Heima er bezt - 01.03.1960, Síða 26
Eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur
ELLEFTI HLUTI
— Já, þið skuluð víst fá að heyra hana. — Rödd
Kristínar titrar af geðshræringu. — Vinnumaðurinn í
Austurhlíð kom nýlega á ónefndan bæ hérna skammt
frá, og konan þar spurði hann tíðinda frá Austurhlíð.
Jú, þaðan var allt gott að frétta, húsbóndinn kominn á
fætur aftur eftir beinbrotin, og heimasætan farin að
þykkna undir belti. Konan spurði Torfa, hvort hann
væri þá ekki sjálfur þar annars vegar. Hann neitaði
því, en bætti svo við: — Ætli það sé ekki heldur bónda-
sonurinn í Vesturhlíð.
Kristín hvessir augun á son sinn. — Hvernig lízt þér
á söguna, Jónatan? Finnst þér hún ekki dáfalleg?
Jónatan brosir, en önnur geðbrigði sýnir hann ekki.
— Ég hef ekkert við þetta að athuga, segir hann ró-
lega.
— Nei, ekki það, þú ætlar kannske að gangast við
króganum þegjandi og hljóðalaust, þó að þú eigir ekki
blóðdropa í honum, sem ég líka veit að þú átt ekki.
Jónatan ýtir frá sér matardiskinum og lítur fast á
móður sína og segir einbeittur: — Ég tek ekkert mark á
slúðursögum, en gangi Lilja í Austurhlíð með barni,
þá er ég faðir að því og enginn annar. Svo rís hann á
fætur og snarast út úr eldhúsinu án þess að bíða frekari
orðaskipta.
Kristínu verður orðfall í bili eftir svar sonar síns, en
við þessu gat hún búizt af honum. Hatrið til Lilju í
Austurhlíð margfaldast í sál hennar, þau skulu aldrei
fá að njótast, hvað sem öllum lausaleikskrógum hður.
Kristín snýr sér að Atla og segir með andþyngslum: —
Hvernig eigum við að beita okkur gegn þessu máli,
Atli?
— Ég læt það afskiptalaust. Jónatan ræður sjálfur
sínum gjörðum, hann er enginn óviti lengur, sem þarf
að stjórna.
— Jæja, svo þú ætlar að láta það afskiptalaust að
sonur þinn gangist við barni, ef honum verður kennt
það, þó að hann eigi ekki blóðdropa í því!
— Getur þú nokkuð dæmt í þessu máli, Kristín? Ætli
Jónatan viti það ekki bezt sjálfur, hvort hann á þar
hlutdeild að eða ekki, eða fyndist þér það sæma honum
betur að þræta fyrir barnið, ef hann á það?
— Hann getur ekki átt það. Og svo hélt ég að þú
myndir síðast af öllu snúast á sveif með Austurhlíðar-
hyskinu.
— Mér er sama, hver í hlut á. Ég vil líta af sann-
girni á málin.
— Það hefur naumast haft góð áhrif á þig að drösla
karlinum hálfdauðum heim að Austurhlíð í vetur! Þú
virðist bara vera orðinn vinveittur því hyski síðan!
— Hvað sem vináttu líður, þá varð sá dagur mér til
góðs, Kristín.
— Jæja, þú mátt láta snúa þér eins og hálfvita, en
þess fastara skal ég beita mér á móti Austurhlíðarhysk-
inu, ég hata það af heilum huga. Kristín slær kreppt-
um hnefanum í matborðið, svo að diskarnir dansa fram
og aftur um borðið.
— Brjóttu ekki búsáhöldin, kona. Þau eru dýr vara,
segir Atli jafn rólegur og áður. Hann hefur lokið við
kvöldverð sinn og rís upp frá borðum. Skap konu sinn-
ar vill hann ekki æsa meira en orðið er og gengur út
úr eldhúsinu. Kristín situr kyrr og reynir að hugsa
mál sitt. Hatur hennar hefur magnazt enn þá meir við
undanlátssemi Atla gagnvart þeim í Austurhlíð, og hér
eftir skal hún ekki svífast neins, þegar það á í hlut, en
fyrst um sinn getur hún ekkert aðhafzt. Hún verður
að bíða átekta....
Sumri er tekið að halla. Heimilisfólkið í Vesturhlíð
er allt úti á túni við heyvinnu. Feðgarnir að slá, en
Kristín að raka. Veður er fagurt og gott, og djúp
kyrrð ríkir. Heiman frá Austurhlíð kemur ferðaklædd
kona og gengur út á túnið í Vesturhlíð. Jónatan veitir
henni fyrstur athygli, og hún stefnir í áttina til hans,
en hann er að slá spölkorn frá hinum.
Jónatan þekkir brátt að ferðakonan er Þórey ljós-
móðir, og hann bíður komu hennar með eftirvæntingu.
Þórey nemur staðar hjá Jónatan og heilsar honum
glaðlega, en svo réttir hún honum samanbrotinn miða
og segir. — Ég var beðin að færa þér þetta.
Jónatan stingur niður orfinu, tekur við miðanum og
les: — Elsku Jónatan! Við höfum eignazt dóttur. Það
gekk vel. Ég veit, að þú lætur enga aftra þér frá því
að koma til mín. Meira get ég ekki skrifað. Þín Lilja.
98 Heima er bezt