Heima er bezt - 01.06.1957, Page 22
um björgun hefði verið að ræða. Komst dómarinn að
þeirri niðurstöðu, að svo hefði verið, þar sem ofviðrið
var, eins og lýst var (eitt af mestu veðrum, sem koma
hér við land), Súlan komin út í álinn, þar sem legufæri
hennar höfðu misst botns, og yfirvofandi hætta á því,
að skipið ræki á grynningar. Þá kom til álita, hvort
þessi hjálp, sem Snæfellsmenn veittu, hefðu verið um-
fram það, sem þeim var skylt samkvæmt dráttarsamn-
ingnum, og þeir þannig unnið til sérstakra björgunar-
launa. Sú varð niðurstaða sjódómsins, að Snæfellsmönn-
um yrði ekki gefin nein sök á því, að Súlan lenti í
neyð undan Ólafsvík, enda hefði taug sú, sem Súlan
átti að leggja fram til dráttarins, reynzt ófullnægjandi.
Var því talið, að Snæfellið ætti rétt til björgunarlauna.
Við úrlausn þessa atriðis hafði sjódómurinn m. a. í huga
þessi atriði: 1) Miklir erfiðleikar höfðu verið í því, að
koma Súlunni til hjálpar, þar sem hvorugt skipanna
hafði fullnægjandi dráttartaug og útvega varð hana
annars staðar (frá Selfossi). 2) Setja varð mannslíf í
hættu, enda mátti ekkert út af bera til þess að ekki
yrði tjón á skipi eða mönnum. 3) Skipstjóri og áhöfn
sýndu bæði dugnað og harðfengi við starfið.
Og þegar metin voru öll þau atriði, sem taka bar
tillit til, þar á meðal verðmæti Súlunnar, sem talið var
785 þús. kr., þá þóttu björgunarlaunin, þar með taldar
bætur fyrir skemmdir á Snæfellinu, hæfilega ákveðin
kr. 100.000.00. Þá var eftir að ákveða þókmin fyrir
dráttinn suður fyrir nesið á leið til Reykjavíkur og
norður í Ólafsvík aftur. Þótti hún hæfilega ákveðin
kr. 6000.00.
Báðir aðilar skutu máli þessu til Hæstaréttar, en þar
var héraðsdómurinn staðfestur og eiganda Súlunnar gert
að greiða Snæfellsmönnum 16 þús. krónur í málskostn-
að fyrir báðum dómum.
Ætla mætti, að þar með hefði lokið umstangi öllu
út af þessari fyrirhuguðu síldveiðiför Súlunnar. Svo er
þó ekki, því enn mun óútkljáð, hversu milda þóknun
vélbáturinn Aðalbjörg eigi að fá fyrir það ómak sitt,
að kippa Súlunni upp að bryggju í Ólafsvík.
Dr. Richard Beck
Framhald af bls. 199. -----------------------------
unnið að því að halda við tengslunum milli íslendinga
báðum megin hafnsins. Hefir hann einnig reynzt Norð-
mönnum liðtækur í þeim efnum, og hefir hann hlotið
opinberar sæmdir fyrir af ríkisstjórnum beggja þjóða.
Þegar litið er á hin miklu afköst og fræðastarf Rich-
ards Beck gæti margur ætlað, að hann væri innþorn-
aður fræðagrúskari, gróinn við skrifborðsstólinn, sem
ekki hefði tíma til nokkurs annars en lesa og skrifa.
En ekkert er fjar sanni. Annir hans eru að vísu miklar,
en enginn, sem hittir hann, verður þess var. Hann virð-
ist hafa tíma til alls, hvort heldur er að flytja erindi
einhversstaðar í Bandaríkjunum eða Canada, vinna í
nefndum eða taka þátt í félagsstarfsemi, eða taka á
móti gestum. Njóta þess ekki sízt íslendingar, sem
margir leggja leiðir sínar um Grand Forks. En Rich-
ard er manna gestrisnastur, og nýtur hann þar,, sem
í öðrum störfum sínum, stuðnings hinnar ágætu konu
sinnar, Berthu, rem hann kvæntist 1925. Frú Bertha
er íslenzkrar ættar, en fædd vestra, dóttir Jóns Samsons,
er var lögregluþjónn í Winnipeg. Sjálf er hún lærð
hjúkrunarkona. Hún er gáfuð kona, listhneigð og fjöl-
menntuð. íslenzku talar hún ágætlega, og hefur lagt
mikla stund á íslenzka ættfræði, einkum á seinni árum.
Nokkuð fæst hún við málaralist, og svo er hún fjöl-
lesin, að þar verður sjaldnast komið að tómum kofum,
sem hún er. í félagsmálum hefir hún tekið mikinn þátt,
og var meðal annars um skeið forseti Berklavarnar-
félags Norður-Dakota. Heimili þeirra hjóna er hið
fegursta og ber vitnt um menningu og smekkvísi hús-
bændanna, og alúðin og hlýjan, sem þar mætir gestum
og gangandi, verður ógleymanleg þeim, sem reyna.
Tvö börn eiga þau hjón, Margréti Helen, sem gift
er amerískum manni, Paul Hvidsten, búa þau í Cali-
forníu, og Richard, .vem um þessar mundir innir af
hendi herskyldu í flugher Bandaríkjanna, er hann þar
liðsforingi. Þau systkin hafa lokið háskólaprófi með
miklu Iofi, Margrét í bókmenntum og tungumálum,
en Richard í vélaverkfræði.
Hér hefir stuttlega verið getið starfa og æviatriða
Richards Beck. Um sjálfan hann hefir fátt verið sagt.
En hann er maður glaður og reifur, brennandi af
áhuga, fullur bjartsýni og góðvildar. Þeir eiginleikar
hans, ásamt gáfum, óbilandi starfsþreki og sterkum
vilja, hafa rutt honum braut og aflað honum virðingar
og vinsælda, jafnt á ættlandi hans og vestan nafs. Enn
má kalla að hann sé á bezta aldri, og vafalaust á hann
mörgum störfum enn ólokið til þess að auka þekking-
una á ættlandi sínu og treysta frændsemisböndin yfir
hafið breiða.
St. Std.
VOR
Vorið blíða víkur snjó,
á vorin skrýðast hjallar.
Vor í hlíðar, vor á sjó,
vorið fríða kallar.
Þegar tóin tygjast fer,
tekur snjó og klaka,
vinmörg lóa velur sér
vist í mó að taka.
SUM AR
Þegar sól úr suðri skín,
signir hól og dalinn,
breiðir fjólan blöðin sín,
í brekkuskjóli falin.
Stefán Ásmundsson.
214 Heima er bezt