Heima er bezt - 01.09.1962, Qupperneq 31

Heima er bezt - 01.09.1962, Qupperneq 31
dimma af nótt, getur maður ekki að því gert, að mað- ur hrekkur ónotalega við til dæmis, ef allt í einu kem- ur snarpur frostbrestur í kvöldkyrðinni. Maður þarf ekki að vera nein veimiltíta fyrir það. Einhvern veginn getur maður ekki á sér setið að líta um öxl. En ef mað- ur gerði það, þá.... Steini reið Stjarna, Gvendur Rauð. Þeir teymdu sinn hestinn hvor, eins og um morguninn, Gvendur Bleik, Steini Brún. Svo bar við að líkið hafði verið látið á sleðann, sem Bleikur dró. Höfðu þeir félagar riðið sam- síða til að byrja með, en er frá leið hafði Gvendur dregizt aftur úr, því að Stjarni vildi hraða sér heim og erfitt að halda við hann. Var nú orðið alldimmt og farið að þykkna í lofti en tunglið ekki komið upp. Var manni annan veg innanbrjósts en í morgun. Vildi hug- urinn lítt staðnæmast við fegurð, ró og frið. Þegar þeir voru komnir langleiðina heim var svo komið, að Steini var kominn ískyggilega langt á undan. Gvendi leizt ekkert á þetta. Aftur og aftur var hann kominn á fremsta hlunn með að kalla, jafnvel búinn að opna munninn, en stillti sig á síðustu stundu. Hann var í hálfgerðum vandræðum. Ef hann kallaði á Steina, kynni svo að fara, að það yrði lagt misjafnlega út. Ekki langaði hann til, að honum yrði svarað um kjark- leysi og hræðslu. Hann var nefnilega enginn kjarkleys- ingi að öllum jafnaði. Á hinn bóginn voru öll líkindi til, að Steini væri hræddur, og meira en lítið hræddur. Af einhverju flýtti hann sér. Og það var alveg óþarfi, að láta hann komast upp með það að fara langt á und- an, þeir höfðu nú einu sinni farið saman á fjöruna og áttu að fylgjast að. Það var langbezt að kalla á hann. Og Gvendur kallaði: „Steini!“ En Steini heyrði ekki, enda hafði Gvendur ekki ka!l- að hátt. Aftur á móti var hann sannfærður um, að Steini hefði heyrt, en léti sem hann heyrði ekki. Hann kallaði aftur, en allt fór á sömu leið. Steini anzaði ekki. Nú var Gvendi hætt að standa á sama. Sýndist honum ekki betur en að Steini væri kominn svo langt á undan, að hann gæti misst sjónar á honum þá og þá. Vildi nú Gvendur greiðka sporið og fór að berja fótastokkinn í miklum ákafa, svo að Rauður herrti á sér snögglega, en Bleikur, sem ekki átti von á þessu, kippti og það svo rækilega, að Gvendur missti tauminn. Var þá sem lam- ið væri í bakið á Gvendi. Skipti það engum togum nema hann skellir undir nára eins fast og hann getur og þeysist af stað, en skilur Bleik eftir. Reið hann nú í einum spretti og herti á Rauð sem mest hann mátti. Linnti hann ekki sprettinum, en þaut framhjá Steina, með því að hann var ekki eins langt undan og Gvendi hafði sýnzt í dimmunni. Gat hann ekki stoppað Rauð eins fljótt og hann vildi, þar eð sá rauði var á fleygi- ferð. En um leið og hann þaut fram hjá, hneggjaði Stjarni. Og í sömu andránni hóf hann sig á loft og hentist af stað á eftir Rauð. Lá við að Steini félli aftur yfir sig af baki, því hann átti sér einskis ills von. Reif nú Stjarni af honum tauminn og náði skjótt í Rauð og komst fram hjá honum og linnti ekki sprettinum fyrr en hann kom heim í hlað. Réði Steini ekkert við hann, hvernig sem hann stritaðist við að halda við hann. Var þetta eitt af þeim köstum, sem Stjarni gat tekið, þegar hann komst í æsing og kapp var í honum. Kenndu menn um miður góðri tamningu hjá Brynjólfi sem fyrr um getur. Gvendur aftur á móti var farinn að hægja á sér, þegar Steini geystist fram úr honum. Var það hug- myndin hjá Gvendi að nema staðar og snúa við til móts við Steina. Verður honum nú meir en lítið hverft við, er Steini kemur í loftinu og flýgur fram hjá, eins og ég veit ekki hvað sé á eftir honum. Var nú sem lam- ið væri annað högg í herðarnar á Gvendi. í ofboði skellti hann undir nára og barði fótastokkinn eins og hann ætti lífið að leysa. Komst hann heim í hlað á hæl- unum á Steina.... Það ætlaði að verða stórviðburðaríkur dagur. Heima á Bökkunum hafði að vísu ekkert markvert borið til tíðinda fram undir ljósaskipti. Brynjólfur hafði unnið af kappi við gegningar og þau hjálpuðu honum bæði, Gunna og Sveinki. Höfðu þau tekið að sér að hirða lömbin og útigangshrossin, svo að Brynjólfur þurfti ekki annað en að hirða ærnar og sauðina og gefa á stallana hjá gjafarhestunum. Um kvöldið, er Brynjólfur var að fara inn og tekið var að dimma, ruku hundarnir upp með andfælum og hlupu vestur hlaðið, geltandi. Nam þá Brynjólfur stað- ar og hlustaði. Heyrði hann, að einhverjir voru að koma. Þetta gátu ekki verið þeir Steini og Gvendur, því að þeirra var von úr annarri átt. Var þetta ferða- fólk að komast heim að bænum, og þóttist nú Brynjólf- ur geta áttað sig á, hverjir komnir voru. Brá hann sér sem snöggvast inn í bæjardyrnar til þess að gera Kríst- ínu aðvart, því hún var í búri. Flýtti hann sér því næst út aftur til þess að taka á móti komumönnum, og Krist- ín á eftir honum. Stóð það heima, að þeir voru að fara af baki, ferðamennirnir, er þau hjónin komu út. Aldrei hafði jafn tiginn gest borið að garði á Bökk- unum. Hér semsé kominn séra Ingimundur Þorkelsson og kona hans, maddama Ragnhildur, systir Kristínar. Varð nú uppi fótur og fit, sem nærri má geta. Kom Guðrún brátt á vettvang. Var allt 'sett á fleygiferð, kveikt á kertum í stofunni og þar tekið til í fljótheit- um eins vel og unnt var, athuguð matföng, soðin eða súr, mjöl tekið fram, deig hnoðað, flatkökur bakaðar og kleinur, litið eftir rúmfötum o. s. frv., o. s. frv. Höfðu þær nöfnur nóg að gera. Var Sveinka sagt að spretta af hestunum og fara með þá inn í hesthús þeirra gjafarhestanna. Hafði Brynjólfur verið svo framsýnn, er hann byggði það, að hafa það í stærra lagi, svo að hann gæti stungið þangað inn einum eða tveimur hest- um ef að á lægi, án þess að þrengja um of að sínum eigin hestum. Að því búnu átti Sveinki að láta reiðtýg- in inn í skemmu og vera svo á höttunum, er fjörumenn kæmu til að gera þeim aðvart og láta þá vita um pró- Heima er bezt 323

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.