var næsti íslendingur, er þangað kom, og einn hinn
atkvæðamesti í hópi þeirra. Var hann einn þeirra
manna, sem ók handvagni austan yfir slétturnar.
Brigham Young vísaði Samúel og síðar öðrum Islend-
ingum, er til Utah komu, til lands í Spanish Fork, því
að þar bjuggu fyrir danskir menn, og hugði hann, að
það ætti vel saman. En það sambýli varð vissulega hvor-
ugum til ánægju. Flestir íslendingarnir settust þó þarna
að, en síðan hafa þeir vitanlega dreifzt nokkuð um ríkið.
Frumbýlingsárin reyndust þeim örðug, en síðan hefur
þeim vegnað vel, sem fyrr segir.
Árið 1938 reistu íslendingar í Utah minnismerki um
landnemana íslenzku í Spanish Fork. Stendur það við
þjóðveginn, utanvert í þorpinu. Minnismerkið er 20
feta hár turn, reistur sem viti. Logar þar Ijós í sífellu.
Upp af vitahúsinu sjálfu er víkingaskip úr stáli. Neðar-
lega í varðanum streymir fram ískalt vatn. Þar geta veg-
farendur svalað þorsta sínum, og dreift er þaðan vatns-
úða yfir hólkollinn, sem vitinn stendur á, svo að þar er
sígræn flöt. Rétt fyrir ofan vatnsbununa er koparskjöld-
ur með svofelldri áletrun, sem hér er þýdd á íslenzku:
Fyrsta nýlenda íslendinga í Bandaríkjunum.
Leifur Eiriksson, íslendingur, fann Ameríku. árið
1000. Sextán íslenzkir landnemar stofnuðu fyrstu föstu
íslenzku byggðina í Bandaríkjunum í Spanish Fork.
Þeir voru: Samúel Bjarnason og Margrét kona hans,
Þórður Diðriksson og Helga kona hans, Guðmundur
Guðmundsson, Loftur Jónsson og Guðrún kona hans,
Jón Jónsson og Anna kona hans, Guðrún Jónsdóttir,
Magnús Bjarnason og Þuríður kona hans, Vigdís
Bjarnadóttir (Holt), Guðný E. Hafliðason, Ragnhild-
ur S. Hansson og Mary H. Shervoood.
Minnismerki þetta er í senn fagurt, látlaust og virðu-
legt, einkum þykir mér skemmtilegt tákn, að það skuli
í senn færa umhverfi sínu Ijós og svölun.
Þegar liðin voru 100 ár frá fyrstu byggð Islendinga
í Spanish Fork, héldu íslendingar í Utah hátíð mikla,
árið 1955. Stóð hún í þrjá daga, 15.—17. júní. Fóru þar
fram ræðuhöld, söngur, hljómlist og alls konar sýn-
ingar. Mesta athygli vakti skrautsýni'ng í 27 atriðum,
og var henni ekið um götur bæjarins. Voru þar sýnd
ýmis atriði úr sögu íslands, allt frá því, er Papar stigu
þar á land. Ennfremur ýmis atriði úr íslenzkum menn-
ingarháttum, og síðast en ekki sízt frá landnámi og sögu
þeirra í Utah. Kvikmynd og skuggamyndir, er ég sá
frá hátíðahöldum þessum, og einkum skrautsýningunni,
færðu mér heim sanninn um, að hér hefði verið um
glæsileg hátíðahöld að ræða. Enda þótti sýning þessi og
hátíðahöldin öll tilkomumikil og merkileg, og vöktu
þau athygli víða um Bandaríkin. Ríkisstjórnir Banda-
ríkjanna og íslands sendu þangað fulltrúa. Var Pétur
Eggerz, sendiráðsfulltrúi, þar af hálfu íslenzku ríkis-
stjómarinnar.
Ekki verður því neitað, að lítið er orðið um íslenzka
tungu í Spanish Fork. Nokkra menn hitti ég þó bjarg-
færa, og einstöku töluðu eftir atvikum góða íslenzku.
En hlýjan hug bera Utah-íslendingar til gamla landsins
og þjóðarinnar, enda þótt forfeður þeirra, er til Utah
fóru, mættu litlum skilningi og enn minni samúð hjá
samtíðarmönnum sínum. En ættræknin er ríkur þáttur
í trúar- og lífsskoðun Mormóna, og hafa íslendingar
rækt ættarskyldu sína flestum betur, enda er þekking
þeirra á íslenzkum ættum furðulega mikil.
Síðasta kvöldið, sem ég dvaldi í Utah, flutti ég er-
indi og sýndi skuggamyndir í hópi íslendinga í Spanish
Fork. Kom þar allmargt manna, og hlaut ég góða á-
heyrn og fann mikinn áhuga og hlýhug til gamla lands-
ins. St. Std.
Velkomin heim!
Velkomin heim, þú heilsar Fróni aftur
með hljómnum sama, blessuð lóan mín.
Ég verð sem nýr og allur endurskaptur,
að eyrum mér þá berast ljóðin þín,
og blítt um loftið líða tónar þínir,
svo ljúfir, eins og bernskudraumar mínir.
Ég veit að þú um vorið syngur kvæði
og vaxinn lyngi berjamóinn þinn.
Við erum elsk að átthögunum bæði,
þó oft mig langi að flýja veturinn
og fljúga með þér gegnum bláa geiminn,
í grænu skrúði Iíta sumarheiminn.
Velkomin heim og syngdu ljúft og lengi
þín ljóð um allt, sem gleður huga minn.
Um gróna velli, grundir, holt og engi,
um gnípur, fjöll og sólskinsdalinn þinn,
um jökla, hraun og háa fossaniðinn,
um hreiðrið þitt og vornáttúru friðinn.
Þú svæfðir einatt sorg í brjósti mínu,
er söngstu blítt um fagurt sumarkveld.
Ég hlusta enn þá eftir ljóði þínu,
það enn mig gleður, þegar lund er hrelld,
því ég er vorsins barn og ann þess óði,
og yndi mest ég finn í söng og ljóði.
Er gengið hef ég brautu lífsins beina
og blasir við mér gröfin, köld og djúp,
þá kýs ég mér ei klerkamælgi neina,
að klæða mig í falskan dyggða hjúp.
En ef á vori eg sofna hinzta sinni,
þá syngdu yfir grafarhvílu minni.
Og hvert eitt sinn, er þráin braut þér beinir
á bernskuslóð um ölduþrungin höf,
— þó veki mig ei vorsins söngvar neinir —
á vængjum svífðu þá að minni gröf.
Og syngdu blítt, þar sef eg nár í valnum,
um sól og vor í okkar kæra dalnum.
Björn Pétursson, Sléttu, Fljótum.
Heima er bezt 211