Heima er bezt - 01.02.1962, Blaðsíða 26

Heima er bezt - 01.02.1962, Blaðsíða 26
frúnni hafði hún tætt í svo smáar agnir, að það yrði seinlegt að átta sig á, að þetta hefðu eitt sinn verið pen- ingar. Það yrði gaman að sjá frúna reyna að raða þess- um sneplum saman og líma þá, en það væri hún viss með að reyna. Stúlkan rak upp lágan hlátur, þar sem hún gekk eftir sullaðri götunni í grárri morgunskímunni, en nú tóku eftirköstin við. Hún skalf eins og hrísla, og kökkurinn fyrir brjóstinu ætlaði að kæfa hana. Tárin tóku að leita á, hvernig sem hún reyndi að sporna á móti. Og þegar niður á bryggjuna kom, var lítið eftir af hetjunni. Þá var hún aðeins einmana ráðvillt stúlka, sem engan átti að og ekkert vissi, hvert halda skyldi. Hún gekk inn í pakkhúsið og settist á töskuna sína, þar var þó skjól fyrir næðingnum. Skipið var að koma inn á leguna, og brátt heyrðist skröltið, er akkerið rann í sjóinn. Hún þurrkaði sér aftur um augun, gröm sjálfri sér fyrir aumingjaskapinn, en réð ekki við það. Gísli gamli í Unuhúsi leit nokkrum sinnum spyrj- andi til hennar, og loks kom hann og lagði hönd sína á öxl hennar. — „Asta mín, ert þú að fara með skipinu?“ spurði hann. „Já,“ stundi hún upp. Hrjúf hönd hans strauk um vanga hennar. „Jæja, þú verður þá að koma, því þetta er seinasti báturinn sem fer fram.“ Svo tók hann pokann hennar og gekk af stað. Hún rölti á eftir með töskuna og hugsaði með sér, að einn maður í heiminum væri þó góður. Það var ekki hátt risið á þeim Gísla gamla og henni, er þau gengu fram bryggjuna. Hann staulaðist áfram, boginn í baki og krepptur í hnjám, órakaður og lubba- legur gamall karl í slitnum og bættum fötum. Hún stirð og köld, gráföl í framan af kuldanum og útgrátin. Gísli gamli tók þétt í hönd hennar og tautaði: „Guð blessi þig, barnið mitt, mundu að lífið er fagurt og gott, þrátt fyrir allt. Það birta öll él upp um síðir, Asta mín.“ Hann virtist skilja, að þetta væru tímamót í lífi henn- ar. Hlýlegt handtak hans yljaði henni inn að hjarta- rótum. Hún hafði aðeins getað stunið upp: „Vertu sæll, Gísli,“ svo lágt, að 'hún var alls ekki viss um, að hann hefði heyrt það. „Ég vildi að ég gæti gert eitthvað fyrir hann,“ hugs- aði hún, en minntist þess þá, hversu lítils hún var megn- ug, eins og nú stóð á. Stúlkan sofnaði aftur og vaknaði ekki fyrr, en Karl- sen snaraðist inn úr dyrunum, hress og kátur. „Halló, ljúfan, nú er matur á boðstólum. Hvað má bjóð^ þér?“ „Ekkert, ekki neitt,“ svaraði hún mjóróma. Það var aðeins með herkjum, að hún hafði betur í fangbrögð- unum við sjóveikina. „Hvaða bull er nú þetta, auðvitað borðar þú, annars verðurðu veik af hungri.“ Hann fór burt og kom að vörmu spori aftur með mjólk og brauð á bakka. „Þetta verðurðu að borða, telpa mín, annars læt ég Ponna mata þig.“ Hún leit á hann. „Hver er nú það?“ Karlsen hló. „Þú færð áreiðanlega að sjá hann, áður en ferðin er á enda. Ég er annars anzi hræddur um, að þeim líði ekki rétt vel, matsveinunum, að vita ekki fyr- ir hvern ég er að sækja mat.“ Um kvöldið lá stúlkan enn í rekkju, en hafði þó hresstst svo, að hún hafði farið fram úr og þvegið sér og greitt, en ekki treysti hún sér þó á fætur og var þeirri stundu fegnust, er hún skreið aftur upp í rekkj- una. Það var eins og að komast á ákvörðunarstað eftir erfiða þrekraun. Karlsen kom með kvöldmatinn á bakka, en sagði að á morgun yrði hún að fara á fætur og borða frammi í sal eins og hitt fólkið. Hún dauðkveið fyrir þessu. Hér í rekkjunni leið henni vel, og þó hún vissi, að það væri aðeins um stutt- an tíma að ræða, að hún gæti legið þar, þá veigraði hún sér við að hugsa lengra fram í tímann. Framtíðina hræddist hún. Um kvöldið kom Karlsen inn, fór úr jakkanum og tók af sér húfuna. Hún virti hann fyrir sér í laumi. — Hann var hár, en frekar grannur, með brúnt hár og grá augu, sem gátu logað af glettni, en einnig verið blíð og dreymandi. Ákveðinn munn svipur og sterk- leg hakan gáfu til kynna, að hann væri fastur fyrir og traustur. Það var eitthvað aðlaðandi við alla hans fram- komu, og persónuleiki hans á þann veg, að flestir kusu sér hann að vini. Enda var hann vinsæll meðal skips- félaga sinna, nema þá helzt hjá kokknum, sem grunaði hann um að vera forsprakkann að mörgum strákapör- um, sem framin voru á hans vettvangi. „Jæja, hetjan litla. Hvernig væri nú að þú segðir til nafns þíns, svo ég þyrfti ekki að hugsa mér þig fram- vegis sem ,stúlkuna‘ og ekkert annað,“ sagði Karlsen glaðlega. „Ég heiti Ásta Bjarnadóttir,“ svaraði hún lágt. „Og hvað ertu gömul?“ „Seytján ára,“ svaraði hún enn lægra en áður. Hann stóð upp og krosslagði handleggina á rekkju- stokknum og horfði rannsakandi á stúlkuna. „Hvert ætlar þú svo að fara?“ Hún lokaði augunum, hristi höfuðið og svaraði svo eftir litla stund: „Bara eitthvað, þar sem ég get fengið vinnu strax.“ „Og hvar er svo þetta eitthvað? Ég minnist þess ekki að hafa komið á þann stað.“ Hún opnaði augun og horfði á hann. „Þú þarft ekki að gera grín að mér, ég veit ekki enn, hvert ég ætla, það er alveg satt.“ „Fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að særa þig,“ svaraði hann. „En þú verður að segja mér eitthvað um sjálfa þig, ef ég á að geta hjálpað þér.“ ■62 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.