Heima er bezt - 01.09.1962, Blaðsíða 17
Flestir voru ríðandi en stöku maður gekk og teymdi
klyfjahest. Siggi spratt á fætur. „Hæ! hó!“ hrópaði
hann inn um næsta glugga. „Kaupafólkið frá Suður-
landi er að korna — stór hópur.“
Nokkuð af heimafólld, sem ekki var bundið við
mjaltir eða aðra útivinnu kom þjótandi út. Jú það voru
víst 20—30 manns í þessum hópi, það voru margar
konur, hálfvaxnir drengir og nokkrir fullorðnir menn
á ýmsum aldri. Það nálgaðist bæinn hægt og sígandi
og loks stanzaði hópurinn í haganum skammt frá fjár-
húsunum og fór af baki.
Tveir menn komu heim að bænum, annar var gamall
sjómaður í gulum olíustakk, með hvítt vangaskegg og
veðurtekið andlit. Hinn var ungur maður, hár og vel
vaxinn, dökkhærður og skarpleitur. Sjómaðurinn spurði
eftir Þorkeli og bað hann að leyfa hópnum að tjalda í
landi sínu. Þorkell leyfði það strax, og vísaði þeim á
haga fyrir hestana. Bakki var rétt hjá þjóðveginum, og
því var venjulegt að fólk frá ýmsum verstöðvum á
Suðurlandi valdi sér náttstað þar, þegar það fór í
kaupavinnu til Norðurlands. Sjómaðurinn og ungi
maðurinn sneru aftur til félaga sinna.
„En hvað mér lízt vel á þá, pabbi,“ sagði Sigríður,
hún stóð úti á hlaði og virti ókunnuga fólkið fyrir sér.
„Ég held þú ættir að fá þá fyrir kaupamenn.“
„Já það getur vel verið,“ svaraði Þorkell, „en ég
ætla nú fyrst að sjá hina.“
Ferðafólkið flýtti sér að spretta af hestunum og reisa
tjöld. Sumir gengu til bæjar að kaupa mjólk og fá heitt
vatn í kaffi. Þegar fólkið hafði matazt, fóru drengirn-
ir að leika sér og Siggi smali flýtti sér til þeirra. Eldra
fólkið sat í smáhópum og skrafaði. Flestir karlmenn-
irnir reyktu pípur, en kvenfólkið sat með handavinnu.
Ein konan kallaði á langan og mjóan ungling, hann
var rauðhærður og freknóttur. „Heyrðu, Fiddi,“ sagði
hún, „spilaðu nú fyrir okkur, það lífgar dálítið upp.“
Fiddi skreið á fjórum fótum inn í næsta tjald og
náði í litla harmoniku. „Þú átt skilið að heyra fallegt
lag, Signý góð, fyrir blessaðan góða matinn, sem þú
hefur gefið mér í dag,“ sagði hann.
Hann settist á stein rétt hjá konunni, sem hafði beðið
hann að spila, það var kona gamla sjómannsins, hún
var lítil og feit, með rjótt, góðmannlegt andlit. „Já,
spilaðu nú eitthvað sem vit er í,“ sagði hún, um leið og
hún tók upp mórauðan sokkbol og fór að prjóna.
„Spilaðu lagið við kvæðið um svanasöng á heiði,“
sagði ung stúlka. Fiddi renndi fingrunum nokkrum
sinnum yfir nóturnar og spilaði svo alþýðulag. Sumt
af fólkinu söng eftirfarandi vers:
Ég reið um sumaraftan einn
á eyðilegri heiði.
Þá styttist leiðin löng og ströng,
því Ijúfan heyrði ég svanasöng.
Já, svanasöng á heiði.
Á fjöllum roði fagur skein
og fjær og nær úr geimi,
að eyrum bar sem englahljóm
í einverunnar helgidóm,
þann svanasöng á heiði.
Söngurinn truflaðist skyndilega, við það að nokkrir
bændur komu ríðandi og spurðu hvort eitthvað af
fólkinu væri ekki ráðið. Þorkell og Gunnhildur komu
líka og réðu til sín 3 karlmenn og tvær konur. Siggi
smali vonaði að húsbóndi hans næði í Fidda en það
varð ekki. Gamli sjómaðurinn og kona hans ætluðu
lengra norður, þau sögðust hafa verið 12 sumur á sama
bænum og ætluðu ekki að breyta til, svo lengi sem
þeim entist þrek og þörf væri fyrir þau þar. En ungi
maðurinn, sem hafði komið með gamla sjómanninum
til bæjar, réðist að Bakka og var þó Þorkell dálítið hik-
andi. „Hverra manna skyldi hann vera?“ sagði Þorkell
við Gunnhildi, þegar þau voru háttuð um kvöldið.
„Ég hef verið að velta því fyrir mér,“ svaraði hún,
„ég veit ekki annað um hann, en að hann heitir Hannes,
en mér finnst framkoma hans benda til þess að hann sé
af heldra fólki.“
„Mér má raunar á sama standa, hver maður hann er,
ef hann er sæmilegur verkmaður.“ —
Næsta morgun hélt hópurinn af stað lengra norður,
nú var mikið færra í honum en kvöldið áður, því sumt
af fólkinu fór í kaupavinnu á bæina í nágrenni Bakka.
Siggi horfði á eftir þeim með tár í augum. Hann hugs-
aði sér að fara til sjós, þegar hann yrði stór og verða
háseti á sama skipi og Fiddi.
Þorkell og Gunnhildur sögðu nýja fólkinu fyrir
verkum. Það leið ekki á löngu þar til Gunnhildur hafði
fengið að heyra ævisögu Hannesar. Hún var ein af
þeim manneskjum sem ósjálfrátt vann sér hylli hjúa
sinna.
Einn sunnudag urðu þau samferða til kirkju Hannes
og hún og þá sagði hann henni að faðir sinn hefði ver-
ið prestur í nágrenni Reykjavíkur. Sama ár og Hannes
tók stúdentspróf drukknaði faðir hans, dimma nóvem-
bernótt í á sem rann skammt frá bænum, þá var hann
að koma frá að þjónusta sjúkling. Ekkja hans stóð uppi
með 2 ófermd börn og skuld frá skólaárum manns síns
— 1000 krónur að upphæð. Nokkrum mánuðum síðar
andaðist hún. Hannes varð að hætta námi. Hann kom
systkinum sínum fyrir hjá góðu fólki og vann fyrir
meðgjöfinni með þeim; var heimiliskennari á vetrum,
en í kaupavinnu á sumrum. Enn þá hafði hann ekki
getað greitt nema lítið eitt af skuld föður síns, en hann
vonaði að það tækist með tímanum.
„Þetta er fallega gjört,“ sagði Gunnhildur við Þor-
kel daginn eftir, þegar hún sagði honum þessa sögu.
„Já, hann er dugnaðarmaður,“ sagði Þorkell og
kveikti í pípu sinni. „En ég vil hann samt ekki fyrir
tengdason, mig langar ekkert til að borga skuldir hans.‘,
Heima er bezt 309