Heima er bezt - 01.08.1962, Side 23
I
Karlsen reif blað úr vasabók sinni og hripaði á það
nokkur orð.
„Viltu ekki láta það í veskið hennar? Þá losna ég
við allar skýringar,“ sagði bílstjórinn.
„Geturðu staðizt freistinguna að lesa það, þó ég hafi
ekkert umslag?“ spurði Karlsen og seildist í veski Sól-
veigar.
„Já, ef ég vil, en ég lofa engu,“ sagði bílstjórinn
glottandi. „Eg lofa að minnsta kosti að láta það á sama
stað aftur.“ —
„Hvað var um að vera þarna?“ spurði Ingunn, þegar
Karlsen kom aftur til þeirra. Hún sá að honum var
brugðið.
„Blindfull skötuhjú, sem bílstjórinn var að láta sofa
úr sér,“ svaraði hann.
„Þekktirðu þau?“
Karlsen brosti aðeins, en beit svo á vörina. Það var
ekki fyrr en hann var kominn langt burt frá bílnum,
að hann svaraði lágt:
„Já, séð hef ég þau áður.“ —
„Nú förum við út að aka,“ sagði Karlsen eftir mat-
inn. „Veðrið er svo dásamlegt.“
„Því ekki að fá sér bað einhvers staðar?“ stakk Ásta
upp á. Karlsen var því strax samþykkur, og Ingunni
var alveg sama, hvert farið væri. Þau óku austur og
niður að sjó, þar sem hvít sandfjaran lá og breiddi úr
sér í sólskininu, eins og hún biði eftir þeim.
Þau skildu bílinn eftir spölkorn fyrir ofan sandinn.
Þar ætluðu þær nöfnurnar að liggja í sólinni, meðan
þau hin færu og sulluðu í sjónum.
Skammt undan landi var lítill grænn hólmi, og þang-
að bauð Karlsen Ástu í kappsund. En hún var illa synd,
og auk þess óvön sjó. Hún óð aðeins út í, en sneri
þegar í land aftur.
„Sjórinn er svo ægilega kaldur,“ sagði hún skjálfandi.
Karlsen tók í hönd hennar og hljóp út í sjóinn, svo
gusurnar gengu upp fyrir haus á þeim. Ásta æpti og
hljóðaði, milli þess sem hún hló, en ekkert dugði. Fyrr
en hún vissi af, var hún komin í kaf og greip nú til
sundtakanna. Seinasta spölinn mátti Karlsen þó synda
með hana björgunarsund, því hún gafst alveg upp, og
hann bar hana í land.
„Nú erum við tvö á eyðiey,“ sagði Karlsen hlæjandi
og setti hana niður.
„Wiztu nokkuð, nema hér séu mannætur,“ sagði
Ásta og hljóp af stað upp á eyna. „Sko, hérna eru þær
líka!“ sagði hún og benti. Niðri í fjörunni, sem frá
landi sneri, sátu fjórir karlmenn og jafnmargar stúlk-
ur. Trillubátur var dreginn til hálfs upp í fjöruna og
festur við stein með löngum kaðli.
„Eigum við að gera vart við okkur?“ spurði Ásta.
„Nei,“ svaraði Karlsen. „Við skulum fá okkur sólbað
hérna megin og fara svo í land.
Þau hentu sandi hvort á annað og ærsluðust eins og
krakkar. Loks tók Karlsen hana og bar hana í áttina til
lands. Nú var komin fjara og aðeins smá áll milli lands
og hólnia ekki væður.
Nöfnurnar sváfu vært í skjóli við bílinn, þegar þau
komu. Karlsen benti Ástu að hafa hljótt. Þau klæddu
sig og héldu til höfðans, sem byrgði fyrir útsýnið til
austurs.
Ásta var í ermalausum kjól, létt á fæti og í bezta
skapi. Þegar fyrir höfðann kom, blasti sveitin við með
ótal bæjum á víð og dreif. Langt í austri teygðu sig há
kolsvört fjöll með smálækjum, sem sýndust eins og
silfurþræðir, er ýmist hurfu eða birtust á ný milli
klettanna.
Ilmur af birki barst til þeirra ofan úr brekkunni.
Þangað héldu þau hönd í hönd. Karlsen sagði Ástu frá,
hver var í leigubílnum, og sagði, að nú gæti Sólveig
ekkert vald haft yfir sér framan. Ásta var nú ekki eins
viss um það. Hún var einmitt hrædd um, að nú harðn-
aði baráttan fyrst fyrir alvöru.
Við lítinn læk settust þau niður. Ásta fór úr skón-
um og gutlaði í vatninu með berum fótunum. Karlsen
tók utan um hana með annarri hendinni, en með hinni
reytti hann upp strá, sem hann lét falla í lækinn og
berast burt með straumnum.
Ástu leið ekki vel að hafa hann svo nærri sér. Hún
fjarlægði hönd hans, og hann spurði hvers vegna hún
gerði það.
Ásta átti erfitt með að útskýra fyrir honum, að þá
fyrst er hún sæi, að hann væri laus við Sólveigu, mætti
hann snerta hana.
„Vertu nú ekki svona hörð,“ bað hann. „Þú gætir þó'
gefið mér einn dag algerlega úr lífi þínu.“ Hann kveikti
sér í pípunni og horfði út yfir sjóinn.
„Gleymdu ekki Sólveigu,“ sagði Ásta.
„Ég er búinn að segja þér, að ég tel mig lausan allra
mála við hana. Eftir það sem ég sá í dag, getur hún
varla ætlazt til, að ég trúi því, að ég einn geti átt krakk-
ann, sé hann þá annars nokkur.“
„Það ætti að koma í ljós á sínum tíma,“ svaraði hún.
Karlsen tók um naktar axlir hennar. „Þú ert eins og
hafmey, Ásta. Þig vantar bara sporð og hörpu til að
leika á, þá gætirðu verið Lóreley.“
Ásta forðaðist heit augu hans, sem horfðu fast á
hana.
„Gefðu mér þennan dag.“
„Hvaða gagn er að einum degi?“
„Jú, hann gæti orðið mér leiðarljós, svo sérstæður að
ég hugsaði til hans alla ævi, dýrgripur sem ég niyndi
geyma í innsta leynihólfi hjarta míns, og ekki opna
það nema á viðkvæmum stundum. Það gæti verið gott
að eiga slíka, Ásta, þegar klakinn fer að hlaðast urn
hjartað, og sálin er orðin kolsvört.“
„Þú ert að verða skáldlegur,“ sagði hún og stóð upp.
Hann stóð einnig upp. Heit faðmlög hans og langur
koss brutu niður síðustu leifar mótspyrnu hennar. Þau
gengu hægt upp brekkuna í skjól kjarrsins, sem bauð
þau velkomin. Þrestirnir sungu, sólin skein, og hlý
sunnangolan hjalaði við blómin og stráin í lágum hvísl-
andi tón. Ilmurinn varð að áfengi í blóði unga fólks-
ins, sem leitaði á náðir náttúrunnar þennan sumardag.
Heima er bezt 279