Heima er bezt - 01.04.1959, Blaðsíða 26
SÝSLUMANNSSONURINN
Ingibjörg Siguréardóttir:
— Valur! Hildur lítur snöggt á mann sinn, og óeðli-
legur roði stígur fram í kinnar hennar. — Það er líklega
laust við hann, hvort eldhússtúlkan er eða fer.
— Ertu nú viss um það, Hildur mín, að það skipti
hann engu máli?
— Ég skil ekki við hvað þú getur átt, Þórður.
Sýslumaðurinn tekur þétt um hönd konu sinnar og
horfir fast í augu hennar. Svo segir hann blítt og ein-
arðlega: — \rið skulum vera hreinskilin hvort við ann-
að, Hildur mín, í þessu máli sem öðrum, því við höfum
alltaf sýnt hvort öðru fullan trúnað.
Frú Hildur lítur undan hinu fasta augnaráði manns
síns og segir kalt og þykkjuþungt: — Hvernig getur þú
látið slíka fjarstæðu koma þér til hugar, að Val sé ekki
sama um eldhússtúikuna, eða finnst þér kannske jafn-
ræði með þeim....
— Jafnræði? — Já, því ekki það. Lífið hefir að vísu
skapað þeim ólík ytri kjör. Valur hefir alizt upp við
auð og allsnægtir og hlotið flest þau gæði, sem þetta
líf hefir upp á að bjóða, en Ásta hinsvegar orðið að
þola fátækt og ástvinamissi, og að sjálfsögðu lítilla gæða
notið. En þrátt fyrir ólík ytri kjör getur manngildi
beggja átt fullkomið jafnræði, og það skiptir mestu máli
að mínum dómi.
— Á ég þá að skilja orð þín á þann veg, að þú óskir
eftir því að ómenntuð eldhússtúlka verði hlutskipti
einkasonar þíns í lífinu? — Rödd frú Hildar titraði af
undrun og geðshræringu.
— Ég ætla hvorki að óska þess né reyna til að aftra
því. Valur er, hvað mig snertir, alveg frjáls að velja
og hafna, og ég álít að hann hafi fullkomna dómgreind
í þeim efnum.
— Það efast ég um að hann hafi, eftir því sem þú
lætur orð þín falla. Hann sýslumannsefnið, og hún um-
komulaus eldhússtúlka. Hvílík regin-fjarstæða! Frú
Hildur hlær hátt og kuldalega. En sýslumaður horfir
iast á konu sína og segir jafnrólega og áður:
— Hvers virði er auður og metorð hjá góðri og göf-
ugri sál?
— Álítur þú eldhússtúlkuna svona göfuga?
— Já, Hildur mín, ég álít hana það.
— Og af hverju dregur þú þá ályktun?
— Því er fljótsvarað. Hver sá sem leggur líf sitt í
hættu til að bjarga öðrum, á þann dýrmæta fjársjóð
í sál sinni, sem öllum veraldarinnar auð og mannvirð-
ingum er æðri og meiri, en við vitum það bæði, að þann
dýra fjársjóð hefir eldhússtúlkan okkar sýnt í verki á
fagran og ógleymanlegan hátt.
— Já, Valur minn sagði mér einhvern tíma frá því,
að Ásta hefði bjargað barni, sem bifreið var að því
komin að aka yfir þarna á Sæeyri. Og það var fallega
gert, því getur enginn neitað. En ég er viss um, að
að sonur minn hefir aldrei látið sér það til hugar koma,
að eldhússtúlkan skipaði sætið mitt hér í Ártúni, hvað
góð sem hún kann að vera.
— Sért þú fullviss í þeirri sök, Hildur, þá er óþarfi
að ræða þetta mál frekar við mig. Þú ert sjálfráð, hvort
þú veitir stúlkunni fararleyfi eða ekki, fyrst hún óskar
þess. Ég veit að þú gerir það eitt, sem þú telur vera
rétt.
Sýslumaðurinn tekur aftur pennann og fer að skrifa
á ný. Frú Hildur finnur, að samtalinu er lokið af hans
hálfu og gengur svipþung fram úr skrifstofunni. Sár
og ólgandi reiði svellur í sál hennar og svæfir með öllu
rödd samvizkunnar og rænir hana jafnframt hennar
venjulegu réttsýni og dómgreind. Hún hafði sízt af öllu
búizt við slíkum undirtektum hjá manni sínum í þessu
viðkvæma máli. En nú er hún heldur ekki í neinum vafa
lengur, hverju hún á að svara lausnarbeiðni eldhús-
stúlkunnar. Ásta skal sannarlega fá að fara frá Ártúni,
og það strax og því verður við komið.
Frú Hildur gengur beina leið fram í eldhúsið og
nemur þar staðar. Ásta er þar ein að verki eins og
venjulega. Frú Hildur snýr sér að henni og segir með
ákafa: — Hvenær hefur þú hugsað þér að fara héðan?
— Strax og ég hefi fengið leyfi yðar.
— Það er þér veitt, og þú mátt fara héðan, hvenær
sem þú vilt mín vegna.
138 Heima er bezt