Heima er bezt - 01.03.1960, Qupperneq 2
Silfur og gull íslenzkrar tungu.
Fyrir nokkru var úthlutað nýstárlegum verðlaunum
hér á landi. Helgi Hjörvar og kona hans hafa stofnað
sjóð, til þess að verðlauna þá menn, sem flytja fegurst
mál í útvarpinu íslenzka. Er það gert til minningar um
son þeirra, Daða Hjörvar. Nýlega var verðlaununum
úthlutað, og hlaut Davíð Stefánsson, skáld, gullverð-
laun, en útvarpsþulirnir: Sigrún Ögmundsdóttir, Pétur
Pétursson, Jón Múli Árnason og Þorsteinn Ö. Stephen-
sen silfurverðlaun.
Það er raunar ekki sjaldgæft, að hér séu veitt verð-
laun, og oft er um þau deilt. í þetta sinn mun enginn
hafa dregið í efa, að hér var rétt að farið, og ekki
aðrir, sem betur væru að þessum heiðri komnir.
En engu að síður gefur þessi verðlaunaveiting tilefni
til nokkurra hugleiðinga. Um aldir hafa íslendingar
þjálfað tungu sína við ritstörf. Árangur hefur að vísu
misjafn orðið, en þó hafa flestir borið sömu ósk í
brjósti, þ. e. að halda við reisn tungunnar eins og geta
þeirra leyfði. Og íslenzk tunga hefur lifað og þróazt.
Hún hefur að vísu tekið breytingum, en haldið reisn
sinni og hreinleika, og óvíst er að hún hafi nokkru
sinni verið auðugri og mýkri og um leið virðulegri en
einmitt nú. Þótt oss íslendinga greini á um margt,
munum vér þó flestir sammála um, að tunga vor sé
dýrasti arfur og auður þjóðar vorrar. En þegar vér
ræðum um tunguna hættir oss við að hugsa nær ein-
göngu um hið ritaða orð. Margsinnis hafa verðlaun
verið veitt fyrir Ijóð, sögur, leikrit, ritgerðir og önnur
afbrigði hins ritaða máls. Um tungutakið sjálft hafa
engir hugsað, fyrr en Helgi Hjörvar hefur nú rutt
brautina til að minna á gildi hins talaða máls. En þetta
atriði hefur því miður verið vanrækt um of, en von-
andi verða nú tímamót í því efni.
Lítill vafi er á, að í fornöld hefur mikil rækt verið
lögð við hið talaða orð. Hirðskáldin hlutu að flytja
kvæði sín á hljómmiklu máli. Ekkert tæpitungulag eða
latmælabragur hefur verið á uppsögn laga á Alþingi
hinu forna, og naumast hefði sagnalist forfeðra vorra
náð þeim þroska, er hún fékk, ef sagnaþulirnir hefðu
ekki kunnað að beita réttu hljómfalli og tungutaki.
Á ófrelsisöldum þjóðarinnar hnignaði rækt hins tal-
aða orðs. Og á vorum dögum fer því fjarri, að reisn
þess sé uppi haldið sem skyldi. Latmæli, flámæli, lin-
mæli og hvers kyns ófögnuður veður uppi, svo að
ósköp eru á að hlýða. En sakir hraðari samgangna og
aukinna samskipta fólks er hættan á útbreiðslu þessa
ófagnaðar enn meiri en áður.
Á hverjum degi flæðir hið talaða orð um eyru allrar
þjóðarinnar frá útvarpinu. Það streymir fram í frétta-
flutningi, erindum, leikjum, upplestrum og enn frem-
ur í hvers konar tilkynningum og dægurlagasöng o. s.
frv. Ekki verður því neitað, að útvarpið gerir heiðar-
lega tilraun til að vanda val hinna föstu starfsmanna,
er orðið flvtja, þótt stundum hafi mistekizt eins og
gengur. En engu að síður heyrist framburði tungunnar
alltof oft misþyrmt um of í hinu talaða orði í útvarp-
inu. Linmælið veður uppi, flámæli er engan veginn
óþekkt fyrirbæri, og oft heyrum vér menn flytja er-
indi með mjög greinilegum framburðargöllum. Sumir
dægurlagasöngvarar virðast telja það einn meginþátt
listar sinnar, að syngja drafandi með alröngum áherzl-
um og hljóðfalli. Og hvernig fer þá með tungutak þess
æskulýðs, sem hefur sér það að leik og list að syngja
sem líkast þessum átrúnaðargoðum sínum.
Það er bjarnargreiði við menn, sem samið hafa góð
erindi, en hafa gallað tungutak, að láta þá sjálfa flytja
erindi sín í útvarpinu. Þar eiga hinir þjálfuðu lesarar að
koma til sögunnar. Engum manni með málgalla ætti
að hleypa að hljóðnemanum og allra sízt hvað eftir
annað. Eg hef rætt hér um útvarpið, ekki svo mjög
vegna þess, að syndir þess séu stærri en annara aðila,
heldur vegna þess, að áhrif þess eru svo miklu sterkust
allra stofnana í landinu bæði til góðs og ills, og því ríð-
ur miklu mest á því fyrir flutning íslenzkrar tungu, að
þar sé vel á verði verið.
En hvað um alla skólana? mun einhver spyrja. Víst
er það, að á þeim hvílir mikil ábyrgð, og áhrif þeirra
geta orðið varanleg í þessu efni sem öðru uppeldi. Því
miður óttast ég, að skólarnir gæti ekki eins vel og skyldi
ábyrgðar sinnar í þessu efni. Og í raun réttri ætti eng-
um að leyfast að fást við kennslu, nema hann sé rétt
talaður, laus við áberandi málgalla, og hafi lært að bera
íslenzka tungu fram lýtalaust.
Hættan á málspjöllum hefur aldrei verið meiri en nú.
Erlend áhrif sækja fastar á en nokkru sinni fyrr. En
þar óttast ég minna um þá hættu, sem stafar af erlend-
um orðum og orðasamböndum, en málhreiminn sjálfan.
Bæði er staðið þar fastar á verði, og tunga vor hefur
sýnt það á liðnum öldum, að hún getur beinlínis auðg-
azt af erlendum áhrifum. En um spjöll á framburði og
flutningi málsins eru engir varnargarðar hlaðnir.
Verðlaunasjóður sá, er getið var í upphafi þessa máls,
74 Heima er bezt