Heima er bezt - 01.10.1962, Page 19
sem þiðnar þegar við förum inn, þó ekki sé hlýtt í
bílnum.
Þegar við komum í urðirnar norðan við svokallaða
Sýslumannsbeygju sjáum við votta fyrir bílslóð.
Örnefni þetta varð til fyrir alllöngu vegna atviks,
sem þar kom fyrir. Þáverandi sýslumaður Norðmýl-
inga, Hjálmar Vilhjálmsson, var að koma út í Vopna-
fjörð á bíl sínum, líklega til að þinga, ásamt Tómasi
Arnasyni, lögfræðingi, en í beygju þessari, sem er
mjög kröpp og blind, mætir hann vegavinnubíl úr
Vopnafirði, sem hafði menn á palli, og skipti það eng-
um togum að vörubílstjórinn renndi bílnum út í urð-
ina til að koma í veg fyrir árekstur. Eitthvað af mönn-
unum lenti út af pallinum en meiðsl munu hafa orðið
lítil, og losnuðu lögfræðingarnir við að setja þarna
rétt. En eftir þetta er beygja þessi almennt kölluð
Sýslumannsbeygja.
Ekki er um að villast að hér hefur komið bíll, lík-
lega til að aðstoða okkur og snúið við. Er okkur nú
ljóst að þeir munu ekki bera veðri né færð góða sögu,
og líklega verði gerðar meiri ráðstafanir til að koma
okkur til hjálpar. Við höfum ofurlítið gagn af slóðinni
við að rekja okkur en þó erum við alllengi að finna
leið fram hjá Sýslumannsbeygjunni, sem nú er full af
snjó. Veðrið helzt óbreytt, kafaldsstórhríð. Nú er eftir
bara ein stór torfæra, sem við vitum um, Tófubrekk-
an, en þar er alltaf snjór á vorin þegar farið er að aka
heiðina en í henni eru einhverjar slóðir fram hjá fönn-
inni en við vitum ekki nema um eina. Þegar við nú
komum að brekkunni, sem er nú undan að fara, er
geysi-snjór í henni. Leitum við nú fyrir okkur, en
finnum hvergi slóð eftir hinn bílinn né nokkra leið
nema moka mikið.
Eftir alllanga leit ráðumst við í að moka sneiðing
sem liggur fram hjá aðalleiðinni. Á meðan við mokum
Tófubrekkuna skulum við venda sögunni út í Vopna-
fjörð.
Er við fórum frá Möðrudal fór faðir minn að út-
vega bíl til að fara á móti okkur, og fékk Erling Páls-
son á Refsstað og Gunnar Runólfsson á Ásbrandsstöð-
um til fararinnar á rússajeppa. í rökkursbyrjun koma
þeir aftur og telja ófærð mikla og versta veður, sem
og rétt var. Verið gat að við sætum fastir í Skarðsá
en þangað var löng leið undir nóttina í ófærð. Var
hringt í Möðrudal og óskað eftir að reynt væri að
fara út að ánni, en þar var bara gamall jeppi til ferðar-
innar. Þó fóru þrír karlmenn á honum í myrkrinu og
voru fjóra tíma í ferðinni, því eins og áður er sagt
var þá komin stórhríð og ófærð.
Samtímis þessu fór faðir minn ásarnt fleirum að út-
vega bíla og menn í Vopnafirði. Var það nú auðsótt
og gáfu sig fram a. m. k. 12—15 menn og fengust 4
eða 5 jeppar og bílar sem voru góðir í snjó, kaðlar,
skóflur, benzínbrúsar o. fl. til fararinnar. Nú átti ekki
að gefast upp.
Þegar við höfðum lokið við að moka okkur niður
Tófubrekkuna gekk ferðin betur og ekki það miklir
skaflar að komizt var á nokkurri ferð í gegnum þá
flesta og þurftum við lítið út úr bílnum. Vorum við
nú orðnir gegnblautir neðan við úlpur. Þegar kom út
á brúnir Burstarfellsins kveikti ég á ljóskastaranum á
bílnurn, rofaði nú öðru hverju í hríðina, og skeð gat
að ljósið sæist einhvers staðar úr sveitinni svo sem raun
varð á. Það sást frá einum bæ og fréttist það strax í
gegnum símann til leiðangursmanna, sem voru rétt að
leggja upp frá Vopnafjarðarkauptúni. Þegar við fór-
um fram hjá fyrsta bænum, Teigi, kom bóndinn þar
í veg fyrir okkur, átti von á að hitta okkur nær dauða
en lífi. Vorum við hinir hressustu og sögðumst aðeins
hafa tafizt vegna slæms veðurs og ófærðar og héldum
áfram. Þegar í kauptúnið kom var klukkan rúmlega
9 að kvöldi og höfðum við því verið tæpa 30 tíma í
ferðinni samfleytt, nema hvað við lögðum okkur tæpa
tvo tíma á Hvanná, eins og áður er sagt. Á Vopnafirði
mátti líta ferðbúna bíla og menn, sem hofðu ætlað til
móts við okkur, og buðu þeir okkur velkomna.
Kaupfélagsstjórinn, sem var einn af þeim sem þátt
átti í að útvega okkur aðstoð, sagði mér seinna að ekki
mundi laust við að sumir hinna hraustu sveina hefðu
orðið fyrir vonbrigðum er til okkar sást, að missa al-
veg af ævintýralegri ferð í myrkri og stórhríð. Hér
kvaddi ég hina ágætu ferðafélaga mína og hélt síðasta
spölinn heim.
Það sem aðallega olli því að ferðalag þetta hafði svo
góðan endir, sem raun varð á, var það, hvað bíllinn
reyndist vel í þessari erfiðu ferð, því það var hún fyr-
ir bílinn fyrst og fremst, en aldrei fannst minnsta lát
á honum en keðjurnar voru allar sundur tættar er heim
kom. Erfiðara hefði verið ef hann hefði bilað einhvers
staðar þegar verst gegndi, og við ef til vill þurft að
ganga 20—30 km leið til bæja. Einnig hefði veðrið get-
að orðið miklu verra á fjallgörðunum svo ómögulegt
væri að keyra. En heilt yfir gekk ferðin vel.
Beztu þakkir vil ég senda ferðafélögum mínum og
öllum sem á einn eða annan hátt greiddu götu okkar
í þessari ferð.
Eftir svona ferðir munu víst flestir geta tekið undir
með okkur, að heima er bezt.
Skrifað í febrúar 1960.
Bréfaskipti
Guðrún Svansdóttir, Munaðarnesi, Ingólfsfirði, Strand.,
óskar eftir bréfaskiptum við krakka á aldrinum 12—13 ára.
Æskilegt að mynd fylgi.
Erla Jónsdóttir, Munaðarnesi, Ingólfsfirði, Strand., óskar
eftir bréfaskiptum við pilta á aldrinum 16—18 ára. Æskilegt
að mynd fylgi.
Þorgerður Jónsdóttir, Munaðarnesi, Ingólfsfirði, Strand.,
óskar eftir bréfaskiptum við pilta eða stúlkur á aldrinum 16
—18 ára. Æskilegt að mynd fylgi.
Heima er bezt 347