Heima er bezt - 01.09.1962, Qupperneq 27

Heima er bezt - 01.09.1962, Qupperneq 27
Ingunn kyssti myndina og setti í rammann hjá sjálfri sér. Þá tók hún eftir, að myndin af Karlsen var ekki á slaghörpunni. Það var sem rynni upp Ijós fyrir henni. Asta hefði ekki treyst sér til að sjá Kalla aftur. Það var einmitt rétt eftir að kortið, sem Sólveig hafði skrifað, kom hingað, að Ásta hafði farið. En hvers vegna þoldi hún ekki að sjá hann aftur? Ingunn hugsaði sig vel um. Allt útlit Ástu hafði bent til þess, að hún væri ekki frísk. Nú sá Ingunn loks, hvernig í öllu lá. Ásta hefði verið ófrísk, og Kalli ætti sök á því. „Blessuð stúlkan mín! Ósköp hef ég verið blind að sjá þetta ekki og skilja fyrr. Og svo skrifar þú mér aftur og aftur, en færð ekkert svar. Hvað á ég nú að gera? Jú, ég verð að ná í Kalla strax!“ Ingunn vissi ekki á hverju hún ætti að byrja. Loks tók hún það ráð að hringja til Unu, móður Sveins. Dúlla kom í símann. Þau Sveinn voru nú trúlofuð og sáu ekki sólina hvort fyrir öðru. „Biddu Svein að aka móður sinni hingað, en fljótt. Þetta þolir enga bið.“ XII. Felustaður Ástu. Það var ekki orðum aukið í auglýsingunni, að fá- mennt var í Múla. Þar bjuggu tveir feðgar, annar um áttrætt, hinn tæplega fimmtugur. Þeir hétu báðir Björn og voru til aðgreiningar kallaðir Björn gamli og Björn minn. „Björn minn“, sagði gamla konan, móðir yngra Björns, þegar hún yrti á hann eða talaði um hann. Nú var þeta orðið svo fast við hann, að hætt var að taka eftir og muna, að hann héti þetta ekki. Kæmi það fyrir, að einhver nefndi Björn í Múla, hváði venju- lega sá, er við var rætt, og spurði: „Áttu við Bjössa gamla eða Bjössa minn?“ Bjössi gamli var sköllóttur að mestu með óræktar- legan skeggflóka, sem átti að heita grár, en vildi sækja í það að verða mórauður, aðallega í miðjunni. Hann var lítill vexti og væskilslegur, tifaði sífellt með öðrum fætinum, þegar hann talaði, sérstaklega ef vel lá á honum, og það lá oftast vel á Bjössa gamla. Bjössi minn var gríðarlega hár, en lotinn í herðum og heimóttarlegur. Móðir hans hafði haft öll hans ráð í hendi sér, allt frá þeim degi er hún lagði hann fyrst í vögguna og til þess dags, er hún lagðist fyrir eitt kvöldið alveg fyrirvaralaust og dó. Bjössi minn var fyrir löngu hættur að reyna að ráða sér sjálfur. Hann var hlýðinn og þægur og fékk alls staðar orð fyrir að vera góðmenni hið mesta. Nú þóttust þeir feðgar hafa himinn höndum tekið að hafa fengið kvenmann aftur í bæinn, og það frekar tvo en einn. Bjössi gamli lék við hvern sinn fingur og sneri sér strax að því að hæna telpuna að sér. Björn minn varð að segja Ástu, hvar hver hlutur væri, hann var hálf klaufalegur og þorði aldrei að líta framan í hana. Ekkert mátti hún gera fyrsta kvöldið. Bjössi minn mjólkaði og skildi mjólkina, en á meðan þvoði Ásta upp eftir matinn, Bjössa mínum til mikils angurs. Hann var svo vanur að hjálpa móður sinni, að hann vildi halda því áfram að þvo upp, þótt vinnu- konan væri komin. Langt var í frá, að heimilið væri hreinlegt. Ásta skúraði og skrúbbaði og harðbannaði gamla rnannin- um að spýta á gólfið. „Ég er ekki farinn að draga yfir í eldiviðarkassann,“ sagði hann afsakandi, en Ásta vildi ekki heldur að hann spýtti í hann. Þetta var ofvaxið skilningi gamla manns- ins. Bjössi minn tók hann til bæna, eftir að hafa séð Ástu flýja fram í eldhús og æla þar. Bjössi minn tók í nefið og gerði það hraustlega, enda voru nasirnar á honum heljarmikil gímöld, og nefið samsvarandi þeim auðvitað. Ástu leið oft illa. Hún skrifaði Ingunni í hverri viku til að byrja með, en fékk aldrei svar. Ingunn hlaut að vera mjög sár við hana. Að Múla komu fáir gestir yfir veturinn, þar var enginn sími og því síður rafmagn. Ástu brá því við að þurfa nú að elda við kol og mó og hita upp með ofnskrifli, sem reykti meira en nokkur karlmaður. Hún þvoði skeggið á Bjössa gamla vikulega og hældi honum á hvert reipi, þegar hann gat haldið því nokk- urn veginn hreinu fram að næsta þvotti. Bjössi minn þvoði sér sjálfur. Aldrei hafði annað eins vatn farið til þvotta í Múla eins og þennan vetur, en Bjössi minn taldi ekki eftir sér að fylla vatnstunnuna á hverjum degi. Bros ráðskonunnar var honum nóg borgun. Hann komst ekki hjá að sjá, að Ásta var oft annars hugar og döpur. Hann var eins og tryggur rakki, sem fylgdist með skapferli húsbónda síns. Væri Ásta döp- ur, var hann niðurdreginn og þorði varla að segja orð, en væri hún kát, lék hann á als oddi og kvað ástarvísur til Ingu litlu, sem hann hossaði á hné sér. Bjössa gamla hafði ekki liðið eins vel í fjölda mörg ár, því þó allt gott hefði verið um gömlu konuna að segja, var því ekki að leyna, að ráðrík var hún, og húsbóndaréttinn hafði hann aldrei öðlazt fyllilega fyrr en eftir fráfall hennar. Hún hafði verið sívinnandi, ströng og siðavönd, söng sálma á sunnudögum og las í æfagömlum guðsorðabókum, jafnvel löngu eftir að hún hætti að sjá á bók. Hún þekkti blaðsíðurnar og vissi, hvað á þeim stóð, þótt hún gæti ekki greint orðin. „Blessuð sé hennar minning,“ tautaði Bjössi gamli í hvert sinn er honum varð hugsað til hennar. Eitt kvöldið þegar Bjössi gamli var niður í sveit að spila og ókominn heim, íaði Bjössi minn að því við Ástu, hvort hún vildi ekki bara vera áfram hjá þeim. „Telpan er svo skemmtileg,“ sagði hann kafrjóður í framan yfir dirfsku sinni. Ásta brosti og sagði, að það væri ekki óhugsandi að hún yrði lengur en veturinn, ef þeim líkaði vel við sig. Hvort þeim líkaði, Bjössi minn tókst allur á loft, þegar hann fór að lýsa fyrir henni, hve mjög þeim líkaði vel við hana og mætu hana mikils. Framhald. Heima er bezt 319

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.