Heima er bezt - 01.04.1959, Blaðsíða 23

Heima er bezt - 01.04.1959, Blaðsíða 23
uð að þeirrar tíðar mati, fögur og göfug í hugsun. Er hún höfð til sýnis og sölu á torgum og í tjöldum, og hún verður fyrir svo sárbeittum móðgunum, að hún tekur þann kostinn að gerast ómála. Þannig fannst henni léttara að bera þrautir sínar og særðan metnað. Vafalaust hefur hinn fagurskapaði, bráðgjörvi sveinn verið henni nokkur raunaléttir, og í móðurgleði sinni gleymir hún ásetningi sínum og svarar hjali sonar síns. Lækjarbrekkan á Höskuldsstöðum var skjólrík og hlý, en ómurinn af ástarorðum hinnar sorgmæddu móð- ur barst þaðan út í morgunkyrrðina, og þannig komst leyndarihálið upp. Þennan sögulega stað á að virða og vernda. Nokkru eftir að þessi atburður varð, fór Melkorka alfarin frá Höskuldsstöðum, og féklt Höskuldur henni bústað annars staðar í dalnum. „Fær Höskuldur þar til bús allt það, er þurfti, og fór Ólafur sonur þeirra með henni,“ segir Laxdæla. Var Ólafur síðan með móður sinni, þar til hann var sjö vetra, en þá bauðst honum fóstur hjá ríkum, öldnum bónda á Goddastöðum þar í dalnum. Tók Höskuldur því boði, án þess að ráðgast um það við Melkorku, og þótti henni það mjög miður en lét þó kyrrt vera. Sást það fljótt, að Ólafur myndi verða afbragð ann- arra manna. Hann var fríður og fagurlega vaxinn, og hlaut hann snemma kenningarnafn og var nefndur pá, sem merkir líklega hinn fagri. Er Ólafur var fullvaxinn, fór hann utan á fund afa síns og hafði í fórum sínum gripi þá frá móður sinni, er sönnuðu frændsemi hans við Mýrkjartan konung. Kannaðist konungur við Ólaf og gerði för hans góða. Þegar Ólafur pá kom úr utanför þessari, þótti hann bera af öllum ungum mönnum í Dölum vestur. Skömmu fyrir alþing um sumarið kom Elöskuldur að máli við son sinn og taldi, að hann ætti að fara að gifta sig. Sagðist hann hafa hugsað sér konuefni fyrir hann. Væri það Þorgerður Egilsdóttir að Borg á Mýr- um. Ólafur bað hann ráða þessu. Á alþingi ber Höskuldur upp bónorðið við Egil á Borg Skalla-Grímsson. Hann kvaðst skyldu ræða þetta mál við Þorgerði dóttur sína, „því að það er engum manni fært að fá Þorgerðar án hennar vilja,“ sagði Egill. En Þorgerður tekur þessu máli fálega og undrast það, að Egill faðir hennar skuli vilja gifta hana ambáttarsyni. Þetta fréttir Ólafur og þykir sér óvirðing ger og tekur nú til sinna ráða. Hann gengur rakleitt til búðar Egils. Sér hann þá hvar kona, fyrirmannleg og vel búin, situr á palli. Þykist hann vita, að það sé Þorgerður dóttir Egils, en ekki hafði hann séð hana áður. Ólafur gengur nú innar eftir búðinni og sezt niður á pallinn hjá Þorgerði. Segir hann henni nafn sitt og föð- ur síns og bætir við: „Mun þér þykja djarfur gerast ambáttarsonurinn, er hann þorir að sitja hjá þér og ætl- ar að tala við þig.“ Þorgerður kvað hann myndi hafa gert meiri þoran- raun en að tala við konur. Sælingsdalslaug. Þau taka nú tal saman og tala þann dag allan. Voru síðan feður þeirra til kallaðir, Höskuldur og Egill, og féll nú allt í ljúfa löð, og var brúðkaupið ákveðið að Höskuldsstöðum á því sama sumri. Þau reistu síðan bæ norðan megin Laxár, gegnt Hös- kuldsstöðum. Fer þar saman fallegt bæjarnafn og fagurt bæjarstæði. Þau Ólafur og Þorgerður áttu margt barna, en þekkt- astur af sonum þeirra er Kjartan sá, er sundið þreytti við Ólaf konung Tryggvason. Frændi Kjartans og fóstbróðir ólst upp í Hjarðarholti, er Bolli hét Þorleiksson. Þessir sveinar tveir, Kjartan og Bolli, þóttu bera af öðrum jafnöldrum sínum, en þó bar Kjartan af Bolla í öllum íþróttum. Var Kjartan allra manna fríðastur, glæsilegur á velli, afbragðs sundmaður og snjall í öllum íþróttum. (Framhald). ^ v4 Hr

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.