Heima er bezt - 01.08.1962, Qupperneq 31
á meðan ég er að bíða eftir, að kýrnar ljúki við að
drekka; mér yrði ekkert úr verki á meðan, hvort eð er.“
„Það er alveg sama, Gunna litla, það er alveg óþarfi
fyrir þig að vera með svona uppátæki, að minnsta kosti
verðurðu að nefna það við húsbændurna.“
Undir þetta tóku kýrnar. Þær nauðuðu til Guðrún-
ar, og kvígan meira að segja baulaði af öllum mætti.
Varð það til þess að Guðrún náði sér á stundinni og
áttaði sig á því, hvert hennar erindi hafði verið undir
pallinn. „Já, já,“ sagði hún, og flýtti sér upp í básinn
til kvígunnar, „ætli hún sé nú farinn að kenna sín“.
Og það var. Varð það til þess, að allt snerist um
kvíguna það kvöldið og fram á nótt. Ekki einu sinni
minnzt á neinn lærdóm. Sem betur fór. Því það er svo,
að þegar tvær fréttir berast samtímis, þá minnka áhrif
beggja. Nóg er og bezt, að ein frétt berist í senn, ekki
er af svo miklu að taka. Enda var það ekki fyrr en
næsta kvöld, er þær fóstrur voru að skammta fram í
búri og burðurinn tilheyrði orðið fortíðinni, að Guð-
rún trúði húsmóður sinni fyrir því, sem hún hafði
heyrt og séð undir pallinum kvöldið áður. Kristín ætl-
aði ekki að trúa sínum eigin eyrum.
„Hvað segirðu?“ sagði hún, og snögghætti að sneiða
blóðmörinn.
„Ekki nema það, að þegar ég opnað fjóshurðina sá
ég, hvar þau sátu bæði í auða básnum og voru að
grúska, að ég held í honum Ponta. Og þegar ég spurði
Gunnu, hvað þau væru að gera, sagðist hún vera að
kenna Sveinka að stafa.“
Kristín tók nú aftur til að sneiða blóðmörinn. Það lá
við að hún ræki upp hlátur. En þegar hún sá hinn
stranga vandlætingarsvip fóstru sinnar stillti hún sig.
Guðrún hélt áfram:
„Ég sagði henni Gunnu, að það væri eklti viðeigandi,
að hún væri að svona, án þess að minnast á það við
húsbændur sína.“
Nú kom Gunna inn í búrið úr fjósinu. Var hún í
fyrra lagi á ferðinni þaðan, enda hafði ekki orðið úr
kennslu í kvöld, með því að kálfurinn var nú kominn
í auða básinn, svo hann gat varla talizt tilkippilegur
fyrir kennslustofu lengur. Kristín leit til hennar og
sagði:
„Ertu farin að kenna honum Sveinka kverið, Gunna
mín?“
Gunna roðnaði og svaraði:
„Ég var bara að kenna honum að stafa að gamni
mínu. Það er ekki nema sjálfsagt, að ég hætti því, ef
þú vilt.“
„Ég get ekki verið að skipta mér af því, Gunna
mín. Ætli þú gefist ekki fljótt upp á því sjálf, þætti
mér líklegt.“
En því fór fjarri, að Gunna gæfist upp á því. Hún
notaði hverja frístund, er lítið bar á, til þessa að kenna
Sveinka lesturinn. Hún gekk með slitur úr Ponta á
brjóstinu allan daginn. Kennsla fór semsé fram kvölds
eða morguns eða um miðjan dag eftir atvikum. Ýmist
í skemmunni eða upp í heygarði eða úti í lambhúsi,
jafnvel í smiðjunni. Einhvern tíma rakst húsbóndinn á
þau þar. Hann rak upp stór augu:
„Ansvítann eruð þið að pukrast hérna,“ sagði Bryn-
jólfur og velti vöngum.
Gunna sagði sem fyrr, að hún væri að kenna Sveinka
að lesa.
„Þá skaltu bara gera það, Gunna litla, uppi á palli, í
norðurendanum; það er miklu betra en hér.“
Upp frá þessu fór kennslan fram í norðurendanum,
enda var nú svo komið, þótt ótrúlegt sé, að Sveinki
var farinn að stauta og helzt leit út fyrir, að hann gæti
bráðlega hjálpað sér sjálfur að öllu leyti við lesturinn,
enda var þá komið fram yfir þrettánda.
IX.
Um áramótin gerði kuldakast, svo að allur fénaður
komst á gjöf. Fylgdu þá karlmennirnir dæmi kvenþjóð-
arinnar og skiptu með sér verkurn. Hugsaði húsbónd-
inn um gjafarhestana og lét í kýrmeisana. Steini hirti
lömbin og ærnar, en Gvendur sauðina og útigangs-
hrossin, — þegar hann var á Bökkunum. En þegar hann
var á Efri-Völlum, skiptu þeir Brynjólfur og Steini
með sér verkum hans. Hirti þá húsbóndinn hrossin en
Steini sauðina. Sveinki aftur á móti var eins konar allra
gagn. Hann sótti kýrmeisana og gaf í fjósið með
Gunnu, sem fyrr segir. Hann vatnaði lömbunum með
Steina. Hann tók moðið frá kúnum og lömbunum, ef
eitthvað var, og setti það á afvikinn stað í heygarðin-
um, þar sem til þess var tekið og það hrist saman við
annað úrgangshey og rudda og gefið útigangshrossun-
um. Hann hjálpaði til að vatna ám og hrossum. En
þess á milli var hann að kljúfa í eldinn.
Einhvern veginn hafði það kvisazt út um sveitina,
að þeir hefðu farið í brunann um haustið, Gvendur og
Sveinki. Hefði strákur legið úti heila nótt í brunanum
og þótzt hafa fundið Gljúfurneslcirkju og hengt treyj-
una sína á krossinn, svo að kirkjan fyndist fremur
seinna. Lögðu fæstir trúnað á sögu þessa. Skal þess
getið hér, að ekki varð úr því að sinni, að neinir færu
að athuga brunann nánar á þeim slóðum, þar sem strák-
ur þóttist hafa fundið kirkjuna. Bæði var það, að byl-
gusuna gerði á eftir og ekki viðlit að leggja í hraunið
nema í auðu, enda var yfirleitt ekki svo mikið til af
leðri, að menn gætu verið að leika sér að því að tæta
það í sundur á eggjagrjóti og hætta við það lífi sínu.
Leið því langur tími, þangað til menn áttu leið þarna
urn og athuguðu, hvort þeir sæu þar nokkuð nýstár-
legt. En það var ekki. Þar rakst aldrei neinn á neitt
markvert, hvorki kirkju, turn né kross. Fannst ekki
einu sinni treyjan hans Sveinka, og það var verst, því
það var bezta flík. Én sagan um kirkjufundinn gleymd-
ist ekki og gerðist dularfyllri með árunum. Sú saga
lifir enn.
Framhald.
Heima er bezt 287